2010–2019
Sjáið manninn!
Apríl 2018


Sjáið manninn!

Þeir sem finna leið til að sjá manninn með sanni, finna dyrnar að mestu gleði lífsins og smyrslið við dýpstu örvæntingu lífsins.

Kæru bræður og systur, kæru vinir, ég er þakklátur fyrir að vera meðal ykkar á þessari dásamlegu aðalráðstefnuhelgi. Ég og Harriet samgleðjumst ykkur í því að styðja öldung Gong og öldung Soares og þá mörgu bræður og systur sem hafa hlotið þýðingarmiklar kallanir á þessari aðalráðstefnu.

Þótt ég sakni míns kæra vinar, Thomas S. Monson forseta, þá elska ég og styð spámann okkar, Russell M. Nelson forseta, og göfuga ráðgjafa hans.

Ég er líka þakklátur og heiðraður af því að geta enn á ný átt nánara samstarf við mína ástkæru bræður í Tólfpostulasveitinni.

Framar öllu er ég afar auðmjúkur og glaður yfir því að vera meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, þar sem milljónir karla og kvenna og barna eru fús til að lyfta þar sem þau standa – hver sem hæfni þeirra eða köllun er – og keppa af öllu hjarta að því að þjóna Guði og samferðafólki sínu og byggja upp Guðs ríki.

Í dag er helgur dagur. Það er páskasunnudagur, er við minnumst hins dýrðlega morguns er frelsarinn rauf helsi dauðans1 og reis sigrihrósandi úr gröfinni.

Mikilvægasti dagur sögunnar

Nýverið varpaði ég fram þessari spurningu á Alentinu: „Hvaða dagur breytti mestu í sögunni?“

Svörin voru mörg og mismunandi, bæði óvænt og undarleg og hnitmiðuð og hugvekjandi. Þeirra á meðal var dagurin er hið forsögulega smástirni skall á Yucatán-skaga; dagurinn er Johannes Gutenberg lauk prentverki sínu árið 1440; og dagurinn er Wright-bræður sýndu fram á að menn gætu í raun flogið árið 1903.

Hvert væri svar ykkar, ef þið væruð spurð þessarar sömu spurningar?

Í mínum huga er svarið augljóst.

Við þurfum að fara aftur um 2000 ár, til að finna mikilvægasta dag sögunnar, er Jesús Kristur kraup í ákafri bæn í Getsemanegarðinum og bauð sig sjálfan fram sem lausnargjald fyrir syndir okkar. Það var í þeirri miklu og óendanlegu fórn ólýsanlegra þjáninga á bæði líkama og anda sem Jesú Kristi, já sjálfum Guði, blæddi úr hverri svitaholu. Af fullkominni elsku gaf hann allt, svo við gætum hlotið allt. Hans guðlegu fórn, sem erfitt er að skilja, en mögulegt er að skynja af öllu hjarta og huga, minnir okkur á hina altæku þakkarskuld sem við eigum Kristi að gjalda fyrir hans guðlegu gjöf.

Síðar á þessu sama kvöldi var Jesús færður fyrir trúarleiðtoga og ríkisvaldhafa, sem hæddu og börðu hann og dæmdu hann til svívirðilegs dauða. Hann hékk kvalinn á krossi, þar til „það [var] fullkomnað.“2 Líflaus líkami hans var lagður í lánsgröf. Síðan gerðist það að morgni þriðja dags, að Jesús Kristur, sonur almáttugs Guðs, sté úr gröfinni, sem upprisinn dýrðleg vera, ljóss og hátignar.

Vissulega eru þeir margir atburðirnir sem hafa haft djúp áhrif á örlög fólks og þjóða. Allir til samans eru þeir þó óravegu frá því að vera jafn mikilvægir og það sem gerðist á þessum fyrsta páskadagsmorgni.

Hvað er það sem gerir hina óendanlegu fórn og upprisu Jesú Krists að mikilvægasta atburði sögunnar – áhrifameiri en öll heimsins stríð, náttúruhörmungar og lífsbreytandi vísindauppgötvanir?

Þökk sé Jesú Kristi, að við lifum aftur

Svarið grundvallast á tveimur óyfirstíganlegum áskorunum sem við öll stöndum frammi fyrir.

Í fyrsta lagi deyjum við öll. Engu skiptir hve ung, falleg, heilbrigð eða aðgætin þið eruð, að því mun koma að líkami ykkar verður lífvana. Fjölskylda og vinir munu syrgja ykkur. Þau geta þó ekki kallað ykkur fram aftur.

Dauði ykkar er þó einungis tímabundinn, þökk sé Jesú Kristi. Andi ykkar mun dag einn sameinast líkama ykkar. Sá upprisni líkami verður óháður dauðanum,3 og þið munið lifa í eilífðunum, laus við sársauka og líkamlegar þjáningar.4

Það mun verða sökum Jesú Krists, sem gaf líf sitt og tók það aftur.

Hann gerði þetta fyrir alla sem trúa á hann.

Hann gerði þetta fyrir alla sem ekki trúa á hann.

Hann gerði þetta meira að segja fyrir þá sem hæða, smána og fordæma nafn hans.5

Þökk sé Jesú Kristi, að við getum lifað með Guði

Í öðru lagi höfum við öll syndgað. Syndir okkar hefðu gert okkur endanlega ómögulegt að dvelja hjá Guði, því „ekkert óhreint fær komist inn í ríki hans.“6

Af þessu leiðir að sérhver karl, kona og barn voru útilokuð úr návist hans – allt fram að því að Jesús Kristur, hið flekklausa lamb, bauð líf sitt fram sem lausnargjald fyrir syndir okkar. Þar sem réttvísin átti enga kröfu á Jesú, þá gat hann goldið skuld okkar og fullnægt kröfum réttvísinnar fyrir hverja sál. Það á líka við um mig og þig.

Jesú Kristur galt gjaldið fyrir syndir okkar.

Allar okkar syndir.

Á þessum mikilvægasta degi sögunnar lauk Jesús Kristur upp gáttum dauðans og vék úr vegi þeim hindrunum sem vörnuðu því að við kæmumst inn í hin helgu húsakynni ævarandi lífs. Þér og mér er gefin dýrmæt og ómetanleg gjöf, sökum Drottins okkar og frelsara – sem er að við getum iðrast, hver sem fortíð okkar er, og fylgt veginum til himnesks ljóss og dýrðar, umkringd trúföstum börnum himnesks föður.

Ástæða þess að við fögnum

Þetta er einmitt ástæða þess að við fögnum á páskum – við fögnum lífinu!

Sökum Jesú Krists, munum við rísa ofar örvæntingu dauðans og umvefja þá örmum sem við elskum, tárfella af einskærri gleði og yfirþyrmandi þakklæti. Sökum Jesú Krists, munum við eiga tilveru sem eilífar verur, í heimum án enda.

Sökum Jesú Krists, er ekki einungis mögulegt að afmá syndir okkar, heldur falla þær líka í gleymsku.

Við getum orðið hrein og upphafin.

Heilög.

Sökum okkar ástkæra frelsara, getum við ævarandi teygað vatn úr brunni eilífs lífs.7 Við getum ævarandi dvalið í húsakynnum okkar eilífa konungs, í ólýsanlegri dýrð og fullkominni hamingju.

Fáið þið „séð manninn“?

Þrátt fyrir allt þetta, eru margir í þessum heimi sem annað hvort eru ekki meðvitaðir um hina dýrmætu gjöf sem Jesús Kristur hefur gefið okkur eða hafa ekki trú á henni. Þeir kunna að hafa heyrt um Jesú Krist og vita af honum sem söguímynd, en sjá hann ekki sem þann sem hann í raun er.

Þegar ég hugsa um það, minnist ég frelsarans standandi frammi fyrir hinum rómverska ríkisstjóra Júdeu, Pontíusi Pílatusi, einungis fáeinum stundum fyrir dauða sinn.

Pílatus sá Jesú einungis út frá veraldlegu sjónarhorni. Pílatus hafði verk að vinna og í því fólst tvennt mikilvægt: Að innheimta skatt fyrir Róm og halda uppi röð og reglu. Í þetta skiptið hafði Rabbíaráðið komið með mann til hans, sem það sagði vera hættulegan hvorutveggja.8

Eftir að hafa yfirheyrt fanga sinn, tilkynnti Pílatus: „Ég finn enga sök hjá honum.“9 Honum fannst hann samt þurfa að róa ákærendur Jesú, svo hann vísaði til siðvenju, sem leyfði að einum fanga yrði sleppt á páskahátíðinni. Vildu þeir ekki fremur að hann setti Jesú lausann, í stað hins alræmda ræningja og morðingja, Barabbas?10

Hinn róstursami lýður krafðist þess að Pílatus léti Barabbas lausan og krossfesti Jesú.

„Hvað á ég … að gjöra?“ spurði Pílatus. „,Hvað illt hefur hann … gjört?‘

En þeir æptu því meir: ,Krossfestu hann!‘“11

Í enn einni tilraun til að fullnægja lýðnum, skipaði Pílatus mönnum sínum að húðstrýkja Jesú.12 Það gerðu þeir og skildu við hann barinn og blóðugan. Þeir hæddust að honum, settu þyrnikórónu á höfuð hans og færðu hann í purpuraskikkju.13

Pílatus hélt kannski að þetta yrði til að fyllnægja blóðþyrstum lýðnum. Kannski færi lýðurinn að kenna í brjósti um manninn. „Nú leiði ég hann út til yðar,“ sagði Pílatus, „svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum. … ,Sjáið manninn!‘“14

Sonur Guðs stóð í holdinu frammi fyrir fólkinu í Jerúsalem.

Það sá Jesú, en það þekkti hann vissulega ekki.

Það hafði ekki augu til að sjá.15

Í óeiginlegri merkingu er okkur líka boðið að „sjá manninn.“ Skoðanir á honum eru mismunandi í heiminum. Spámenn fyrr og síðar bera vitni um að hann sé sonur Guðs. Það geri ég líka. Afar mikilvæg er að hvert okkar viti það fyrir sjálft sig. Hvað er það sem þið sjáið svo þegar þið íhugið líf og þjónustu Jesú Krists?

Þeir sem finna leið til að sjá manninn með sanni, finna dyrnar að mestu gleði lífsins og smyrslið við dýpstu örvæntingu lífsins.

Þegar því sorg og sút fyllir hjartað, sjáið þá manninn.

Þegar þið eru glötuð og gleymd, sjáið þá manninn.

Þegar þið eruð örvæntingarfull, einmanna, efagjörn, eyðilögð eða undirokuð, sjáið þá manninn.

Hann mun hugga ykkur.

Hann mun græða ykkur og glæða ferð ykkar tilgangi. Hann mun úthella anda sínum og fylla hjarta ykkar mikilli gleði.16

„Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa.“17

Þegar við sjáum manninn með sanni, lærum við af honum og leitumst við að laga líf okkar að honum. Við iðrumst og keppum að því að fága okkar innri mann og komast dag hvern örlítið nær honum. Við setjum traust okkar á hann. Við sýnum elsku okkar til hans með því að halda boðorð hans og lifa samkvæmt helgum sáttmálum okkar.

Við verðum, með öðrum orðum, lærisveinar hans.

Hans hreinsandi ljós fyllir sál okkar. Náð hans upphefur okkur. Byrðir okkar verða léttari, friður okkar verður dýpri. Þegar við sjáum manninn með sanni, vaknar í okkur loforðið um blessaða framtíð, sem innblæs og styður okkur í gegnum bugður og beygjur lífsins. Þegar við lítum til baka, munum við sjá hina guðlegu forsjá, hinn raunverulega tilgang alls.18

Hvað verður um sorg ykkar, ef þið takið á móti fórn hans, verðið lærisveinar hans og komist loks klakklaust á leiðarenda eftir ykkar jarðnesku ferð?

Hún hverfur.

Hvað verður um vonbrigðin, svikin, ofsóknirnar sem þið þolduð?

Allt þetta hverfur.

Hvað verður um þjáningarnar, tregann, sektina, skömmina og sálarkvölina sem þið þolduð?

Allt þetta hverfur.

Verður gleymt og grafið.

Er þá nokkur furða að „vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, vér spáum um Krist, … svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna“?19

Er þá nokkur furða að við reynum af öllu hjarta að sjá manninn með sanni?

Kæru bræður og systur, ég ber vitni um að mikilvægasti dagurinn í sögu mannkyns er dagurinn er Jesús Kristur, sonur Guðs, sigraði dauða og synd fyrir öll börn Guðs. Mikilvægasti dagurinn í lífi mínu og þínu er sá dagur er við lærum að „sjá manninn,“ er við sjáum hver hann er með sanni, er við meðtökum af öllu hjarta og huga af krafti friðþægingar hans, er við einsetjum okkur að fylgja honum, af auknum eldmóð og styrk. Megi það vera dagur sem rís síendurtekið í lífi okkar alla ævi.

Ég gef ykkur vitnisburð minn og blessun um að þegar við „sjáum manninn,“ munum við finna tilgang, gleði og frið í þessu jarðlífi og eilíft líf í komandi heimi. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Mósía 15:23.

  2. Jóh 19:30.

  3. Sjá Alma 11:45.

  4. Sjá Op 21:4.

  5. Sjá 1 Kor 15:21–23.

  6. 3 Ne 27:19.

  7. Sjá Jóh 4:14.

  8. Sjá Lúk 23:2.

  9. Jóh 18:38. Pílatus reyndi að koma sér undan því að dæma Jesú með því að fela Heródesi Antipas að sjá um að leysa málið. Ef Heródes, sem hafði dæmt Jóhannes skírara til dauða (sjá Matt 14:6–11), hefði sakfellt Jesú, hefði Pílatus samþykkt dóm hans og sagt að einungis hafi verið um að ræða staðarmál sem hann hefði sætt sig við til að halda uppi röð og reglu. Jesús sagði hins vegar ekki orð við Heródes (sjá Lúk 23:6–12) og Heródes sendi hann því til baka til Pílatusar.

  10. Sjá Mark 15:6–7; Jóh 18:39–40. Einn fræðimaður í Nýja testamentinu, skrifar: „Svo virðist sem það hafi verið siðvenja á páskum að rómverski ríkisstjórinn léti lausan fyrir lýð Gyðinganna einhvern alræmdan fanga sem hafði verið dæmdur til dauða“ (Alfred Edersheim, The Life and Times of Jesus the Messiah [1899], 2:576). Nafnið Barabbas merkir „sonur föðurins.“ Sú kaldhæðni sem leyfir lýðnum í Jerúsalem að velja á milli þessara tveggja mann er athyglisverð.

  11. Sjá Mark 15:11–14.

  12. Þessi húðstrýking var svo hræðileg að hún var kölluð „millistigsdauði“ (Edersheim, Jesus the Messiah, 2:579).

  13. Sjá Jóh 19:1–3.

  14. Jóh 19:4-5.

  15. Fyrr hafði Jesús sagt: „Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.“ Hann sagði síðan blíðlega við lærisveina sína: „En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra“ (Matt 13:15–16). Munum við herða hjörtu okkar eða ljúka upp augum okkar og hjörtum, svo við fáum með sanni séð manninn?

  16. Sjá Mósía 4:20.

  17. Jes 40:29.

  18. Sjá Dieter F. Uchtdorf, “The Adventure of Mortality” (heimstrúarsamkoma fyrir ungt fullorðið fólk, 14. jan. 2018), broadcasts.lds.org.

  19. 2 Ne 25:26.