2010–2019
Treystum við honum? Erfiði er gott
Október 2017


Treystum við honum? Erfiði er gott

Hvert sem málið er, þá getur hið erfiða reynst þeim gagnlegt sem sækja fram í trú og trausti á Drottin og áætlun hans.

Áður en ég byrja, þá vil ég, fyrir hönd okkar allra sem á einhvern hátt höfum þurft að líða fyrir eyðileggingu nýlegra fellibylja og jarðskjálfta, tjá mínar innilegustu þakkir fyrir allar Hjálparhendur og aðstoðarfólk sem veitti okkur hjálp og von.

Í október 2006 hélt ég mína fyrstu aðalráðstefnuræðu. Mér fannst hinn mikilvægi boðskapur fyrir hina heimslægu kirkju ætti að vera fullyrðingin: „Drottinn treystir okkur!“

Hann treystir okkur í raun á svo marga vegu. Hann hefur gefið okkur fagnaðarerindi Jesú Krists og fyllingu þess í þessari ráðsályktun. Hann treystir okkur fyrir prestdæmi sínu, ásamt lyklum þess til viðeigandi notkunar. Með krafti þess getum við blessað, þjónað, tekið á móti helgiathöfnum og gert sáttmála. Hann treystir okkur fyrir sinni endurreistu kirkju og sínu heilaga musteri. Hann treystir þjónum sínum fyrir innsiglunarvaldinu – að binda á jörðu, svo það verið bundið á himni! Hann treystir okkur jafnvel fyrir því að vera jarðneskir foreldrar, kennarar og uppalendur barna hans.

Eftir þessi ár í þjónustu sem aðalvaldhafi á ýmsum svæðum heimsins, þá undirstrika ég af enn meiri fullvissu: Hann treystir okkur.

Spurningin á þessari ráðstefnu verður svo aftur á móti: „Treystum við honum?“

Treystum við honum?

Thomas S. Monson forseti hefur oft áminnt: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.

Munið til hans á öllum ykkar vegum, þá mun hann gjöra stigu ykkar slétta.

Þú skalt ekki þykjast vitur“ (Okv 3:5–7).

Treystum við því að boðorð hans séu okkur til góðs? Að leiðtogar hans leiði okkur farsællega, þótt ófullkomnir séu? Að loforð hans séu tryggð? Treystum við því að himneskur faðir og Jesús Kristur þekki okkur og vilji hjálpa okkur? Treystum við þeim jafnvel mitt í þrengingum, áskorunum og erfiðum aðstæðum?

Þegar ég lít til baka, þá sé ég að mínar gagnlegustu lexíur hef ég lært á erfiðum tímum – sem unglingur, í trúboði, þegar ég hóf atvinnuferlinn, kappkostaði að efla kallanir mínar, við uppeldi hinna mörgu barna minna eða við að reyna að basla við að verða sjálfbjarga. Það virðist greinilegt að erfiði er gott!

Erfiði er gott

Erfiði styrkir okkur, auðmýkir og gerir okkur kleift að sanna okkur sjálf. Okkar kæru handvagna-brautryðjendur öðluðust þekkingu á Guði í sínum miklu erfiðleikum. Af hverju tók það tvo kapítula fyrir Nefí og bræður hans að ná látúnstöflunum og aðeins þrjú vers að fá fjölskyldu Ísmaels til að sameinast þeim í óbyggðunum? (sjá 1 Ne 34; 7:3–5). Svo virðist sem Drottinn hafi viljað styrkja Nefí með baráttu hans við að fá töflurnar í hendur.

Erfiðleikar lífs okkar ættu ekki að vekja okkur furðu. Einn fyrsti sáttmálinn sem við gerum við Drottin er að lifa eftir fórnarlögmálinu. Skilgreining fórnar er að láta af einhverju sem við teljum eftirsóknarvert. Af reynslunni lærum við svo að gjaldið er lítið miðað við blessanirnar sem fylgja á eftir. Sagt hefur verið, undir leiðsögn Josephs Smithi: „Trúarbrögð sem ekki krefjast allra fórna, munu aldrei ná að skapa nauðsynlega trú til lífs og sáluhjálpar.“1

Aðilar Guðdómsins eru ekki ókunnugir erfiði. Guð faðirinn fórnaði sínum eingetna syni í hinar hræðilegu þjáningar friðþægingarinnar og dauða krossfestingar. Ritningin segir að Jesús Kristur hafi lært „hlýðni af því, sem hann leið“ (Hebr 5:8). Hann tók sjálfviljugur á sig þjáningar friðþægingarinnar. Heilagur andi hlýtur að vera langlyndur við að innblása okkur, aðvara og leiða, er hann er stundum hunsaður, misskilin eða gleymdur.

Hluti af áætluninni

Erfiði er hluti af fagnaðarerindinu. Einn tilgangur lífsins er að verða sannreyndur (sjá Abraham 3:25). Fáir hafa þjáðst meira óverðskuldað en fólk Alma. Það flúði undan hinum rangláta konungi, Nóa, einungis til að verða þrælar Lamaníta! Með þessum raunum kenndi Drottinn þeim að hann agar fólk sitt og lætur reyna á „þolgæði þess og trú“ (Mósía 23:21).

Á hinum hræðilegu dögum í Liberty-fangelsinu, kenndi Drottinn Joseph Smith að „standast vel“ (K&S 121:8) og lofaði honum, ef hann gerði svo myndi allt: „þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs“ (K&S 122:7).

Thomas S. Monson forseti hefur boðið: „Megum við halda áfram að velja hið erfiða og rétta, í stað hins auðvelda og ranga“2 Hvað musterin okkar varðar, þá er „engin fórn of stór, ekkert gjald of hátt, ekkert erfiði of mikið, til að hljóta blessanir [musterisins]“3

Erfiði er hluti af hringrás lífsins í heimi náttúrunnar. Það er erfitt fyrir ungann að klekjast úr úr egginu. Ef unganum er auðveldað verkið, þá þróar hann ekki með sér nauðsynlegan styrk til að lifa. Fiðrildið erfiðar á svipaðan hátt og hlýtur styrk til að takast á við lífið í baráttu sinni við að komast út úr lirfuhýðinu.

Af þessum dæmum má ráða að erfiði er viðvaranlegt! Við höfum öll áskoranir. Viðbrögð okkar við hinu erfiða eru mismunandi.

Einhverju sinni þurfti hópur fólks í Mormónabók að „líða miklar ofsóknir“ og „miklar þrengingar“ (Helaman 3:24). Hvernig brást það við? Það [fastaði] og baðst oft fyrir og varð sífellt styrkara í auðmýkt sinni og stöðugt ákveðnara í trúnni á Krist, þar til sálir þess fylltust gleði og huggun.“(Helaman 3:35). Annað dæmi átti sér stað eftir áralangt stríð. „Vegna þess hve langvarandi stríðið milli Nefíta og Lamaníta hafði verið, voru margir orðnir harðir, vegna hins langa stríðs. Margir höfðu hins vegar mildast vegna þrenginga sinna, þannig að þeir auðmýktu sig fyrir Guði, já, í dýpstu auðmýkt“ (Alma 62:41).

Við veljum öll hvernig við bregðumst við því erfiða.

Verið varkár varðandi hið auðvelda

Áður en ég hlaut þessa köllun var ég fjármálaráðunautur í Houston, Texas. Mestur hluti starfs míns voru samskipti við auðjöfra sem áttu eigin fyrirtæki. Næstum allir höfðu þeir unnið fyrirtækið sitt upp frá grunni með miklu erfiði. Það sem mér fannst dapurlegt var að sumir þeirra vildu auðvelda börnum sínum lífið. Þeir vildu ekki að börn sín þjáðust eins og þeir sjálfir höfðu gert. Með öðrum orðum, þeir hugðust svipta börnum sínum einmitt því sem hafði gert þá farsæla.

Við þekkjum þó líka fjölskyldu sem tók öðruvísi á málum. Foreldrarnir voru innblásnir af reynslu J. C. Penney, en faðir hans tilkynnti honum við átta ára aldur að hann þyrfti að sjá fyrir sér sjálfur fjárhagslega. Þau höfðu sinn háttinn á: Þegar börnin þeirra útskrifuðust þá þurftu þau að sjá fyrir sér sjálf fjárhagslega – til að afla sér frekari menntunar (háskóla og framhaldsnáms í háskóla) og sjá sjálfum sér farborða (algjörlega upp á sig sjálf komin) (sjá K&S 83:4). Til allrar lukku, þá brugðust börnin skynsamlega við. Öll hafa þau útskrifast úr háskóla og nokkur þeirra lokið framhaldsnámi í háskóla – öll á eigin spýtur. Það var ekki auðvelt, en þeim tókst það. Þau gerðu þetta með erfiði og trú.

Trú til að treysta honum

Spurningin „treystum við honum?“ gæti verið betur orðuð sem: „Höfum við þá trú að treysta honum?“

Höfum við trú til að treysta á loforð hans varðandi tíund, að við séum betur stödd með 90 prósent af tekjum okkar, auk hjálpar Drottins, heldur en með 100 prósent okkar árlegu tekna á eigin spýtur?

Höfum við næga trú til að treysta því að hann vitji okkar í þrengingum okkar (sjá Mósía 24:14), að hann muni verja sök okkar gegn sökunautum okkar (sjá Jes 49:25; 2 Ne 6:17) og að hann muni helga þrengingar okkar okkur til góðs? (sjá 2 Ne 2:2).

Munum við iðka nauðsynlega trú til að halda boðorð hans, svo hann geti blessað okkur, bæði stundlega og andlega? Munum við sækja fram af staðfestu allt til enda, svo hann geti tekið á móti okkur í návist sína? (sjá Mósía 2:41).

Bræður og systur, við getum haft trú til að treysta honum! Hann vill það sem okkur er fyrir bestu (sjá HDP Móse 1:39). Hann mun svara bænum okkar (sjá K&S 112:10). Hann mun standa við loforð sín (sjá K&S 1:38). Hann hefur mátt til að standa við þessi loforð (sjá Alma 37:16). Hann veit allt! Það sem mikilvægara er, hann veit hvað er best (sjá Jes 55:8–9).

Hættulegur heimur

Við búum í hörðum heimi. Hið illa er hömlulaust, spilling ríkir meðal allra þjóða, hryðjuverk hafa náð til áður öruggra staða, efnahagur hrynur, atvinnuleysi er víða, sjúkdómar, náttúruhamfarir geysa, borgaraerjur eru uppi, einræðisharðstjórar ríkja o.s.frv. Hvað ættum við að gera? Eigum við að bakka eða berjast? Hvort er rétt að gera? Báðir kostir geta verið hættulegir. Það var hættulegt fyrir George Washington og her hans að berjast og líka fyrir brautryðjendur okkar að flýja. Það var hættulegt fyrir Nelson Mandela að berjast fyrir frelsi. Sagt hefur verið að ef gott fólk situr með hendur í skauti, þá nægi það til þess að hið illa hafi sigur.4

Óttist eigi!

Hvað sem við gerum, þá ættum við hvorki að taka ákvarðanir, né bregðast við af anda ótta. Sannlega „gaf Guð oss [ekki] anda [ótta]“ (2 Tím 1:7). (Vitið þið að sú hugmynd að „óttast eigi“ kemur hvarvetna fyrir í ritningunum?) Drottinn hefur kennt mér að uppgjöf og ótti séu verkfæri óvinarins. Svar Drottins við erfiðum tímum er að sækja fram í trú.

Hvað telst erfitt?

Okkur getur greint á í því hvað við teljum vera erfitt. Sumir gætu talið það erfitt að greiða tíund þegar peningar eru af skornum skammti. Stundum finnst leiðtogum erfitt að halda uppi þeirri væntingu að fátækir greiði tíund. Sumum okkar gæti fundist erfitt að sækja fram í trú til að giftast eða eignast börn. Þeir eru líka til sem finnst erfitt að „vera [ánægðir] með það, sem Drottinn hefur úthlutað [þeim]“ (Alma 29:3). Það gæti verið erfitt vera ánægður með núverandi köllun sína (sjá Alma 29:6). Kirkjuögun gæti reynst afar erfið, en fyrir suma er hún upphafið að sannri iðrun.

Hvert sem málið er, þá getur hið erfiða reynst þeim gagnlegt sem sækja fram í trú og trausti á Drottin og áætlun hans.

Vitnisburður minn

Bræður og systur, ég ber vitni um að þessir leiðtogar, sem sitja mér að baki, eru kallaðir af Guði. Þeir þrá að þjóna Drottni dyggilega og hjálpa okkur að tileinka okkur fagnaðarerindið í hjarta. Ég elska og styð þá.

Ég elska frelsara okkar, Jesú Krist. Mig furðar að hann hafi elskað föður sinn og okkur svo heitt að vilja vera frelsari okkar og lausnari, að með því að gera það hafi hann „[skolfið] af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og [hann] þjáðist bæði á líkama og í anda“ (K&S 19:18). Mitt í þessu ógnarlega, en nauðsynlega atburði, þá staðfesti hann samt fyrir föðurnum: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji“ (Lúk 22:42). Ég fagna í orðum engilsins: „Hann er ekki hér. Hann er upp risinn“ (Matt 28:6).

Fordæmi hans er sannlega „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóh 14:6). Einungis með því að fylgja því fordæmi getum við fundið „frið í þessum heimi, og eilíft líf í komanda heimi“ (K&S 59:23). Þegar ég hef fyllgt fordæmi hans og tileinkað mér kenningar hans, þá hefur mér lærst að öll hans „dýrmætu og háleitu fyrirheit“ (2 Pét 1:4) eru sönn.

Mín dýpsta þrá er að standa með Mormón sem sannur lærisveinn Jesú Krists (sjá 3 Ne 5:13) og heyra hann dag einn mæla þessi orð fram af vörum sínum: „Gott, þú góði og trúi þjónn.“ (Matt 25:21). Í nafni Jesú Krists, amen

Heimildir

  1. Lectures on Faith (1985), 69.

  2. Thomas S. Monson, “Choices,” Liahona, maí 2016, 86.

  3. Thomas S. Monson, “The Holy Temple—a Beacon to the World,” Liahona, maí 2011, 92.

  4. Sjá John Stuart Mill, Inaugural Address: Delivered to the University of St. Andrews, 1. febr. 1867 (1867), 36.