2010–2019
Sjötíu sinnum sjö
Apríl 2018


Sjötíu sinnum sjö

Umkringd hindrunum í lífi okkar, þá erum við öll þakklát þegar við fáum annað tækifæri.

Mistök eru staðreyndir í lífinu. Það er algerlega ómöguleg að læra að spila vel á píanó án þess að gera þúsundir mistaka - jafnvel miljónir. Ef maður vill læra erlent tungumál þá verður maður að horfast í augu við það að gera þúsundir mistaka - jafnvel milljón. Jafnvel besta íþróttafólk heimsins hættir aldrei að gera mistök.

Sagt hefur verið að „velgengni sé ekki mistakalaus, heldur að gera mistök eftir mistök, án þess að missa móðinn.“1

Thomas Edison sagði þegar hann fann upp ljósaperuna: „Mér mistókst ekki 1000 sinnum. Ljósaperan var uppgötvun í 1000 stigum.“2 Charles F. Kettering kallaði mistök „vegvísa á veginum að árangri.“3 Vonandi verða hver þau mistök sem við gerum, lexía í visku og snýr hindrunum í stiklusteina.

Óbilandi trú Nefís, hjálpaði honum að fara frá mistökum til mistaka þar til að honum tókst að lokum að ná í látúnstöflurnar. Það tók Móse tíu skipti áður en honum tókst loksins að flýja Egyptaland með Ísraelsmenn.

Við veltum því kannski fyrir okkur - ef bæði Nefí og Móse voru í erindagjörðum fyrir Drottinn, hvers vegna steig Drottinn ekki inn og aðstoðaði þá við að ná árangri í fyrstu tilraun. Hvers vegna leyfði hann þeim - og hvers vegna leyfir hann okkur - að brjótast um og mistakast í tilraunum okkar við að ná árangri. Meðal margra mikilvægra svara við þeirri spurningu þá eru hér nokkur:

  • Í fyrsta lagi þá veit Drottinn að „allt mun þetta veita [okkur] reynslu og verða [okkur] til góðs.“4

  • Í öðru lagi, til að leyfa okkur að „bragða hið beiska, svo að [við lærum] að meta hið góða.“5

  • Í þriðja lagi, til að sanna að „bardaginn er Drottins,“6og það er einungis með náð hans að við getum lokið verki hans og orðið eins og hann.7

  • Í fjórða lagi, til að hjálpa okkur að þroska og stilla fjölda kristilegra eiginleika sem ekki er hægt að „fága“ nema í gegnum „andstæður“8og í gegnum „[bræðsluofn] hörmungarinnar.“9

Þannig að umkringd hindrunum og ófullkomleika í lífi okkar þá erum við öll þakklát þegar við fáum annað tækifæri.

Árið 1970 var ég nýnemi í BYU og skráði mig í byrjendaáfanga í innganginum að eðlisfræði, sem Jae Ballif kenndi, er var einstakur kennari. Eftir að hverjum kafla í áfanganum lauk þá hafði hann próf. Ef að nemandi fékk C í einkunn og hafði áhuga á hærri einkunn, þá leyfði Ballif nemandanum að þreyta nýtt próf úr sama efni. Ef að nemandinn fengi B í annarri tilraun og var enn ósáttur þá gat hann tekið prófið í þriðja skipti, fjórða og svo framvegis. Með því að gefa mér mörg viðbótartækifæri hjálpaði hann mér að standa mig vel og ná að lokum A í áfanganum.

Ljósmynd
Prófessor Jae Ballif

Hann var óvenjulega vitur kennari sem hvatti nemendur sína til að halda áfram að reyna - að líta á mistök sem kennara, ekki sem harmleik og að hræðast aldrei mistök heldur að læra af þeim.

Nýlega hringdi ég í þennan merka mann, 47 árum eftir að hafa tekið eðlisfræði hjá honum. Ég spurði hvers vegna hann hefði svo fúslega veitt nemendum sínum ótakmörkuð tækifæri til að bæta einkunn sína. Svar hans var: „Ég vildi vera sömu megin og nemendurnir.“

Á sama tíma og við erum þakklát fyrir ný tækifæri í kjölfar mistaka, eða hugarfarslegs þrots, þá erum við öll undrandi yfir náð frelsarans í að veita okkur annað tækifæri til að sigrast á synd eða veikleikum hjartans.

Enginn stendur betur með okkur en frelsarinn. Hann leyfir okkur að taka próf sín aftur og aftur. Til að verða líkari honum þá þurfum við ótal endurtökupróf í okkar daglegu baráttu við hinn náttúrlega mann, eins og að ná stjórn á löngunum okkar, læra þolinmæði og fyrirgefningu, sigrast á hyskni, forðast vanrækslusyndir, svona bara til að nefna eitthvað. Ef það er mannlegt að gera mistök, hversu mörg mistök þurfum við þá að gera þar til eðli okkar verður ekki lengur mannlegt, heldur guðlegt. Þúsundir? Milljón væri nær lagi.

Vitandi að hinn beini og þröngi vegur yrði þakinn erfiðleikum og að við gerðum mistök daglega, þá galt Drottinn hið óendanlega gjald, svo við fengjum öll þau tækifæri sem við þyrftum til að komast farsællega í gegnum okkar jarðnesku prófraun. Andstæðurnar sem hann leyfir okkur að takast á við, virðast oft óyfirstíganlegar og nærri ómögulegar að þola, samt skilur hann okkur ekki eftir án vonar.

Til þess að halda von okkar óbugandi, er við tökumst á við erfiðleika lífsins, þá er náð frelsarans ávallt tilbúin og til staðar. Náð hans er „guðlegt liðsinni eða styrkur, … kraftur sem gerir körlum og konum kleift að ná eilífu lífi og upphafningu, eftir að hafa gert sitt allra besta.“10 Náð hans og kærleiksríkt auga eru á okkur í gegnum alla vegferð okkar og hann innblæs, léttir byrðar, styrkir, frelsar, verndar, læknar og „[liðsinnir fólki sínu],“ jafnvel er það hrasar á hinum beina og þrönga vegi.11

Iðrun er gjöf Guðs sem er alltaf fyrir hendi, sem gerir okkur kleift að gera mistök eftir mistök, án þess að missa móðinn. Iðrun er ekki varaáætlun hans til að grípa til ef okkur skyldi mistakast. Iðrun er áætlun hans, vitandi að okkur mun mistakast. Þetta er fagnaðarerindi iðrunar og eins og Russell M. Nelson sagði, þá verður það „ævilangt námsefni.“12

Í þessu ævilanga námsefni iðrunar, er sakramentið sú aðferð sem Drottinn hefur tilnefnt til að gera okkur kleift að hljóta stöðugt fyrirgefningu. Ef við meðtökum það með sundurkrömdu hjarta og sáriðrandi anda, býður hann okkur sakaruppgjöf vikulega, er við þroskumst frá einum mistökum til annars á sáttmálsveginum. Því: „Sannlega segi ég yður: Þrátt fyrir syndir þeirra er brjóst mitt fullt samúðar með þeim.“13

Hve oft mun hann samt fyrirgefa okkur? Hve langt nær langlyndi hans? Eitt sinn gekk Pétur til hans og spurði: „Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?“14

Ljósmynd
Pétur og Jesús

Kannski hefur Pétri þótt talan sjö vera nægilega há til að leggja áherslu á að gæskan hefði sín takmörk og að heimskulegt væri að fyrirgefa of oft. Frelsarinn benti Pétri á að hann ætti í raun ekki að telja – að setja þak á fyrirgefningu.

„Jesús svaraði: Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“15

Frelsarinn var auðvitað ekki að setja þak við töluna 490. Það væri álíka og að segja að einungis væri mögulegt að meðtaka sakramentið 490 sinnum og þar á eftir birtist himneskur endurskoðandi sem segði: „Því miður þá hefur iðrunarkortið þitt runnið út – héðan í frá ertu á eigin vegum.

Drottinn notaði hið tölulega orðtak sjötíu sinnum sjö sem líkingu fyrir hina óendanlega friðþægingu sína, takmarkalausa elsku sína og náð. „Já, og jafnoft og fólk mitt iðrast, mun ég fyrirgefa því brot þess gegn mér.“16

Þetta þýðir ekki að sakramentið verði leyfisbréf fyrir synd. Það er ein af ástæðunum fyrir því að þessi setning var í Mormónsbók: „En þeim var fyrirgefið jafn oft og þeir iðruðust og báðust einlæglega fyrirgefningar.“17

Einlæglega gefur í skyn sanna viðleitni og sanna breytingu. „Breyting“ er megin hugtakið sem Leiðarvísir að ritningunum notar til að lýsa orðinu iðrun: „Andleg hugarfarsbreyting sem færir ferskt viðhorf gagnvart Guði, manni sjálfum og lífinu almennt.“18 Slík breyting leiðir til andlegs vaxtar. Farsæld okkar byggist því ekki á því að gera mistök eftir mistök, heldur að læra mistök fyrir mistök, án þess að missa móðinn.

Þegar þið íhugið þessa einföldu innsýn varðandi breytingu, hugsið þá þetta: „Það sem ekki breytist er staðnað.“ Þessum augljósa sannleika er ekki ætlað að misbjóða vitsmunum ykkar, heldur er um að ræða djúpa framsetningu sannleika frá Boyd K. Packer, sem sagði síðan: „Þegar við höfum breyst algjörlega – erum við fullmótuð.“19

Þar sem við viljum ekki verða endanlega mótuð, fyrr en við verðum eins og frelsarinn er,20 þá verðum við að halda áfram að standa upp í hvert skipti sem við hrösum, með þrá til að halda áfram að vaxa og þroskast, þrátt fyrir veikleika okkar. Í veikleika okkar fullvissar hann okkur: „Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“21

Við getum einungis skynjað líkamlegan þroska okkar á myndatökum yfir langan tíma eða á vaxtarmælingum. Á sama hátt er yfirleitt erfitt að meta andlegan vöxt nema með því að líta um farinn veg. Viturlegt væri að fara reglubundið í naflaskoðun með því að líta um farinn veg og meta eigið þroskaferli í þeirri hvatningu að „sækja fram, [staðföst] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna.22

Ég er eilíflega þakklátur fyrir gæsku og góðvild og þolinmæði og langlyndi himneskra foreldra og frelsarans, sem sjá okkur fyrir endalausum tækifærum á leið okkar í návist þeirra aftur. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Þessi tilvitnun hefur verið tileinkuð ýmsum höfundum, þar með talið Abraham Lincoln og Winston Churchill.

  2. Thomas Edison, í Zorian Rotenberg, “To Succeed, You Must Fail, and Fail More,” nóv. 13, 2013, insightsquared.com.

  3. Charles F. Kettering, í Thomas Alvin Boyd, Charles F. Kettering: A Biography (1957), 40. Þessi tilvitnun hefur einnig oft verið eignuð C.S. Lewis.

  4. Kenning og sáttmálar 122:7. Meira að segja frelsarinn: „lærði … hlýðni af því, sem hann leið.“(Hebr 5:8). Á meðan að þessar ritningar vitna í erfiðleika og þjáningu vegna umhverfis okkar og eða óhagstæðra aðstæðna, þá nýtast mistökin sem við gerum okkur einnig ef við lærum af þeim.

  5. HDP Móse 6:55.

  6. 1 Sam 17:47; sjá einnig 1 Ne 3:29.

  7. Sjá Jakob 4:7.

  8. Sjá 2 Ne 2:11.

  9. Jes 48:10; 1 Ne 20:10.

  10. Bible Dictionary, “Grace”; skáletrað hér.

  11. Alma 7:12.

  12. Russel M. Nelson, í Dallin H. Oaks og Neil L. Andersen „Iðrun“ (Ræða flutt á ráðstefnu fyrir nýja trúboðsforseta, 26. Júní, 2015), 11.

  13. Kenning og sáttmálar 101:9.

  14. Matt 18:21.

  15. Matt 18:22.

  16. Mósía 26:30; skáletrað hér.

  17. Moró 6:8; skáletrað hér.

  18. Leiðarvísir að ritningunum, “Iðrun,,” scriptures.lds.org.

  19. Boyd K. Packer (Kingsland Georgia Stake conference, ág. 1997).

  20. Sjá 3 Ne 27:27.

  21. 2 Kor 12:9; sjá einnig Eter 12:27.

  22. 2 Ne 31:20.