2013
Rödd Drottins
janúar 2013


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, janúar 2013

Rödd Drottins

Ljósmynd
Henry B. Eyring forseti

Í Kenningu og sáttmálum er öllum mönnum boðið að hlýða á rödd Drottins Jesú Krists (sjá K&S 1:2, 4, 11, 34; 25:16). Í ritinu eru ótal boð, aðvaranir, hvatningar og áminningar gefin útvöldum spámönnum með opinberun. Í opinberunum þessum fáum við séð hvernig Guð getur svarað trúarbænum okkar með fyrirmælum, friði og áminningum.

Í bænum okkar sækjumst við eftir því að vita hvað Guð vill að við gerum, hvað okkur ber að gera til að finna frið og hamingju í þessu lífi og því næsta og hvað framtíðin ber í skauti sér. Í Kenningu og sáttmálum eru ótal svör við álíka spurningum, sem venjulegt fólk hefur spurt og spámenn einnig í auðmjúkri bæn. Ritið getur verið dýrmætur leiðarvísir í því að kenna okkur að hljóta svör við spurningum um stundlega velferð okkar og eilífa sáluhjálp.

Auðmýkt og trú á Drottin Jesú Krist er lykilatriði. Oliver Cowdery hlaut svar frá Drottni varðandi þrá sína til að hjálpa til við þýðingu Mormónsbókar: „Haf hugfast að án trúar getur þú ekkert gjört. Bið þess vegna í trú. Far ekki léttúðlega með þetta. Bið ekki um það sem þú ættir ekki að biðja um“ (K&S 8:10).

Í Kenningu og sáttmálum krefst Drottinn ítrekað trúar og auðmýktar áður en hann hjálpar okkur. Ein ástæða þessa er sú að svör hans koma ekki alltaf á þann hátt sem við væntum. Og ekki er alltaf auðvelt að meðtaka þau.

Í sögu kirkjunnar og upplifunum áa okkar er greint frá þeim raunveruleika. Langafi minn, Henry Eyring, bað þess heitt að fá að vita hvað honum bæri að gera eftir að hafa tekið á móti kennslu um hið endurreista fagnaðarerindi árið 1855. Svarið barst í draumi.

Hann dreymdi að hann sæti við borð ásamt öldungi Erastus Snow, í Tólfpostulasveitinni, og með öldungi að nafni William Brown. Öldungur Snow kenndi reglur fagnaðarerindisins (að því er virtist). Síðan sagði öldungur Snow: „Í nafni Jesú Krists, býð ég þér að láta skírast og þessi maður [öldungur Brown] … skal skíra þig.”1 Fjölskylda mín er þakklát fyrir að Henry Eyring hafði trú og auðmýkt til að láta skírast kl. 7:30 að morgni, í regnvatnstjörn í St. Louis, Missouri, Bandaríkjunum, af öldungi Brown.

Svarið við bæn hans barst ekki með heyranlegri rödd Drottins. Það barst í sýn og draumi að nóttu, líkt og hjá Lehí (sjá 1 Ne 8:2).

Drottinn hefur kennt okkur að svör hans geta líka borist sem tilfinning. Í Kenningu og sáttmálum kenndi hann Oliver Cowdery: „Sjá, ég mun segja þér í huga þínum og hjarta, með heilögum anda, sem koma mun yfir þig og dvelja í hjarta þínu“ (K&S 8:2).

Og hann hvatti Oliver svohljóðandi: „Veitti ég þér ekki hugarró varðandi þetta? Hvaða stærri vitnisburð getur þú fengið en þann, sem frá Guði kemur?“ (K&S 6:23).

Af Kenningu og sáttmálum, sögu kirkjunnar og sögunni sem Henry Eyring skráði um trúboð sitt, stuttu eftir skírn sína, hefur mér lærst að svör geta borist sem viðvörun, ekki síður en friður.

Í apríl 1857 sótti öldungur Parley P. Pratt, í Tólfpostulasveitinni, ráðstefnu þar sem nú er Oklahóma í Bandaríkjunum. Henry Eyring skráði að öldungur Pratt „hefði fyllst drungalegum fyrirboða í huga sínum … , og ekki getað séð framtíðina eða neina undankomuleið.“2 Henry skráði þau dapurlegu tíðindi strax eftir píslardauða postulans. Öldungur Pratt hafði tekist ferð á hendur, þrátt fyrir tilfinningu um hættu, á sama hátt og spámaðurinn Joseph Smith hafði gert er hann hélt til Carthage.

Ég ber vitni um að Drottinn svarar alltaf auðmjúkri trúarbæn. Af Kenningu og sáttmálum og eigin reynslu, getum við lært hvernig á að greina slík svör og meðtaka þau í trú, hvort sem þau eru leiðsögn, staðfesting á sannleika eða viðvörun. Ég bið þess að við megum ætíð hlusta á og greina hina kærleiksríku rödd Drottins.

Heimildir

  1. „The Journal of Henry Eyring: 1835–1902” (óbirt handrit í eigu höfundar).

  2. „The Journal of Henry Eyring: 1835–1902.”

Hvernig kenna á boðskapinn

1. Íhugið að lesa saman málsgreinarnar um bænina í þessum boðskap. Biðjið fjölskylduna við lesturinn að hlusta vandlega á hvernig Guð svarar bænum. Íhugið að bera vitni um mikilvægi bænarinnar.

2. Í Kenningu og sáttmálum eru ótal svör við spurningum, sem fólk hefur spurt í bæn. Hvað ef svörin við spurningum þess (opinberanirnar) hefðu aldrei verið skráð? Hvetjið fjölskylduna til að læra að skilja, þekkja og fylgja rödd andans. Þau gætu viljað skrá hugsanir sínar um bænina í dagbækur sínar.