2010–2019
Elskið hver annan líkt og hann hefur elskað okkur
Október 2017


Elskið hver annan líkt og hann hefur elskað okkur

Við getum hlotið styrk og lækningu til að sigrast á eigin erfiðleikum, með því að þjóna og fyrirgefa öðrum af einlægri elsku.

Við Síðustu kvöldmáltíðina gaf frelsarinn lærisveinum sínum nýtt boðorð er hann sagði:

„Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.

Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“1

Lærisveinum frelsarans var gefið nýtt boðorð, að gera eitthvað meira, eitthvað háleitara og guðlegra. Þetta nýja boðorð endurspeglast í hinum mikilvægu orðum: „Sem ég hef elskað yður.“

Elska er verk; elska er þjónusta.

„Elska er djúp og innileg tryggð, umhyggja og ástúð. Gleggsta dæmið um elsku Guðs til barna sinna má finna í hinni altæku friðþægingu Jesú Krists.“2 „Því svo elskaði Guð heiminn,“ ritaði Jóhannes, „að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“3 „Elska til Guðs og náungans er aðalsmerki lærisveina Jesú Krists.“4

Fyrir nokkrum árum, þegar elsti afastrákurinn okkar, Jose, var fjögurra ára, var hann að leika sér við eiginkonu mína. Þau hlógu og skemmtu sér innilega saman og þá spurði hann: „Amma, elskar þú mig?“

Hún svaraði: „Já Jose, ég elska þig.“

Þá spurði hann hana þessarar spurningar: „Hvernig veistu að þú elskar mig?“

Hún útskýrði tilfinningar sínar til hans og þuldi upp allt sem hún hafði gert fyrir hann og var fús til að gera fyrir hann.

Síðar spurði eiginkona mín Jose þessa sömu spurninga og líka þessarar beinskeyttu spurningar: „Hvernig veistu að þú elskar mig?“

Hann svaraði einlæglega og blátt áfram: „Ég elska þig af því að ég finn það í hjarta mínu.“ Hin ástúðlega framkoma Jose gagnvart ömmu sinni þennan dag og all daga, sýnir að elska er sambland af verkum og innilegum tilfinningum.

Benjamín konungur kenndi: „Sjá. Ég segi yður þetta, til þess að þér megið nema visku og komist að raun um, að þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar.“5

Í heimi okkar tíma, þar sem miklar þjáningar og erfiðar aðstæður eru ríkjandi, er gott og gagnlegt að senda textaboð með skemmtilegum broskalli eða að pósta fallegri mynd með textanum „ég elska þig.“ Það sem mörg okkur þurfa hins vegar að gera er að skilja við okkur farsímatækin og nota hendur okkar og fætur til að liðsinna öðrum í mikilli neyð. Elska án þjónustu er eins og trú án verka; sannlega dauð.

Elska er fyrirgefning

Hina hreina ást Krists, sem er kærleikur,6  hvetur okkur ekki aðeins til að bregðast við og veita þjónustu, heldur veitir hún okkur líka styrk til að fyrirgefa, hverjar sem aðstæðurnar eru. Ég ætla að segja ykkur frá áhrifamikilli reynslu sem breytti lífi mínu. Ted og Sharon, foreldrar Coopers, sem eru hér í dag, hafa veitt mér leyfi til að segja frá upplifun fjölskyldunnar fyrir rúmum níu árum. Ég mun nota orð Teds, föður Coopers, við frásögn þessarar upplifunar:

Þann 21. ágúst 2008 var fyrsti skóladagurinn og Ivan, Garrett og Logan, þrír eldri bræður Coopers, voru allir í strætóskýlinu og biðu þess að komast í strætó. Cooper, sem var fjögurra ára, var á hjólinu sínu; Sharon, eiginkona mín hafði gengið.

Eiginkona mín var hinumegin við götuna og gaf Cooper bendingu um að koma yfir. Um leið kom bifreið akandi hægt úr vinstri beygju og ók yfir Cooper.

Nágranni hringdi í mig og tilkynnti mér að Cooper hafði orðið fyrir bíl. Ég ók í skyndi niður að strætóskýlinu til að huga að honum. Cooper lá í grasinu, átti erfitt með öndun, en engir sjáanlegir áverkar voru á honum.

Ég kraup við hlið Coopers og sagði hvetjandi að allt yrði í lagi. Reyndu að þrauka.“ Á þeirri stundu komu þar að Natan, leiðtogi háprestaflokksins, og eiginkona hans. Hún lagði til að við gæfum Cooper prestdæmisblessun. Við lögðum hendur á höfuð Coopers. Ég man ekki hvað ég sagði í blessuninni, en ég man glögglega eftir návist annarra umhverfis okkur, og á þessari stundu vissi ég að Cooper myndi deyja.

Flogið var með Cooper í þyrlu á sjúkrahúsið og raunin varð sú að hann lést. Mér fannst himneskur faðir segja við mig að mín jarðneska ráðsmennska væri á enda og að Cooper væri nú í hans umsjá.

Við gátum varið nokkrum tíma með Cooper á sjúkrahúsinu. Starfsfólkið lagði hann til svo við gætum faðmað og kvatt hann og leyfði okkur að vera hjá honum og halda utan um hann eins lengi og við óskuðum.

Á leiðinni heim horfðum við á hvort annað, ég og harmi lostin eiginkona mín og við tókum að ræða um piltinn sem ók bílnum. Við þekktum hann ekki, jafnvel þótt hann ætti heima í næstu götu og væri innan deildarmarka okkar.

Næsti dagur reyndist okkur afar erfiður, því við vorum aðframkomin af sorg. Ég féll á kné og bað einlægustu bænar sem ég hef flutt. Ég bað himneskan föður, í nafni frelsara míns, að létta á hinni djúpu sorg minni. Hann gerði það.

Síðar sama dag gerðu ráðgjafarnir í stikuforsætisráðinu ráðstafanir til að við gætum hitt piltinn – ökumann bílsins – og foreldra hans á heimili annars ráðgjafans. Ég og Sharon biðum eftir að pilturinn og foreldrar hans kæmu. Þegar dyrnar lukust upp sáum við þau í fyrsta sinn. Biskupinn minn hvíslaði að mér: „Farðu til hans.“ Ég og Sharon vöfðum hann örmum, í hópfaðmlagi. Við grétum saman að því er virtist í langan tíma. Við sögðum að við vissum að um slys hafði verið að ræða.

Það var mér og Sharon kraftaverki líkast hvernig okkur leið og líður enn. Fyrir Guðs náð tókst okkur að fara hinn augljósa veg, hinn eina veg, og sýna þessum góða unga manni elsku okkar.

Við höfum orðið afar náin honum og fjölskyldu hans yfir árin. Hann hefur leyft okkur að taka þátt í sínum kærustu tímamótum. Við fórum meira að segja í musterið með honum, er hann bjó sig undir trúboðið sitt.7

Bræður og systur, Ted veit án minnsta vafa að himneskur faðir elskar okkur. Hann veit að þegar við erum fús til að fyrirgefa og aflétta byrði okkar á þann hátt, þá er það jafn ljúft og að hljóta fyrirgefningu. Sú ljúfa tilfinning hlýst af því að fylgja fordæmi okkar æðstu fyrirmyndar. Í Mormónsbók segir Alma um frelsarann: „Og hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og svo mun verða, til að orðið megi rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns.“8

Bræður og systur, hve dásamleg frásögn einlægrar elsku og fyrirgefningar. Við getum líka notið gleði og hamingju er við þjónum og fyrirgefum öðrum. Georgy, annað barnabarn okkar, spyr oft: „Hvers konar fjölskylda erum við?“ Hann svarar síðan um hæl: „Við erum hamingjusöm fjölskylda!“

Thomas S. Monson forseti hefur veitt okkur þessa leiðsögn: „Við skulum fara í naflaskoðun og einsetja okkur að fylgja fordæmi frelsarans, með því að sýna góðvild, elsku og kærleika.“9

Ég veit að himneskur faðir og sonur hans, Jesús Kristur, elska okkur og eru fúsir til að hjálpa okkur að bregðast við, er við elskum hver annan líkt og þeir hafa elskað okkur. Ég veit að við getum hlotið styrk og lækningu til að sigrast á eigin erfiðleikum, með því að þjóna og fyrirgefa öðrum af einlægri elsku. Þessu lýsi ég yfir í nafni Jesú Krists, amen.