2010–2019
Drottinn leiðir kirkju sína
Október 2017


Drottinn leiðir kirkju sína

Forysta kirkjunnar krefst mikillar og öruggrar trúar frá þeim sem þjóna honum á jörðunni.

Kæru bræður mínir, prestdæmishafar Guðs, í kvöld langar mig að tala um þá dásamlegu leið sem Drottinn leiðir ríki sitt á jörðunni. Þið þekkið þegar grundvallaratriðin. Ég bið þess að heilagur andi muni staðfesta þau fyrir ykkur.

Til að byrja með þá er Jesús Kristur höfuð kirkjunnar á allri jörðunni.

Í öðru lagi, þá leiðir hann kirkju sína í dag með því að tala við menn sem eru kallaðir sem spámenn, og það gerir hann með opinberun.

Í þriðja lagi þá veitti hann spámönnum sínum til forna opinberanir, það gerir hann enn og mun halda áfram að gera svo.

Í fjórða lagi þá veitir hann þeim sem þjóna undir stjórn spámanna hans, staðfestingar í formi opinberana.

Frá þessum grundvallaratriðum þá sjáum við að stjórn Drottins á kirkju hans kallar á mikla og stöðuga trú frá öllum sem þjóna honum á jörðunni.

Til dæmis þá þarf trú til að trúa því að hinn upprisni Drottinn vaki yfir daglegum smáatriðum ríkis hans. Það þarf trú til að trúa því að hann kalli ófullkomið fólk í stöður sem krefjast trausts. Það þarf trú til að trúa því að hann þekkir það fólk sem hann kallar, fullkomlega, bæði getu þeirra og möguleika og að hann geri ekki mistök í köllunum hans.

Þetta gæti fengið suma sem á hlýða til að brosa eða hrista höfuðið – bæði þá sem halda að þeirra eigin köllun til þjónustu hafi verið mistök og einnig þá sem ímynda sé að þeir þekki einhverja sem virðast henta illa í kallanir sínar í ríki Drottins. Ráð mitt til beggja hópa er að fara sér hægt í slíka dóma þar til að þið getið betur séð það sem Drottinn sér. Það sem þið verðið að dæma um í staðinn er hvort að þið hafið getuna til að meðtaka opinberanir og gera eitthvað í því án ótta.

Það þarf trú til að gera það. Það tekur einnig enn meiri trú að trúa því að Drottinn hafi kallað ófullkomna mannlega þjóna til að leiða ykkur. Tilgangur minn hér í kvöld er að byggja upp trú ykkar á því að Guð leiði ykkur í þjónustu ykkar fyrir hann. Það sem er enn mikilvægara er von mín að geta byggt upp trú ykkar á því að Drottinn sé að innblása ófullkomnum einstaklingum, sem hann hefur kallað sem leiðtoga ykkar.

Ykkur kann að finnast, til að byrja með, að slík trú sé ekki mikilvæg fyrir velgengni kirkju Drottins og ríki hans. Hins vegar gætuð þið uppgötvað, sama hvar sem þið eruð staddir í keðju prestdæmisþjónustu, frá spámanni Drottins til hins nýja Aronsprestdæmishafa, að trú er ómissandi.

Byrjum á því hvað trú merki fyrir sveitarforseta kennara eða djákna. Það er mikilvægt fyrir hann að hafa trú á því að Drottinn hafi kallað hann persónulega, þekkjandi veikleika og styrkleika kennaranna. Hann þarf að hafa trú á því að maðurinn sem úthlutaði kölluninni hafi fengið opinberun frá anda Guðs. Ráðgjafar hans og meðlimir í sveit hans þurfa sömu trú til að fylgja honum með óttalausu öryggi.

Ég sá slíkt öryggi þegar drengur sat með forsætisráði djáknanna einn sunnudagsmorgun. Hann var nýkallaður sem ritari þeirra. Þetta unga forsætisráð bar saman bækur sínar. Þeir töluðu um ýmsar leiðir til að uppfylla ósk biskups þeirra um að færa minna virkan dreng aftur til kirkjunnar. Eftir bæn og umræðu, þá settu þeir ritarann í það hlutverk að fara heim til drengs sem hafði aldrei komið á fund og að bjóða honum.

Ritarinn þekkti ekki drenginn, en hann vissi að annað foreldri drengsins var lítt virkt og hitt var ekki þegn kirkjunnar og ekki vinsamlegt. Ritarinn var kvíðinn en ekki óttasleginn. Hann vissi að spámaður Guðs hafði beðið prestdæmishafana að færa týndu sauðina aftur tilbaka. Hann hafði einnig heyrt bæn forsætisráðs síns. Hann heyrði þá koma sér saman um nafn drengsins sem hjálpa átti og nafn hans sjálfs.

Ég horfði á þegar ritarinn gekk upp götuna í átt að heimili hins lítt virka drengs. Hann gekk hægt eins og að hann væri að ganga inn í mikla hættu. Hann kom samt aftur tilbaka eftir veginum innan hálftíma, með drenginn, brosandi og glaður. Ég er ekki viss um að hann hafi vitað það þá, en hann hafði farið með þeirri trú að hann væri í sendiför fyrir Drottin. Sú trú hefur fylgt honum og vaxið þau ár sem hann var trúboði, faðir, leiðtogi pilta og biskup.

Tölum um hvað slík trú þýðir fyrir biskup. Stundum er kallað á biskup til að þjóna fólki sem þekkir hann vel. Deildarmeðlimir vita um einhverja af hans mannlegu veikleikum og andlegu styrkleikum og þeir vita að aðrir í deildinni hefðu getað verið kallaðir, aðrir sem virðast betur menntaðir, reyndari, ánægjulegri eða myndalegri.

Þessir meðlimir verða að vita að þessi köllun biskups kom frá Drottni. Án trúar þeirra þá mun biskupinn, sem var kallaður af Guði, eiga erfiðara með að fá opinberanir sem hann þarf til að aðstoða þá. Hann mun ekki verða farsæll án trúar meðlimanna til styrkja sig.

Sem betur fer þá er hið andstæða einnig til. Hugsið um þjón Drottins, Benjamín konung, sem leiddi fólk sitt til iðrunar. Hjörtu fólksins mýktust af þeirri trú að hann hafi verið kallaður af Guði, þrátt fyrir sína mannlegu bresti og að orð hans hafi komið frá Guði. Þið munið eftir orðum fólksins: „Já, við trúum öllum þeim orðum, sem þú hefur til okkar mælt. Og við vitum einnig, að þau eru áreiðanleg og sönn, því að andi Drottins almáttugs hefur valdið svo mikilli breytingu á okkur, eða í hjörtum okkar, að við hneigjumst ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka“(Mósía 5:2).

Til að leiðtogi geti verið farsæll í verki Drottins, þá verður traust fólksins á að hann sé kallaður af Guði að vera þyngra á metunum en breyskleiki hans og jarðneskir veikleikar. Þið munið hvernig Benjamín konungur útskýrði eigið leiðtogahlutverk:

„Ég hef ekki boðað yður hingað, til að þér óttist mig eða haldið mig annað og meira af sjálfum mér en dauðlegan mann.

Ég er haldinn alls kyns veikleika á sálu og líkama eins og þér sjálfir. Engu að síður hefur þessi þjóð valið mig og faðir minn vígt mig og hönd Drottins umborið mig sem stjórnanda og konung þessarar þjóðar. Og ég hef notið verndar og varðveislu hins óviðjafnanlega kraftar hans til að þjóna yður af öllum þeim mætti, huga og styrk, sem Drottinn hefur léð mér“ (Mósía 2:10–11).

Ykkur gæti fundist leiðtogi ykkar í kirkju Drottins vera veikgeðja og mannlegur eða sterkur og innblásinn. Staðreyndin er sú að allir leiðtogar eru blanda af þessum eiginleikum og meira. Það sem hjálpar þjónum Drottins, sem eru kallaðir til að leiða okkur, er þegar við sjáum þá eins og Drottinn sá þá þegar hann kallaði þá.

Drottinn sér þjóna sína fullkomlega. Hann sér möguleika þeirra og framtíð. Hann veit einnig hvernig hægt er að breyta eðli þeirra. Hann veit líka hvernig þeir geta breyst af reynslu þeirra með þeim sem þeir leiða.

Þið gætuð haft reynslu af því að styrkjast af samskiptum við það fólk sem þið voruð kallaðir til að þjóna. Ég var einu sinni kallaður sem biskup í kirkjudeild ungra einhleypra. Ég er ekki viss hvort að tilgangur Drottins hafi verið, þær breytingar sem ég gæti hjálpað honum að koma til leiðar hjá þeim eða þær breytingar sem hann vissi að þau gæti gert á mér.

Upp að vissu leyti skil ég ekki, meiri hluti þessa unga fólks í þessari deild hagaði sér eins og að ég hafi verið kallaður af Guði fyrir þau persónulega. Þau sáu veikleika mína en litu framhjá þeim.

Ég man eftir einum ungum manni sem bað um ráð varðandi námsval sitt. Hann var ný byrjaður í mjög góðum háskóla. Viku eftir að ég hafði ráðlagt honum, þá pantaði hann viðtal við mig.

Þegar hann kom inn á skrifstofuna þá kom hann mér á óvart með því að spyrja: „Biskup, gætum við beðið bæn áður en við tölum? Gætum við kropið? Má ég svo biðja?“

Bón hans undraði mig. Bæn hans kom mér enn meira á óvart. Hún var eitthvað á þessa leið: „Himnesku faðir, þú veist að Eyring biskup gaf mér ráð í síðustu viku og það virkaði ekki. Viltu blása honum í brjóst að vita hvað ég á að gera núna.“

Þið brosið kannski að þessu, en ég gerði það ekki. Hann vissi þegar hvað Drottinn vildi að hann gerði. Hann hins vegar heiðraði stöðu biskups í kirkju Drottins og vildi kannski veita mér tækifæri til að fá meira sjálfsöryggi til að meðtaka opinberun í þeirri köllun.

Það virkaði. Um leið og við stóðum upp og settumst aftur niður þá fékk ég opinberun. Ég sagði honum hvað mér fyndist að Drottinn vildi að hann gerði. Hann var einungis 18 ára gamall en hann var þroskaður í andlegum árum.

Hann vissi þegar að hann þurfti ekki að fara til biskupsins með slíkt vandamál. Hann hafði hins vegar lært að styðja þjón Drottins, jafnvel í hans jarðnesku veikleikum Hann endaði með því að verða stikuforseti. Hann bar með sér þá lexíu sem við lærðum þarna saman: ef þið hafið trú á að Drottinn leiði kirkju sína með opinberun í gegnum þessa ófullkomnu þjóna sem hann kallar, þá mun Drottinn opna gáttir himins fyrir hann, eins og fyrir ykkur.

Af þessari reynslu lærði ég þá lexíu að trú fólksins sem við þjónum, sem er stundum meiri en okkar eigin, færir opinberun í þjónustu Drottins.

Það var önnur lexía fyrir mig. Ef þessi drengur hefði dæmt mig fyrir að bregðast í því að veita honum góð ráð til að byrja með, þá hefði hann aldrei komið til að spyrja aftur. Þannig að með því að velja að dæma mig ekki, þá fékk hann þá staðfestingu sem hann þráði.

Enn önnur lexía kom frá þessari reynslu sem hefur þjónað mér vel. Ég veit ekki betur en að hann hafi aldrei sagt neinum frá því í deildinni að ég hafi ekki veitt honum góð ráð til að byrja með. Hefði hann gert það þá hefði það getað minnkað trú annara í deildinni á að treysta innblæstri biskupsins.

Ég reyni að dæma ekki þjóna Drottins eða að tala um augljósa veikleika þeirra. Ég reyni einnig að kenna börnum mínum það með fordæmi. James E. Faust forseti, deildi skoðun sinni sem ég er að reyna að gera að minni eigin. Ég mæli með þessu fyrir ykkur:

„Við … þurfum að styrkja og styðja staðarleiðtoga okkar, því þeir … hafa verið ‚kallaðir og útvaldir.‘ Hver þegn þessara kirkju getur hlotið ráð frá biskup eða greinarforseta, stiku eða trúboðsforseta og forseta kirkjunnar og samstarfsmönnum hans. Enginn þessara bræðra sóttist eftir köllun sinni. Enginn er fullkominn. Samt eru þeir þjónar Drottins, kallaðir af honum í gegnum þá sem hafa rétt á innblæstri. Þeir sem eru kallaðir, studdir, og settir í embætti eiga rétt á traustum stuðningi okkar.

„… Vanvirðing fyrir kirkjuleiðtogum hefur valdið mörgum því að veikjast andlega og falla. Við ættum að horfa framhjá öllum sjáanlegum ófullkomleika, vörtum eða blettum á þeim mönnum sem eru kallaðir til að leiða okkur og styðja embættið sem þeir hafa“ (“Called and Chosen,” Liahona , nóv. 2005, 54–55).

Það ráð blessar þjóna Guðs í öllum aðstæðum.

Á fyrri árum kirkju Guðs þá hófu leiðtogarnir sem stóðu næst spámanninum Joseph Smith að tala um galla hans. Þrátt fyrir allt sem þeir höfðu séð og vissu um stöðu hans gagnvart Drottni, þá smitaðist gagnrýnisandi þeirra og afbrýði út eins og plága. Einn hinna tólf setti staðla trúar og hollustu fyrir okkur, sem við verðum að halda ef við eigum að þjóna í ríki Drottins.

Hér er skýrslan: „Nokkrir öldunganna kölluðu saman fund í musterinu fyrir alla sem töldu Joseph Smith vera fallin spámann. Þeir ætluðu að útnefna David Whitmer sem nýjan leiðtoga kirkjunnar. … Eftir að hafa hlustað á rökin gegn spámanninum, þá stóð Brigham [Young] upp og bar vitni: ‚Joseph var spámaður og ég vissi það og þó að þeir myndu kvarta og baktala hann eins mikið og þá listi, þá gætu þeir ekki eyðilagt útnefningu spámanns Guðs. Þeir gætu einungis eyðilagt sitt eigið valdsumboð, skorið á þráðinn sem tengdi þá við spámanninn og Guð og sökkt sér til vítis“ (Church History in the Fulness of Times Student Manual [Church Educational System manual, 2003], 2. útgáfa, 174; sjá einnig Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young [1997], 79).

Það er þráður sem bindur okkur við Drottinn í þjónustu okkar. Hann liggur þaðan sem við erum kallaðir til að þjóna í ríkinu, upp til þeirra sem kallaðir eru yfir okkur í prestdæminu og til spámannsins, sem er bundinn Drottni. Það tekur trú og auðmýkt að þjóna þar sem við erum kallaðir, til að treysta að Drottinn kalli okkur og þá sem yfir okkur eru og að styðja þá með fullri trú.

Það munu koma þeir tímar, eins og á tímum Kirtland, að við munum þurfa á þessari trú að halda og á ráðvendni Brigham Young, til að standa á þeim stað sem Drottinn hefur kallað okkur til að vera, trúir spámanni hans og þeim leiðtögum sem hann hefur sett í embætti.

Ég ber ykkur háalvarlegt en samt þó gleðilegt vitni um að Drottinn Jesú Kristur er við stýrið Hann leiðir kirkju sína og þjóna sína. Ég ber vitni um að Thomas S. Monson er eini maðurinn sem heldur og notar alla lykla hins heilaga prestdæmis á jörðunni á þessum tíma. Ég bið blessunar yfir alla auðmjúka þjóna, sem þjóna svo fúslega og vel í hinni endurreistu kirkju Jesú Krists, sem hann leiðir persónulega. Ég ber vitni um að Joseph Smith sá Guð föðurinn og Jesú Krist. Þeir töluðu til hans. Lyklar prestdæmisins voru endurreistir til blessunar allra barna himnesks föður. Það er verk okkar og ábyrgð að þjóna á okkar stað í verki Drottins. Í nafni Jesú Krists, amen.