2010–2019
„Ef þér hafið þekkt mig“
Október 2016


„Ef þér hafið þekkt mig“

Vitum við einungis af frelsaranum eða erum við í vaxandi mæli að kynnast honum? Hvernig getum við kynnst Drottni?

Frelsarinn, þegar hann var við það að ljúka fjallræðunni, undirstrikaði hinn eilífa sannleik að „frelsandi náð sonarins er eingöngu möguleg með að gjöra vilja föðurins.“1

Hann lýsti yfir:

„Ekki mun hver sá, sem við mig segir: Herra, herra, ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.

„Margir munu segja við mig á þeim degi: ,Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?

Þá mun ég lýsa yfir: Aldrei þekkti ég yður. Víkið frá mér, þér misgjörðamenn.“2

Skilningur okkar á þessum atburðum er aukinn þegar við íhugum innblásna breytingu á þessum texta. Orð Drottins í Biblíu Jakobs konungs „aldrei þekkti ég yður“ var breytt á marktækan hátt í þýðingu Joseph Smith yfir í „aldrei þekktuð þér mig.“3

Íhugið einnig dæmisöguna um meyjarnar tíu. Þið munið eftir því að hinar fimm fávísu og óundirbúnu meyjar fóru til að kaupa meiri olíu í lampa sína eftir að hafa heyrt hrópin að koma og hitta brúðgumann.

„Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.

Seinna komu [fávísu] meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.

En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.“4

Skírskotun þessarar dæmisögu til sérhvers okkar eykst með annari innblásinni breytingu. Mikilvægt er að athuga að orðalagið „ég þekki yður ekki“ sem skráð er í Biblíu Jakobs konungs er gert skýrara í þýðingu Joseph Smith með „þér þekktuð mig ekki.“5

Orðalagin tvö, „aldrei þekktuð þér mig“ og „þér þekktuð mig ekki,“ ættu að orsaka djúpa andlega sjálfsskoðun hjá okkur öllum. Vitum við einungis af frelsaranum eða erum við í vaxandi mæli að kynnast honum? Hvernig getum við kynnst Drottni? Þessar spurningar sálinnar er brennidepill boðskapar míns. Ég bið einlæglega um aðstoð heilags anda er við ígrundum þetta mikilvæga málefni saman.

Öðlast þekkingu

Jesús sagði:

„Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.

„Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn.“6

Við munum kynnast föðurnum er við kynnumst ástkærum syni hans.

Hið mikla markmið jarðlífsins er ekki eingöngu að læra um hinn eingetna son föðurins heldur einnig að kappkosta við að þekkja hann. Þau fjögur skref sem geta hjálpað okkur að læra að þekkja Drottinn eru að iðka trú á hann, fylgja honum, þjóna honum og trúa honum.

Iðka trú á hann

Að iðka trú á Jesú Krist er að reiða sig á verðleika hans, miskunn og náð.7 Við förum að kynnast frelsara okkar er við vekjum hæfileika okkar og gerum tilraun með orð hans, þar til við getum gefið hluta orða hans rúm í sálum okkar.8 Við treystum honum og trúum á kraft hans til endurlausnar, lækningar og styrktar er trú okkar á Drottinn eykst.

Sönn trú einblínir á Drottinn og leiðir ætíð til réttlátrar breytni. „Trú á [Krist er] fyrsta regla opinberaðra trúarbragða, … grunnurinn að öllu réttlæti … og regla gjörða hjá öllum vitsmunaverum.“9 Endurlausnarinn lýsti því yfir að starfa í samræmi við réttar reglur er kjarni þess að meðtaka og iðka sanna trú, „trúin er ónýt án verkanna.“10 Við verðum að vera „gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.“11

Að heyra orð Guðs og meðtaka hina andlegu gjöf trúar er nátengt, rétt eins og „trúin [kemur] af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.“12 Við munum kynnast honum og rödd hans er við nemum og endurnærumst af orði hans í ritningunum,13 biðjum til föðurins í hans nafni af einbeittum huga,14 og leitumst eftir því að hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut.15 Að nema og virkja kenningar Krists í lífi okkar er forsenda þess að hljóta gjöf trúar á hann.16

Nauðsynlegur undirbúningur við að fylgja Drottni er að iðka trú á hann.

Fylgja honum

„Hann gekk með Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn.

Hann sagði við þá: Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða.

Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.“17

Pétur og Andrés eru góð dæmi þess að heyra og fylgja meistaranum.

Á sama hátt leiðbeinir frelsarinn þér og mér: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“18 Að taka kross sinn er að afneita sjálfum sér öllu óguðlegu og sérhverri veraldlegri girnd og að halda boðorð Drottins.19

Frelsarinn hefur hvatt okkur til að verða eins og hann.20 Að líkja eftir Drottni er hluti af því að fylgja honum. Við höldum áfram að kynnast Drottni er við leitumst, með krafti friðþægingar hans, að verða eins og hann.

Jesú auðkenndi veginn og sýndi fullkomið fordæmi í þjónustu sinni í jarðlífinu. „Rétt hugmynd um persónuleika hans, fullkomnun og einkenni“21 veitir varanlegan tilgang og skýra stefnu er við fylgjum honum á vegi hins trúfasta lærisveins.

Að fylgja frelsaranum gerir okkur einnig kleift að „meðtaka þá raunverulegu þekkingu að lífsleiðin sem [við erum] að elta ólar við22 er í samræmi við vilja Guðs. Slík þekking er ekki hulin ráðgáta og einblínir ekki fyrst og fremst á stundlegu iðju okkar eða hefðbundnar jarðneskar áhyggjur. Heldur er stöðug og jöfn framför á vegi sáttmálans sú leið sem hann hefur velþóknun á.

Draumur Lehís í Mormónsbók auðkennir leiðina sem við ættum að fylgja, áskoranirnar sem við munum takast á við og andlegar auðlindir sem standa okkur til boða við að fylgja frelsaranum og koma til hans. Hann vill að við höldum áfram á hinum beina og þrönga vegi, brögðum á ávexti trésins „og [snúumst] til Drottins“23 að fullu. Þetta eru þær blessanir sem hann þráir okkur til handa. Þess vegna veifar hann til okkar: „Kom … og fylg mér.“24

Nauðsynlegur undirbúningur við að þjóna Drottni er að iðka trú á og fylgja Jesú Kristi.

Þjóna honum

„Því að hvernig á maður að þekkja húsbónda, sem hann hefur ekki þjónað, sem er honum ókunnugur og hugsunum hans og hjartans ásetningi fjarlægur?“25

Við munum kynnast Drottni á fyllri hátt er við þjónum honum og störfum í ríki hans. Hann mun blessa okkur örlátlega með himneskri hjálp, andlegum gjöfum og aukinni getu er við gerum það. Við erum aldrei skilin eftir ein í víngarði hans.

Hann lýsti yfir: „Ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings.“26

Við munum kynnast frelsaranum er við reynum okkar besta í að fara þangað sem hann vill að við förum, er við kappkostum við að segja það sem hann vill að við segjum og þegar við látum verk okkar stjórnast af honum.27 Hann mun auka getu okkar til að þjóna á jafnvel enn áhrifaríkari hátt þegar við á undirgefinn hátt viðurkennum að við reiðum okkur algjörlega á hann. Smám saman munu okkar þrár okkar standa með hans þrám og hans tilgangur verða okkar tilgangur, á þann hátt að við munum „ekki biðja um það, sem er andstætt vilja [hans].“28

Að þjóna honum krefst alls okkar hjarta, máttar, huga og styrks.29 Að þjóna öðrum af óeigingirni vinnur þar af leiðandi upp á móti sjálfselsku og eigingirni hins náttúrulega manns. Við lærum að elska þá sem við þjónum. Þegar við þjónum öðrum þá erum við að þjóna Guði og þar með lærum við að elska hann og systkin okkar á dýpri máta. Slík ást er birtingarmynd andlegrar gjafar kærleika, jafnvel hinni hreinu ástar Krists.30

„Biðjið þess vegna til föðurins, …, af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists; að þér megið verða synir Guðs; að þegar hann birtist, þá verðum vér honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er; að vér megum eiga þessa von; að vér megum verða hreinir eins og hann er hreinn.“31

Við munum kynnast Drottni betur þegar við erum uppfull af elsku hans.

Trúa honum

Er það gerlegt að iðka trú á hann, fylgja honum, þjóna honum en ekki trúa honum?

Ég veit um meðlimi kirkjunnar sem meðtaka kenningar og reglur ritninganna og þeirra sem eru kenndar frá þessu púlti sem sannleika. Samt sem áður eiga þeir erfitt með að trúa að þessi sannleikur fagnaðarerindisins eigi sérstaklega við um líf og aðstæður þeirra. Þeir virðast trúa á frelsarann en trúa ekki að lofaðar blessanir hans séu þeim fáanlegar eða geti orðið að veruleika í lífi þeirra. Ég rekst einnig á bræður og systur sem uppfylla kallanir sínar af skyldurækni en þó hefur hið endurreista fagnaðarerindi ekki ennþá orðið lifandi og umbreytandi raunveruleiki í lífi þeirra. Við munum læra að þekkja Drottinn er við ekki eingöngu trúum á hann heldur trúum honum einnig og fullvissu hans.

Faðir nokkur, í Nýja testamentinu, bað frelsarann að lækna barnið sitt. Jesú svaraði:

„Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.

Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“32

Oft hef ég íhugað beiðni þessa föður: „Hjálpa þú vantrú minni.“ Ég velti því fyrir mér hvort beiðni mannsins hafi ekki að mestu verið að hjálpa honum að trúa á Jesú sem endurlausnara okkar og á læknandi mátt hans. Vera má að hann hafi þá þegar viðurkennt Krist sem son Guðs. Vera má að hann hafi þurfti hjálp til að trúa að lækningarmáttur meistarans gæti í raun verið svo einstaklingsbundinn og svo persónulegur að hann gæti blessað ástkæran son hans. Ef til vill trúði hann almennt á Krist en trúði ekki sérstaklega og persónulega Kristi.

Við vitnum oft um það sem við vitum að er satt en kannski er meira viðeigandi sú spurning hvort við trúum því sem við vitum.

Helgiathafnir sem framkvæmdar eru með réttu prestdæmisvaldi eru nauðsynlegar til að trúa frelsaranum, kynnast honum og, að lokum, trúa því sem við vitum.

„Og [Melkísedeksprestdæmið] framkvæmir fagnaðarerindið og heldur lyklinum að leyndardómum ríkisins, já, lyklinum að þekkingu Guðs.

Í helgiathöfnum þess opinberast því kraftur guðleikans.“33

Við trúum og lærum að þekkja Drottinn þegar lykillinn að þekkingu Guðs er framkvæmdur af Melkísedeksprestdæminu sem opnar dyrnar og gerir sérhverjum kleift að meðtaka kraft guðleikans í lífinu. Við trúum og lærum að þekkja frelsarann er við fylgjum honum með því að meðtaka og trúfastlega heiðra helgiathafnir og smám saman hafa mynd hans greypta í svip okkar.34 Við trúum og lærum að þekkja Krist er við persónulega upplifum umbreytandi, læknandi, styrkjandi og helgandi kraft friðþægingar hans. Við trúum og lærum að þekkja meistarann er „[kraftur] orðs hans, [festir rætur] í okkur,“35 ritast í huga okkar og hjarta,36 og við „[látum] af öllum syndum [okkar] til að þekkja [hann].“37

Trúa honum er að treysta því að veglegar blessanir séu fáanlegar og þær eigi við um líf okkar sem einstaklingar og fjölskyldur. Að trúa honum af allri sálu38 gerist er við höldum áfram á sáttmálsleiðinni, afsölum honum okkar vilja og gefum okkur á vald forgangsröðunar og tímasetningar okkur til handa. Að trúa honum – meðtaka hans kraft og loforð sem sannleika – veitir samhengi, frið og gleði í líf okkar.

Loforð og vitnisburður

Dag einn í framtíðinni mun „hvert kné beygja sig og hver tungu viðurkenna“39 að Jesús er Kristur. Á þeim blessaða degi munum við vita að hann þekkir okkur öll með nafni. Ég vitna og lofa að við getum ekki eingöngu vitað um Drottinn heldur einnig kynnst honum með því að iðka trú á, fylgja, þjóna og trúa honum. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.