2013
Aðdráttarafl musterisins
Apríl 2013


Aðdráttarafl musterisins

Ljósmynd
Öldungur Jairo Mazzagardi

Hvað marga varðar, þá innblæs musterið tilfinningar sem samstundis snerta hjartað.

Áður en ég var kallaður sem meðlimur Annarrar sveitar hinna Sjötíu, þjónuðum við hjónin í nokkur ár í musterunum í Campinas og São Paulo í Brasilíu. Í báðum musterunum furðaði ég mig oft á því að fólk sem átti leið hjá var svo dregið að musterinu að það gaf sér tíma til að staldara við og spyrjast fyrir um það.

Þegar það kom inn fyrir, sögðum við að það mætti ekki fara lengra án ákveðins undirbúnings. Við útskýrðum síðan tilgang musterisins, miðluðum nokkrum grundvallarkenningum fagnaðarerindisins og buðum því að hitta trúboðana. Hvað margt gott fólk varðar, þá er musterið sjálft mikið trúboðsverkfæri, því það innblæs tilfinningar sem samstundis snerta hjartað.

Eiginkona mín, Elizabeth, og ég þekkjum persónulega áhrifamátt slíkra tilfinninga. Fyrir nær 40 árum tók góður vinur og félagi, sem var meðlimur kirkjunnar, að ræða óformlega við okkur um fagnaðarerindið. Hann sendi trúboða til okkar nokkrum sinnum. Okkur líkaði við trúboðana og samþykktum að taka á móti kennslu þeirra, en við höfðum ekki einlægan áhuga á því sem þeir kenndu.

Það breyttist í október 1978, þegar félagi minn bauð nokkrum vinum, þar á meðal okkur, á opið hús í musterinu í São Paulo, Brasilíu. Hann leigði nokkra rútubíla á eigin kostnað, svo vinir hans gætu komið með honum til musterisins, sem var í um 80 km fjarlægð.

Þegar Elizabeth kom inn í skírnarsalinn, skynjaði hún nokkuð sem hún hafði aldrei áður upplifað, nokkuð sem hún síðar bar kennsl á sem heilagan anda. Hún upplifði mikla gleðitilfinningu í hjarta sér. Á því andartaki varð henni ljóst að kirkjan væri sönn og hún vildi ganga í hana.

Ég upplifði álíka tilfinningu við lok opna hússins, þegar farið var með okkur í innsiglunarherbergi og okkur var sagt frá kenningunni um eilífar fjölskyldur. Kenningin snart við mér. Ég naut velgengni í starfi, en hafði lengi fundið tómleika í sál minni. Mér var ekki ljóst hvað gæti fyllt þann tómleika, en vissi að það hafði eitthvað að gera með fjölskylduna. Þarna, í innsiglunarherberginu, tóku hlutirnir að falla í réttar skorður í huga mínum og hjarta.

Innan fárra daga höfðu trúboðarnir samband að nýju. Í þetta sinn vorum við afar áhugasöm að hlýða á boðskap þeirra.

Öldungarnir hvöttu okkur til að biðjast fyrir oft fyrir um sannleikann. Ég ákvað að það væri aðeins þannig sem ég gæti beðist fyrir. Mér var ljóst að ég gæti ekki skuldbundið mig til að ganga í kirkjuna án þess að hljóta raunverulegan vitnisburð. Ég hafði sterka löngun til að koma til himnesks föður og biðja hann um staðfestingu, en var á sama tíma sannfærður um að hann myndi svara mér. Ég sagði honum frá innilegustu þrám hjarta míns og bað hann að veita mér svar sem yrði mér fullvissa um að rétt væri fyrir mig að ganga í kirkjuna.

Í sunnudagaskóla vikunni á eftir, sat vinur minn, sem hafði boðið okkur á opna húsið í musterinu, fyrir aftan mig. Hann hallaði sér fram og tók að tala við mig. Það sem hann sagði, svaraði nákvæmlega því sem ég hafði beðist fyrir um að fá að vita. Ég var í engum vafa um að himneskur faðir væri að tala til mín með honum. Á þessum tíma var ég þungbúinn og harður af mér, en hjartað mildaðist og ég tók að gráta. Þegar vinur minn hafði lokið máli sínu, bauð hann mér og eiginkonu minni að skírast. Við samþykktum það.

Hinn 31. október 1978, minna en mánuði eftir reynslu okkar í São Paulo musterinu, vorum við skírð og staðfest. Daginn eftir vorum við viðstödd aðra vígsluathöfn São Paulo musterisins í Brasilíu. Ári síðar snérum við aftur til musterisins með tveimur sonum okkar, til að innsiglast sem fjölskylda. Allir þessir atburðir voru yndislegir og minnisstæðir. Við höfum viðhaldið þessum tilfinningum með reglubundinni musteristilbeiðslu í áranna rás.

Tuttugu og átta árum eftir skírn okkar, vorum við hjónin aftur í São Paulo musterinu í Brasilíu. Ég hafði stuttu áður verið kallaður sem musterisforseti. Það var okkur ljúf reynsla að ganga um sali húss Drottins og upplifa að nýju þær innilegu tilfinningar sem urðu hvati að trúarumbreytingu okkar.

Musterið heldur áfram að veita okkur hjónum mikla hamingju. Þegar við sjáum ungt par koma í musterið til að innsiglast sem eilíf fjölskylda, glæðast vonir okkar.

Margir um heim allan eru undir það búnir að hlýða á boðskap fagnaðarerindisins. Þeim þyrstir í það, líkt og ég gerði fyrir um 30 árum. Musterið og helgiathafnir þess búa yfir nægum áhrifamætti til að svala þeim þorsta og fylla það tóm.

Ljósmynd eftir Laureni Fochetto