2010–2019
Það er fólkið sem skiptir máli
Apríl 2018


Það er fólkið sem skiptir máli

Þið eruð það sem kirkjan snýst um, lærisveinar Drottins - þeir sem elska og fylgja honum og hafa tekið á sig nafn hans með sáttmála.

Þegar undirbúningurinn að byggingu Parísar-musterisins stóð yfir varð ég fyrir reynslu sem ég mun aldrei gleyma. Þegar búið var að finna lóðina fyrir musterið, árið 2010, kallaði borgarstjórinn á okkur til að fræðast meira um kirkjuna. Þessi fundur skipti sköpum í að öðlast byggingarleyfi. Við lögðum mikla vinnu í kynningu sem meðal annars sýndi margar tilkomumiklar ljósmyndir af musterum Síðari daga heilagra. Ég vonaði heitt að byggingarstíll þeirra og fegurð myndi sannfæra borgarstjórann um að styðja verkefni okkar.

Mér til undrunar gaf borgarstjórinn í skyn, að frekar en að sjá kynningu okkar vildi hann og teymi hans að gera sína eigin könnun, til að komast að því hvernig kirkjan í raun væri. Næsta mánuð var okkur boðið að koma aftur til að heyra borgarfulltrúa flytja skýrslu, en hann var einnig prófessor í trúarsögu. Hún sagði: „Fyrst og fremst langaði okkur að skilja hverjir meðlimir kirkju ykkar væru. Til að byrja með þá mættum við á eina af sakramentissamkomum ykkar. Við sátum aftast í kapellunni og fylgdumst vandlega með fólkinu í söfnuðinum og því sem þau voru að gera. Því næst hittum við nágranna ykkar - þá sem búa í kringum stikumiðstöð ykkar - og við spurðum þá hvers konar fólk þið mormónar væruð.“

„Hverjar voru svo niðurstöður ykkar?“ spurði ég örlítið taugaóstyrkur. Hún svaraði: „Við komumst að því að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu kemst næst því að vera eins og hin upprunalega kirkja Jesú Krists var, nær því en nokkur önnur kirkja sem við vitum af.“ Ég mótmælti því næstum með því að segja: „Það er ekki alveg rétt! Þetta er ekki sú kirkja sem líkist henni mest; þetta er kirkja Jesú Krists, sama kirkjan, hin sanna kirkja!“ Ég hélt hins vegar aftur af mér og í staðinn færði ég hljóðlega þakklætisbæn. Borgarstjórinn sagði okkur því næst, að byggt á niðurstöðum þeirra, þá hefðu hann og teymi hans, engar mótbárur fram að færa við byggingu musterisins í samfélagi þeirra.

Í dag, er ég hugsa um þessa undraverðu reynslu, þá er ég þakklátur fyrir visku borgarstjórans og anda greiningar. Hann vissi að lykillinn að því að skilja kirkjuna, væri ekki að virða hana fyrir sér útlitslega sem byggingu eða jafnvel að kynna sér skipulag hennar sem stofnunar, heldur að þekkja til hinna mörgu milljóna meðlima, sem reyndu dag frá degi að fylgja fordæmi Jesú Krists.

Skilgreiningin á kirkjunni gæti hafa komið frá setningu í Mormónsbók sem segir: „Og þeir [lærisveinar Drottins], sem skírðir voru í nafni Jesú, nefndust kirkja Krists.“1

Með öðrum orðum, þá er það fólkið sem skiptir máli. Það eruð þið sem skiptið máli, lærisveinar Drottins - þeir sem elska og fylgja honum og hafa tekið á sig nafn hans með sáttmála.

Russel M. Nelson líkti kirkjunni eitt sinn við fallega bifreið. Við elskum það þegar farartæki okkar eru hrein og skínandi. Hlutverk bílsins er ekki að vera áberandi sem aðlaðandi tæki, heldur er hann til að flytja fólkið í bílnum.2 Á sama hátt þá njótum við, sem meðlimir kirkjunnar, þess að hafa fallega, hreina og vel hirta staði til að tilbiðja í og einnig að starfa í vel rekinni starfsemi. Þetta er hins vegar einungis stuðningskerfið. Aðal tilgangur okkar er að bjóða hverjum syni og dóttur Guðs að koma til Krists og að leiða hann eða hana eftir sáttmálsveginum. Ekkert er því mikilvægara. Verk okkar snýst að öllu leyti um fólk og sáttmála.

Er það ekki dásamlegt að nafnið sem gefið er í gegnum opinberun endurreistrar kirkju, bindi saman tvo mikilvægustu eðlisþætti hvers sáttmála fagnaðarerindisins. Í fyrsta lagi er það nafnið Jesús Kristur. Kirkjan er hans og helgandi friðþægingarfórn hans og sáttmálar eru eina leiðin til sáluhjálpar og upphafningar. Hitt nafnið snýr að okkur, hinum heilögu, eða með öðrum orðum, vitnum hans og lærisveinum.

Ég lærði um mikilvægi þess að einbeita mér að fólkinu þegar ég þjónaði sem stikuforseti í Frakklandi. Í upphafi þjónustu minnar hafði ég mjög metnaðarfull markmið fyrir stikuna, sköpun nýrra deilda, byggingu nýrra safnaðarheimila og jafnvel byggingu musteris á svæðinu okkar. Þegar ég var leystur af sex árum seinna þá hafði engum þessum markmiðum verið náð. Það hefði verið hægt að líta á það þannig að mér hefði mistekist algerlega, nema að á þessum sex árum þá höfðu markmið mín breyst talsvert.

Er ég sat þarna við ræðustólinn daginn sem ég var leystur af, varð ég yfirkominn af djúpri þakklætistilfinningu yfir því að hafa afrekað einhverju. Ég horfði í augu þeirra hundruða meðlima sem voru viðstaddir. Ég gat kallað fram andleg atvik sem tengdust hverjum og einum þeirra.

Þetta voru bræður og systur sem höfðu stigið ofan í skírnarvatnið, sem ég hafði skrifað undir fyrstu musterismeðmælin hjá, svo að þaur gætu meðtekið helgiathafnir sínar í musterinu og ungt fólk og hjón sem ég hafði sett í embætti eða leyst af sem fastatrúboða. Þar voru margir aðrir sem ég hafði þjónað þegar þeir höfðu staðið í erfiðleikum og mótlæti í lífi sínu. Ég skynjaði sterkan bróðurlegan kærleika til þeirra allra. Ég hafði fundið hreina gleði í að þjóna þeim og fagnaði aukinni hollustu þeirra og trú á frelsarann.

M. Russel Ballard forseti kenndi: „Það sem er mikilvægast í kirkjuábyrgð okkar er ekki tölfræðin sem við sendum frá okkur eða fundir sem við höldum, heldur hvort einstaklingnum - sem þjónað er að hætti frelsarans - hafi verið lyft og hann hvattur og að hann hafi að lokum breyst.“3

Kæru bræður og systur, erum við virk í fagnaðarerindinu eða erum við bara upptekin í kirkjunni? Lykillin er að fylgja fordæmi frelsarans í öllu. Ef við gerum það, munum við eðlilega leggja áherslu á að bjarga einstaklingum frekar en að framkvæma verkefni eða að koma áætlun í framkvæmd.

Hafið þið einhvern tíma spurt sjálf ykkur að því hvernig það myndi vera ef frelsarinn heimsækti deild ykkar eða grein næsta sunnudag? Hvað myndi hann gera? Myndi hann hafa áhyggjur af því að vita hvort sýnigögnin væru nægilega góð eða ef stólunum væri raðað rétt upp í kennslustofunni? Myndi hann kannski finna einhvern sem hann gæti elskað, kennt og blessað? Kannski myndi hann leita uppi nýjan meðlim eða vin til að bjóða velkominn, veikan bróður eða systur sem þyrfti á huggun að halda eða ráðvilltan ungan einstakling sem þyrfti á upplyftingu og hvatningu að halda.

Hvaða námsbekki myndi Jesús heimsækja? Það kæmi mér ekki á óvart ef hann byrjaði á að heimsækja Barnafélagið. Hann myndi örugglega krjúpa niður og tala við þau í augnhæð. Hann myndi tjá þeim elsku sína, segja þeim sögur, hrósa þeim fyrir myndirnar þeirra og bera vitni um föður sinn á himnum. Viðhorf hans myndi vera einfalt, einlægt og án tilgerðar. Getum við gert það sama?

Ég lofa ykkur því að er þið keppið að því að vinna verk Drottins þá mun ekkert vera mikilvægara en að finna þá einstaklinga sem þið getið aðstoðað og blessað. Í kirkju munið þið einblína á að kenna einstaklingum og snerta hjörtu þeirra. Það mun skipta ykkur meira máli hlúa að andlegri reynslu en að skipuleggja hina fullkomnu skemmtistund, að þjóna náunganum frekar en að merkja við fjölda heimsókna sem þið hafið farið í. Það mun ekki hafa með ykkur sjálf að gera, heldur þau sem við köllum bræður okkar og systur.

Stundum tölum við um að fara til kirkju. Kirkjan er hins vegar meira en bygging eða sérstakur staður. Hún er jafn raunveruleg í auðmjúklegustu vistarverum á afskekktustu stöðum heimsins eins og í höfðustöðvum kirkjunnar í Salt Lake City. Drottinn sjálfur sagði: „Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.“4

Við tökum kirkjuna með okkur hvert sem við förum, í vinnuna, í skólann, í fríið og sérstaklega heim til okkar. Nærvera okkar og áhrif geta verið nægileg til að gera hvern þann stað sem við finnum okkur á að helgum stað.

Ég man eftir samtali sem ég átti við vin sem er ekki meðlimur kirkju okkar. Hann var undrandi að heyra að hvaða verðugur maður sem væri í kirkjunni okkar gæti fengið prestdæmið. Hann spurði: „Hve marga prestdæmishafa eruð þið með í deildinni þinni?“

Svar mitt var: „Á milli 30 og 40.“

Ráðvilltur hélt hann áfram: „Í söfnuðinum mínum erum við einungis með einn prest. Hvað hafið þið að gera með svona marga presta á sunnudagsmorgni?“

Mér fannst spurning hans mjög áhugaverð og fann mig knúinn til að svara: „Ég er sammála þér. Ég held ekki að við þurfum svo marga prestdæmishafa í kirkju á sunnudegi. Við þurfum samt prestdæmishafa á hverju heimili. Þegar það er enginn prestdæmishafi á heimilinu þá eru aðrir prestdæmishafar kallaðir til að vaka yfir og þjóna þeirri fjölskyldu.“

Kirkjan okkar er ekki bara sunnudagskirkja. Tilbeiðsla okkar heldur áfram alla daga vikunnar, hvar sem við erum og í hverju sem við tökum okkur fyrir hendur. Einkum heimili okkar eru „helstu griðarstaðir trúar okkar.“5 Það er oftast á heimilum okkar sem við flytjum bænir, blessum, lærum, kennum orð Guðs og við þjónum af hreinum kærleika. Ég get borið vitni um persónulega reynslu þess að heimili okkar eru helgir staðir, þar sem andinn getur verið sterkur, eins mikið og stundum meira en á formlegum tilbeiðslusamkomum okkar.

Ég ber vitni um að þessi kirkja er kirkja Jesú Krists. Styrkur hennar og orka kemur frá daglegum gjörðum miljóna lærisveina hennar sem vinna að því dag hvern að fylgja hans æðsta fordæmi, með því að annast aðra. Kristur lifir og leiðir þessa kirkju. Russel M. Nelson forseti er spámaður sem hann hefur valið til að leiða og leiðbeina okkur á okkar tíma. Um þetta vitna ég, í nafni Jesú Krists, amen.