2010–2019
Ver óhagganleg í trausti á Guð
Apríl 2017


Ver óhagganleg í trausti á Guð

Ef við erum staðföst og efumst ekki í trú okkar, mun Drottinn auka hæfni okkar til að rísa ofar áskorunum lífsins.

Kæru bræður og systur, ég ætla að byrja á því að bera vitni um að ég veit að Thomas S. Monson forseti er spámaður Guðs á okkar tíma. Ráðgjafar hans í Æðsta forsætisráðinu og postularnir tólf eru í raun spámenn, sjáendur og opinberarar. Þeir eru fulltrúar Drottins Jesú Krists og hafa rétt á að lýsa yfir vilja hans, eins og þeim opinberast. Ég ber vitni um að það felst öryggi í því að fylgja leiðsögn þeirra. Drottinn innblæs þá til að beina kröftum sínum að því að efla trú okkar á himneskan föður og son hans, Jesú Krist, og á friðþægingu hans, svo við látum ekki hugfallast yfir áskorunum okkar tíma.

Í Mormónsbók lesum við um mann að nafni Ammon, sem var sendur frá Sarahemlalandi til landsins Lehí-Nefí, til að leita frétta af bræðrum sínum. Þar hitti hann Limí konung og fólk sitt, sem Lamanítar höfðu í ánauð. Limí konungur lét hvetjast af því sem Ammon sagði honum um fólkið sitt í Sarahemla. Limí konungur fylltist svo mikilli von og gleði að hann lét fólk sitt koma saman við musterið og sagði:

„Lyftið því höfði, fagnið og treystið Guði. …

„…Ef þér snúið yður til Drottins með einlægum ásetningi … þjónið honum af allri þeirri kostgæfni, sem hugur yðar býr yfir, … þá mun hann að eigin vilja og hyggju leysa yður úr ánauð.“1

Trú fólks Limís konungs styrktist svo af orðum Ammons að það gerði sáttmála við Guð um að þjóna honum og halda boðorð hans, þótt aðstæður þeirra væru erfiðar. Sökum trúar þess var því kleift að gera áætlun og flýja undan Lamanítunum.2

Bræður og systur, hugleiðið mikilvægi þeirra orða sem Limí konungur gaf fólki sínu og merkingu þeirra fyrir okkur. Hann sagði „Lyftið því höfði, fagnið og treystið Guði.“ Með þessum orðum bauð Limí fólki sínu að líta til framtíðar með augum trúar; að láta af ótta og tileinka sér bjartsýni og von sem hljótast af trú; og setja traust sitt óhikað á Guð í öllum aðstæðum.

Jarðlífið er prófraun, til að sannreyna hvort við gerum allt sem Drottinn Guð býður okkur.3 Hún krefst óhagganlegrar trúar á Krist, jafnvel í miklum erfiðleikum. Hún krefst þess að við sækjum fram í staðfastri trú á Krist, leidd af andanum, í trausti þess að Guð muni sjá fyrir þörfum okkar.4

Þegar dró að lokum jarðneskrar þjónustu frelsarans, stuttu áður en hann var tekinn höndum, þá sagði hann þetta við lærisveina sína: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“5

Ígrundið með mér um stund – Jesús Kristur, hinn eingetni sonur föðurins, lifði syndlausu lífi og sigraðist á öllum freistingum og þjáningum og þrautum heimsins. Honum blæddi í Getsemane; hann upplifði hræðilegri sársauka en orðum er á komandi. Hann tók á sig sjálfan allan okkar sársauka og sjúkdóma. Hann er fús til að hjálpa – að hjálpa sérhverju okkar – hver sem byrði okkar er. Með lífi sínu, þjáningum, dauða og upprisu, ruddi hann úr vegi öllum hindrunum sem komu í veg fyrir að við fengjum notið gleði og friðar á þessari jörðu. Afrakstur friðþægingar hans nær til allra sem taka á móti honum, afneita sjálfum sér, taka upp kross sinn og fylgja honum sem sannir lærisveinar.6 Við munum því styrkjast og byrðar okkar verða léttari, ef við iðkum trú á Jesú Krist og friðþægingu hans, og fyrir hans tilverknað munum við sigrast á heiminum.

Bræður og systur, þegar við ígrundum styrkinn og vonina sem við getum hlotið frá frelsaranum, þá höfum við ástæðu til að lyfta höfði, fagna og sækja fram án þess að efast, því að „Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. … Sá [maður er] tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum.“7

Limí konungur sagði líkt þessu: „Snúið yður til Drottins með einlægum ásetningi … og þjónið honum af allri þeirri kostgæfni, sem hugur yðar býr yfir, ef þér gjörið þetta, þá mun hann að eigin vilja og hyggju leysa yður úr ánauð.“8

Hlýðið á orð frelsarans sjálfs er hann sárbiður okkur:

„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. …

„Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.“ …

Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig.“9

Guð blessar okkur samkvæmt trú okkar.10 Trú er sá eiginleiki að lifa eftir guðlegum tilgangi og eilífri yfirsýn. Trú er hagnýt regla sem innblæs kostgæfni. Hún er nauðsynlegt, lifandi afl, sem sýnir sig í þrá, jákvæðu viðhorfi og fúsleika til að gera allt sem Guð og Jesús Kristur bjóða okkur. Hún knýr okkur á hnéin til að biðja Drottin um handleiðslu og að rísa upp í trausti þess að við hljótum það sem samræmist vilja hans.

Fyrir mörgum árum, er ég þjónaði sem trúboðsforseti, hringdu í mig foreldrar eins af okkar kæru trúboðum og sögðu mér frá því að systir hans hefði látist. Ég minnist þessarar ljúfsáru stundar, að ég og trúboðinn ræddum um hina dásamlegu sáluhjálparáætlun Guðs fyrir börn hans og hvernig vitneskja hans um hana gæti huggað hann.

Þótt hann hafi verið agndofa og sorgmæddur yfir þessum atburði, þá gladdist þessi trúboði yfir lífi systur sinnar, í gegnum tárin og trú sína á Guð. Hann setti traust sitt algjörlega á hina mildu miskunn Drottins. Staðráðinn sagði hann mér að hann hyggðist halda áfram að þjóna í trúboði sínu, af trú og kostgæfni, svo hann mætti verða verðugur fyrirheita Guðs fyrir hann og fjölskyldu hans. Á þessari neyðarstundu snéri þessi trúfasti trúboði hjarta sínu að Guði, setti allt sitt traust á hann og einsetti sér að nýju að þjóna Drottni af trú og fyllstu kostgæfni.

Bræður og systur, ef við sýnum Guði ekki óhagganlegt traust og höfum sterka þrá til að þjóna honum, þá geta sárar upplifanir jarðlífsins orðið til þess að okkur finnst við ofhlaðin byrðum og þannig getum við misst löngun til að lifa fyllilega eftir fagnaðarerindinu. Án trúar munum við að lokum verða vanhæf til að skilja hver vilji Guðs er varðandi það sem gerist síðar í lífi okkar.11

Á slíkum stundum prófrauna, mun óvinurinn – sem alltaf fylgist með – reyna að nota rök okkar og ályktanir gegn okkur. Hann mun reyna að telja okkur trú um að gagnslaust sé að lifa eftir reglum fagnaðarerindisins. Hafið í huga að viska hins náttúrlega manns „veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska.“12 Hafið í huga að Satan „er óvinur Guðs og stríðir stöðugt gegn honum og lokkar og hvetur [okkur] til syndar og til þess að gjöra sífellt það, sem illt er.“13 Við megum ekki láta hann blekkja okkur; því ef við gerum það, munum við hrasa í trúnni og missa getu til að hljóta blessanir Guðs.

Ef við erum staðföst og efumst ekki í trú okkar, mun Drottinn auka hæfni okkar til að rísa ofar áskorunum lífsins. Við munum geta sigrast á neikvæðri fljótfærni og þróað hæfni til að sigrast á því sem jafnvel kann að sýnast óyfirstíganlegt. Það var þannig sem fólki Limís konungs tókst að komast undursamlega undan ánauð Lamanítanna.

Bræður og systur, ég hvet ykkur til að setja allt traust ykkar á Guð og kenningar spámanna hans. Ég hvet ykkur til að endurnýja sáttmála ykkar við Guð, að þjóna honum af öllu hjarta, þrátt fyrir erfiðar aðstæður lífsins. Ég ber vitni um að fyrir óhagganlega trú á Krist, munið þið losna undan ánauð syndar, efasemdar, vantrúar, óhamingju, þjáningar og þið munið hljóta allar fyrirheitnar blessanir ykkar kærleiksríka föður.

Ég ber vitni um að Guð er raunverulegur. Hann lifir. Hann elskar okkur. Hann hlustar á bænir okkar, bæði þegar við erum glöð og líka efagjörn, döpur og örvæntingafull. Ég ber vitni um að Jesús Kristur er frelsari heimsins. Hann er lausnari okkar.

Ég lýk orðum mínum í dag með texta sálmsins „Ei nú, en á komandi tíð,“ sem er í portúgölsku sálmabókinni:

Ef skýjabólstrar hrannast upp og skyggja á hjartans gleði,

ef þrautir þjaka, ei miss þá mátt, því brátt mun birta til.

Oss Jesús leiðir sér við hlið út úr heimsins byl.

Ef hlustum á hans rödd, vér vöxum í hans náð.

Ver óhagganleg í trausti á Guð og á öll hans ráð.

Æ syng honum lof og dýrð, því brátt hann skýrir allt.14

Ég segi þetta í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.