2010–2019
Guð mun þerra hvert tár
Október 2016


Guð mun þerra hvert tár

Þegar við iðkum trú á frelsarann, þá mun hann lyfta okkur upp og bera okkur í gegnum þrengingar okkar og að lokum endurheimta okkur í himneska ríkið.

Hluti af áæltun himnesks föður er að sorgin er ofin í okkar jarðneska líf.1 Þótt svo virðist sem erfiðum raunum sé misskipt á milli okkar, þá getum við verið viss um að við þjáumst öll að einhverju marki. Ég bið þess að heilagur andi leiði okkur til æðri skilnings á tilgangi þess að svo verður að vera.

Þegar við skoðum erfiðar lífsraunir í gegnum sjóngler trúar á Jesú Krist, þá getum við séð að það er guðlegur tilgangur með þjáningum okkar. Hinir trúföstu geta reitt sig á hina, að því er virðist, mótsagnakenndu leiðsögn Péturs. Hann ritaði: „En þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir.“2 Ef við leggjum okkur fram við „að skilja með hjartanu,“3 þá getum við aukið hæfni okkar til að vera bæði þolgóð í raunum okkar og læra – og hreinsast – af þeim. Að baki slíks skilnings er svarið við hinni sígildu spurningu: „Af hverju gerast slæmir hlutir fyrir gott fólk?“

Allir sem hlýða á í dag hafa einhvern tíma upplifað einmanaleika, örvæntingu, sorg og sút. Án auga trúar4 og skilnings á eilífu lífi, geta þjáning og vansæld, sem svo oft eru förunautar okkar í jarðlífinu, skyggt á þann eilífa sannleika, að hin mikla áætlun himnesks föður er í raun hin eilífa hamingjuáætlun. Það er engin öllu leið til þess að öðlast fyllingu gleðinnar.5

Guð býður okkur að sýna trú í okkar sérstöku þrengingum, til þess að við getum uppskorið blessanir og öðlast þekkingu, sem ekki hlýst á neinn annan hátt. Okkur er boðið að halda boðorðin undir öllum kringumstæðum, því „sá, sem staðfastur er í mótlæti, hann skal fá meiri laun í himnaríki.“6 Ritningarnar segja auk þess: „Sért þú hryggur, þá ákallaðu Drottin Guð þinn í heitri bæn, svo að sál þín megi gleðjast.“7

Páll postuli, sem sjálfur var vel kunnugur þjáningum, nýtti sér eigin reynslu til að kenna af dýpt og fegurð hina eilífu yfirsýn, sem hlýst af því að vera þolgóður og þolinmóður í þrengingum. Hann sagði: „Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt.“8 Með öðrum orðum, þá getum við, mitt í þrengingum okkar, vitað að Guð geymir okkur dásamlega eilífa umbun.

Hæfni Páls til að lýsa raunum sínar, þrengingum og sorgum sem „léttbærum,“ gefur ranghugmynd af þjáningum hans, sem hurfu í skuggann vegna eilífrar yfirsýnar hans á fagnaðarerindinu. Trú Páls á Jesú Krist gerði alla hluti þolanlega. Hann var fimm sinnum hýddur með svipu; þrisvar sinnum með keyri; einu sinni grýttur; varð þrisvar sinnum fyrir skipbroti; stóð oft frammi fyrir dauða af völdum drukknunar, ræningja og jafnvel svikulla bræðra; hann þjáðist vegna þreytu og sársauka, hungurs og þorsta og var fangelsaður kaldur og klæðalaus.9

Mörg okkar hafa sárbeðið Guð um að létta af okkur þjáningum okkar, og ef sú líkn veitist ekki sem við sækjumst eftir, þá hættir okkur til að halda að hann sé ekki að hlusta. Ég ber vitni um, að jafnvel á slíkum stundum, þá heyrir hann bænir okkar, en hefur ástæðu til að leyfa að þjáningar okkar haldi áfram10 og hann hjálpar okkur að bera þær.11

Í innilegri og íhugulli ritningarfrásögn segir Páll frá óskilgreindum „fleini“ í holdi sínu, sem olli honum miklum þjáningum og knúði hann þrisvar á kné, til að biðja Drottin um að fjarlægja hann. Drottinn fjarlægði ekki fleininn, en svaraði bænum Páls með því að veita honum skilning og fylla hjarta hans friði, með því að segja: „Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Páll öðlaðist nýjan skilning og var því fært að sætta sig við og vera þakklátur fyrir fleininn sem honum hafði verið gefinn. Hann sagði: „Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.“12

Þegar við hljótum þessa virkjandi eilífu yfirsýn, þá verðum við þrautseigari, lærum hvernig liðsinna á hinum þurfandi13 og verðum sátt og jafnvel full þakklætis fyrir þær upplifanir sem Guð gefur okkur til þroska og lærdóms á lífsins vegi.

Þegar við tökumst á við þrautir og þrengingar, þá getur reynst erfitt að sjá raunir okkar sem vegvísi á lærisveinsvegi okkar. Hvort sem okkur finnst við vera í dimmum dal örvæntingar eða á háum vegi hamingjunnar, þá getur það verið blessunarríkt að læra af þjáningum annarra og finna samúð með öðrum.

Á nýlegri stikuráðstefnu á Fillippseyjum, sem mér var úthlutað að fara á, komst ég við í hjarta af því að heyra af átakanlegri reynslu bróður Daniels Apilado. Bróðir Apilado og eiginkona hans voru skírð árið 1974. Þau tóku á móti hinu endurreista fagnaðarerindi og voru innsigluð í musterinu. Þar á eftir voru þau blessuð með fimm fallegum börnum. Hinn 7. júlí 1997, er bróðir Apilado þjónaði sem stikuforseti, braust út eldur í litla húsinu þeirra. Michael, elsti sonur bróður Apilado, bjargaði föður sínum með því að draga hann út úr brennandi húsinu og hljóp síðan aftur inn til að bjarga hinum. Það var í síðasta sinn sem Apilado sá son sinn á lífi. Þau sem urðu eldinum að bráð voru Dominga, eiginkona bróður Apilado, og fimm börn þeirra.

Sú staðreynd að bróðir Apilado naut velþóknunar Guðs þegar þessi hörmung dundi yfir, kom ekki í veg fyrir atburðinn eða gerði hann ónæman fyrir sorginni sem á eftir fylgdi. Trúfesti hans við að halda sáttmála sína og iðka trú á Krist, veitti honum fullvissu um loforðið að hann myndi sameinast eiginkonu sinni og börnum. Sú von varð honum sem sálarakkeri.14

Í heimsókn minni til bróðurs Apilado, sem nú er stikupatríarki, kynnti hann mig fyrir hinni nýju eiginkonu sinni, Simonette, og tveimur sonum þeirra, Raphael og Daniel. Vissulega getur og mun Jesús Kristur „græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta.“15

Með því að segja frá þessari reynslu bróður Apilado, þá hef ég áhyggjur af því að hinn átakanlegi missir hans gæti fengið marga til að finnast sínar eigin þrautir og þjáningar falla í skuggann með því að bera eigin reynslu saman við hans. Gerið það ekki, en reynið þess í stað að skilja og tileinka ykkur hinar eilífu reglur, er þið takist á við eigin þrengingar og þolraunir.

Ég beini máli mínu til hvers og eins ykkar: „Allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar,“16 ykkar persónulegu erfiðleikar, ykkar persónulegu sorgir og hvers kyns þrautir og þrengingar, er allt kunnugt föður ykkar á himni og syni hans. Sýnið hugrekki! Hafið trú! Trúið á loforð Guðs!

Tilgangur og ætlunarverk Jesú Krists, fólst meðal annars í því að „taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns,“ „kynnast vanmætti þess,“ svo hann gæti „liðsinnt [því] í vanmætti þess.“17

Til að taka fyllilega á móti þessum gjöfum frelsara okkar, sem hann hefur svo fúsleg gefið, þá verður við að læra að þjáningar – einar og sér – megna ekki að kenna okkur neitt af varanlegu gildi, nema við tileinkum okkur af ráðnum hug það ferli sem felst í því að læra af þrengingum okkar með því að iðka trú.

Öldungur Neal A. Maxwell miðlaði því sem hann hafði lært um innihaldsríkar þjáningar með þessum orðum:

„Ákveðnar þjáningar, sem menn þola vel, geta í raun verið göfgandi. …

… Hluti af því að vera þolgóður, er að vera nægilega lítillátur, viðurkenna þjáningar okkar, læra af viðeigandi upplifunum. Fremur en að ganga einfaldlega í gegnum þessa hluti, þá verða þeir að hafa áhrif á okkur … á þann hátt að það helgi okkur.“1118

Ég hef veitt athygli í lífi og fordæmi annarra, að það veitir örugga von um betri komandi tíð að iðka sterka og stöðuga trú á Jesú Krists og loforð hans. Þessi örugga von stillir okkur og færir okkur mátt og styrk til þolgæðis.19 Þegar við getum tengt þjáningar okkar í jarðlífinu öruggum tilgangi og nánar tiltekið við launin sem bíða okkar á himnum, þá mun trú okkar aukast og við hljótum sálarhuggun.

Við getum þá greint ljósið við enda ganganna. Öldungur Jeffrey R. Holland kenndi: „Það er í raun ljós við enda ganganna. Það er ljós heimsins, hin bjarta morgunstjarna, ‚óendanlegt ljós, sem aldrei getur myrkvast‘ [Mósía 16:9]. Það er hinn eiginlegi sonur sjálfs Guðs.“20

Við getum huggað okkur við þá vitnsekju að allar erfiðar upplifanir þessa lífs eru tímabundnar – jafnvel hyldýpismyrkur verður að dagrenningu fyrir hina trúföstu.

Þegar allt er uppfyllt og við höfum þolað alla hluti í trú á Jesú Krist, þá eigum við loforðið um að „Guð [muni] þerra hvert tár af augum [okkar].“21

Ég ber vitni um að Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, lifa og standa við fyrirheit sín. Ég ber vitni um að frelsarinn býður okkur öllum að koma og meðtaka af friðþægingu hans. Þegar við iðkum trú á hann, þá mun hann lyfta okkur upp og bera okkur í gegnum þrengingar okkar og að lokum endurheimta okkur í himneska ríkið. Ég býð ykkur að koma til Krists, vera þolgóð í trú, fullkomnast í honum og öðlast fullkomna gleði í honum. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.