2013
Heilagur andi huggar, innblæs og vitnar
Apríl 2013


Trú okkar

Heilagur andi huggar, innblæs og vitnar

Gjöf heilags anda er ein undursamlegasta blessunin sem við getum hlotið í þessu lífi, því heilagur andi huggar, innblæs, aðvarar, hreinsar og leiðbeinir okkur. Hann getur fyllt okkur „von og fullkominni elsku“ (Moró 8:26). Hann kennir um „sannleiksgildi allra hluta“ (Moró 10:5). Við hljótum opinberun og andlegar gjafir frá Guði með heilögum anda. Mikilvægast er að við hljótum vitnisburð um himneskan föður og Jesú Krist með heilögum anda.

Áður en við skírumst, getum við endrum og eins skynjað heilagan anda. Aðeins eftir að við höfum hlotið gjöf heilags anda, eftir að við erum skírð, getum við notið stöðugs samfélags heilags anda, ef við erum verðug. Gjöf þessi er veitt af Melkísedeksprestdæmishafa með handayfirlagningu (sjá Post 19:6; K&S 33:15). Þið getið endurnýjað skírnarsáttmála ykkar hvern sunnudag þar á eftir, er þið meðtakið sakramentið, og þannig meðtekið þá blessun Drottins að „andi hans sé ætíð“ með ykkur (K&S 20:77).

Heilagur andi, sem oft er nefndur andinn, er þriðji aðili Guðdómsins. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Faðirinn hefur líkama af holdi og beinum, jafn áþreifanlegan og mannslíkaminn er, sonurinn einnig, en heilagur andi hefur ekki líkama af holdi og beinum, heldur er hann andavera. Væri ekki svo, gæti heilagur andi ekki dvalið í okkur.“ (K&S 130:22).

Við verðum að vera verðug samfélags við anda Drottins, „vegna þess að andi Drottins dvelur ekki í vanhelgum musterum“ (Helaman 4:24). Það gerum við meðal annars með því að sjá til þess að hugsanir okkar séu dyggðugar, að við séum ráðvönd og höldum boðorðin.

Eftir að við höfum tekið á móti gjöf heilags anda, getum við gert ýmislegt til að fá notið áhrifa hans í lífi okkar:

  • Biðjast fyrir.

  • Læra ritningarnar.

  • Meðtaka sakramentið verðug.

  • Tilbiðja í musterinu.

  • Horfa á heilnæma fjölmiðla, nota fágað málfar og hafa dyggðugar hugsanir.

Ljósmynduð teikning eftir Christina Smith, Eve Tuft, Cody Bell og Matthew Reier