2010–2019
Rísið í styrk, systur í Síon
Október 2016


Rísið í styrk, systur í Síon

Til að vera trúfastar sáttmálum okkar, þá þurfum við að læra nauðsynlegar kenningar fagnaðarerindisins og hafa óbilandi vitnisburð um sannleiksgildi þeirra.

Þvílík gleði að vera saman komin í Ráðstefnuhöllinni með telpum, stúlkum og konum kirkjunnar. Við erum einnig mjög meðvituð að það eru þúsundir hópa af systrum samankomnar út um heim allan til að horfa á þennan fund og ég er þakklát fyrir tækifærið og möguleikana sem gera okkur kleift að koma saman í einingu og tilgangi hér í kvöld.

Gordon B. Hinckley forseti flutti ræðu í október 2006 sem er kölluð „Rísið upp, ó, þér Guðsmenn,“ nefnd eftir sálmi sem saminn var 1911.1 Ræðan var hvatning til aðgerða fyrir menn kirkjunnar, að rísa upp og bæta sig. Ræðan hans hefur bergmálað í huga mínum er ég hef beðið þess að vita hverju ég ætti að deila með ykkur.

Systur, við lifum á „[örðugum tíðum].“2 Ástand nútímans ætti ekki að koma okkur að óvörum. Varnaðarorð og hvatningar undirbúnings tóku að berast okkur fyrir árþúsundum. Áttundi kaflinn í Mormón gefur óþægilega nákvæma lýsingu á ástandi nútímans. Í þessum kafla segir Moróní að hann hafi séð okkar daga og að þá verði stríð og orðrómur um stríð, mikil mengun, morð, rán og fólk sem segir okkur að ekkert sé rangt í augum Guðs. Hann lýsir fólki sem er uppfullt af stolti, upptekið af því að vera í dýrum fötum og sem gerir grín að trúarbrögðum. Honum er einnig sýnt fólk sem er svo heltekið af hinu veraldlega að það leyfir „hina hungruðu og þurfandi, nöktu og sjúku og aðþrengdu ganga fram hjá“3 án þess að taka eftir þeim.

Moróní spyr okkur – sem lifum á þessum dögum – sálu leitandi spurningar. Hann spyr: „Hvers vegna blygðist þér yðar fyrir að taka á yður nafn Krists?“4 Þessi áfellisdómur lýsir réttilega hinu sívaxandi veraldlega ástandi heimsins.

Í Joseph Smith—Matteus er gefið til kynna að á hinum síðustu dögum muni jafnvel hinir „kjörnu, þá sem eru hinir kjörnu samkvæmt sáttmálanum“5 verða blekktir. Þeir sem eru hluti af sáttmálanum eru meðal annars telpur, stúlkur og systur í kirkjunni sem hafa tekið skírn og gert sáttmála við himneskan föður sinn. Jafnvel við eigum á hættu að blekkjast af fölskum kenningum.

Systur, ég trúi ekki að aðstæðurnar muni batna í framtíðinni. Við þurfum að vera undirbúnar fyrir stormana sem framundan eru, ef núverandi stefna er einhver vísbending. Það væri auðvelt að gefast upp í örvæntingu en sem sáttmálsþjóð þá þurfum við ekki að örvænta. Eins og öldungur Gary E. Stevenson hefur sagt: „Af gæsku sinni þá gerir himneskur faðir okkur kleift að lifa í fyllingu tímanna, til að vega upp á móti hinum örðugu tíðum.“6 Ég hrífst af hughreystingu þessara orða.

Fyrir ári síðan sagði Russell M. Nelson forseti okkur: „Árásir á kirkjuna, kenningar hennar og lífsmynstur okkar eiga eftir að aukast. Vegna þess þörfnumst við kvenna sem hafa bjargfastan skilning á kenningum Krists og sem munu nota þann skilning til að kenna og ala upp kynslóð sem getur hrint frá sér syndinni. Við þurfum konur sem geta skynjað blekkingu í allri sinni mynd. Við þurfum konur sem vita hvernig á að tengjast þeim krafti sem Guð býður sáttmálsfólki sínu upp á og sem tjá trú sína með öryggi og kærleika. Við þurfum konur sem hafa hugrekki og sýn móður okkar Evu.“7

Þessi boðskapur segir mér að þrátt fyrir aðstæður nútímans þá höfum við margar ástæður til að fagna og vera bjartsýnar. Ég trúi af öllu hjarta að við systurnar höfum þann meðfædda styrk og þá trú sem mun leyfa okkur að takast á við þær áskoranir sem fylgja því að lifa á hinum síðustu dögum. Systir Sheri Dew ritaði: „Ég trúi að á því augnabliki sem við lærum að leysa að fullu úr læðingi þau áhrif sem trúfastar, sáttmáls haldandi konur hafa, þá mun ríki Guðs breytast á svipstundu.“8

Það mun kalla á samstillt átak að snúast til trúar og halda sáttmála okkar. Til að ná því, þá þurfum við að vera telpur og konur sem nema nauðsynlegar kenningar fagnaðarerindisins og hafa óbilandi vitnisburð um sannleiksgildi þeirra. Það eru þrjú atriði sem ég trúi að sé grunnurinn að sterkum vitnisburði og sem ég tel nauðsynleg fyrir skilning okkar.

Í fyrsta lagi, þurfum við að viðurkenna miðlægi Guðs föður okkar og sonar hans, Jesú Krists, í trú okkar og hjálpræði. Jesús Kristur er frelsari okkar og lausnari. Við þurfum að nema og skilja friðþægingu hans og hvernig hagnýta eigi hana í daglegu lífi. Ein mesta blessunin sem við höfum, til að viðhalda réttri stefnu, er iðrun. Við þurfum að sjá Jesú Krists sem aðal fyrirmynd okkar og það fordæmi sem við þurfum að líkjast. Við þurfum sífellt að kenna fjölskyldum okkar og bekkjum um hina miklu sáluhjálparáætlun föðurs okkar, sem inniheldur kenningar Krists.

Í öðru lagi þurfum við að skilja þörfina á endurreisn kenninga, skipulags og lykla valds á þessum síðari dögum. Við þurfum að eiga það vitni að spámaðurinn Joseph Smith var valinn og útvalinn af Drottni sjálfum til að koma á laggirnar þessari endurreisn og skilja að hann skipulagði konur kirkjunnar samkvæmt því skipulagi sem var til staðar í hinni fornri kirkju Krists.9

Og í þriðja lagi þurfum við að nema og skilja helgiathafnir og sáttmála musterisins. Musterið er við kjarna okkar helgustu trúar og Drottinn hefur beðið okkur að við, hvert um sig, sækjum það heim, íhugum, nemum og finnum persónulegan tilgang og ástundun. Við munum skilja að guðlegur kraftur opinberast með helgiathöfnum musterisins10 og vegna helgiathafna musterisins þá getum við brynjað okkur krafti Guðs og nafn hans mun hvíla á okkur, dýrð hans umljúka okkur og englar hans vaka yfir okkur.11 Ég velti fyrir mér hvort við séum fyllilega að nýta okkur kraft þessara loforða.

Systur, jafnvel þær yngstu meðal þessarar safnaðar geta risið upp í trú og haft þýðingarmikið hlutverk í að byggja ríki Guðs. Börn taka að öðlast eigin vitnisburð með því að lesa eða hlusta á ritningarnar, biðja daglega og meðtaka sakramentið á skilmerkilegan máta. Öll börn og stúlkur geta hvatt til þess að haldin séu fjölskyldukvöld og tekið þátt að fullu. Þið getið verið þær fyrstu til að krjúpa þegar fjölskylda ykkar sameinast í fjölskyldubæn. Jafnvel ef heimili ykkar eru ekki til fyrirmyndar þá getur persónulegt fordæmi ykkar við að lifa trúfastlega eftir fagnaðarerindinu haft áhrif á líf fjölskyldu ykkar og vina.

Stúlkur kirkjunnar þurfa að sjá sjálfa sig sem nauðsynlega þátttakendur í sáluhjálparstarfinu, sem stýrt er af prestdæminu, ekki einungis áhorfendur og stuðningsmenn. Þið hafið kallanir og hafið verið settar í embætti af þeim sem bera prestdæmislykla til að starfa sem leiðtogar með krafti og valdi í þessu verki. Er þið eflið kallanir ykkar í forsætisráðum bekkja og undirbúið ykkur andlega, ráðgist saman, teygið ykkur til meðlima bekkjar ykkar og þjónið þeim og kennið hver annarri fagnaðarerindið, þá eruð þið að taka ykkur stöðu í þessu verki og bæði þið og jafningjar ykkar hljótið blessanir.

Allar konur þurfa að sjá sig sem nauðsynlega þátttakendur í starfi prestdæmisins. Konur þessara kirkju eru forsetar, ráðgjafar, kennarar, meðlimir ráða, systur og mæður og ríki Guðs getur ekki starfað nema að við rísum upp og uppfyllum skyldur okkar af trúrækni. Stundum þurfum við einungis að hafa stærri sýn á hvað sé mögulegt.

Ljósmynd
Systir Maldonado með systur Oscarson

Nýlega hitti ég systur í Mexíkó sem skilur merkingu þess að efla köllun sína með trú. Marfissa Maldonado var kölluð til að kenna sunnudagaskólabekk unglinga fyrir þremur árum. Hún var með sjö nemendur þegar hún tók við kölluninni en í dag eru það 20 unglingar sem koma reglulega. Undrandi spurði ég hana hvað hún hefði gert til að auka fjöldann svona mikið. Með hógværð sagði hún: „Ó, það var ekki bara ég. Allur bekkurinn hjálpaði til.“ Við fórum saman yfir nöfn hinna minna virku á bekkjarlistanum, heimsóttum þá og buðum að koma aftur til kirkju. Að auki hefur ein skírn komið út úr starfi þeirra.

Ljósmynd
Sunnudagaskólabekkur í Mexíkó

Systir Maldonado setti upp hóp á samfélagssíðu einungis fyrir bekkinn sinn sem hún kallar „Ég er barn Guðs“ og setur hún innblásnar hugleiðingar og ritningagreinar nokkrum sinnum í viku. Hún sendir nemendum sínum reglulega SMS með verkefnum og hvatningu. Henni finnst mikilvægt að eiga samskipti á þann máta sem hentar þeim best og það virkar. Hún sagði mér einfaldlega: „Mér er annt um nemendurna mína.“ Ég fann fyrir þeirri umhyggju er hún sagði mér frá starfi þeirra og fordæmi hennar minnti mig á hvað ein manneskja, sem sýnir trú og framkvæmd, getur gert til að aðstoða í verki Drottins.

Ungdómur okkar stendur daglega frammi fyrir erfiðum spurningum og mörg okkar eiga ástvini sem eiga erfitt með að finna svörin. Góðu fréttirnar eru samt þær að það eru svör til við þeim spurningum sem verið er að spyrja. Hlustið á nýlegan boðskap leiðtoga okkar. Við erum hvött til að nema og skilja sæluáætlun okkar himneska föður. Það er verið að minna okkur á reglurnar sem er að finna í fjölskylduyfirlýsingunni.12 Við erum hvött til að kenna og nota þessar heimildir sem mælistikur til að halda okkur á hinum þrönga og beina vegi.

Fyrir um ári síðan heimsótti ég móður ungra barna sem ákvað að hafa frumkvæði að spyrna við þeim mörgu neikvæðum áhrifum sem börn hennar urðu fyrir á Alnetinu og í skólanum. Hún velur efnisatriði í hverri viku, oft á tíðum eitthvað sem miklar umræður eru um á Alnetinu, og hún stendur fyrir alvöru umræðum í gegnum vikuna þar sem börn hennar geta spurt spurninga og hún gengur úr skugga um að þau fái jafnvægi og sanngjarna sýn á þessi málefni, sem oft eru erfið. Hún gerir heimilið sitt að öruggum stað þar sem hægt er að spyrja spurninga og hafa gagnlega kennslu um fagnaðarerindið.

Ég hef áhyggjur að því að við forðumst svo mikið að móðga nokkurn í umhverfi okkar að stundum forðumst við alfarið að kenna réttar reglur. Við látum líða hjá að kenna stúlkum okkar að það er mjög mikilvægt að undirbúa sig fyrir að verða móðir vegna þess að við viljum ekki móðga þær sem eru einhleypar, þær sem geta ekki eignast börn eða virðast takmarkandi í framtíðarvali stúlknanna. Við bregðumst hinsvegar kannski líka í því að leggja áherslu á mikilvægi menntunar vegna þess að við viljum ekki senda þau röngu skilaboð að menntun er mikilvægari en hjónaband. Við forðumst að lýsa því yfir að himneskur faðir okkar skilgreini hjónaband milli manns og konu vegna þess að við viljum ekki móðga þá sem finna fyrir tilfinningum samkynhneigðar. Okkur finnst líka kannski óþægilegt að ræða um málefni kynjanna eða heilbrigt kynlíf.

Vissulega þarf að sýna næmni en við skulum einnig nota brjóstvit okkar og skilning á sáluhjálparáætluninni svo við getum verið hugaðar og hreinskiptnar þegar kemur að því að kenna börnum okkar og unglingum þau grundvallaratriði fagnaðarerindisins sem þau verða að skilja til að sigla lífsins ólgusjó. Ef við kennum ekki börnum okkar og unglingum sannar kenningar – og kennum greinilega – þá mun heimurinn kenna þeim lygar Satans.

Ég ann fagnaðarerindi Jesú Krists og ég er eilíflega þakklát fyrir leiðsögnina, kraftinn og daglegu aðstoðina sem ég hlýt sem sáttmálsdóttir Guðs. Ég ber vitni um að Drottinn hefur blessað okkur, konur sem lifa á þessum örðugu tímum, með öllum þeim krafti, gjöfum og styrk sem nauðsynlegur er til að hjálpa til við að undirbúa heiminn fyrir síðari komu Drottins Jesú Krists. Ég bið þess að við fáum séð okkar raunverulegu burði og að við rísum upp og verðum þær konur trúar og hugrekkis sem faðir okkar á himnum þarf á að halda. Í nafni Jesú Krists, amen