2010–2019
Brauðið sem niður steig af himni
Október 2017


Brauðið sem niður steig af himni

Ef við þráum að dvelja í Kristi og látum hann dvelja í okkur, þá er það heilagleiki sem við sækjumst eftir.

Daginn eftir að Jesús hafði framkvæmt kraftaverkið að metta hina fimm þúsund í Galíleu með einungis „fimm byggbrauð og tvo fiska,“1 þá talaði hann aftur til fólksins í Kapernaum. Frelsarinn skynjaði að margir höfðu minni áhuga á kenningum hans og kraftaverkum og meiri áhuga á magafylli.2 Hann reyndi því að sannfæra fólkið um það sem hefði mun meira gildi, „þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður.“3 Jesús sagði:

„Ég er brauð lífsins.

Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu.

Þetta er brauðið, sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því, deyr ekki.

Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.“4

Áheyrendur frelsarans skildu alls ekki merkinguna að baki orða hans og tóku hana einungis bókstaflega. Þeim hryllti við og hugsuðu með sér: „Hvernig getur þessi maður gefið oss hold sitt að eta?“5 Jesús ítrekaði enn frekar orð sín:

„Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður.

Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi.

Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur.“6

Hann útskýrði síðan hina djúpu merkingu þessarar samlíkingar sinnar:

„Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum.

Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og ég lifi fyrir föðurinn, svo mun sá lifa fyrir mig, sem mig etur.“7

Áheyrendur hans skildu enn ekki merkingu þess sem Jesús sagði og „margir … er á hlýddu, sögðu: ,Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?‘ … Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum.“8

Að eta af holdi frelsarans og drekka af blóði hans, tjáir á afgerandi hátt hversu fullkomlega við verðum að taka á móti frelsaranum í líf okkar – inn í alla okkar tilveru – svo við verðum eitt. Hvernig á það sér stað?

Í fyrsta lagi þurfum við að skilja að með því að fórna eigin holdi og blóði, þá friðþægði Kristur fyrir syndir okkar og sigraði dauðann, bæði líkamlegan og andlegan.9 Það liggur því í augum uppi að við neytum af holdi og blóði hans þegar við meðtökum frá honum kraft og blessanir friðþægingar hans.

Kenning Krists segir hvað við þurfum að gera til að öðlast miskunn friðþægingarinnar. Það er að trúa á Krist, iðrast og láta skírast og meðtaka hinn heilaga anda og „þá kemur að fyrirgefningu synda yðar með eldi og heilögum anda.“10 Þetta er hliðið, aðgangur okkar að miskunn friðþægingar frelsarans og inn á hinn þrönga og krappa veg að ríki hans.

„Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf.

„… Þetta er kenning Krists, og hin eina sanna kenning föðurins og sonarins og hins heilaga anda, sem eru einn Guð, óendanlega.“11

Dásamlegt er að íhuga táknræna merkingu sakramentis kvöldmáltíðar Drottins. Brauðið og vatnið tákna hold og blóð þess sem er brauð lífsins og hið lifandi vatn12 og er áhrifarík áminning um hið átakanlega gjald sem hann reiddi fram til að endurleysa okkur. Þegar brauðið er brotið, þá minnumst við hins sundurtætta holds frelsarans. Öldungur Dallin H. Oaks sagði eitt sinn að „vegna þess að það er rifið og brotið, þá verður hver biti einstakur, eins og einstaklingarnir sem meðtaka það eru einstakir. Við höfum öll ólíkar syndir sem við þurfum að iðrast af. Við höfum öll ólíkar þarfir til að leita styrkingar í friðþægingu Drottins Jesú Krists, sem við minnumst í þessari helgiathöfn.“13 Þegar við drekkum vatnið, þá hugsum við um blóðið sem hann úthellti í Getsemane og á krossinum og hreinsandi mátt þess.14 Meðvituð um að „ekkert óhreint fær komist inn í ríki hans. Þess vegna gengur enginn inn til hvíldar hans, nema þeir, sem laugað hafa klæði sín í blóði [frelsarans] vegna trúar sinnar og iðrunar á öllum syndum sínum og vegna staðfestu sinnar allt til enda.“15

Ég hef rætt um að taka á móti miskunn friðþægingar frelsarans til að afmá syndir okkar og óhreinindi þeirra synda í okkur. Að eta hold og drekka blóð hans óeiginlega, hefur dýpri og markverðari merkingu, sem felur í sér að tileinka sér eiginleika og persónugerð Krists, afklæðast hinum náttúrlega manni og verða heilagur „fyrir friðþægingu Krists Drottins.“16 Þegar við meðtökum brauð og vatn sakramentisins í hverri viku, þá væri okkur hollt að ígrunda hversu ítarlega og fullkomlega við verðum að tileinka okkur persónugerð hans og fyrirmynd hans syndlausa lífs. Jesús hefði ekki getað friðþægt fyrir syndir annarra nema því aðeins að vera sjálfur syndlaus. Þar sem réttvísin gerði engar kröfur á hann, þá var honum kleift að bjóða sig fram í okkar stað til að fullnægja réttvísinni og síðan að bjóða fram miskunn. Þegar við minnumst friðþægingar hans og heiðrum hana, þá ættum við ætíð að hafa í huga hans syndlausa líf.

Það gefur í skyn hið mikla verkefni sem býður okkar. Við megum ekki sætta okkur við núverandi stöðu okkar, því við verðum að halda stöðugt áfram þar til við „verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.“17 Líkt og faðir Lamonís konungs, þá verðum við að vera fús til að láta af öllum syndum okkar18 og einblína á það sem Drottinn væntir af okkur, á eigin spýtur og með honum.

Fyrir nokkru sagði einn vinur minn mér frá reynslu sem upplifði þegar hann þjónaði sem trúboðsforseti. Hann hafði farið í skurðaðgerð og það tók hann nokkrar vikur að ná fullum bata eftir hana. Meðan á bataferlinu stóð, þá varði hann tíma í að lesa og ígrunda ritningarnar. Síðdegi eitt, er hann ígrundaði orð frelsarans í 27. kapítula 3. Nefís, þá féll hann í svefn. Þessu næst sagði hann:

„Ég féll í svefn og dreymdi að ég hefði fengið að sjá eigið líf ljóslifandi í hnotskurn. Mér voru sýndar eigin syndir, slæmar ákvarðanir, þau skipti … sem ég hafði komið fram við aðra af óþolinmæði og einnig hið góða sem ég hefði átt að segja eða gera. … Yfirgripsmikil … [skoðun] lífs míns birtist mér á fáeinum mínútum, sem þó virtist mun lengri tími. Ég vaknaði með andfælum, … kraup samstundis við hlið rúmsins og tók að biðjast fyrir, sárbiðja um fyrirgefningu, úthella tilfinningum hjartans, aldrei sem áður.

Fyrir drauminn var mér ekki ljóst að ég hefði svo ríka þörf á iðrun. Brestir mínir og veikleikar urðu skyndilega svo augljósir að mér fannst fjarlægðin á milli persónu minnar og heilagleika og góðvildar Guðs vera milljónir kílómetra. Í bæn minni þennan eftirmiðdag tjáði ég himneskum föður og frelsara mínum innilegt þakklæti mitt, af öllu hjarta, fyrir það sem þeir hefðu gert fyrir mig og fyrir hið kæra samband sem ég átti með eiginkonu minni og börnum. Meðan ég var á hnjánum, þá skynjaði ég líka kærleika og miskunn Guðs, sem voru svo áþreifanleg, þótt mér fyndist ég svo óverðugur. …

Ég get sagt að frá þessari stundu hefur ég ekki verið samur. … Ég umbreyttist í hjarta. … Í kjölfarið innrætti ég mér aukna samhyggð með öðrum og meiri kærleika til annarra og aukna þrá til að boða fagnaðarerindið. … Mér var nú, aldrei sem áður, kleift að boða betur boðskap trúar, vonar og gjöf iðrunar, sem finna má í Mormónsbók.“19

Mikilvægt er að skilja að þótt þessum góða manni hafi verið ljóslifandi sýndar eigin syndir og brestir, þá missti hann hvorki kjarkinn, né lét hugfallast. Jú, hann fékk skell og upplifði eftirsjá. Hann fann ríka þörf til að iðrast. Hann hafði verið auðmýktur, en fann þakklæti, frið og von – raunverulega von – sökum Jesú Krists, sem er „hið lifandi brauð, sem steig niður af himni.“20

Vinur minn sagði frá bilinu sem hann skynjaði í draumnum á milli hans lífs og heilagleika Guðs. Heilagleiki er hið rétta orð. Að eta af holdi og drekka af blóði Krists, felur í sér að sækjast eftir heilagleika. Guð býður: „Verið heilagir, því ég er heilagur.“21

Enok hvatti okkur: „Kenn því börnum þínum, að allir menn, hvarvetna, verði að iðrast, ella geti þeir engan veginn erft ríki Guðs, því að ekkert óhreint fær dvalið þar eða dvalið í návist hans, því að á tungu Adams er nafn hans Maður heilagleika, og nafn hans eingetna er Mannssonurinn, já, Jesús Kristur.“22 Þegar ég var drengur, þá velti ég fyrir mér ástæðu þess að oft er vísað í Jesús sem Mannssoninn (og það gerir hann sjálfur líka), þegar hann í raun er sonur Guðs, en staðhæfing Enoks sýnir augljóslega að þessi tilvísun er í raun auðkenni fyrir guðleika og heilagleika hans – hann er sonur Manns heilagleika, Guðs föðurins.

Ef við þráum að dvelja í Kristi og að hann fái dvalið í okkur,23 þá þurfum við að sækjast eftir heilagleika, bæði í líkama og anda.24 Við sækjumst eftir honum í musterinu, en á það er ritað: „Heilagleiki til Drottins.“ Við sækjumst eftir honum í hjónabandi okkar og fjölskyldulífi. Við sækjumst eftir honum í hverri viku, er við njótum hins helga dags Drottins.25 Við sækjumst eftir honum í öllu daglegu lífi; með málfari, klæðnaði og hugsunum. Líkt og Thomas S. Monson forseti sagði: „Við erum ávöxtur alls þess sem við lesum, horfum og hlýðum á og hugsum.“26 Við sækjumst eftir heilagleika með því að bera kross okkar dag hvern.27

Systir Carol F. McConkie sagði: „Við erum meðvituð um hinar ótal prófraunir, freistingar og þrengingar sem gætu fjarlægt okkur því sem er dyggðugt og lofsvert frammi fyrir Guði. Okkar jarðneska reynsla býr þó að tækifæri til að velja heilagleika. Oftast eru það fórnirnar sem við færum til að halda sáttmála okkar, sem helga okkur til heilagleika.“28 Við „þær fórnir sem við færum“ bæti ég við þjónustu sem við innum af hendi.

Við vitum að „þegar [við erum] í þjónustu meðbræðra [okkar þá erum við] aðeins í þjónustu Guðs [okkar].“29 Drottinn minnir okkur á að slík þjónusta er þungamiðja lífs hans og persónuleika. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“30 Marion G. Romney forseti útskýrði viturlega: „Þjónusta er ekki nokkuð sem við þurfum að umbera á þessari jörðu svo við getum öðlast réttinn til að lifa í himneska ríkinu. Þjónusta er frumefnið sem upphafið líf í himneska ríkinu er gert úr.“31

Sakaría spáði að á þeim degi er Drottinn ríkti í þúsund ára ríkinu, myndu jafnvel bjöllur hestanna hafa áletrunina: „Helgaður Drottni.“32 Í þessum anda skráðu brautryðjendur hinna heilögu í þessum dal áminningarorðin „Heilagleiki til Drottins,“ á almenna eða hversdagslega hluti, sem og líka á það sem tengdist meira trúarathöfnum. Orðin voru árituð á bikara og diska sakramentis og á helgiathafnavottorð hinna Sjötíu og á borða Líknarfélagsins. „Heilagleiki til Drottins“ var líka ritað yfir sýningarglugga stórmarkaðarins ZCMI, Zion’s Cooperative Mercantile Institution. Það var líka ritað á hamarshaus og á trommu. „Heilagleiki til Drottins“ var steypt í málm-hurðarhúnana á heimili Brighams Young forseta, í Býfluguhúsinu. Þessar tilvísanir í heilagleika á hinum ýmsu óvenjulegu og óvæntu stöðum, gætu komið sumum spánskt fyrir sjónir, en þær undirstrika aðeins hversu alsráðandi og viðvarandi heilagleiki ætti að vera í lífi okkar.

Ljósmynd
Sakramentisbolli
Ljósmynd
Sakramentisdiskur
Ljósmynd
Sýningargluggi í ZCMI
Ljósmynd
Hamar
Ljósmynd
Tromma
Ljósmynd
Hurðarhúnn

Að meðtaka af holdi og blóði frelsarans, felur í sér að útiloka hvaðeina úr lífi okkar sem samræmist ekki kristilegu eðli og að tileinka okkur eiginleika hans. Í þessu felst æðri merking iðrunar, ekki aðeins að láta af fyrri syndum, heldur að „fela Guði hjarta okkar og vilja“33 og að sækja fram. Líkt og vinur minn upplifði í draumsýn sinni, þá mun Guð sýna okkur bresti okkar og veilur og jafnframt hjálpa okkur að gera veikleika okkar að styrkleika.34 Ef við spyrjum einlæglega: „Hvers er mér enn vant?“35 þá mun hann ekki láta okkur geta okkur til um það, heldur svara af kærleika sökum hamingju okkar. Hann mun vekja okkur von.

Þetta er mikið verkefni og það væri afskaplega yfirþyrmandi ef við værum ein að keppa að heilagleika. Hin dýrðlegi sannleikur er sá að við erum ekki einsömul. Við búum að elsku Guðs, náð Krists, huggun og handleiðslu heilags anda og samfélagi og hvatningu hinna heilögu í líkama Krists. Við skulum ekki vera sátt við núverandi stöðu okkar og ekki heldur að láta hugfallast. Líkt og einfaldur en íhugull sálmur segir:

Helga nú verk þín, því hratt flýgur stund;

Ver æ með Jesú og kom á bænarfund.

Ef leitar þú Jesú, verðurðu eins og hann er;

verk hans menn munu þá sjá í þér.36

Ég ber vitni um Jesú Krist, „hið lifandi brauð, sem steig niður af himni“37 og um að hver „sá sem etur hold [hans] og drekkur blóð [hans], hefur eilíft líf.“38 Í nafni Jesú Krists, amen.