2010–2019
Hugdjörf í vitnisburði um Jesú
Október 2016


Hugdjörf í vitnisburði um Jesú

Við megum ekki við því að láta hrösunarhellur rugla og flækja vitnisburð okkar um föðurinn og soninn.

Eilíft líf er æðst allra gjafa Guðs og veitist þeim sem „heldur boðorð [Guðs] og stendur stöðugur allt til enda.“1 Þeim sem „ekki eru hugdjarfir í vitnisburðinum um Jesú“2 er hins vegar neitað um eilíft líf með föður okkar á himnum. Það eru ótal hrösunarhellur sem geta orðið á vegi okkar og komið í veg fyrir að við náum markmiði eilífs lífs.3 Hrösunarhellur geta verið flókin fyrirbæri; ég skal útskýra það nánar.

Fyrir mörgum árum byggði faðir minn lítið hús á sveitabýlinu sem hann ólst upp á. Útsýnið yfir slétturnar var einstakt. Ég var viðstaddur þegar útveggir hússins voru reistir. Ég furðaði mig á því að útsýnisglugginn var beint fyrir framan rafmagnsstaur sem var nokkuð nærri húsinu. Mér fannst hann algjörlega stinga í stúf við hið dásamlega útsýni.

Ljósmynd
Ragmagnsstaur fyrir utan útsýnisglugga

Ég sagði: „Pabbi, af hverju léstu setja rafmagnsstaurinn beint fyrir framan útsýnisgluggann?“

Faðir minn, sem var einkar hagsýnn og rólyndur maður, útskýrði af nokkrum tilfinningahita: „Quentin, þessi staur finnst mér vera eitt það fegursta á öllu býlinu!“ Hann útskýrði síðan mál sitt: Þegar ég horfi á straurinn þá verður mér ljóst að ég þarf ekki að bera vatnið í brúsum frá brunninum upp að húsinu til eldunar, þvotta eða böðunar, ólíkt því sem þurfti á uppeldisárum mínum hér. Ég þarf ekki að nota kerti eða olíulampa til að lesa á kvöldin. Ég vil að rafmagnsstaurinn sé það fyrsta sem ég sé þegar ég lít út um gluggann.“

Faðir minn sá rafmagnsstaurinn í öðru ljósi en ég gerði. Fyrir honum táknaði staurinn bætt líferni, en fyrir mér var hann lýti eða hrösunarhella sem skyggði á stórbrotið útsýnið. Faðir minn tók rafmagn, ljósi og hreinlæti fram yfir fallegt útsýnið. Mér varð þegar ljóst að þótt staurinn væri auga mínu hrösunarhella, hafði hann mikla raunsæja merkingu í huga föður míns.

Hrösunarhella er „fyrirstaða til að trúa eða skilja“ eða „þroskahindrun.“4 Að hrasa andlega, er að „falla í synd eða villast frá.“5 Hrösunarhella getur verið allt það sem truflar okkur frá því að ná réttlátum markmiðum.

Við megum ekki við því að láta hrösunarhellur rugla og flækja vitnisburð okkar um föðurinn og soninn. Við megum ekki falla í þá gryfju. Vitnisburður okkar um þá þarf að vera hreinn og einfaldur, líkt og hin einföldu orð föður míns í vörn fyrir staurinn á uppeldisbýli hans.

Hverjar eru sumar þær hrösunarhellur sem rugla og flækja okkar hreina og einfalda vitnisburð um föðurinn og soninn og varna okkur því að vera hugdjörf í þeim vitnisburði?

Ein hrösunarhellan er heimspeki manna

Við erum skuldbundinn hvers kyns þekkingu og trúum að „dýrð Guðs er vitsmunir.“6 Við vitum aftur á móti að megin bragð andstæðingsins er að leiða menn frá Guði og til hrösunar, með því að beina sjónum þeirra að heimspeki manna, en ekki kenningum frelsarans.

Páll postuli var öruggt vitni um Jesú Krist, sökum hinna undursamlegu og umbreytandi upplifana sem hann öðlaðist með frelsaranum.7 Hinn einstæði bakgrunnur Pálls gerði honum kleift að tengjast fólki af mismunandi menningu. Hann hreifst af hinni „einföldu hreinskilni“ Þessalóníkubúa og hinni „ljúfu samúð“ Filippíbúa.8 Í upphafi fannst honum erfiðara að tengjast hinum vitsmunalegu og forfrömuðu Grikkjum. Á Marshæð í Aþenu reyndi hann að nálgast þá með heimspeki, en var hafnað. Í Korintu einsetti hann sér einfaldlega að kenna „kenninguna um Krist korssfestann.“9 Svo notuð séu eigin orð Páls postula:

„Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar,

til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.“10

Sumar af stórkostlegustu ritningarfrásögnunum um frelsarann og hlutverk hans er að finna í 1. Korintubréfinu. Einn kapítulinn – sá fimmtándi – hefur notið heimsathygli í gegnum flutning á frægu verki George Frideric Handel Messías.11 Þar kemur fram djúpstæð kenning um frelsarann. Í þriðja hluta verksins Messías, strax á eftir „Halelúja viðlaginu“, eru flest ritningarversin úr 1 Korintubréfinu, kapítula 15. Í nokkrum þeirra versa lýsir Páll fagurlega sumu af því sem frelsarinn fékk áorkað:

„En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.

… Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann.

Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir … Krist. …

Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn? ...

Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!“12

Við vitum að fráhvarfið átti sér stað að hluta vegna þess að heimspeki manna var gert hærra undir höfði en hinum mikilvægu, grundvallarkenningum Krists. Í stað þess að hinn einfaldi boðskapur frelsarans væri kenndur þá afbakaðist margur einfaldur og dýrmætur sannleikur eða glataðist. Kristindómurinn tileinkaði sér í raun hluta af hinni hefðbundnu grísku heimspeki, til að laga trú fólksins að hinni ríkjandi menningu. Sagnfræðingurinn Will Durant ritaði: „Kristindómurinn útrýmdi ekki heiðni; hann tileinkaði sér hana. Hin gríska menning var að deyja út, en gekk í endurnýjun lífdaganna.“13 Í sögulegu samhengi, og á okkar tímum, hafa sumir hafnað fagnaðarerindi Jesú Krists, á þeirri forsendu, að þeirra mati, að það sé ekki nægilega vitsmunalega forframað.

Að morgni endurreisnarinnar, héldu margir því fram að þeir lifðu eftir kenningum frelsarans. Margar þjóðir skilgreindu sig sem kristnar. Á þeim tíma var hins vegar spádómur sem sagði fyrir um aukna erfiðleika á okkar tíma.

Heber C. Kimball var einn af fyrstu postulunum tólf á þessari ráðstöfun og fyrsti ráðgjafi Brighams Young forseta. Hann aðvaraði: „Sá tími er fyrir höndum að … að erfitt verður að þekkja heilagan frá þeim sem óvinveittur er fólki Guðs. Þá skal …vara sig á hinu mikla sigti, því mikil grandskoðun er fyrir höndum og margir munu þar falla.“ Lokaorð hans voru: „PRÓFRAUN er fyrir höndum.“14

Á okkar tíma hefur verulega dregið úr áhrifum kristindóms í mörgum löndum, þar með talið Bandaríkjunum. Án trúarbragða er engin ábyrgðartilfinning gagnvart Guði. Það leiðir svo til þess að erfitt getur reynst að koma á algildum lífsreglum. Oft stangast mikilsmetnar heimspekistefnur á við hver aðra.

Því miður þá á þetta líka við um suma meðlimi kirkjunnar, sem missa áttir og láta stjórnast af málefnum tíðarandans – sem mörg hver eru ekki réttlát.

Öldungur Neal A. Maxwell sagði árið 1982, í samhljóm við spádóm Hebers C. Kimball: „Mikil sigtun mun verða, því draga mun úr réttlátri breytni, án þess að iðrast sé. Sumir mun gefast upp í stað þess að standast allt til enda. Aðrir munu láta blekkjast af liðhlaupum. Enn öðrum mun misboðið, því hrösunarhellur hverrar ráðstöfunar eru margar og miklar!“15

Önnur hrösunarhella er að neita að sjá syndina í réttu ljósi

Eitt af því kvíðvænlega sem einkennir okkar tíma, er sú að margir gefa sig að syndugu líferni, en telja það ekki syndugt. Þeir hafa enga eftirsjá og engan vilja til að viðurkenna eigin breytni sem siðferðilega ranga. Sumir, sem jafnvel játa trú á föðurinn og soninn, taka afstöðu út frá því mati að kærleiksríkur faðir á himnum muni ekki láta okkur horfast í augu við afleiðingar eigin breytni, sem andstæð er boðorum hans.

Þetta var greinilega afstaða Koríantons, sonar Alma yngri, í Mormónsbók. Hann hafði gefið sig að alvarlegri ósiðlegri breytni og naut umvöndunar Alma. Við njótum þeirrar blessunar að hinn mikli spámaður, Alma, sem sjálfur hafði upplifað „hyldýpisgjá [myrkurs og] … hið undursamlega ljós,“16 skildi skrá þessa kennslu sína. Í 39. kapítula Alma, má lesa um það hvernig hann kenndi syni sínum í gegnum iðrunarferlið og útskýrði síðan hvernig Kristur kemur og afmáir syndina. Hann gerði Koríanton grein fyrir mikilvægi iðrunar, því „ekkert óhreint getur erft Guðs ríki.“17

Alma, kapítuli 42 geymir einhverja undursamlegustu kenningu allra ritninganna, sem tengjast friðþægingunni. Alma hjálpaði Koríanton að skilja að það er ekki „óréttlæti, að hlutskipti syndarans verði vansæld.“18 Hann benti hins vegar á að allt frá Adam hafi hinn miskunnsami Guð veitt „ráðrúm til iðrunar,“ því án iðrunar hefði „hin mikla sáluhjálparáætlun farið forgörðum.“19 Alma lagði líka áherslu á að áætlun Guðs væri „sæluáætlun.“20

Kenningar Alma eru afar upplýsandi: „Því að sjá. Réttvísin leggur fram allar sínar kröfur, og miskunnsemin krefst einnig alls, sem henni ber. Því frelsast engir aðrir en þeir, sem raunverulega iðrast.“21 Sé það skoðað í réttu ljósi, þá eru blessanir iðrunar og hollusta við kenningar frelsarans af gríðarlegu mikilvægi. Það er því ekki óréttmætt, líkt og Alma gerði við Koríanton, að leggja áherslu á afleiðingar syndugs lífernis og iðrunarleysi. Oft hefur þetta verið sagt: „Fyrr eða síðar munu allir horfast í augu við afleiðingar.“22

Hin undraverða og himneska blessun friðþæingar frelsarans, er sú að fyrir iðrun mun syndugt líferni afmáð. Eftir iðrun Koríantons, sagði Alma: „[Lát] þetta ekki angra þig lengur, heldur [lát] einungis syndir þínar angra þig með því hugarangri, sem leiðir þig til iðrunar.“23

Að horfa yfir markið, er hrösunarhella

Spámaðurinn Jakob sagði að Gyðingar til forna hefðu verið „þrjóskufull þjóð,“ sem hefðu fyrirlitið hið einfalda, [ráðið] spámennina af dögum og [sóst] eftir því, sem þeir skildu ekki. Og vegna blindu sinnar, blindu sem hlaust af því að horfa yfir markið, [hlutu] þeir að falla.“24

Þótt dæmin séu mörg um hvernig horft sé yfir markið,25 þá er mikilvægt að nefna öfga okkar tíma. Trúaröfgar eru það þegar menn meta eina trúarreglu ofar öðrum jafn mikilvægum og taka afstöðu sem ekki fellur að eða er andstæð kenningum kirkjuleiðtoga. Eitt dæmi um það er þegar menn berjast fyrir viðaukum eða breytingum á Vísdómsorðinu eða leggja sérstaka áherslu á einhvern einn hluta þess. Annað dæmi er dýr undirbúningur fyrir atburðarás efstu daga. Í báðum tilvikum eru aðrir hvattir til að gangast undir persónulegar túlkanir. „Ef heilbrigðislögmál, eða einhver önnur trúarregla, verður að trúaröfgum hjá okkur, þá erum við að horfa yfir markið.“26

Drottinn vísaði í mikilvæga kenningu og lýsti yfir: „Hver sá sem boðar meira eða minna en þetta, hann er ekki af mér, heldur á móti mér.“27 Þegar við gerum einni trúarreglu hærra undir höfði en öðrum, og drögum þannig úr mikilvægi annarra ekki síður mikilvægra reglna, eða tökum afstöðu þvert á eða umfram kenningar kirkjuleiðtoga, þá erum við að horfa yfir markið.

Auk þess hefja sumir meðlimir einhvern tiltekinn málstað, sem margir hverjir geta verið góðir, upp fyrir megin kenningu fagnaðarerindisins. Þeir setja hollustu við eigin málstað í fyrsta sæti og hollustu við frelsarann og kenningar hans í annað sæti. Ef við höfum meiri mætur á einhverju öðru en hollustu okkar við frelsarann, ef eigin breytni staðfestir hann einungis sem góðan kennara, en ekki sem dýrðlegan son Guðs, þá erum við að horfa yfir markið. Jesús Kristur er markið!

Í 76. kafla Kenningar og sáttmála er glögglega tekið fram að það sé einföld og mikilvæg prófraun að vera „[hugdjarfur í vitnisburðinum um Jesú,“28, sem skilur á milli þeirra sem erfa blessanir himneska ríkisins og þeirra sem erfa óæðra yfirjarðneskt ríki. Hugdirfska felst í því að einblína á mátt Jesú Krists og friðþæginarfórn hans, til að fá sigrað dauðann, hreinsast af synd með iðrun og lifa eftir kenningu Krists.29 Við þörfnumst líka ljóss og þekkingar lífs og kenninga frelsarans, okkur til handleiðslu á sáttmálsveginum, þar með talið helgiathafnir musterisins. Við þurfum að vera staðföst í Kristi, endurnærast á orði hans og standast allt til enda.30

Lokaorð

Ef við hyggjumst vera hugdjörf í vitnisburði okkar um Jesú, þá verðum við að forðast þær hrösunarhellur sem hefta og tálma framþróun margra, sem að öðru leyti eru heiðarlegir karlar og konur. Við skulum einsetja okkur að vera ætíð í þjónustu hans. Í þekkingaröflun okkar þurfum við að forðast þá heimspeki manna sem dregur úr hollustu okkar við frelsarann. Við verðum að sjá syndina í réttu ljósi og taka á móti friðþægingu frelsarans með iðrun. Við þurfum að forðast að horfa yfir markið og einblína á Jesú Krist, frelsara okkar og lausnara, og lifa eftir kenningu hans.

Faðir minn sá staurinn sem táknrænan fyrir rafmagn, ljós og ofgnótt vatns til eldunar og hreinlætis. Hann var honum stiklusteinn til betra lífs.

Rithöfundur einn bendir á að breyta megi hrösunarhellum yfir í „stiklusteina til betri manngerðar og ferðar til himins.“31

Að vera hugdjarfur í vitnisburðinum um Jesú, hvað okkur varðar, er stiklusteinn til að verðskulda náð frelsarans og himneska ríkið. Jesús Kristur er hið eina nafn undir himninum sem við getum frelsast fyrir.32 Ég ber mitt örugga vitni um guðleika hans og einstætt hlutverk hans í áætlun föðurins. Í nafni Jesú Krists, amen

Heimildir

  1. Kenning og sáttmálar 14:7; sjá einnig Jóh 17:3.

  2. Kenning og sáttmálar 76:79.

  3. Sjá True to the Faith: A Gospel Reference (2004), 52–53.

  4. Merriam-Webster’s Collegiate Dictionary, 11. útg. (2003), „stumbling block.“

  5. Merriam-Webster’s Collegiate Dictionary, „stumble.“

  6. Kenning og sáttmálar 93:36.

  7. Sjá Post 9:1–9; 26:13–18.

  8. Sjá F. W. Farrar, The Life and Work of St. Paul (1898), 319.

  9. Sjá Farrar, Life and Work of St. Paul, 319–20.

  10. 1 Kor 2:4–5.

  11. Sjá George Frideric Handel, Messiah, útg. T. Tertius Noble (1912).

  12. 1 Kor 15:20–22, 55, 57.

  13. Will Durant, The Story of Civilization, 3. bindi, Caesar and Christ (1944), 595.

  14. Heber C. Kimball, í Orson F. Whitney, Life of Heber C. Kimball (1945), 446.

  15. Neal A. Maxwell, „Be of Good Cheer,“ Ensign, nóv. 1982, 68.

  16. Mósía 27:29.

  17. Alma 40:26.

  18. Alma 42:1. Í kenningum Síðari daga heilagra, eru ráðstafanir gerðar fyrir allt mannkyn, þar með talið þá sem ekki heyra um Krist í þessu lífi, börn sem deyja áður en ábyrgðaraldri er náð og þá sem hafa engan skilning (sjá Kenning og sáttmálar 29:46–50; 137:7–10).

  19. Alma 42:5.

  20. Alma 42:8.

  21. Alma 42:24. Veitið athygli að persónufornafnið sem tengist réttvísi er hann (karlkyns) og persónufornafnið sem gengist miskunn er hún (kvenkyns).

  22. Robert Louis Stevenson, í Carla Carlisle, „A Banquet of Consequences,“ Country Life, 6. júlí 2016, 48. Frú Carlisle eignar Robert Louis Stevenson tilvitnunina. Sumir eigna hana öðrum.

  23. Alma 42:29.

  24. Jakob 4:14.

  25. Í grein sem ég skrifaði fyrir tímaritið Ensign, árið 2003, legg ég áherslu á fjóra þætti sem gætu skapað kenningarlega blindu og hrösun, sem Jakob tilgreindi: Að taka meira mark á heimspeki mann í stað sannleika fagnaðarerindisins, trúaröfgar, hetjuleg góðverk í stað daglegrar helgunar og meta reglur ofar kenningum (sjá „Looking beyond the Mark,“ Liahona, mars 2003, 21–24).

  26. Quentin L. Cook, „Looking beyond the Mark,“ Liahona, mars 2003, 22.

  27. Kenning og sáttmálar 10:68.

  28. Kenning og sáttmálar 76:79.

  29. Sjá 2 Ne 31:17–21.

  30. Sjá 2 Ne 31:20–21.

  31. Henry Ward Beecher, í Tryon Edwards, A Dictionary of Thoughts (1891), 586.

  32. Sjá 2 Ne 31:21; Mósía 3:17.