2010–2019
Eru dagar kraftaverka liðnir?
Október 2017


Eru dagar kraftaverka liðnir?

Við ættum fyrst og fremst að einbeita okkur að þeim andlegu kraftaverkum sem standa öllum börnum Guðs til boða.

Fyrir ári síðan átti ég erindum að sinna í Kaliforníu og fór ásamt stikuforseta að heimsækja Clark og Holly Fales og fjölskyldu þeirra. Mér var sagt að þau hefðu nýlega upplifað kraftaverk. Þegar við komum, átti Clark í basli með að standa og heilsa okkur þar sem hann var með bakspelkur, hálskraga og spelkur á handleggjum sínum.

Rúmlega tveimur mánuðum áður fóru Clark, sonur hans Ty og eitthvað um 30 aðrir ungir menn í stikuævintýraferð upp á topp Mount Shasta í 4.322 m hæð, en það er eitt hæsta fjall Kaliforníu. Á öðrum degi hinnar erfiðu göngu höfðu flestir göngugarpanna náð tindinum, spennandi afrek sem eingöngu var mögulegt vegna margra mánaða undirbúning.

Einn hinna fyrstu á tindinum þann dag var Clark. Eftir að hafa hvílt sig við brúnina á tindinum stóð hann upp og byrjaði að ganga. Þegar hann gerði svo, hrasaði hann og féll aftur fyrir sig fram af hengju, hrapaði í frjálsu falli eina 12 metra og rúllaði síðan stjórnlaust niður snjóhengju aðra 90 metra. Hið furðulega var að Clark lifði þetta af, en slasaðist alvarlega og gat sig hvergi hreyft.

Kraftaverkið sem Clark upplifði í þessu slysi var þó aðeins upphafið. Meðal fyrstu göngumanna sem komu að honum voru „af tilviljun“ fjallabjörgunarmenn og sérfræðingar í fyrstu hjálp. Þeir hófu þegar að aðstoða Clark, sem var í losti, og settu á hann hlífðarföt til að halda honum hlýjum. „Af tilviljun“ var gönguhópur þessi einnig að prófa ný fjarskiptatæki og sendu út hjálparbeiðni á svæði þar sem ekkert farsímasamband var að hafa. Lítil þyrla var þegar í stað send af stað til Mount Shasta, en það var klukkutíma leið. Eftir tvær hættulegar og árangurslausar tilraunir til lendingar við hæðarmörk þyrlunnar og eftir mikla áreynslu við sviptivinda, reyndi flugmaðurinn að lenda í þriðja sinn og síðasta sinn. Þegar þyrlan kom að úr annarri átt, breyttist vindáttinn „af tilviljun,“ þannig að þyrlan gat lent og staðið rétt mátulega lengi fyrir hópinn að koma Clark, sárþjáðum, fljótt inn í litla rýmið fyrir aftan flugstjórnarsætið.

Þegar Clark var skoðaður í bráðamóttöku sýndu athuganir að hann hafði hlotið fjölbrot í hálsi, baki, rifbeinum og úlnliðum; lunga hafði fallið saman og hann var með fjölmarga skurði og skrámur. Þekktur taugaskurðlæknir var „af tilviljun“ á vakt þennan dag; hann þjónustar þennan spítala aðeins örfáum sinnum á ári. Þessi læknir sagði síðar að hann hafi aldrei áður séð nokkurn mann með eins alvarlega áverka á mænu og hálsslagæðum og lifað af. Clark var ekki einungis sagt að hann myndi lifa, heldur að hann myndi verða heill heilsu. Skurðlæknirinn, sem sagðist sjálfur vera trúleysingi, sagði að tilfelli Clarks færi þvert á allan vísindalegan lærdóm um taugameiðsli og gat aðeins lýst þessu sem kraftaverki.

Þegar Clark og Holly höfðu lýst þessu, fannst mér erfitt að tala. Ekki aðeins vegna þessa augljósa kraftaverks, heldur vegna stærra kraftaverks. Ég hlaut djúpan innblástur, andlegt vitni, um að Holly og sérhvert hinna fimm barna sem sátu í kringum foreldra sinna í stofunni, ættu slíka trú að þau hefðu sætt sig við það hvernig sem farið hefði þann dag, og myndu samt þroskast áfram andlega. Clark og Holly og tvö elstu börnin, Ty og Porter, eru meðal okkar í Ráðstefnuhöllinni.

Er ég hef íhugað reynslu Fales fjölskyldunnar, hugsaði ég mikið um kringumstæður svo margra annarra. Hvað um hina óteljandi trúuðu Síðari daga heilögu, sem hljóta prestdæmisblessanir, þá sem beðið er mikið fyrir, þá sem halda sáttmála sína, þá sem eru fullir vonar, sem ekki hljóta kraftaverk? Að minnsta kosti kraftaverk eins og þeir skilja þau. Að minnsta kosti kraftaverk eins og aðrir hljóta.

Hvað um þá sem þjást af miklum hörmungum - líkamlegum, vitsmunalegum, tilfinningalegum - árum eða áratugum saman, eða jafnvel heila mannsævi? Hvað um þá sem deyja mjög ungir?

Fyrir aðeins tveimur mánuðum síðan fóru tvenn hjón með gild musterismeðmæli, ásamt þremur börnum sem þjónað höfðu í trúboði og fimm öðrum börnum í stutta flugferð á lítilli flugvél. Ég er viss um að þau hafi beðið um vernd áður en flugið hófst og beðist heitt fyrir þegar vélarbilun átti sér stað og flugvélin brotlenti. Enginn komst lífs af. Hvað um þau?

Hefur gott fólk og ástvinir þeirra ástæðu til að spyrja eins og Mormón: „Er þá degi kraftaverkanna lokið?”1

Mín takmarkaða þekking getur ekki svarað því hvers vegna Guð grípur stundum inn í og stundum ekki. Kannski skortir okkur skilning á því hvað kraftaverk raunverulega er.

Oftast lýsum við kraftaverki þannig að við læknumst án læknisfræðilegrar skýringar eða komumst hjá stórslysi með því að hlýða á innri innblástur. Ef við hins vegar skilgreinum kraftaverk sem „góðviljað atvik orsakað af dýrlegum krafti sem dauðlegir menn fá ekki skilið,”2 þá veitir það okkur rýmri sýn á mál sem eru eilíf í eðli sínu. Þessi skilgreining gerir okkur kleift að íhuga hið mikilvæga hlutverk trúarinnar þegar við hljótum kraftaverk.

Moróní kenndi: „Og aldrei nokkru sinni hafa nokkrir unnið kraftaverk fyrr en þeir hafa trúað.”3 Ammon sagði: „Þannig hefur Guð gjört manninum mögulegt að gjöra máttug kraftaverk fyrir trú.”4 Drottinn opinberaði Joseph Smith: „Því að ég er Guð, og … mun sýna kraftaverk … öllum þeim, sem trúa á nafn mitt.”5

Nebúkadnesar konungur krafðist þess af Sadrak, Mesak og Abed-Negó að þeir tilbæðu gulllíkneski sem hann setti upp sem guð, og hótaði: „Ef þér tilbiðjið það ekki, þá skal yður... verða kastað inn í eldsofn brennandi.“ Síðan hæddi hann þá: „Hver er sá guð, er yður megi frelsa úr mínum höndum?”6

Þessir þrír staðföstu lærisveinar sögðu: „ Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi. En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði.“7

Þeir settu allt sitt traust á að Guð gæti frelsað þá, „en þótt hann gjöri það ekki,“ höfðu þeir fullkomna trú á áætlun hans.

Á svipaðan hátt spurði öldungur David A. Bednar ungan mann sem beðið hafði um prestdæmisblessun: „Ef það væri vilji himnesks föður að þú dæir og færir inn í andaheiminn til að halda áfram þjónustu þinni, átt þú næga trú til að lúta vilja hans og læknast ekki?”8 Eigumvið trú „til að... læknast ekki af jarðneskum hörmungum til að geta læknast eilíflega?

Mikilvæg spurning til að íhuga er: „Á hvað setjum við trú okkar?“ Einblínum við í trú á að losna einfaldlega við sársauka og þjáningu, eða einblínum við staðfastlega á Guð föðurinn og heilögu áætlun hans, og á Jesú Krist og friðþægingu hans? Trú á föðurinn og soninn gera okkur kleift að skilja og meðtaka vilja þeirra er við búum okkur undir eilífðina.

Í dag vitna ég um kraftaverk. Að vera barn Guðs er kraftaverk.9 Að hljóta efnislíkama í hans mynd og líki er kraftaverk.10 Gjöf frelsara er kraftaverk.11 Friðþæging Jesú Krists er kraftaverk.12 Möguleikinn á að hljóta eilíft líf er kraftaverk.13

Þó að það sé gott að biðja fyrir og vinna að líkamlegri vernd og lækningu í dauðlega lífinu, ætti æðsta athygli okkar að vera á andlegum kraftaverkum sem öllum börnum Guðs standa til boða. Sama af hvaða kynþætti við erum, af hvaða þjóðerni við erum, sama hvað við höfum gert ef við höfum iðrast, sama hvað aðrir hafa gert á okkar hlut - öll búum við jafnt að þessum kraftaverkum. Við erum lifandi kraftaverk og fleiri kraftaverk eru framundan. Í nafni Jesú Krists, amen.