2010–2019
Til hvers ættum vér að fara?
Október 2016


Til hvers ættum vér að fara?

Að lokum verður hvert okkar að svara spurningu frelsarans: „Ætlið þér að fara líka?“

Fyrir nokkrum árum fórum ég og fjölskyldan til Landsins helga. Ein af mínum skýrustu minningum frá þeirri ferð, var þegar við fórum í loftsalinn í Jerúsalem, þar sem sagt er að Síðasta kvöldmáltíðin hafi farið fram.

Þegar við stóðum á þessum stað, las ég fyrir þau úr 17. kapítula Jóhannesarguðspjalls, þar sem Jesús biður föður sinn að blessa lærisveina sína:

„Ég bið fyrir þeim, … svo að þeir verði eitt eins og við. …

Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra,

Að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur.“1

Ég komst innilega við þegar ég las þessi orð og bað þess, á þessum helga stað, að ég mætti ætíð vera eitt með fjölskyldu minni og himneskum föður og syni hans.

Hin dýrmætu sambönd okkar við fjölskyldu, vini, Drottin og hans endurreistu kirkju, eru meðal þess sem mestu skiptir í lífinu. Þar sem þessi sambönd eru svo mikilvæg, þá ættum við að varðveita þau, verja og næra.

Eitt sorglegasta tilvik ritninganna segir frá því að „margir af lærisveinum [Drottins]“ áttu erfitt með að meðtaka kenningar hans og því hurfu þeir frá og „voru ekki framar með honum2

Eftir að þessir lærisveinar hurfu frá honum, þá snéri Jesú sér að hinum tólf og spurði: „Ætlið þér að fara líka?“3

Pétur svaraði:

„Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs,

og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“4

Á þessari stundu, er aðrir einblíndu á það sem þeir gátu ekki meðtekið, þá völdu postularnir að einblína á það sem þeir þegar trúðu og vissu og því dvöldu þeir áfram með Kristi.

Síðar, á hvítasunnudeginum, hlutu hinir tólf gjöf heilags anda. Þeir urðu djarfir í vitnisburði sínum um Krist og tóku að skilja betur kenningar Jesú.

Þetta er eins á okkar tíma. Sumum finnst boð Krists um að trúa og vera kyrr, vera torvelt – eða erfitt viðureignar. Sumir lærisveinar eiga erfitt með að skilja einhverja ákveðna reglu eða kenningu kirkjunnar. Aðrir finna eitthvað sem nagar þá í sögu kirkjunnar eða einblína á ófullkomleika sumra meðlima og leiðtoga, lifandi eða látinna. Enn aðrir telja það erfitt að helga sig trú sem krefst svo mikils. Loks má nefna þá sem orðnir eru „[þreyttir] á að að gjöra gott.“5 Af þessum ástæðum og öðrum, eru sumir kirkjumeðlimir tvístígandi í trúnni og velta fyrir sér hvort þeir eigi hugsanlega að fara að ráðum þeirra sem „hurfu frá og voru ekki framar með“ Jesú.

Ef einhver ykkar er á báðum áttum í trúnni, þá spyr ég eins og Pétur: „Til hvers [ættir þú] að fara?“ Ef þú velur að verða óvirkur eða hyggist fara frá hinni endurreistu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, hvert ætlar þú þá að fara? Hvað ætlar þú að gera? Ákvörðunin um að „[vera] ekki framar með“ kirkjumeðlimum og kjörnum leiðtogum Drottins, mun hafa varanleg áhrif, sem ekki er auðvelt að sjá fyrir. Kannski er það einhver kenning, einhver regla, einhver söguhluti sem stangast á við trú ykkar og svo virðist sem eina leiðin til að leysa úr þessari innri baráttu einmitt nú, sé að „[vera] ekki framar með“ hinum heilögu. Ef þið hins vegar lifið jafn lengi og ég, þá mun ykkur skiljast að hlutirnir hafa tilhneigingu til að leysast af sjálfu sér. Innblástur eða opinberun getur varpað nýju ljósi á málið. Hafið í huga að endurreisnin er ekki einn atburður, því hún heldur áfram að opinberast og þróast.

Hverfið aldrei frá hinum mikla sannleika sem opinberaður var fyrir tilverknað Josephs Smith. Látið aldrei af því að lesa, ígrunda og tileinka ykkur kenningu Krists, sem fram kemur í Mormónsbók.

Látið aldrei bregðast að helga Drottni tíma með því að reyna einlæglega að skilja það sem hann hefur opinberað. Eins og minn kæri vinur og fyrrum samstarfsmaður, öldungur Neal A. Maxwell sagði eitt sinn: „Við skulum ekki álíta … að þótt eitthvað sé okkur ráðgáta, þá sé það óútskýranlegt.“6

Áður en þið takið þá háskalegu andlegu ákvörðun að yfirgefa kirkjuna, þá hvet ég ykkur til að staldra við og ígrunda vandlega hvað það í raun var sem vakti ykkur vitnisburð um hina endurreistu kirkju Jesú Krists til að byrja með. Staldrið við og íhugið þær tilfinningar sem þið funduð hér og af hverju þið funduð þær. Íhugið þau skipti sem heilagur andi hefur borið ykkur vitni um eilífan sannleika.

Hvert getið þið farið til að finna aðra sem deila með ykkur trú á kærleiksríka himneska foreldra, sem kenna okkur hvernig snúa á aftur til þeirra eilífu návistar?

Hvert getið þið farið til að hljóta kennslu um frelsarann, sem er ykkar besti vinur, sem þjáðist ekki aðeins fyrir syndir okkar, heldur þoldi einnig „alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar,“ svo „að hjarta hans [fylltist] miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann [mætti] vita í holdinu, hvernig fólki hans [yrði] best liðsinnt í vanmætti þess,“7 þar með talið, trúi ég, í vanmætti trúarskorts?

Hvert getið þið farið til að læra meira um áætlun himnesks föður, fyrir ykkar eilífu hamingju og frið, áætlun sem er yfirfull af möguleikum, kenningum og handleiðslu fyrir jarðlífið og hið eilífa líf? Hafið í huga að sáluhjálparáætlunin gefur jarðlífinu gildi og tilgang.

Hvert getið þið farið til að finna ítarlegt og innblásið kirkjuskipulag, sem sér ykkur fyrir kennslu og liðsinni karla og kvenna, sem þjóna ykkur og fjölskyldu ykkar af djúpri skuldbindingu við Drottin?

Hvert getið þið farið tl að finna lifandi spámenn og postula, sem eru kallaðir af Guði, til að veita ykkur aðra uppsprettu handleiðslu, skilnings, huggunar og innblásturs fyrir áskoranir okkar tíma?

Hvert getið þið farið til að finna fólk sem lifir eftir fyrirskipuðum gildum og stöðlum, sem þið viljið miðla og innræta börnum ykkar og barnabörnum?

Hvert getið þið farið til að upplifa gleðina sem hlýst af endurleysandi helgiathöfnum og sáttmálum musterisins?

Bræður og systur, að taka á móti og lifa eftir fagnaðarerindi Krists, getur verið krefjandi. Þannig hefur það alltaf verið og mun alltaf verða. Lífið getur verið eins og fjallganga á erfiðri og illfæri slóð. Það er sjálfsagt og eðlilegt að staldra stundum við á slóðinni til að ná andanum, til að endurmeta stöðu okkar og hraða. Það þurfa ekki allir að staldra við, en það er ekkert athugavert við að gera það þegar aðstæður krefjast þess. Í raun, þá getur það verið gott og gilt fyrir þá sem nýta vel slíkt tækifæri til að endurnæra sig sjálfa með hinu lifandi vatni fagnaðarerindis Krists.

Hættan felst í því að velja að fara af veginum sem liggur að tré lífsins.8 Stundum nægir að læra og ígrunda til að vita, en stundum þurfum við að trúa, treysta og vona.

Að lokum verður hvert okkar að svara spurningu frelsarans: „Ætlið þér að fara líka?“9 Öll verðum við að svara þeirri spurningu fyrir okkur sjálf. Sumum finnst auðvelt að svara henni og öðrum erfitt. Ég ætla ekki að þykjat vita af hverju sumum reynist auðveldara að trúa en öðrum. Ég er bara þakklátur fyrir að svörin eru alltaf fyrir hendi og ef við leitum þeirra – af einlægum ásetningi og alvöru hins bænheita hjarta – þá munum við að endingu finna svörin við spurningum okkar, er við höldum áfram á vegi trúar. Ég hef, í þjónustutíð minni, þekkt þá sem hafa villst frá og komið til baka aftur, eftir að reynt hafði verið á trú þeirra.

Ég vona einlæglega að við munum finna fleiri börn Guðs og bjóða þeim að finna veginn og halda áfram á honum, svo það megi líka „neyta af ávextinum, sem eftirsóknarverðari [er] öllum öðrum ávöxtum.“10

Ég bið þess innilega að munum hvetja, umvefja, skilja og elska þá sem heyja baráttu trúar. Við megum aldrei vanrækja bræður okkar og systur. Við erum öll á mismunandi stöðum á veginum og þurfum að þjóna hvert öðru í samræmi við það.

Við skulum, á sama hátt og við tökum opnum örmum og fagnandi á móti nýjum trúuðum, umvefja og styðja þá sem efast og eru veikir í trúnni.

Ég bið þess að sérhver sá sem hyggst yfirgefa „hið gamla Síonarskip,“ svo ég noti aðra samlíkingu, þar sem Guð og Kristur eru við stýrið, muni staldra við og hugsa sig vandlega um áður en það er gert.

Minnist þess að jafnvel þótt miklir stromar geysi og öldurótið berji á hinu gamla skipi, verið þá viss um að frelsarinn er um borð og getur lægt stormana með því að bjóða: „Þegi þú, haf hljótt um þig!“ Þar til hann gerir það, þá þurfum við að vera óttalaus og hafa óhagganlega trú og vera viss um að „Jafnvel vindur og vatn hlýða honum.“11

Bræður og systur, ég heiti ykkur því, í nafni Drottins, að hann mun aldrei yfirgefa kirkjuna sína og eða eitthvert okkar. Minnist þess hvernig Pétur svaraði spurningu frelsarans:

„Til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs,

og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“12

Ég ber því vitni að „ekkert annað nafn verður gefið og engin önnur leið eða aðferð, sem fært [getur] mannanna börnum sáluhjálp, nema í og fyrir nafn Krists.“13

Ég ber því líka vitni að Jesús Kristur hefur kallað postula og spámenn á okkar tíma og endurreist kirkju sína, með kenningum og boðorðum, sem „athvarf fyrir storminum og hinni heilögu reiði,“ er vissulega munu koma, nema íbúar jarðar iðrist og komi til hans.14

Ég ber því ennfremur vitni að Drottin „býður þeim öllum sem einum að koma til sín og verða gæsku sinnar aðnjótandi. Hann neitar engum að koma til sín, hvorki svörtum né hvítum, ánauðugum né frjálsum, karli né konu, … allir eru jafnir fyrir Guði.“15

Jesús er frelsari okkar og lausnari og hans endurreista fagnaðarerindi mun leiða okkur aftur í návist okkar himnesku foreldra, ef við fetum veg trúar og fylgjum í fótspor hans. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.