2010–2019
Hinn algildi sannleikur
Október 2017


Hinn algildi sannleikur

Hvert okkar hefur þá persónulegu ábyrgð að gera allt nauðsynlegt til að hljóta og viðhalda sterkum vitnisburði.

Við komum hingað í kvöld í þeirri von og trú að við munum á einhvern hátt hljóta styrk og blessun frá heilögum anda, sem er kennari sannleikans.1 Ég ætla að ræða um persónulega leit okkar að sannleikanum.

Þegar ég var ungur maður, þá hvíldu á mér margar spurningar um kirkjuna. Sumar spurninga minna voru einlægar. Aðrar ekki, því þær voru byggðar á efasemdum annarra.

Oft ræddi ég við móður mína um spurningar mínar. Ég er viss um að hún fékk skynjað að margar spurninga minna voru einlægar og frá hjartanu. Ég held að hún hafi verið örlítið vonsvikin yfir þeim spurningum sem voru ekki eins einlægar, en fremur þrætugjarnar. Hún snupraði mig þó aldrei fyrir þær spurningar. Hún hlustaði og reyndi að svara þeim. Þegar henni fannst hún hafa sagt allt sem hún gat og ég hélt enn áfram að spyrja, þá sagði hún eitthvað á þessa leið: „David, þetta er góð spurning. Á meðan þú lest og leitar og biðst fyrir til að fá svör, væri þá ekki gott ef að þú gerðir það sem þú veist að þú átt að gera og gerðir ekki það sem þú veist að þú átt ekki að gera?“ Þetta var svo mín fyrirmynd í sannleiksleit minni. Með því að læra, biða og halda boðorðin, þá komst ég að því að það voru til svör við öllum mínum mikilvægu spurningum. Ég komst líka að því að sumar spurningar kröfðust áframhaldandi trúar, þolinmæði og opinberunar.2

Móðir mín lét mig sjálfan bera ábyrgð á því að þróa trú mína og finna svör. Hún vissi að ég myndi hljóta mikilvæg svör í sannleiksleit minni, eins og himneskur faðir hefur fyrirskipað. Hún vissi að ég þurfti sjálfur að uppgötva sannleikann. Hún vissi að ég þyrfti að vera einlægur í leit minni að svörum og fús til að fara eftir því sem ég þegar vissi. Hún vissi að ég þyrfti að læra og biðja og þróa með mér aukna þolinmæði við leit mína að svörum frá Drottni. Að vera fús til að sýna þolinmæði, er hluti af sannleiksleit okkar og fyrirskipan Drottins um að opinbera sannleikann.3

Með tímanum komst ég að því að móðir mín var að kenna mér fyrirskipan himnesks föður að sannleiksleit. Trúin styrkist, svörin tóku að berast og ég tók á móti trúboðsköllun.

Sá tími kom, árla í trúboði mínu, þegar mér varð ljóst að ég yrði að fá að vita hvort kirkjan væri sönn og Joseph Smith hefði verið spámaður Guðs. Ég upplifði það sem Thomas S. Monson forseti sagði svo greinilega á síðustu aðalráðstefnu: „Ef þið eigið ekki staðfastan vitnisburð um þetta, gerið þá allt sem þarf til að hljóta hann. Ykkur er nauðsynlegt að eiga eigin vitnisburð á þessum erfiðu tímum, því að vitnisburður annarra mun aðeins hjálpa ykkur takmarkað.“4 Ég vissi að þetta var nauðsynlegt. Ég þurfti að lesa Mormónsbók af einlægu hjarta og einlægum ásetningi, og spyrja Guð hvort hún væri sönn.

Hlýðum á hið undraverða loforð himnesks föður gefið með spámanninum Moróní: „Þegar þér meðtakið þetta, þá hvet ég yður að spyrja Guð, hinn eilífa föður, í nafni Krists, hvort þetta er ekki sannleikur. Og ef þér spyrjið í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist, mun hann opinbera yður sannleiksgildi þess fyrir kraft heilags anda.“5

Ég þurfti að lesa Mormónsbók til að geta meðtekið efni hennar. Ég byrjaði fremst í bókinni og las á hverjum degi. Sumir hljóta vitnisburð mjög fljótt. Fyrir aðra tekur það lengri tíma og fleiri bænir og þeir gætu þurft að lesa bókina nokkrum sinnum. Ég þurfti að lesa alla bókina áður en ég hlaut hinn fyrirheitna vitnisburð. Guð staðfesti sannleiksgildi hennar fyrir mér fyrir kraft heilags anda.

Í trúboðsdagbókinni minni lýsti ég þeirri gleði að þekkja sannleikann og sagði frá skuldbindingu minni og einlægum ásetning til að fylgja hinum meðtekna sannleika. Ég skrifaði: „Ég hef lofað föður mínum á himnum og sjálfum mér að gera mitt allra besta, að leggja mig allan fram svo lengi sem ég lifi, að gera allt sem af mér verður krafist, en nú er trúboðið mitt framundan og ég ætla að gera það að dásamlegu trúboði, sem mér þarf ekki að líða illa yfir, og allt fyrir Drottin, en ekki mig sjálfan. Ég elska Drottin og verkið og ég bið þess aðeins að þessi tilfinning hverfi aldrei frá mér.

Ég komst að því að stöðug endurnæring og viðleitni til að iðrast og halda boðorðin er nauðsynlegt til að viðhalda þeirri tilfinningu. Monson forseti sagði: „Þegar þið hafið svo loks hlotið vitnisburð, þarf að halda honum við með hlýðni við boðorð Guðs og með reglubundinni bænargjörð og ritninganámi.“6

Í gegnum árin hef ég spurt trúboða og ungt fólk víða um heim að því hvernig þau byrjuðu á sannleiksleit sinni og hlutu vitnisburð. Næstum undantekningarlaust hafa þau sagt að viðleitni þeirra til að hljóta vitnisburð hafði hafist með ákvörðun um að lesa Mormónsbók frá byrjun til enda og spyrja Guð hvort hún væri sönn. Með þessu ákveða þau að verða það sem „áhrifum veldur“ í stað þess að verða „fyrir áhrifum“7 af efasemdum annarra.

Við þurfum að lifa eftir fagnaðarerindinu til að þekkja sannleikann8 og gera „tilraun“9 með orðið. Við erum vöruð við því að standa gegn anda Drottins.10 Iðrun, ásamt staðfestu við að halda boðorðin, er mikilvægur hluti í sannleiksleit manna.11 Við gætum í raun þurft að vera fús til að „láta af öllum“ okkar syndum til að þekkja sannleikann.12

Okkur er boðið að „[sækjast] eftir fræðslu með námi og einnig með trú“ og að „[leita] að vísdómsorðum í hinum bestu bókum.“13 Sannleiksleit okkar ætti að taka mið af „hinum bestu bókum“ og hinum bestu heimildum. Meðal þeirra bestu eru ritningarnar og orð lifandi spámanna.

Monson forseti bauð hverju okkar að „[gera allt] nauðsynlegt“ til að öðlast og viðhalda sterkum vitnisburði.14 Hvað er nauðsynlegt til að styrkja og efla vitnisburð ykkar? Hvert okkar hefur þá persónulegu ábyrgð að gera allt nauðsynlegt til að hljóta og viðhalda sterkum vitnisburði.

Að halda sáttmála okkar af þolinmæði, meðan við „gerum [allt] nauðsynlegt“ til að hljóta svör frá Drottni, er hluti af fyrirskipaðri fyrirmynd Guð um sannleiksnám. Einkum þegar erfitt er, þá getur verið krafist af okkur að „[lúta] vilja Guðs með gleði og þolinmæði.“15 Að halda sáttmála okkar af þolinmæði, temur okkur aukna auðmýkt, eykur þrá okkar til að þekkja sannleikann og gerir heilögum anda kleift að „leiða [okkur] á vegum viskunnar, [okkur] til blessunar, velmegunar og varðveislu.“16

Ég og eiginkona mín, Mary, þekkjum nokkurn sem við elskum innilega sem alla ævi hefur átt erfitt með ákveðna þætti kirkjunnar. Hún elskar fagnaðarerindið og kirkjuna, en hefur enn efasemdir. Hún er innsigluð í musterinu, virk í kirkjunni, framfylgir köllunum sínum og er dásamleg móðir og eiginkona. Í gegnum árin hefur hún reynt að gera það sem hún veit að rétt er að gera og forðast að gera það sem hún veit að rangt er að gera. Hún hefur haldið sáttmála sína og leitar enn sannleikans. Stundum hefur hún verið þakklát fyrir að geta reitt sig á trú annarra.

Fyrir ekki all löngu bað biskupinn um að fá að hitta hana og eiginmann hennar. Hann bað þau að taka á móti verkefni í musterinu og vera staðgenglar fyrir þá sem þurftu að fá helgiathafnir musterisins. Þessi köllun vakti þeim undrun, en þau tóku á móti henni og hófu þjónustu sína í húsi Drottins. Unglingssonur þeirra hafði nýlega tekið þátt í ættfræðirannsóknum og fundið nöfn fjölskyldu sem helgiathafnir höfðu ekki verið framkvæmdar fyrir. Að því kom að þau voru staðgenglar og framkvæmdu helgiathafnir musterisins fyrir fjölskylduna. Þegar þau voru krjúpandi við altarið að helgiathöfn innsiglunar lokinni, þá hlaut þessi dásamlega þolinmóða kona, sem hafði svo lengi leitað, persónulega andlega reynslu, þar sem staðfest var fyrir henni að musterið og helgiathafnir þess væru sannar og raunverulegar. Hún hringdi í móður sína og sagði henni frá þessari upplifun og að þótt hún hefði enn einhverjar spurningar, þá vissi hún að musterið og kirkjan væru sönn. Móðir hennar grét af þakklæti fyrir kærleiksríkan og þolgóðan himneskan föður og þolinmóða dóttur sem heldur leit sinni áfram.

Að halda sáttmála af þolinmæði, færir blessanir himins í líf okkar.17

Ég hef fundið mikla huggun í þessu loforði Drottins: „Fyrir kraft heilags anda getið þér fengið að vita sannleiksgildi allra hluta.“18 Við getum þekkt sannleikann, án þess að þekkja allt. Við getum vitað að Mormónsbók er sönn. Í raun þá kenndi Russell M. Nelson forseti nú síðdegis að við getum „upplifað frá innstu hjartarótum“ [sjá Alma 13:27] að Mormónsbók er án nokkurs efa orð Guðs. Við verðum að „upplifa slíkt svo örugglega að við myndum ekki vilja lifa einn dag án hennar.“19

Við getum vitað að að Guð er faðir okkar!, sem elskar okkur; og að sonur hans, Jesús Kristur, er frelsari okkar og lausnari. Við getum vitað að aðild að kirkjunni ber að varðveita og það að meðtaka vikulega af sakramentinu stuðlar að okkar eigin öryggi og öryggi fjölskyldu okkar. Við getum vitað fyrir helgiathafnir musterisins geta fjölskyldur í raun verið saman að eilífu. Við getum vitað að friðþæging Jesú Krists er sönn og að blessanir iðrunar og fyrirgefningar eru raunverulegar. Við getum vitað að okkar ástkæri spámaður, Thomas S. Monson, er spámaður Drottins og að ráðgjafar hans og meðlimir Tólfpostulasveitarinnar eru postular, spámenn, sjáendur og opinberarar.

Ég veit að allt er þetta satt og ber því vitni í nafni Jesú Krists, amen.