2010–2019
„Gakk með mér“
Apríl 2017


„Gakk með mér“

Vígsla okkar til prestdæmisins er boð frá Drottni um að ganga með honum, gera það sem hann gerir og þjóna eins og hann þjónar.

Kæru bræður mínir í prestdæminu, tilgangur minn í dag er sá að veita ykkur bæði fullvissu og hvatningu í prestdæmisþjónustu ykkar. Að nokkru líkist tilgangur minn frelsarans í samskiptum hans við unga ríka höfðingjann, sem spurði hann: „Hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf? (Matt 19:16). Kannski hafið þið komið á þessa ráðstefnu í álíka tilgangi og þessi ungi maður kom til frelsarans, að velta fyrir ykkur hvort þjónusta ykkar hafi verið þóknanleg. Samtímis því gætuð þið skynjað að það þarf að gera meira – kannski miklu meira! Ég bið þess að ég geti fært ykkur kærleiksríka viðurkenningu Drottins fyrir það sem þið hafið þegar gert og um leið dregið upp hvetjandi mynd af því sem þið gætuð gert, með hans hjálp, sem handhafar hans heilaga prestdæmis.

Unga ríka manninum var boðið að selja allar eigur sínar, gefa þær fátækum og fylgja frelsaranum; ekki er víst að framþróun ykkar krefjist slíkrar fórnar, en líklega verður einhverra fórna af ykkur krafist. Hvort heldur er, þá vona ég að þið „[farið ekki] brott [hryggir],“ líkt og ungi maðurinn gerði. (Sjá Matt 19:20–22.) Ég treysti því að þið haldið fremur „fagnandi leiðar [ykkar]“ (K&S 84:105), af því að þið viljið bæta ykkur og teljið ykkur geta það.

Hvað sem öllu líður, þá er eðlilegt að finna til vanmáttar þegar við íhugum til hvers Drottinn er að kalla okkur. Ef þið aftur á móti segðuð mér að þið væruð algjörlega hæfir til að framfylgja prestdæmisskyldum ykkar, þá hefði ég áhyggjur af því að þið skilduð þær ekki. Ef þið hins vegar segðuð mér að þið vilduð helst gefast upp, því verkið væri langt utan getu ykkar, þá mundi ég vilja hjálpa ykkur að skilja hvernig Drottinn eflir og styrkir prestdæmishafa sína til að gera það sem þeir hefðu aldrei getað gert á eigin spýtur.

Þetta á jafn vel við um mig í minni köllun, eins og ykkur í ykkar köllun. Enginn okkar getur unnið verk prestdæmisins, og gert það vel, með því að reiða sig aðeins á eigið hyggjuvit og hæfni. Það er vegna þess að þetta er hans verk – það tilheyrir Drottni, og við náum því aðeins árangri með því að reiða okkur á hann, hvort heldur þið eruð ný kallaðir djáknar, og ykkur er treyst fyrir því að vera andríkir við helgiathöfn sakramentis; eða heimiliskennari sem Drottinn hefur falið að elska og þjóna fjölskyldu sem þið eruð ekki kunnugir og virðist ekki kæra sig um kærleika ykkar eða þjónustu; eða faðir sem veit að honum ber að leiða fjölskyldu sína í réttlæti, en veit ekki nákvæmlega hvernig og hann virðist vera að renna út á tíma, því börn hans vaxa hratt úr grasi og heimurinn er óvæginn og óvinveittur.

Ef ykkur finnst verkið svolítið yfirþyrmandi, þá er það gott merki. Það gefur til kynna að þið áttið ykkur á því mikla trausti sem Guð ber til ykkar. Það merkir að þið hafið einhvern skilning á því hvað prestdæmið í raun er.

Það eru afar fáir í þessum heimi sem hafa þann skilning. Ekki er víst að jafnvel þeir sem geta komið fram með skaplega skilgreiningu skilji það nægilega vel. Það eru nokkrar ritningargreinar sem hafa kraft andans til þess að auka skilning okkar og undrun á hinu heilaga prestdæmi. Hér eru nokkrar slíkar:

„Kraftur og vald … Melkísedeksprestdæmis, er að hafa lykla að öllum andlegum blessunum kirkjunnar–

Og njóta þess réttar að meðtaka leyndardóma himnaríkis og sjá himnana ljúkast upp fyrir sér og eiga samfélag við allsherjarsöfnuð og kirkju frumburðarins og njóta samfélags og návistar Guðs föðurins og Jesú, meðalgöngumanns hins nýja sáttmála.

Kraftur og vald … Aronsprestdæmis, er að hafa lykla að þjónustu engla“ (K&S 107:18–20).

„Í helgiathöfnum [prestdæmisins] opinberast því kraftur guðleikans. …

Því að án þessa getur enginn maður séð ásjónu Guðs, já, föðurins, og haldið lífi“ (K&S 84:20, 22).

„Þetta háa prestdæmi er eftir reglu sonar hans, en sú regla var til frá grundvöllun veraldar, eða er með öðrum orðum án upphafs daganna eða loka áranna, þar eð hún var fyrirbúin frá eilífð til allrar eilífðar, samkvæmt forþekkingu hans á öllum hlutum“ (Alma 13:7).

„Sérhver sem vígður er eftir þessari reglu og köllun, ætti að hafa kraft, fyrir trú, til að brjóta niður fjöll, kljúfa höf, þurrka upp vötn, breyta farvegi þeirra;

til að ráða niðurlögum herja þjóða, kljúfa jörðu, rjúfa öll bönd, standa í návist Guðs; til að gera allt að vilja hans, að boði hans, sigra konungsdæmi og heimsveldi; og allt þetta að vilja sonar Guðs, sem var fyrir grundvöll heimsins“ (Þýðing Josephs Smith, Genesis 14:30–31 [í viðauka Biblíunnar])

Við slíkri undursamlegri lýsingu á krafti prestdæmisins, væri hægt að álykta sem svo að þetta ætti ekki við um okkur. Við gætum hins vegar líka leitað inn á við og til að mynda spurt af hjartans einlægni: Hef ég fundið að himnarnir hafði opnast mér? Væri hægt að vísa í orðtakið „englaþjónusta“ til að lýsa minni prestdæmisþjónustu? Færi ég „kraft góðleikans“ í líf þeirra sem ég þjóna? Hef ég einhvern tíma brotið niður fjall, sigrað her, rofið bönd einhvers eða sigrað veraldleg öfl – jafnvel bara í óeiginlegri merkingu – í þeim tilgangi að gera vilja Guðs?

Slík sjálfsskoðun vekur ætíð upp tilfinningu um að við gætum gert meira í þjónustu við Drottin. Ég vona að hún vekji líka tilfinningu til að vilja gera meira – löngun til að taka aukinn þátt í hinu dýrðlega verki Drottins. Slíkar tilfinningar eru fyrsta skrefið í þá átt að verða að þeim mönnum sem prestdæmisþjónustu er ætlað að skapa.

Næsta skrefið kemur fram í samskiptum Jehóva og Enoks. Við vitum að Enok var máttugur spámaður sem stofnaði Síon mitt í miklu ranglæti. Áður en Enok varð máttugur spámaður sá hann sig sjálfan sem „[dreng, sem var] … tregt um mál“ og allir fyrirlitu (HDP Móse 6:31). Hlýðið á það sem Drottinn sagði til að hvetja Enok. Þessi orð hans eru líka ætluð ykkur, sem eruð kallaðir til að þjóna öðrum sem prestdæmishafar:

„Og Drottinn sagði við Enok: Far og gjör eins og ég hef boðið þér, og enginn maður skal granda þér. Ljúk upp munni þínum og hann skal fyllast, og ég mun gefa þér málið, því að allt hold er í mínum höndum, og ég mun gjöra sem mér þóknast. …

Sjá, andi minn er yfir þér, þess vegna mun ég réttlæta öll þín orð. Og fjöllin munu hörfa undan þér og fljótin breyta farvegi sínum. Og þú munt vera í mér og ég í þér. Gakk þess vegna með mér“ (HDP Móse 6:32, 34).

Bræður, helgiathafnir prestdæmisins eru boð frá Drottni um að ganga með honum. Hver er merking þess að ganga með Drottni? Það merkir að gera það sem hann gerir, að þjóna eins og hann þjónar. Hann fórnaði eigin þægindum til að blessa nauðstadda, svo við reynum einmitt að gera það líka. Hann virtist gefa sérstakan gaum að fólki sem allir leiddu hjá sér og var jafnvel algjörlega sniðgengið af samfélaginu. Hann vitnaði ákveðið en ástúðlega um hina sönnu kenningu sem hann fékk frá föður sínum, jafnvel þótt óvinsælt væri og svo verður að vera. Hann sagði við alla: „Komið til mín“ (Matt 11:28) og við segjum við alla: „Komið til hans.“ Sem prestdæmishafar, erum við fulltrúar hans. Við störfum ekki af sjálfum okkur, heldur fyrir hann. Við mælum ekki eigin orð, heldur hans orð. Fólkið sem við þjónum fer að þekkja hann betur vegna þjónustu okkar.

Um leið og við tökum á móti boði Drottins „gakk með mér,“ þá breytist eðli prestdæmisþjónustu okkar. Hún verður háverðugri og göfugri, en líka framkvæmanlegri, því við vitum að við erum ekki einir. Ég skynjaði það á áhrifaríkan hátt þegar Thomas S. Monson forseti lagði hendur á höfuð mitt fyrir níu árum og blessaði mig er ég hóf þjónustu mína í núverandi köllun minni. Í þeirri blessun sagði hann þessi orð frelsarans: „Og hjá hverjum þeim, sem veitir yður viðtöku, mun ég einnig vera, því að ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings“ (K&S 84:88).

Ég hef ótal sinnum reitt mig á þetta loforð og séð það uppfyllast á marga vegu í minni 72 ára prestdæmisþjónustu. Það gerðist þegar ég var nýr Aronsprestdæmishafi og mér var falið að útdeila sakramentinu. Óttasleginn yfir því að gera mistök, fór ég út fyrir kapelluna áður en samkoman hófst og bað Guð örvilnaður að hjálpa mér. Svar barst mér. Mér fannst Drottinn vera með mér. Ég fann að hann treysti mér og því hlaut ég sjálfstraust í hlutverki mínu í verki hans.

Þetta gerðist aftur þegar ég þjónaði sem biskup. Kona nokkur hringdi í mig, sem varð alvarlega á í messunni og stóð nú frammi fyrir erfiðri lífsbreytandi ákvörðun. Þegar ég heimsótti hana, fannst mér ég vita lausn vanda hennar, en ég skynjaði sterklega að ég ætti ekki að láta hana vita af henni – því hún þyrfti að sjálf að finna lausnina. Ég sagði við hana: „Ég held að Guð muni segja þér hvað gera skal, ef þú spyrð hann.“ Síðar sagði hún mér að hún hefði spurt hann og fengið svarið.

Í öðru tilviki var hringt í mig þegar ég var biskup – í það skiptið var það sjálf lögreglan. Mér var sagt að drukkinn bílstjóri hefði ekið í gegnum rúðu og inn í anddyri banka. Þegar hinn ráðþrota ökumaður sá öryggisvörðinn bregða vopni sínu, hrópaði hann: „Ekki skjóta! „Ég er Mormóni!“

Fundið var út að þessi ölvaði ökumaður væri meðlimur í deildinni minni, nýlega skírður. Á meðan ég beið eftir honum í biskupsskrifstofunni minni, íhugaði ég hvað ég ætti að segja til að vekja eftirsjá hans fyrir að hafa brotið sáttmála sína og orðið kirkjunni til skammar. Þegar ég hins vegar leit hann augum, heyrði ég rödd segja í huga mínum, jafn skýra og talað væri við mig: „Ég ætla að sýna þér hann eins og ég sé hann.“ Um leið þá fannst mér öll hans ásjóna breytast stutta stund. Ég sá ekki ráðvilltan ungan mann, heldur bjartan og göfugan son Guðs. Skyndilega fann ég elsku Drottins til hans. Þessi sýn breytti viðræðum okkar. Það breytti mér líka.

Ég lærði mikilvægar lexíur af þessum upplifunum, að ganga með Drottni í verki hans. Ég ætla að miðla ykkur þremur þeirra. Sú fyrsta er að Guð tekur jafnvel eftir nýjasta og yngsta djáknanum og styður hann. Ykkur þarf aldrei að finnast þið vera of ómerkilegir eða léttvægir til að hann veiti ykkur athygli og þjónustu ykkar í hans þágu.

Önnur lexían er sú að verk Drottins snýst ekki aðeins um að leysa vandamál, heldur að styrkja fólk. Þegar þið því gangið með honum í prestdæmisþjónustu, gætuð þið stundum fundið að sú lausn sem virðist árangursríkust, er ekki ákjósanlegasta lausn Drottins, því hún stuðlar ekki að vexti fólks. Ef þið leggið við hlustir, þá mun hann kenna ykkur á sinn hátt. Minnist þess að verk og dýrð Guðs er ekki aðeins að starfrækja öfluga stofnun; hún er að að „gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39). Hvað sem öllu líður, þá er þetta ástæða þess að hann veitir breyskum mönnum, eins og mér og þér, prestdæmisvald sitt og býður okkur að taka þátt í verki sínu. Framþróun okkar er hans verk!

Þriðja lexían er: Að vera með frelsaranum í prestdæmisþjónustu, mun breyta viðhorfi ykkar til fólks. Hann mun kenna ykkur að sjá það með sínum augum, sem er að sjá handan ytri umgjörðar og inn í sjálft hjartað (sjá 1 Sam 16:7). Þannig sá frelsarinn Símon, ekki sem fljótfærinn fiskimann, heldur sem Pétur, klettinn og verðandi leiðtoga kirkju sinnar (sjá Lúk 5:1–11). Á þann hátt sá hann Sakkeus, ekki sem þann spillta tollheimtumann sem aðrir sáu, heldur sem heiðarlegan son Abrahams (sjá Lúk 19:1–9). Ef þið gangið með frelsaranum nægilega lengi, munið þið læra að sjá alla aðra sem barn Guðs með ótakmarkaða möguleika, hver sem fortíð viðkomandi hefur verið. Ef þið haldið áfram að ganga með frelsaranum, munið þið þróa aðra gjöf hans – hæfni til að hjálpa öðrum til að sjá þessa möguleika í sjálfum sér og iðrast.

Kæru bræður í prestdæminu, við erum á margan hátt eins og lærisveinarnir tveir á veginum til Emmaus á fyrsta páskasunnudeginum. Það var að morgni upprisunnar, en þeir vissu vart hvað upprisa var eða hvað fólst í henni. Þeir „[vonuðu], að [Jesú frá Nasaret] væri sá, er leysa mundi Ísrael,“ en voru „tregir í hjarta til þess að trúa“ öllu því sem ritningarnar kenndu um upprisu. „Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim,“ þar sem þeir gengu saman og ræddu þetta sín í milli. En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki. (Sjá Lúk 24:13–32.)

Ég ber vitni um að þegar við göngum veg prestdæmisþjónustu, þá er frelsarinn með í för, því við erum á hans vegi. Ljós hans fer fyrir okkur og englar hans umlykja okkur. Okkur kann að skorta skilning á eðli prestdæmisins eða hvernig hann notaði það. Ef við hins vegar hugum vandlega að þeim stundum er hjarta okkar „brennur“ (Lúk 24:32), þá geta augu okkar lokist upp og við getum séð hönd hans í lífi okkar og þjónustu. Ég ber vitni um að við getum þekkt hann best með því að starfa og þjóna með honum í hinu mikla verki að veita börnum Guðs sáluhjálp. „Því að hvernig á maður að þekkja húsbónda, sem hann hefur ekki þjónað, sem er honum ókunnugur og hugsunum hans og hjartans ásetningi fjarlægur? (Mósía 5:13). Jesús er meistari okkar. Þetta er hans kirkja. Við höfum hans prestdæmi. Megi sérhver okkar velja að ganga með honum og finna að hann gangi með sér.

Ég ber ykkur hátíðlega vitni um að Jesús er Kristur, hinn upprisni Drottinn okkar. Ég ber vitni um að prestdæmið sem hann hefur treyst okkur fyrir, er krafturinn til að mæla og starfa í hans nafni. Við erum börn kærleiksríks himnesks föður, sem bænheyrir okkur og sendir heilagan anda til að styrkja okkur í öllum þeim prestdæmisskyldum sem við erum blessaðir með. Joseph Smith sá föðurinn og soninn. Hann tók á móti lyklum prestdæmisins, sem hafa yfirfærst á Thomas S. Monson forseta, sem notar þá á okkar tíma. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.