2010–2019
Endurkoma og endurgjald
Apríl 2017


Endurkoma og endurgjald

Mikilvægustu markmið okkar ættu að taka mið af endurkomu okkar í návist hans og endurgjaldi eilífra blessana fyrir að gera og halda sáttmála.

Bræður og systur, verkefni mitt er að tala til ykkar og verkefni ykkar er að hlusta á mig. Markmið mitt er að ljúka verkefni mínu áður en þið ljúkið ykkar. Ég reyni að gera mitt besta.

Í áranna rás hef ég tekið eftir að þeir sem fá mestu áorkað í þessum heimi, eru þeir sem hafa lífssýn og setja sér markmið sem heldur þeim við efnið og aðgerðaáætlun til að ná þeim markmiðunum. Að vita hvert ferðinni er heitið og hvernig við ætlum þangað, getur gert lífið skilvirkara og innihaldsríkara.

Sumum finnst erfitt að gera greinarmun á markmiði og áætlun, þar til þeim hefur lærst að markmið er endastaður, en áætlun er leiðin að þeim endastað. Við getum til að mynda sett markmið um að aka á einhvern ákveðinn óþekktan stað, og eins og ykkur er ljóst, kæru systur, þá teljum við karlarnir að við vitum hvernig komast á þangað – sem endar oft á því að við segjum: „Ég veit að þetta hlýtur að vera rétt handan við hornið.“ Eiginkona mín hlýtur að brosa núna. Markmiðið var skýrt, en áætlunin um að komast á staðinn var ekki góð.

„Í upphafi skal endinn skoða“ og því er markmiðasetning nauðsynleg. Áætlanagerð er leiðarvísir að þeim endastað. Lykill að hamingju felst í því að vita hvaða endastaður er í raun fyrirhafnarinnar virði – og síðan að beina kröftum okkar og athygli að því sem leiðir okkur af öryggi á þann stað.

Guð, okkar himneski faðir, hefur veitt okkur fullkomna fyrirmynd að markmiðasetningu og áætlanagerð. Ætlunarverk hans er að „gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika,“1 og til að fá því áorkað, þá hefur hann sáluhjálparáætlunina.

Áætlun okkar ástkæra himneska föður sér okkur fyrir efnislegu jarðlífi, þar sem við getum vaxið, þróast og lært og orðið líkari honum. Það að klæða okkar eilífa anda í efnislíkama, lifa eftir kenningum og boðorðum sonar hans, Drottins Jesú Krists, og þróa eilífa fjölskyldu, gerir okkur kleift, fyrir tilstilli friðþægingar frelsarans, að ná markmiði Guðs um ódauðleika og eilíft líf fyrir börn hans í himneska ríkinu.

Skynsamleg markmiðasetning felur í sér skilning á því að skammtíma markmið eru aðeins skilvirk, ef þau leiða til vel ígrundaðra langtíma markmiða. Ég trúi að einn mikilvægur lykill að hamingju sé að læra hvernig setja skal sjálfum sér markmið og gera áætlun sem fellur að hinni eilífu áætlun himnesks föður. Ef við einblínum á þessa eilífðarleið, munum við óhjákvæmilega snúa aftur í návist hans.

Það er gott að setja sér markmið varðandi lífsstarf okkar, menntun og jafnvel golfleikinn. Það er mikilvægt að setja sér markmið varðandi hjónabandið, fjölskylduna og ráð og kallanir kirkjunnar; það á sérstaklega við um trúboða. Allra mikilvægustu markmiðin ættu þó að falla að hinni eilífu áætlun himnesks föður. Jesús sagði: „En leitið fyrst ríkis Guðs og réttlætis hans, og allt þetta mun bætast yður að auki.“2

Sérfræðingar segja að markmið verði skilvirkari eftir því sem þau eru einfaldari og auðskiljanlegri. Þegar við getum skilgreint markmið með einni einfaldri mynd eða með einu eða tveimur áhrifaríkum og táknrænum hugtökum, þá getur markmiðið orðið hluti af okkur sjálfum og haft afgerandi áhrif á viðhorf okkar og verk. Ég trúi að það séu tvö hugtök, í þessu samhengi, sem eru táknræn fyrir markmið Guðs fyrir okkur og mikilvægustu markmið okkar sjálfra. Hugtökin eru endurkoma og endurgjald.

Mikilvægustu markmið okkar ættu að taka mið af endurkomu okkar í návist hans og endurgjaldi eilífra blessana fyrir að gera og halda sáttmála.

Endurkoma og endurgjald okkar eru háð „[óbifanlegri] trú á [Drottin Jesú Krist] og með því að treysta í einu og öllu“ á verðleika hans og sækja „fram, [staðföst] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna … , [endurnærð] af orði Krists og [standa stöðug] allt til enda.“3

Lúsífer gekkst ekki við áætlun áætlun föður okkar, sem gerði ráð fyrir endurkomu í návist hans og endurgjaldi blessana hans. Lúsífer stóð í raun fyrir uppreisn og reyndi að gjörbreyta áætlun föðurins, með því að svipta Guði dýrð, heiðri og mætti og ætla það sjálfum sér. Af því leiddi að honum var varpað úr návist Guðs, ásamt handbendi sínu, svo hann varð „Satan, já, sjálfur djöfullinn, faðir allra lyga, til að blekkja og blinda mennina og leiða þá ánauðuga að vilja sínum, já, alla þá, sem ekki hlýða á rödd [Drottins].“4

Þar sem Satan valdi svo í fortilverunni, þá fær hann hvorki notið endurkomu,endurgjalds. Hann hefur engan annan tilgang en þann að vera í andstöðu við áætlun föðurins og beitir öllum hugsanlegum brögðum og freistingum, til að draga okkur niður og gera okkur jafn vesæl sér sjálfum.5 Áætlun Satans um að ná fram sínum djöfullegu markmiðum er beint gegn öllum einstaklingum, kynslóðum, menningu og samfélögum. Hann notar háværar raddir – raddir sem reyna að yfirgnæfa hina lágu og hljóðlátu rödd heilags anda, sem megnar að sýna okkur „allt“ sem við þurfum að gera til að fá notið endurkomu og endurgjalds.6

Þær raddir eru þeirra sem vanvirða sannleika fagnaðarerindisins og nota Alnetið, samfélagsmiðla, prentmiðla, útvarp, sjónvarp og kvikmyndir til að lokka til ósiðsemis, ofbeldis, vansæmandi málfars, klúryrða og allskyns óþverra, til að draga athygli okkar frá okkar eilífu markmiðum og áætlunum.

Þessar raddir gætu líka verið velmeinandi einstaklinga, sem hafa blindast af veraldlegri hugmyndafræði manna og reyna að rífa niður trú og eilífðarsýn þeirra sem einfaldlega keppa að endurkomu í návist Guðs og endurgjaldi „[alls], sem faðir [okkar] á.“7

Ég hef komist að því, að þegar ég einblíni á endurkomu og endurgjald hinna fyrirheitnu blessana, þá þarf ég að spyrja sjálfan mig reglubundið: „Hvernig er ég að standa mig?“

Það er eins og að eiga viðtal við sjálfan sig í einrúmi. Ef það hljómar einkennilega, íhugið þá: Hver í þessum heimi þekkir ykkur betur en þið sjálf? Þið þekkið eigin hugsanir, persónulegar gjörðir, þrár og drauma og markmið og áætlanir. Þið vitið betur en nokkur annar hvernig þið standið ykkur á veginum til endurkomu og endurgjalds.

Þegar ég sjálfur fer í slíka naflaskoðun, finnst mér gott að lesa og ígrunda hin áminnandi orð í fimmta kapítula Alma, þar sem Alma spyr: „Hafið þér fæðst andlega af Guði? Hefur mynd hans greypst í svip yðar? Hefur þessi gjörbreyting orðið í hjörtum yðar?“8 Þessar spurningar Alma minna okkur á hver markmið okkar og áætlanir eiga að vera til að keppa að endurkomu og endurgjaldi.

Minnist þessara orða frelsarans: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“9

Eftir því sem við aukum trú okkar á mátt Drottins Jesú Krists til að veita sálum okkar frið, með því að fyrirgefa syndir, endurheimta ófullkomin sambönd, græða andleg sár sem hindra vöxt og efla og styrkja eiginleika Krists, þá munum við verða þakklátari fyrir hin víðtæku áhrif friðþægingar Drottins Jesú Krists.10

Finnið tíma á næstu vikum til að meta lífsmarkmið ykkar og áætlanir og gætið þess vandlega að þau falli að hinni miklu sæluáætlun himnesks föður. Ef þið þurfið að iðrast og breytast, íhugið þá að gera það nú þegar. Gefið ykkur tíma til að íhuga í bænaranda hverju þarf að breyta til að þið getið haldið áfram „með einbeittu augliti á dýrð Guðs.“11

Við verðum að hafa kenningu og fagnaðarerindi Jesú Krists sem þungamiðju markmiða okkar og áætlana. Án hans er verður ekkert eilíft markmið mögulegt og áætlanir okkar um ná okkar eilífu markmiðum, munu vissulega að engu verða.

Ljósmynd
Skjalið „Hinn lifandi Kristur“

Eitt af því sem getur líka hjálpað okkur er skjalið „Hinn lifandi Kristur: Vitnisburður postulanna,“12 sem kynnt var kirkjunni 1. janúar árið 2000. Hafið eintak á áberandi stað og gefið ykkur tíma til að ígrunda hina innblásnu vitnisburði um Krist sem eru gefnir og undirritaðir af hinum sérstöku vitnum.

Ljósmynd
„Hinn lifandi Kristur“ og yfirlýsingin um fjölskylduna

Ég hvet ykkur til að ígrunda þetta skjal, ásamt skjalinu „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“ Við ræðum oft um fjölskylduyfirlýsinguna, en gætið þess að lesa hana með endurleysandi mátt hins lifandi Krists í huga. Án hins lifandi Krists, munu okkar dýpstu þrár ekki uppfyllast. Líkt og segir í yfirlýsingunni um fjölskylduna: „Hin guðlega sæluáætlun gerir fjölskylduböndin varanleg handan grafar. Helgiathafnir og sáttmálar í heilögum musterum gera mönnum mögulegt að komast aftur í návist Guðs og fjölskyldum að sameinast að eilífu.”13

Það getur aðeins gerst vegna þess að lifandi Kristur er frelsari og lausnari heimsins og sá sem friðþægði fyrir okkur.

Þið getið líka íhugað að kanna ritningarnar hvað þetta varðar, til að auka skilning ykkar á þeim sannleiksatriðum sem finna má í skjalinu „Hinn lifandi Kristur.“

Sé skjalið „Hinn lifandi Kristur“ lesið í bænaranda, þá er það líkt því að lesa vitnisburð Matteusar, Markúsar, Lúkasar, Jóhannesar og spámanna Mormónsbókar. Það mun auka trú ykkar á frelsarann og auðvelda ykkur að einblína á hann, er þið fylgið áætlunum ykkar um að ná ykkar eilífu markmiðum.

Þrátt fyrir mistök okkar, annmarka, afsakanir og syndir, þá gerir friðþæging Jesú Krists okkur kleift að iðrast og búa okkur undir endurkomu og endurgjald hinna óviðjafnanlegu blessana sem Guð hefur lofað – að lifa eilíflega hjá föðurnum og syninum, í æðstu dýrðargráðu himneska ríkisins.14

Eins og ykkur er ljóst, þá kemst engin hjá því að deyja; þess vegna þurfa langtíma markmið okkar og áætlanir að taka mið af því að við endurkomu okkar til okkar himneska föður, þá mun okkur endurgoldið með „öllu því sem hann“ hefur áformað fyrir hvert okkar.15

Ég ber vitni um að æðsta markmið jarðlífsins er að lifa eilíflega hjá okkar himnesku foreldrum og okkar ástkæra frelsara, Drottni Jesú Kristi. Það er þó meira en bara okkar markmið – það er líka þeirra markmið. Þeir elska okkur fullkomlega, meira en við fáum fyllilega skilið. Þeir bera algjörlega og eilíflega hag okkar fyrir brjósti. Við erum þeirra verk. Okkar dýrð er þeirra dýrð. Framar öllu þrá þeirendurkomu okkar og að okkur verði  endurgoldin eilíf hamingja í návist þeirra.

Kæru bræður og systur, eftir viku munum við halda pálmasunnudag hátíðlegan – minnast sigurinnreiðar Krists í Jerúsalem. Eftir tvær vikur munum við halda páskana hátíðlega – minnast þess að frelsarinn sigraði dauðann.

Þegar við beinum athygli okkar að frelsaranum á þessum tveimur sérstöku sunnudögum, þá skulum við minnast hans og endurnýja ævilanga skuldbindingu okkar um að halda boðorð hans. Við skulum fara í gagngera naflaskoðun, setja sjálfum okkur markmið og fella áætlanir okkar að áætlun Guðs, svo við fáum að lokum notið okkar dýrmætu forréttinda um endurkomu og endurgjald – sem er auðmjúk bæn mín, í nafni Jesú Krists, amen.