2013
Símtalið rofnaði
Apríl 2013


SÍMTALIÐ rofnaði

Seda Meliksetyan, Armeníu

Í mars 1997, er við bjuggum í rússnesku borginni Rostov-on-Don, létum við hjónin skírast í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Þegar ég lærði kenningar kirkjunnar, hlaut ég svör við fjölmörgum spurninga minna. Það var áhugavert að læra um áætlun hjálpræðis, ásamt iðkun skírnar fyrir hina dánu. Ég varð undrandi yfir að við gætum skírst fyrir okkar dánu áa.

Ári eftir skírn okkar bauð trúboðsforsetinn að við byggjum okkur undir að fara í musterið. Við hófum ættfræðirannsóknir, sem var hluti af undirbúningi okkar. Dag einn, þegar ég hugðist sinna þessu verki, hringdi síminn. Það var tengdamóðir mín. Ég bað hana að senda mér lista yfir látin ættmenni eiginmanns míns. Hún varð furðulostin og sagði mér að skírn fyrir dána væri ekki kristin kenning, heldur aðeins eitthvað sem mormónar hefðu fundið upp. Ég var ekki viss um hvernig ég ætti að svara henni, því ég þekkti ekki tilvísanirnar í ritningarnar sem studdu kenninguna.

Þegar ég hugsaði um hvernig ég ætti að svara henni, rofnaði símtalið. Um stund vissi ég ekki hvað hafði gerst, en ég lagði tólið á og fór inn í svefnherbergið mitt. Ég tók upp Nýja testamentið, kraup og baðst fyrir, og bað himneskan föður að sýna mér hvar svarið væri að finna.

Þegar ég hafði lokið bæninni, opnaði ég Biblíuna. Mér fannst líkt og einhver segði mér að lesa 29. versið einmitt á þeirri síðu sem ég hafði lent á. Ég var í 15. kapítula 1 Korintubréfsins, þar sem fjallað er um kenningu skírnar fyrir dána.

Ég var hrærð og undrandi yfir að himneskur faðir hafði bænheyrt mig á sama andartaki. Það var dásamleg tilfinning.

Ég íhugaði djúpt þessa reynslu, er síminn hringdi skyndilega. Það var tengdamóðir mín og hún spurði af hverju símtalið hefði rofnað. Ég sagðist ekki vita það, en bað hana síðan að opna Biblíuna og lesa 1 Korintubréfið 15:29.

Nokkrum dögum síðar lá listi með ættmennum hennar á borðinu mínu. Tengdamóðir mín hafði lesið ritninguna og trúði nú að frelsarinn hefði kennt kenninguna um skírn fyrir dána með Páli postula.

Guð hefur heitið þeim miklum blessunum sem gera þetta endurlausnarverk. Þetta veit ég að er satt.