2013
Endurvirkjun
mars 2013


Boðskapur heimsóknarkennara, mars 2013

Endurvirkjun

Lærið efnið í bænarhug og ræðið það við systurnar sem þið heimsækið, eins og við á. Nýtið spurningarnar ykkur til hjálpar við að styrkja systurnar og gera Líknarfélagið að virkum þætti í lífi ykkar. Frekari upplýsingar má finna á reliefsociety.lds.org.

Trú, fjölskylda, líkn

Spámaður okkar, Thomas S. Monson forseti hefur hvatt okkur til að „ná til þeirra sem svo mjög þarfnast hjálpar okkar og lyfta þeim á æðri leið og betri veg. … Það er verk Drottins, og þegar við erum í þjónustu Drottins, … eigum við rétt á hjálp Drottins.“ 1

Fyrir mörgum árum heimsóttu LaVene Call og félagi hennar í heimsóknarkennslunni lítt virka systur. Þær knúðu dyra og ung móðir á baðslopp opnaði dyrnar. Hún virtist lasin, en þær komust brátt að því að hún glímdi við áfengisvanda. Heimsóknarkennararnir sátu og ræddu við móðurina sem átti í baráttunni.

Eftir að þær fóru, sögðu þær: „Hún er barn Guðs. Ábyrgð okkar er að hjálpa henni.“ Þær heimsóttu hana því oft. Í hvert sinn sáu þær og skynjuðu breytingar til góðs. Þær buðu systurinni að koma í Líknarfélagið. Hikandi hóf hún þó loks að koma reglubundið. Eftir hvatningu tók hún, eiginmaður hennar og dóttir að sækja kirkju. Eiginmaðurinn skynjaði heilagan anda. Hann sagði: „Ég ætla að gera það sem biskupinn leggur til.“ Þau eru nú virk í kirkjunni og hafa innsiglast í musterinu.2

Úr ritningunum

3 Ne 18:32; K&S 84:106; 138:56

Úr sögu okkar

Að hjálpa þeim sem farið hafa afvega, að lifa að nýju eftir fagnaðarerindi Jesú Krists, hefur ávallt verið hluti af því að vera Síðari daga heilagur og meðlimur í Líknarfélaginu. Brigham Young forseti (1801–77) sagði: „Við skulum hafa samúð með hvert öðru, … og láta hina sjáandi leiða hina blindu, þar til þeir taka að greina veginn sjálfir.“3

Eliza R. Snow, annar aðalforseti Líknarfélagsins, staðfesti með þakklæti viðleitni systra í Ogden, Utah, Bandaríkjunum, til að styrkja hver aðra. „Mér er vel ljóst að heilmikið er gert [í formi þjónustu] sem aldrei fer í [skýrslubækurnar],“ sagði hún. En henni var ljóst að himneskar skýrslur eru haldnar um starf systranna, er þær reyna að ná til þeirra sem kulið hafa í hjarta, og hún sagði: „Joseph Smith forseti sagði að þetta samfélag væri skipulagt til að bjarga sálum. … Önnur skýrsla er haldin um trú ykkar, ljúfmennsku, góð verk og orð. … Ekkert fer forgörðum.“4

Heimildir

  1. Thomas S. Monson, „The Sacred Call of Service,“ Líahóna, maí 2005, 55, 56.

  2. Bréf til aðalforsætisráðs Líknarfélagsins frá dóttur LaVene Call.

  3. Brigham Young, í Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 107.

  4. Eliza R. Snow, í Daughters in My Kingdom, 83.

Hvað get ég gert?

  1. Hef ég nægilegt sjálfstraust til að bjóða lítt virkri systur að koma á Líknarfélagsfund með mér?

  2. Geta systurnar sem ég vaki yfir, spurt mig áhyggjulaust um fagnaðarerindið?