2010–2019
Sjá, hér fer herrans herinn
Apríl 2018


Sjá, hér fer herrans herinn

Hve gleðilegt það verður fyrir alla Melkísedeksprestdæmishafa að njóta blessunar kennslu, lærdóms og sameiginlegrar þjónustu.

Mínir kæru prestdæmisbræður, ég kem fram fyrir ykkur í mikilli auðmýkt af þessu sérstaka sögulega tilefni, með ákveðið verkefni frá okkar ástkæra spámanni, Russell M. Nelson forseta. Hve ég ann þessum dásamlega manni og styð þennan mann Guðs og okkar nýja Æðsta forsætisráð. Ég bæti mínum vitnisburði við öldungs D. Todd Christofferson og hinna bræðra minna í Tólfpostulasveitinni, um að þær breytingar sem tilkynntar voru í kvöld eru vilji Drottins.

Líkt og Nelson forseti sagði, þá er þetta efni sem hefur verið vandlega rætt og hugleitt af bræðrum kirkjunnar í langan tíma. Þráin var að leita vilja Drottins og efla sveitir Melkísedeksprestdæmisins. Innblástur barst og í kvöld kunngerði spámaður okkar vilja Drottins. „Nei, Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína“!1 Hve blessuð við erum að vera leidd af lifandi spámanni í dag!

Ég og systir Rasband höfum í gegnum tíðina ferðast um heiminn í ýmsum erindagjörðum vegna kirkju og atvinnu. Ég hef séð hér um bil allar tegundir og samsetningar kirkjueininga. Fámennar greinar í Rússlandi, þar sem telja mátti fjölda Melkísedeksprestdæimshafa á annarri hendi; nýja og stækkandi deild í Afríku, þar sem háprestar og öldungar komu saman í einni sveit, því fjöldi Melkísekeksprestdæmishafa var lítill; og vel grundvallaðar deildir, þar sem fjöldi öldunga krafðist skiptingar sveitar þeirra í tvær sveitir!

Allsstaðar sem við höfum komið, höfum við séð hönd Drottins fara fyrir þjónum sínum, undirbúa fólkið og leiðina framundan, svo öll börn hans yrðu blessuð í öllum þörfum sínum. Hefur hann ekki lofað að hann muni „fara fyrir [okkur]“ og verða [okkur] til hægri handar og til þeirrar vinstri“ og að „andi [hans] muni vera í hjörtum [okkar] og englar [hans] umhverfis [okkur, okkur] til stuðnings“?2

Er ég sé ykkur alla verður mér hugsað um sálminn: „Sjá, hér fer herrans herinn.“

Sjá, hér fer herrans herinn

með veifu, skjöld og sverð.

Hann sækir fram til sigurs

í lífsins ströngu ferð,

og hermenn marga hefur,

einhuga’ af sterkri þrá,

er hverri skipun fylgja

með gleðisöng á brá.3

Öldungur Christofferson hefur svarað einhverjum þeirra spurninga sem víst er að vakni eftir tilkynninguna um að sameina eigi háprestaflokk og öldungasveit deildar í eina máttuga hersveit bræðra í Melkísedeksprestdæminu.

Þessar breytingar munu auðvelda öldungasveit og Líknarfélagi að samstilla strengi sína. Þær munu líka einfalda samræmingu sveitar og biskupsráðs og deildarráðs. Þær gera biskupi líka kleift að úthluta forsetum öldungasveitar og Líknarfélags aukinni ábyrgð, svo að biskup og ráðgjafar hans geti sinnt betur megin skyldum sínum – einkum að vera í forsæti stúlkna og pilta sem hafa Aronsprestdæmið.

Breytingar á skipulagi og starfsemi kirkjunnar eru ekki óþekktar. Árið 1883 sagði Drottinn við John Taylor forseta: „[Hvað varðar] stjórnun og skipulag kirkju minnar, … þá mun ég opinbera þér endrum og eins, eftir þeim boðleiðum sem ég hef tilnefnt, hvaðeina nauðsynlegt til framþróunar, fullkomnunar og aðlögunar kirkju minnar og framrásar ríkis míns.“4

Nokkur orð til ykkar, bræður, sem eruð háprestar – verið vissir um að við elskum ykkur! Himneskur faðir elskar ykkur! Þið eruð mikilfenglegur herrans her prestdæmisins og við fáum ekki þokað þessu verki áfram án ykkar gæsku, þjónustu, reynslu og réttlætis. Alma kenndi að menn væru kallaðir sem háprestar sökum mikillar trúar og góðverka við að kenna og þjóna öðrum.5 Kannski er þörfin nú fyrir slíka reynslu meiri en áður hefur verið.

Í mörgum deildum gætu verið háprestar sem nú gefst kostur á að hafa öldung í forsæti þeirra sem öldungasveitarforseta. Það er fordæmi fyrir því að öldungar séu í forsæti hápresta. Öldungar þjóna nú þegar sem greinarforsetar á sumum svæðum heimsins, þar sem háprestar búa á svæði greinar og til eru greinar þar sem einungis öldungasveit er skipulögð og háprestar eru þar líka.

Hve gleðilegt það verður fyrir alla Melkísedeksprestdæmishafa að njóta blessunar kennslu, lærdóms og þjónustu með öllum meðlimum deildar þeirra. Hvar sem þið eruð og hverjar sem aðstæður ykkar eru, þá bjóðum við ykkur í bænaranda, af einlægni og gleði að taka á móti nýjum tækifærum til að leiða eða verða leiddir og þjóna saman sem bræður í prestdæmissveit.

Ég ætla nú að ræða um annað málefni, sem kann að þurfa frekari útskýringar, er við framfylgjum vilja Drottins við að endurskipuleggja sveitir hans heilaga prestdæmis.

Hvað breytist varðandi háprestasveit stiku? Háprestasveitir stiku mun halda áfram að starfa. Stikuforsætisráð mun áfram þjóna sem forsætisráð háprestasveitar stiku. Líkt og öldungur Christofferson gat þó um, mun háprestasveit stiku nú skipuð þeim háprestum sem þegar þjóna í stikuforsætisráði, í biskupsráði, í stikuháráði og sem fastapatríarkar. Ritarar deildar og stiku og framkvæmdaritarar eru ekki meðlimir háprestasveitar stiku. Þegar einhver sem þjónar með virkum hætti sem háprestur, patríarki, einn hinna Sjötíu eða postuli, heimsækir deild og vill vera á prestdæmisfundi, mun hann funda með öldungasveit.

Þegar bræður í þessum köllunum eru leystir af, á tilsettum tíma, munu þeir aftur fara í heimaeiningu sína sem meðlimir öldungasveitar.

Hvert er hlutverk háprestasveitar stiku? Stikuforsætisráð eiga samfund með meðlimum háprestasveitar til að ráðgast saman, vitna og veita þjálfun. Stikufundir, eins og þeir eru útskýrðir í handbókum okkar, munu halda áfram, en með tveimur breytingum:

Fyrst er að nefna að deildir og stikur munu ekki lengur hafa framkvæmdafundi prestdæmis. Ef upp kemur sérstakt deildarmál, svo sem viðkvæmt fjölskyldumál eða óvenjulegt velferðarmál, mætti taka það fyrir á lengdum biskupsráðsfundi. Önnur síður viðkvæm mál má taka fyrir á deildarráðsfundi. Sá fundur sem hingað til hefur verið kunnur sem framkvæmdafundur prestdæmis, mun nú kallaður „háráðsfundur.“

Svo er að nefna að árlegur fundur allra vígðra hápresta í stiku, mun ekki lengur hafður. Stikuforsætisráð mun þó halda áfram að hafa árlegan fund háprestasveitar stiku, eins og kynnt var fyrr í dag.

Getur deild haft fleiri en eina öldungasveit? Svarið er já. Í anda Kenningar og sáttmála, kafla 107, í versi 89, geta leiðtogar komið á fót fleiri en einni öldungasveit þegar óvenjumikill fjöldi virkra Melkísedeksprestdæmishafa er í deild. Í slíkum tilvikum ætti hver sveit að hafa skynsamlegt jafnvægi aldurs, reynslu, prestdæmisembætta og styrks.

Ég ber vitni um að ótal blessanir munu fylgja í kjölfar þess að framfylgja þessu innblásna sveitarskipulagi í deildum okkar og stikum. Ég nefni aðeins fáein dæmi.

Fleiri prestdæmisúrræði geta nýst við starf sáluhjálpar, undir leiðsögn biskups. Í þessu felst samansöfnun Ísraels fyrir tilstilli musteris- og ættarsögustarfs, að vinna með fjölskyldur og einstaklinga í neyð og aðstoða trúboðana við að leiða sálir til Jesú Krists.

Þegar fyrrverandi leiðtogar í forsæti taka aftur að miðla öldungasveit af eigin reynslu, mun það verða til að efla meðlimi sveitarinnar.

Gjafir og hæfileikar sveitarinnar munu aukast að fjölbreytni.

Sveigjanleiki mun aukast og auðveldara verður að uppfylla brýnar þarfir í deildinni og sveitinni og að framfylgja okkar margþættu þjónustuverkefnum.

Samstaða mun aukast og meiri breidd verður í kennslu þegar nýr öldungur og reyndur háprestur miðla af eigin reynslu, hlið við hlið, á fundum og í þjónustuverkefnum öldungasveitar.

Biskupar og greinarforsetar geta vonandi með þessu eflt betur þá köllun sína að vera hirðar hjarðar sinna og þjónustað hina þurfandi.

Við skiljum að deildir og stikur geti verið ólíkar. Þrátt fyrir þann mismun, vonum við að þið munið koma þessum breytingum tafarlaust á eftir þessa aðalráðstefnu. Við höfum fengið leiðsögn frá spámanni Guðs! Hve dásamleg blessun og ábyrgð. Við skulum framfylgja henni af fyllsta réttlæti og kostgæfni!

Ég minni ykkur á að prestdæmisvald er veitt þegar menn eru settir í embætti og vígðir, en hinn raunverulegi kraftur prestdæmisins, krafturinn til að starfa í nafni Drottins Jesú Krists, veitist einungis með réttlátu líferni.

Drottinn sagði við spámanninn Joseph Smith, spámann endurreisnarinnar:

„Sjá, og tak eftir, ég mun annast hjarðir yðar og mun vekja upp öldunga og senda þeim.

Sjá, ég mun hraða verki mínu þegar að því kemur.“6

Já, vissulega er þetta sá tími er Drottinn hraðar verki sínu.

Við skulum allir grípa þetta tækifæri til að hugleiða og bæta eigið líf og laga það betur að vilja hans, svo við fáum verðskuldað þær mörgu blessanir sem hann hefur lofað hinum dyggu og trúföstu.

Bræður, við þökkum ykkur öllum fyrir framlag ykkar við þetta undursamlega verk. Megum við sækja fram í þessu mikla dýrðarverki.

Er stríðið mikla endar

og heróp þagnar hátt,

er hjörðin lifir saman,

í gleði, friði’ og sátt,

hún konung hefur æðstan,

í eilífðanna för,

og æ hans nafn skal lofað,

með dýrðar söng á vör.

Sigursæl, sigursæl,

í honum sem að leysti’ oss!

Sigursæl, sigursæl,

því Kristur er vor Guð!

Sigursæl, sigursæl, sigursæl,

því Kristur er vor Guð!7

Í dag erum við allir vitni að því að Drottinn opinberar vilja sinn fyrir tilstilli spámanns síns, Russells M. Nelson forseta. Ég ber vitni um að hann er spámaður Guðs á jörðu. Ég ber vitni um að Drottinn Jesús Kristur er okkar mikli frelsari og lausnari. Þetta er hans verk og þetta er hans vilji, sem ég ber hátíðlega vitni um, í nafni Jesú Krists, amen.