2010–2019
Þetta er hið eilífta líf
Apríl 2017


Þetta er hið eilífa líf

Guð þekkir ykkur og býður ykkur að þekkja sig.

Ég tala til ykkar, hinnar rísandi kynslóðar – æskufólks og ungs fólks, einhleypra eða giftra – ykkar, sem eruð framtíðarleiðtogar kirkjunnar. Þrátt fyrir allt ranglæti, glundroða, ótta og upplausn heimsins, þá tala ég til ykkar af skýrleika um þann mikilfengleika og þá blessun sem fylgir því að kynnast Guði.

Jesús kenndi margt sem útskýrir sæluáætlun himnesks föður og hlutverk ykkar í henni. Ég ætla að ræða um tvennt sem hjálpar ykkur að skilja eigið auðkenni sem barn Guðs og átta ykkur á tilgangi lífs ykkar.

Í fyrsta lagi: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“1

Í öðru lagi: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“2

Hafið þennan tvíþætta sannleika í huga – sem kennir tilganginnog ég mun reyna að útskýra hvernig þið, og við öll, getum komist til þekkingar á Guði.

Þekkja hann fyrir tilstilli bænar

Mínir kæru ungu vinir, við getum komist til þekkingar á Guði fyrir tilstilli bænar.

Hinn 7. apríl 1829 hóf Oliver Cowdery, þá 22 ára gamall, að starfa sem ritari fyrir hinn 23 ára gamla Joseph Smith. Þeir vour ungir – líkt og þið eruð. Oliver bað Guð um staðfestingu varðandi endurreisnina og starf hans henni viðkomandi. Hann hlaut eftirfarandi svar við þeirri bæn:

„Sjá, þú veist að þú hefur spurt mig og að ég hef upplýst huga þinn. …

Já, ég segi þér, svo að þú megir vita, að enginn nema Guð þekkir hugsanir þínar og áform hjarta þíns. …

„… Ef þú þráir frekari vitnisburð, hugleiddu þá nóttina, er þú ákallaðir mig í hjarta þínu. …

Veitti ég þér ekki hugarró … ? Hvaða stærri vitnisburð getur þú fengið en þann, sem frá Guði kemur?“3

Þegar þið biðjið í trú, munuð þið finna elsku Guðs, er andi hans talar til sálu ykkar. Þið eruð ekki ein í þessum heimi, sama hve ein og óörugg ykkur finnst þið stundum vera. Guð þekkir ykkur, persónulega. Þegar þið biðjist fyrir munið þið komast til þekkingar á honum.

Þekkja hann fyrir tilstilli ritninganáms

Þegar þið lærið ritningarnar, lærið þið ekki aðeins um frelsarann, heldur farið í raun að þekkja frelsarann.

Í apríl 1985, talaði öldungur Bruce R. McConkie á aðalráðstefnu – aðeins þrettán dögum fyrir dauða sinn. Hann lauk með þessum vitnisburði:

„Ég er eitt af vitnum hans, og á komandi degi mun ég þreifa á naglaförum handa hans og fóta og væta fætur hans tárum mínum.

En ég mun ekki vita betur þá en ég veit nú, að hann er sonur almáttugs Guðs, að hann er frelsari okkar og lausnari og að sáluhjálp fæst á engan annan hátt en fyrir friðþægingarblóð hans.“4

Þau okkar sem heyrðum öldung McConkie tala þann dag, munum aldrei gleyma hvernig okkur leið. Þegar hann hóf mál sitt, sagði hann frá ástæðu þess að vitnisburður hans væri svo máttugur. Hann sagði:

„Ég mun nota eigin orð er ég ræði um þessa undursamlegu hluti, og þið gætuð talið þau vera orð ritninganna. …

Satt er að aðrir hafa áður mælt þau, en nú eru þau mín, því heilagur andi Guðs hefur borið mér vitni um að þau eru sönn, og svo er nú sem Drottinn hafi opinberað mér þau fyrst. Ég hef því heyrt rödd hans og þekki orð hans.“5

Þegar þið lærið og ígrundið ritningarnar, munið þið líka heyra rödd Guðs, þekkja orð hans og þekkja hann sjálfan. Guð mun opinbera ykkur persónulega sinn eilífa sannleika. Kenningar og reglur hans verða hluti af ykkur sjálfum og munu geisla af sál ykkar.

Auk þess að læra ritningarnar sjálf, þá er mikilvægt að læra ritningarnar saman sem fjölskylda.

Á heimili okkar vildum við að börnin okkar lærðu að þekkja rödd andans. Við trúum að það gerist með því að læra í Mormónsbók dag hvern sem fjölskylda. Vitnisburður okkar styrkist, er við ræðum um helgan sannleika.

Ritningarnám verður sú rás sem andinn notar til að veita hverju okkur klæðskerasniðna kennslu. Þegar þið lærið ritningarnar dag hvern, bæði sjálf og með fjölskyldu ykkar, þá munið þið fara að skilja rödd andans og komast til þekkingar á Guði.

Þekkja hann með því að gera vilja hans

Auk þess að biðja og læra ritningarnar, þá þurfum við að gera vilja Guðs.

Frelsarinn er okkar fullkomna fordæmi. Hann sagði: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.“6

Þegar hinn upprisni frelsari vitjaði Nefítanna, sagði hann: „Sjá! Ég er ljós og líf heimsins, og ég hef bergt af þeim beiska bikar, sem faðirinn gaf mér, og ég hef gjört föðurinn dýrðlegan með því að taka á mig syndir heimsins og þannig lotið vilja föðurins í öllu, allt frá upphafi.“7

Þið og ég gerum vilja föðurins með því að heiðra sáttmála okkar, halda boðorðin og þjóna Guði og náunga okkar.

Ég og eiginkona mín, Ronda, eigum ósköp venjulega foreldra – sennilega álíka ykkar foreldrum. Ég hrífst þó af því að foreldrar okkar hafi helgað sig þjónustu við Guð og kennt okkur hið sama.

Þegar foreldrar Rondu höfðu verið gift í tvö ár, var 23 ára gamall faðir hennar kallaður til að þjóna í fastatrúboði. Hann fór frá ungri eiginkonu sinni og tveggja ára gamalli dóttur. Eiginkona hans var síðan kölluð til að þjóna með honum síðustu sjö mánuði trúboðs hans – og hún skildi dóttur sína eftir í umsjá ættmenna.

Nokkrum árum síðar, og þá með fjögur börn, fluttu þau til Missoula, Montana, svo að faði hennar gæti lært í háskóla. Þau höfðu þó aðeins verið þar í nokkra mánuði þegar Spencer W. Kimball og öldungur Mark E. Petersen færðu tengdaföður mínum þá köllun að verða fyrsti forseti hinnar ný stofnuðu Missoula stiku. Hann var þá aðeins 34 ára gamall. Hugsanir um háskólann voru settar á hakann, því hann leitaðist við að fara að vilja Drottins – en ekki að eigin vilja.

Foreldrar mínir hafa þjónað í musterinu í rúm 30 ára – faðir minn sem innsiglari og móðir mín sem musterisþjónn. Þau hafa líka þjónað í fastatrúboði – í Riverside, Kaliforníu; Ulaanbaatar, Mongólíu; Nairobi, Kenýa; Nauvoo musterinu í Illinois; og Monterrey musterinu í Mexíkó. Í Mexíkó lögðu þau hart að sér við að læra annað tungumál, sem ekki reynist auðvelt um áttrætt. Þau reyndu hins vegar að gera vilja Drottins, fremur en að uppfylla eigin lífsins þrár.

Ég enduróma til allra trúfastra Síðari daga heilagra sem þjóna víða um heim, þessum orðum Drottins til spámannsins Nefís, sonar Helamans: „Blessaður ert þú …, fyrir það, sem þú hefur gjört … ótrauður … [því þú hefur ekki] hirt um eigið líf, heldur leitað vilja míns og haldið boðorð mín.“8

Þegar við reynum að gera vilja Guðs með því að þjóna honum og samferðafólki okkar trúfastlega, munum við skynja velþóknun hans og komast til sannrar þekkingar á honum.

Þekkja hann með því að verða eins og hann er

Frelsarinn sagði að besta leiðin til að þekkja Guð sé að verða eins og hann er. Hann kenndi: „Hvers konar menn ættuð þér því að vera? Sannlega segi ég yður, alveg eins og ég er.“9

Verðugleiki er nauðsynlegur til að verða eins og hann er. Hann bauð: „[Helgið] yður. Já, [hreinsið] hjörtu yðar, [laugið] hendur yðar …, svo að ég geti gjört yður [hrein].“10 Þegar við hyggjumst verða eins og hann er, þá þurfum við að byrja á því að iðrast og hljóta fyrirgefningu hans og hann mun hreinsa sálir okkar.

Drottinn gaf okkur þetta loforð til að gera okkur kleift að þróast í átt að föðurnum: „Svo ber við, að sérhver sál, sem hverfur frá syndum sínum og kemur til mín og ákallar nafn mitt og hlýðir rödd minni og heldur boðorð mín, mun sjá ásjónu mína og vita að ég er.“11

Frelsarinn hreinsar okkur, fyrir trú okkar á friðþægingarfórn hans, læknar okkur og gerir okkur kleift að þekkja sig með því að hjálpa okkur að verða eins og hann er. Mormón kenndi: „Biðjið þess vegna til föðurins, … af öllum hjartans mætti, … að þér megið verða synir [og dætur] Guðs; að þegar hann birtist, þá verðum vér honum [lík].“12 Þegar við keppum að því að verða eins og Guð er, þá getur hann gert meira úr okkur en við sjálf gætum nokkurn tíma gert.

Þekkja hann með því að fylgja leiðbeinendum

Guð hefur séð okkur fyrir fyrirmyndum og leiðbeinendum, okkur til hjálpar í þessari viðleitni. Ég ætla að nefna einn af mínum leiðbeinendum, öldung Neal A. Maxwell. Hann reyndi stöðugt að fara að vilja föðurins í þeirri viðleitni að verða eins og Guð er.

Fyrir yfir 20 árum miðlaði hann mér tilfinningum sínum eftir að hafa verið greindur með krabbamein stuttu áður. Hann sagði við mig: „Ég vil vera í réttu liði hérna megin [hulunnar] eða hinu megin. Ég vil ekki sitja á hliðarlínunni. Ég vil vera með í leiknum.“13

Næstu vikurnar var hann tregur til að biðja Guð um að lækna sig; hann vildi bara gera vilja Guðs. Eiginkona hans, Colleen, benti á að fyrsta ákall Jesú í Getsemanegarðinum hefði verið: „Ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Það var aðeins eftir það að frelsarinn sagði: „Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“14 Hún hvatti öldung Maxwell til að fylgja fordæmi frelsarans, að biðja sér líknar og síðan að beygja sig undir vilja Guðs, sem hann og gerði.15

Eftir að hafa farið í gegnum erfiðar og umfangsmiklar meðferðir í um ár, fór hann aftur algjörlega heilskiptur „í leikinn.“ Hann þjónaði í sjö ár eftir það.

Ég starfaði að nokkrum verkefnum með honum á hans efstu árum. Ég fann gæsku hans, samúð og elsku. Ég varð vitni að aukinni andlegri fágun hans í hans viðvarandi þjáningum og áframhaldandi þjónustu, er hann kepptist við að vera eins og frelsarinn er.

Hin endanlega fyrirmynd og leiðbeinandi, sem við höfum öll aðgang að, er Drottinn og frelsari okkar, Jesús Kristur, sem sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“16 „Kom, … og fylg mér.“17

Mínir ungu bræður og systur, að þekkja Guð er tilgangur lífsins. „En það er hið eilífa líf að [við megum] þekkja … hinn eina sanna Guð og þann sem [faðirinn sendi], Jesú Krist.“18

„Eigum við ekki að halda áfram í þágu svo mikils málstaðar? … Hugrekki, bræður, og áfram, áfram til sigurs!“19

Guð þekkir ykkur og býður ykkur að þekkja sig. Biðjið til föðurins, lærið ritningarnar, sækist eftir að gera vilja Guðs, keppið að því að verða eins og frelsarinn og fylgið réttlátum leiðbeinendum. Þegar þið gerið það, munið þið komast til þekkingar á Guði og Jesú Kristi, og þið munið erfa eilíft líf. Þetta er boð mitt til ykkar, sem vígt sérstakt vitni þeirra. Þeir lifa. Þeir elska ykkur. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.