2010–2019
Bjargfastar konur
Apríl 2017


Bjargfastar konur

Bjargfastar konur eru lærisveinar með frelsarann Jesú Krist sem miðpunkt lífs síns og hafa von í gegnum loforðið um friðþægingarfórn hans

Ástkæru systur, hve mikið við elskum ykkur og þökkum ykkur fyrir góðhjörtuð og áköf viðbrögð ykkar við boði Æðsta forsætisráðsins og #iwasastranger átakið. Haldið áfram að biðja, hlustið á hvísl andans og takið af skarið þegar andinn hvetur ykkur til.

Hvort sem ég ferðast innan eða utanlands þá er það ekki óvenjulegt að einhverjir spyrji mig: „ Manstu eftir mér?“ Af því að ég er óþægilega ófullkomin þá verð ég að viðurkenna að ég er ekki mjög góð í að muna nöfn. Hins vegar þá man ég hina raunverulegu ást himnesks föður sem hann hefur leyft mér að skynja er ég hitti dýrmætar dætur hans og syni.

Nýlega fékk ég tækifæri til að heimsækja kærar konur sem eru í fangelsi. Er við kvöddumst hjartanlega þá kom ein yndisleg kona til mín og grátbað mig: „Systir Burton, viltu ekki gleyma okkur.“ Ég vona að hún og aðrar sem vilja láta muna eftir sér, skynji það er ég deili nokkrum hugsunum með ykkur.

Bjargfastar konur á degi frelsarans: Með Drottin Jesú Krist sem miðpunkt í lífinu.

Í gegnum aldir hafa systur okkar sýnt fram á hina trúföstu fyrirmynd lærisveinsins sem við stefnum einnig að. „Í Nýja testamentinu eru frásagnir um bjargfastar konur, nafngreindar eða ónafngreindar, sem iðkuðu trú á Jesú Krist [og friðþægingu hans,] lærðu og tileinkuðu sér kenningar hans og báru vitni um þjónustu hans, kraftaverk og hátign. Þessar konur urðu fyrirmyndar lærisveinar og mikilvæg vitni í sáluhjálparverkinu.“1

Ljósmynd
Bjargfastar konur

Hugleiðið þessar frásagnir úr Lúkasarguðspjalli. Fyrst var það meðan á þjónustu frelsarans stóð:

„Eftir þetta … fór [Jesús] um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf

Og konur nokkrar [bjargfastar], … María kölluð Magdalena … og Jóhanna … , og Súsanna og margar aðrar og þær hjálpuðu þeim.“2

Næst, eftir upprisu hans:

„Og konur nokkrar [bjargfastar] … fóru árla til grafarinnar;

en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust enda hafa séð … engla í sýn, er sögðu hann lifa.“3

Ég hef oft lesið og litið framhjá þessu ómarkverða orðtaki „konur nokkrar [bjargfastar],“ en nýlega hafa þessi orð virst hrópa á mig er ég hef íhugað þau meira. Skoðið þessi samheiti einnrar merkingar orðsins bjargföst eins og það tengist trúföstum bjargföstum konum: „Sannfærðar,“ „jákvæðar,“ „öruggar,“ „áveðnar,“ „skýrar,“ „tryggar,“ og „áreiðanlegar.“4

Er ég hugleiddi þessi kraftmiklu lykilorð, þá minntist ég tveggja bjargfastra kvenna úr Nýja testamentinu sem báru jákvæðan, öruggan, ákveðinn og tryggan vitnisburð um frelsarann. Þó að þær, eins og við, væru ófullkomnar konur þá er vitni þeirra hvetjandi.

Munið eftir ónafngreindu konunni við brunninn sem bauð öðrum að koma og sjá hvað hún hefði lært af frelsaranum? Hún bar sitt bjargfasta vitni í spurnarformi: „‚Skyldi hann vera Kristur?‘5 Vitnisburður hennar og boð voru svo áhrifamikil að „margir … trúðu á hann.“6

Ljósmynd
Marta ber vitni um frelsarann

Eftir dauða bróður síns, Lazarus, þá sagði Marta, ástkær lærisveinn og vinur Drottins, það sem hlýtur að hafa verið mjög tilfinningaþrungið: „Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.“ Íhugið fullvissu hennar er hún hélt áfram: „En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“ Hún hélt áfram: „Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn“7

Við lærum frá þessum systrum að bjargfastar konur hafa frelsarann Jesú Krist að miðpunkti lífs síns og hafa von í gegnum loforðið um friðþægingarfórn hans.

Bjargfastar sáttmálskonur í endurreisninni: Fúsar til að fórna

Til forna, færðu bjargfastar konur fórnir er þær báru vitni og lifðu eftir kenningum Jesú. Bjargfastar konur á tímum endurreisnarinnar gerðu slíkt hið sama. Drusilla Hendricks og fjölskylda hennar voru á meðal þeirra nýju meðlima sem þjáðust á meðan á ofsóknum hinna heilögu stóð í Clay sýslu, Missouri. Eiginmaður hennar lamaðist varanlega í bardaganum um Crooked River. Hún sat uppi með að annast hann og að sjá fyrir fjölskyldu þeirra.

„Á sérstaklega erfiðum tíma, þegar fjölskyldan var matarlaus þá minnist hún þess að rödd hafi sagt henni: „Bíddu aðeins, Drottinn mun sjá um ykkur.“

Þegar óskað var eftir því að sonur hennar byði sig fram í hersveit Mormóna, þá veitti hún því fyrst viðnám og glímdi við Drottin í bæn þar til að „það var eins og rödd segði við hana: ‚Viltu erfa æðstu dýrðargráðuna?‘ Eðlilega svaraði hún því játandi og röddin hélt áfram: ‚Hvernig heldur þú að þér takist það nema með því að færa stærstu fórnirnar?‘“8

Við lærum af þessari bjargföstu konu að það að vera lærisveinn og að halda sáttmála krefst þess að við séum fúsar til að færa fórnir.

Bjargfastar konur í dag: Að minnast hans og undirbúa fyrir komu hans

Ég hef minnst á bjargfastar konur á tímum frelsarans og á fyrstu dögum endurreisnarinnar, en hvað með fordæmi lærisveina og vitnisburði bjargfastra kvenna á okkar tímum?

Ljósmynd
Systir Burton með systrum í Asíu

Í síðustu ferð minni til Asíu varð ég enn og aftur innblásin af mörgumbjargföstum konum sem ég hitti. Ég varð sérstaklega hrifin af fyrstu kynslóðar meðlimum í Indlandi, Malasíu og Indónesíu, sem leggja sig fram við að lifa eftir menningu fagnaðarerindisins á heimilum sínum, stundum kostar það fórnir því að lífið í fagnaðarerindinu fer ekki alltaf saman við menningu fjölskyldna og þjóða. Bjargfastar konur, af mörgum kynslóðum, sem ég hitti í Hong Kong og Taiwan halda áfram að blessa líf fjölskyldna sinna, kirkjuþegna og samfélaga með því að halda áfram að hafa frelsarann að miðpunkti lífs síns og vera fúsar til að fórna til að halda sáttmála sína. Samskonar bjargfastar konur er hægt að sjá alls staðar í kirkjunni.

Ljósmynd
Systir Burton með systrum í Asíu

Ein bjargföst kona , sem hefur blessað líf mitt í tugi ára, hefur barist síðustu 15 árin við erfiðan og framsækinn sjúkdóm sem dregur úr henni mátt og kallast frymiskornavöðvabólga. Þó að hún sé bundin við hjólastól þá vinnur hún að því að vera þakklát og heldur uppi „Get Gert listanum“ sínum, lista yfir það sem hún getur gert, eins og ég get andað, ég get gleypt, ég get beðið og ég get skynjað elsku frelsara míns. Hún ber sitt Krists-miðaða bjargfasta vitni næstum því daglega fyrir fjölskyldu og vini.

Ég heyrði sögu Jenny nýlega. Hún hafði þjónað í trúboði og foreldrar hennar skildu þegar hún var í trúboði sínu. Hún sagði frá því hvernig það „hræddi úr henni líftóruna“ að koma heim. Í lok trúboðs síns á Ítalíu, er hún kom við í trúboðsheimilinu á leið sinni til Bandaríkjanna, þjónaði henni bjargföst kona, eiginkona trúboðsforsetans, er hún einfaldlega burstaði hár hennar.

Árum seinna var það önnur bjargföst kona, sem var líknarfélagsforseti stiku og lærisveinn Jesú Krists, að nafni Terry – sem blessaði líf Jenny þegar hún var kölluð sem líknarfélagsforseti deildar. Á þeim tíma var Jenny að vinna að doktorsritgerð sinni. Terry þjónaði ekki bara sem kennari fyrir Jenny, í sínu leiðtogahlutverki, heldur sat hún einnig með henni í 10 klukkutíma á spítala þegar Jenný fékk þá alvarlegu sjúkdómsgreiningu að hún væri komin með hvítblæði. Terry heimsótti Jenný á spítalann og keyrði hana í læknatímana hennar. Jenný játar: „Ég held að ég hafi kastað nokkrum sinnum upp í bíl hennar.“

Þrátt fyrir veikindi hennar þá hélt Jenný áfram að þjóna hetjulega sem líknarfélagsforseti deildar sinnar. Jafnvel þegar henni leið sem verst, hringdi hún samt, sendi textaskilaboð og tölvupósta úr rúminu og hún bauð systrum að koma og heimsækja sig. Hún póstlagði kort og skilaboð til fólks og elskaði systur sínar úr fjarlægð. Þegar deildin óskaði eftir ljósmynd af forsætisráði hennar fyrir deildarsöguna þá var þetta það sem þeir fengu. Vegna þess að Jenny er sjálf bjargföst kona , þá bauð hún öllum að deila byrðum hver annars, einnig hennar byrði.

Ljósmynd
Forsætisráð líknarfélags deildar með hatta

Sem bjargföst kona, bar Jenny vitni: „Við erum ekki aðeins hér til að bjarga öðrum heldur til að bjarga okkur sjálfum. Sú sáluhjálp kemur frá því að vinna í félagi við Jesú Krist, frá því að skilja náð hans og friðþægingu og kærleikstilfinningar hans gagnvart konum kirkjunnar. Það gerist í gegum einfalda hluti eins og að bursta hár einhvers, senda innblásin, skýr, opinberandi skilaboð vonar og náðar eða að leyfa öðrum að þjóna okkur.“9

Systur, þegar við höfum verið annars hugar, efins, kjarklausar, syndugar, sorgmæddar eða úttaugaðar, megum við þá þiggja boð Drottins um að drekka úr lifandi vatni hans eins og bjargfasta konan við brunninn gerði, og bjóðum öðrum að gera slíkt hið sama er við berum einnig okkar bjargfasta vitni: „Skyldi hann vera Kristur?“

Þegar lífið virðist óréttlátt, eins og Mörtu hefur eflaust fundist er bróðir hennar dó, þegar við upplifum hjartasorg einmanaleika, ófrjósemi, missi ástvina, töpuð tækifæri fyrir hjónaband og fjölskyldur, brostin heimili, veikjandi þunglyndi, líkamleg eða geðræn veikindi, kæfandi álag, kvíða, fíkn, fjárhagsvandræði og óteljandi aðra möguleika, megum við þá minnast Mörtu og kunngera okkar álíka bjargfasta vitni: „Já, herra … [og] ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur.“

Ljósmynd
Konur við krossinn

Megum við muna eftir þeim bjargföstu konum sem neituðu að yfirgefa okkar ástkæra frelsara meðan á óbærilegri upplifun hans stóð á krossinum og fengu klukkustundum síðar að njóta þeirra forréttinda að vera meðal bjargfastra vitna um dýrðlega upprisu hans. Verum ætíð nálægt honum í bæn og ritninganámi. Nálgumst hann með því að undirbúa okkur og meðtaka hin helgu tákn um friðþægingarfórn hans vikulega í sakramentishelgiathöfninni, um leið og við höldum sáttmála okkar með því að þjóna öðrum þegar þeir eru í þörf. Kannski gætum við þá verið hluti af þessum bjargföstu konum, lærisveinum Jesú Krists, sem munu fagna dýrlegri endurkomu hans þegar hann snýr aftur.

Ljósmynd
Frelsarinn við síðari komuna

Systur, ég ber vitni um ástríka himneska foreldra, frelsara okkar Jesú Krist og takmarkalausa friðþægingarfórn hans fyrir okkar hönd. Ég veit að spámaðurinn Joseph Smith var forvígður sem spámaður endurreisnarinnar. Ég veit að Mormónsbók er sönn og var þýdd með krafti Guðs. Við höfum verið blessuð með lifandi spámanni á okkar tímum, Thomas S. Monson forseta. Monson. Um þennan sannleik er ég viss! Í nafni Jesú Krists, amen

Ath: Systir Burton var leyst af sem aðalforseti Líknarfélagsins 1. apríl 2017.