2010–2019
Að greiða veg
Apríl 2017


Að greiða veginn

Þótt Aronsprestdæmið og Melkísedeksprestdæmið hafi ólík hlutverk og valdsvið, þá eru þau óaðskiljanleg í verki sáluhjálpar.

Þegar ég var 30 ára hóf ég störf hjá smásölufyrirtæki í Frakklandi. Dag einn var ég kallaður inn í skrifstofu yfirmanns fyrirtækisins, sem er góður maður af annarri trú. Mér brá við spurningu hans: „Ég komst að því nú að þú ert prestur í kirkjunni þinni. Er það rétt?

Ég svaraði: „Já, það er rétt. Ég hef prestdæmið.“

Augljóslega hrifinn af svari mínu, spurði hann ennfremur: „Lærðir þú í guðfræðideild?“

„Já, auðvitað,“ svaraði ég, „frá 14 til 18 ára og ég læri trúarlexíur næstum dag hvern!“ Hann féll næstum af stólnum sínum.

Mér til furðu, þá bað hann mig nokkrum vikum síðar að koma aftur inn í skrifstofuna sína til að bjóða mér stöðu framkvæmdastjóra í einu dótturfyrirtækjanna. Ég varð hissa og lét þær áhyggjur í ljós að ég væri of ungur og óreyndur til að gegna slíkri mikilvægri ábyrgðarstöðu. Hann brosti góðlátlega og sagði: „Það kann að vera rétt, en það skiptir ekki máli. Ég er kunnugur lífsmáta þínum og veit hvað þú hefur lært í kirkjunni þinni. Ég þarf á þér að halda.“

Hann hafði rétt fyrir sér um það sem ég hafði lært í kirkjunni. Árin sem fylgdu í kjölfarið voru erfið og ég veit ekki hvort ég hefði náð nokkrum árangri án reynslunnar sem ég hlaut af þjónustu minni í kirkjunni, allt frá unga aldri.

Ég naut þeirrar blessunar að alast upp í fámennri grein. Unga fólkið var kallað til virkrar þátttöku á öllum sviðum kirkjunnar, vegna fámennis okkar. Ég var önnum kafinn og naut þess að koma að gagni. Á sunnudögum þjónaði ég við sakramentisborðið, í prestdæmissveit minni og starfaði í ýmsum öðrum köllunum. Á virkum dögum fór ég oft með föður mínum og öðrum fullorðnum prestdæmishöfum sem félagi í heimiliskennslu, hughreysti sjúka og hrjáða og liðsinnti nauðstöddum. Engum virtist finnast ég of ungur til að þjóna og jafnvel sem leiðtogi. Sjálfum fannst mér þetta allt sjálfsagt og eðlilegt.

Þjónustan sem ég innti af höndum á unglingsárunum efldi vitnisburð minn og grundvallaði líf mitt í fagnaðarerindinu. Ég var umlukinn góðum og samúðarfullum mönnum, sem voru grundvallaðir í því að nota prestdæmi sitt til að blessa aðra. Ég vildi verða eins og þeir. Með því að þjóna með þeim þá lærði ég meira en mér var ljóst á þeim tíma, að vera leiðtogi í kirkjunni og líka í heiminum.

Margir ungir menn sem nú sækja þennan fund í kvöld hafa Aronsprestdæmið. Þegar ég horfi yfir fjöldann hér, þá sé ég að margir ykkar sitja við hlið fullorðinna manna, kannski feðra ykkar, afa, eldri bræðra eða prestdæmisleiðtoga – sem allir hafa Melkísedeksprestdæmið. Þeim þykir vænt um ykkur og komu hingað af þeirri ríku ástæðu að vera með ykkur.

Samansöfnun kynslóða sýnir dásamlega einingu og bræðralag sem ríkir á milli hinna tveggja prestdæma Guðs. Þótt Aronsprestdæmið og Melkísedeksprestdæmið hafi ólík hlutverk og valdsvið, þá eru þau óaðskiljanleg í verki sáluhjálpar. Þau eru samofin og hafa mikla þörf fyrir hvort annað.

Hina fullkomnu fyrirmynd að hinu nána sambandi á milli prestdæmanna tveggja má finna í samskiptum Jesú og Jóhannesar skírara. Er hægt að ímynda sér Jóhannes skírara án Jesú? Hvernig hefði verk frelsarans verið, ef Jóhannes hefði ekki greitt honum veg?

Jóhannesi skírara var veitt eitt göfugasta hlutverk allra tíma: „Að greiða Drottni veg,“1 að skíra hann með vatni og búa fólk undir að taka á móti honum. Þessi „réttláti og heilagi maður,“2 sem hafði verið veitt lægra prestdæmið, var algjörlega meðvitaður um hlutverk sitt, mikilvægi þess og takmarkandi valdsvið.

Fólk flykktist að Jóhannesi til að hlýða á hann og láta skírast af honum. Hann naut sæmdar og lotningar sem réttmætur maður Guðs. Þegar Jesús hins vegar birtist, þá dró Jóhannes sig auðmjúkur í hlé fyrir þeim sem var æðri honum sjálfum og sagði: „Ég skíri með vatni. Mitt á meðal yðar stendur sá, … sem kemur eftir mig, og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa.“3

Jesús Kristur, hinn eingetni föðurins, sem hafði æðra prestdæmið, viðurkenndi auðmjúkur valdssvið Jóhannesar. Um hann sagði frelsarinn: „Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri [er] en Jóhannes skírari.“4

Íhugið hvað gerast mundi í prestdæmissveitum okkar, ef samband prestdæmishafa prestdæmanna tveggja væri innblásið af fyrirmynd Jesú og Jóhannesar skírara. Kæru ungu bræður Aronsprestdæmisins, hlutverk ykkar er hið sama og Jóhannesar, að „greiða veginn,“5 fyrir hið mikla verk Melkísedeksprestdæmsins. Það gerið þið á marga ólíka vegu. Þið þjónustið helgiathafnir skírnar og sakramentis. Þið undirbúið fólk fyrir Drottin, með því að prédika fagnaðarerindið og „vitja heimila allra meðlima,“6 og með því að „vaka stöðugt yfir söfnuðinum.“7 Þið veitið fátækum og þurfandi liðsinni, með því að safna föstufórnum og gerið ykkar til að annast samkomuhús kirkjunnar og aðrar veraldlegar eigur hennar. Hlutverk ykkar er mikilvægt, ómissandi og heilagt.

Mínir fullorðnu bræður, hvort heldur þið eruð feður, biskupar, leiðbeinendur í Piltafélaginu eða einfaldlega Melkísedeksprestdæmishafar, þá getið þið fylgt fordæmi frelsarans með því að bjóða þeim bræðrum sem hafa lægra prestdæmið að starfa með ykkur. Í raun þá kemur það boð frá Drottni sjálfum: Hann sagði: „Takið þess vegna með yður þá, sem vígðir eru hinu lægra prestdæmi, og sendið þá á undan yður til að setja yður mót, greiða veginn og sækja þau mót, sem þér getið eigi sótt.“8

Með því að bjóða yngri bræðrum ykkar að „greiða veginn,“ þá gerið þið þeim kleift að skilja forréttindi sín og hið helga vald sem þeir hafa. Með því að gera það, þá gerið þið þeim líka kleift að greiða sjálfum sér veg að því að hljóta og iðka æðra prestdæmið.

Ég ætla að segja frá sannri sögu um Alex, hlédrægan, ígrundaðan og greindan ungan prest. Sunnudag einn kom biskup Alex að honum einum í kennslustofu í mikilli geðshræringu. Ungi maðurinn útskýrði hve sárt það væri fyrir hann að sækja kirkju án föður síns, sem ekki var meðlimur. Hann sagði síðan í tárum að kannski væri betra að hann yfirgæfi kirkjuna.

Af einlægri umhyggju fyrir þessum unga manni, þá virkjaði þessi biskup þegar í stað deildarráðið til að koma Alex til hjálpar. Áætlun hans var einföld: Til að halda Alex virkum og hjálpa honum að þróa hugheilan vitnisburð um fagnaðarerindið, þá var nauðsynlegt að gott fólk væri honum innan handar og hann hefði eitthvað mikilvægt fyrir stafni.

Brátt naut hann athygli prestdæmisbræðranna og allra meðlima deildarinnar, sem sýndu honum ástúð og stuðning. Háprestaleiðtoganum, sem bjó yfir mikilli trú og elsku, var falið að vera félagi hans í heimiliskennslu. Biskupsráðið tók hann undir sinn verndarvæng og gerði hann að sínum nánasta samstarfsmanni.

Biskupinn sagði: „Við létum Alex hafa nóg fyrir stafni. Hann var sætavísir við hjónavígslur, útfarir, aðstoðaði mig við grafarvígslur, skírði nokkra nýja meðlimi, vígði pilta til embætta Aronsprestdæmisins, kenndi æskufólkinu, kenndi með trúboðum, opnaði bygginguna fyrir ráðstefnur og læsti henni síðla kvölds eftir ráðstefnur. Hann vann að þjónustuverkefnum, fór með mér í heimsóknir til aldraðra meðlima á líknardeildum, flutti ræður á sakramentissamkomum, þjónustaði sakramentið í sjúkrahúsum eða á heimilum sjúkra og varð einn af þeim örfáu sem ég gat algjörlega reitt mig á sem biskup.“

Ljósmynd
Alex og biskupinn hans

Alex breyttist smán saman. Trú hans á Drottin styrktist. Hann öðlaðist aukið sjálfstraust og aukinn kraft í því prestdæmi sem hann hafði. Biskupinn sagði síðan: „Alex hefur verið og mun ætíð verða ein stærsta blessun starfstíma míns sem biskups. Að starfa með honum, hafa verið mikil forréttindi. Ég trúi einlæglega að enginn piltur hafi farið út á trúboðsakurinn betur undirbúinn af þjónustu í prestdæmi sínu.“9

Kæru biskupar, innifalið í vígslu ykkar og embættisísetningu sem biskup deildar ykkar, þá hafði þið þá helgu köllun að þjóna sem forsetar Aronsprestdæmisins og prestasveitarinnar. Ég er meðvitaður um ykkar þungu byrðar, en þið ættuð að hafa ábyrgð ykkar gagnvart þessum ungu mönnum í algjöru fyrirrúmi. Þið megið ekki vanrækja þessa mikilvægu ábyrgð eða fela hana öðrum.

Ég hvet ykkur til að ígrunda stöðu hvers ungs Aronsprestdæmishafa í deild ykkar. Engum þeirra ætti nokkurn tíma að finnast hann utanveltu eða gagnslaus. Er einhver piltur sem þið eða aðrir prestdæmisbræður getið liðsinnt? Bjóðið honum að þjóna með ykkur. Of oft reynum við að hafa ofan af fyrir þeim og gera þá að áhorfendum, en best er að þróa trú þeirra og elsku til fagnaðarerindisins með því að gera þeim kleift að efla sig í prestdæmi sínu. Með virkri þátttöku í verki sáluhjálpar, munu þeir tengjast himnum og vakna til meðvitundar um sína guðlegu möguleika.

Aronsprestdæmið er meira en aldurshópur, kennsludagskrá, verkáætlun eða tilnefningartímabil pilta í kirkjunni. Það felst kraftur og vald í því að taka þátt í hinu mikla verki að bjarga sálum – bæði sálum þessara ungu manna, sem hafa prestdæmið, og sálum þeirra sem þeir þjóna. Við skulum láta Aronsprestdæmið skipa þann sess sem því ber, sinn útvalda sess – sem er þjónusta, undirbúningur og afreksverk fyrir alla pilta í kirkjunni.

Kæru bræður í Melkísedeksprestdæminu, ég hvet ykkur til að efla hinn nauðsynlega hlekk sem tengir þessi tvö prestdæmi Guðs. Gerið hinum ungu Aronsprestdæmishöfum kleift að greiða ykkur veginn. Segið þeim ákveðið: „Ég þarfnast þín.“ Þegar þið, hinir ungu Aronsprestdæmishafar, þjónið með ykkar eldri bræðrum, þá bið ég þess að þið munið heyra rödd Drottins segja: „Þú ert blessaður, því að þú munt vinna stórvirki. Sjá þú varst sendur, rétt eins og Jóhannes, til að greiða mér veg.“10 Í nafni Jesú Krists, amen.