2013
Hlutverk og þjónusta Jesú Krists
Apríl 2013


Hlutverk og þjónusta Jesú Krists

Úr trúarræðu sem flutt var í Brigham Young háskóla, 18. ágúst 1998. Til að lesa alla ræðuna á ensku: speeches.byu.edu.

Ljósmynd
Öldungur Russell M. Nelson

Besta staðfestingin á því að við tilbiðjum Jesú er að taka hann okkur til fyrirmyndar.

Sem einn af þeim sem eru „sérstök vitni nafns Krists um allan heim,“ (K&S 107:23), hef ég þá trú að ég þjóni honum best með því að kenna og vitna um hann. Fyrst gæti ég spurt sömu spurningar og hann lagði fyrir faríseana: „Hvað virðist yður um Krist? Hvers son er hann?“ (Matt 22:42).

Þessar spurningar koma oft upp í hugann þegar ég á samskipti við forustumenn stjórnvalda og ýmissa trúarsamtaka. Sumir viðurkenna að „Jesús hafi verið mikill kennari.“ Aðrir segja: „Hann var spámaður.“ Enn aðrir þekkja hann bara alls ekki. Þetta ætti ekki að vekja okkur mikla undrun. Hvað sem öllu líður, þá eru tiltölulega fáir sem hafa þann endurreista sannleika fagnaðarerindisins sem við höfum. Meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru aðeins brot af þeim sem segjast vera kristnir.

Aðstæður okkar voru fyrirséðar af Nefí fyrir mörgum öldum:

„Og svo bar við, að ég sá kirkju Guðslambsins, og meðlimir hennar voru fáir … . Engu að síður sá ég, að kirkja lambsins, sem var hinir heilögu Guðs, var einnig um allt yfirborð jarðar. En ítök hennar á jörðunni voru lítil. …

„Og svo bar við, að ég, Nefí, sá vald Guðslambsins. Það féll yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins, sem dreifð var um allt yfirborð jarðar. Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð“ (1 Ne 14:12, 14).

Það réttlæti, sá kraftur og sú dýrð—já, allar okkar mörgu blessanir—á rætur í þekkingu okkar á Drottni Jesú Kristi, hlýðni okkar og þakklæti og elsku til hans.

Á tiltölulega stuttri viðdvöl sinni í jarðlífinu lauk frelsarinn tvíþættu yfirgripsmiklu viðfangsefni. Annars vegar var það „verk [hans] og dýrð…—að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39). Hins vegar var það, eins og hann sagði sjálfur: „Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður“ (Jóh 13:15).

Fyrra viðfangsefnið hans þekkjum við sem friðþæginguna. Hún var hið undursamlega hlutverk hans í jarðlífinu. Hinn upprisni Drottinn lýsti yfir hlutverki sínu frammi fyrir íbúum hinnar fornu Ameríku:

„Ég kom í heiminn til að gjöra vilja föður míns, vegna þess að faðir minn sendi mig.

„Og faðir minn sendi mig, til þess að mér yrði lyft upp á krossinum. Til þess að ég gæti dregið alla menn til mín, eftir að mér hefði verið lyft upp á krossinum“ (3 Ne 27:13–14).

Hann hélt áfram að mæla til þeirra og opinberaði síðara viðfangsefni sitt—að vera okkur fyrirmynd: „Þér vitið, hvað yður ber að gjöra … . Því að það, sem þér hafið séð mig gjöra, skuluð þér og gjöra“ (3 Ne 27:21).

Fyrra viðfangsefni hans hef ég skilgreint sem hlutverk hans. Síðara viðfangsefni hans hef ég skilgreint sem þjónustu hans. Við skulum skoða hið tvíþætta viðfangsefni hans—hlutverk hans og þjónustu hans.

Hlutverk Jesú Krists—friðþægingin

Hlutverk hans var friðþægingin. Hann einn hafði það hlutverk. Fæddur af jarðneskri móður og ódauðlegum föður, var hann sá eini sem gat af fúsum vilja lagt líf sitt í sölurnar og tekið það aftur (sjá Jóh 10:14–18). Hinn dýrðlegi ávöxtur friðþægingar hans er óendanlegur og eilífur. Hann gerði að engu brodd dauðans, svo sorg grafarinnar varð tímabundin (sjá 1 Kor 15:54–55). Ábyrgð hans á friðþægingunni var kunn jafnvel fyrir sköpunina og fallið. Hún gerði ekki aðeins upprisu og ódauðleika að veruleika fyrir alla menn, heldur gerði hún okkur líka kleift að hljóa fyrirgefningu synda okkar—bundið skilyrðum hans. Þannig opnaði friðþægingin okkur leið til að sameinast honum og fjölskyldu okkar eilíflega. Í henni felst hið eilífa líf—sú gjöf er mest allra gjafa Guðs til mannsins (sjá K&S 14:7).

Enginn annar gat virkjað friðþæginguna. Enginn annar einstaklingur, jafnvel sá sem býr að mestum auði og valdi, fengi ekki frelsað eina sálu—jafnvel ekki sína eigin (sjá Matt 19:24–26). Og af engum öðrum einstaklingi verður krafist eða honum leyft að úthella blóði í þágu hjálpræðis annarrar manneskju. Jesús gerði það „í eitt skipti fyrir öll“ (Hebr 10:10).

Þótt friðþægingin hafi verið uppfyllt á tíma Nýja testamentisins, greina atburðir Gamla testamentisins oft frá mikilvægi hennar. Adam og Evu var boðið að færa fórn „í líkingu fórnar hins eingetna föðurins“ (HDP Móse 5:7). Hvernig? Með úthellingu blóðs. Af eigin reynslu staðfestu þau ritninguna um að „líf líkamans er í blóðinu“ (3 Mós 17:11).

Læknum er kunnugt að ætíð þegar blóðið hættir að flæða til líffæranna eru vandræði í nánd. Ef blóðflæði hættir til fótar, kemur drep í fótinn. Ef blóðflæði hættir til heilans, getur það orsakað heilabóðfall. Ef blóðflæði er ekki eðlilegt í kransæðum, getur það orsakað hjartaslag og blæðingar verða óstjórnlegar, veldur það dauða.

Adam, Eva, og kynslóðirnar eftir þau, komust að því að alltaf þegar dýrablóði var úthellt, lauk lífi dýrsins. Fórnarsiðir þeirra krafðist ekki aðeins einhvers dýrs. Það átti að vera frumburður hjarðarinnar og gallalaust (sjá til dæmis 2 Mós 12:5). Þessi nauðsynlega gjörð var líka táknræn um hina endanlegu fórn hins flekklausa lambs Guðs.

Adam og Evu var gefið boðorð: „Þess vegna skalt þú gjöra allt, sem þú gjörir, í nafni sonarins, og þú skalt iðrast og ákalla Guð í nafni sonarins að eilífu“ (HDP Móse 5:8). Frá þeim tíma til hádegisbaugs tímans, var dýrafórnum viðhaldið sem líking hinnar endanlegu friðþægingar sonar Guðs.

Þegar friðþægingin hafði verið framkvæmd, uppfyllti þessi mikla og síðasta fórn lögmál Móse (sjá Alma 34:13–14) og batt enda á iðkun dýrafórna, sem hafði kennt að „líf líkamans er í blóðinu“ (3 Móse 17:11). Jesús útskýrði hvernig þáttur hinnar fornu fórnar tengdist friðþægingunni, sem á táknrænan hátt er minnst með sakramentinu. Beinið athyglinni aftur að lífinu, líkamanum og blóðinu:

„Þá sagði Jesús við þá: Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður.

Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi“ (Jóh 6:53–54).

Sökum friðþægingar Jesú Krists, mun allt mannkyn—já, jafn margir og það vilja—hljóta endurlausn. Frelsarinn hóf ekki úthellingu blóðs síns í þágu alls mannkyns á krossinum, heldur í Getsemanegarðinum. Þar tók hann á sig þunga syndabyrðarinnar fyrir alla sem lifa munu. Undir þeirri þungu byrði blæddi honum úr hverri svitaholu (sjá K&S 19:18). Angist friðþægingarinnar lauk á krossinum á Golgata.

Spámaðurinn Joseph Smith gerði samantekt á mikilvægi friðþægingarinnar. „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins; og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það.“1

Með þessu valdi og af innilegu þakklæti, kenni ég svo og ber vitni um hann.

Þjónusta Jesú Krists—fyrirmyndin

Annað yfirgripsmikið viðfangsefni Drottins í jarðlífinu var að þjóna sem fyrirmynd fyrir okkur. Jarðnesk þjónusta hans er staðfesting á fyrirmynd hans. Hún felur í sér kenningar hans, dæmisögur og prédikanir. Hún felur í sér kraftaverk hans, kærleika og langlundargeð gagnvart mannanna börnum (sjá 1 Ne 19:9). Hún felur í sér samúðarfulla notkun prestdæmisvalds. Hún felur í sér réttláta reiði hans þegar hann fordæmir syndina (sjá Róm 8:3) og þegar hann hratt um borðum víxlaranna (sjá Matt 21:12). Hún felur líka í sér hugarangur hans. Hann var hæddur, hýddur og honum hafnað af eigin fólki (sjá Mósía 15:5)—jafnvel svikinn af einum lærisveini sínum og afneitað af öðrum (sjá Jóh 18:2–3, 25–27).

Svo dásamleg sem þjónustuverk hans voru, þá voru þau og eru ekki bundin við hann einan. Fjöldi þeirra sem gæti fylgt fordæmi Jesú á sér engin takmörk. Álíka verk hafa verið framkvæmd af spámönnum hans og postulum og fleirum meðal réttmætra þjóna hans. Margir hafa þolað ofsóknir fyrir hans sakir (sjá Matt 5:10; 3 Ne 12:10). Við þekkjum bræður og systur á okkar tíma sem hafa einlæglega reynt að fylgja fordæmi Drottins—og jafnvel goldið fyrir það hræðilega.

Það er eins og það á að vera. Það er von hans fyrir okkur. Drottinn bauð okkur að fylgja fordæmi sínu. Ákall hans er algjörlega skýrt:

  • „Hvers konar menn ættuð þér því að vera? … Alveg eins og ég er“ (3 Ne 27:27; sjá einnig 3 Ne 12:48).

  • „Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða“ (Matt 4:19).

  • „Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður“ (Jóh 13:15) sjá einnig Jóh 14:6).

Þessar og álíka ritningargreinar voru ekki ritaðar sem tillögur. Þær eru guðleg boðorð! Okkur ber að fylgja fordæmi hans!

Til að auka þrá okkar til að fylgja honum, ættum við kannski að íhuga fimm þætti í lífi hans sem við getum haft að fyrirmynd.

Kærleikur

Ef ég spyrði hvaða persónueinkenni í lífi hans þið mynduð tilgreina fyrst, held ég að þið mynduð nefna kærleika hans. Það fæli í sér samúð hans, góðvild, elsku, tryggð, fyrirgefningu, miskunnsemi, réttvísi og fleira. Jesús elskaði föður sinn og móður (sjá Jóh 19:25–27). Hann elskaði fjölskyldu sína og hina heilögu (sjá Jóh 13:1; 2 Þess 2:16). Hann elskaði syndarann án þess að réttlæta syndina (sjá Matt 9:2; K&S 24:2). Og hann kenndi okkur hvernig við getum sýnt kærleika okkar til hans. Hann sagði: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín“ (Jóh 14:15). Síðan, til að undirstrika að kærleikur hans væri ekki skilyrðislaus, bætti hann við: „Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans“ (Jóh 15:10; sjá einnig K&S 95:12; 124:87).

Önnur kærleikstjáning frelsarans fólst í þjónustu hans. Hann þjónaði föður sínum og fólkinu sem hann bjó og starfaði með. Okkur ber að fylgja fordæmi hans á báða vegu. Okkur ber að þjóna Guði, „[ganga] ávallt á hans vegum, og að [elska] hann“ (5 Mós 10:12; sjá einnig 11:13; Jósúa 22:5; K&S 20:31; 59:5). Og okkur ber að elska náunga okkar með því að þjóna þeim (sjá Gal 5:13; Mósía 4:15–16). Við byrjum á fjölskyldum okkar. Hin innilega elska foreldra til barna sinna styrkist með þjónustu við þau á því tímaskeiði sem þau eru algjörlega háð þeim. Síðar í lífinu getur skylduræknum börnum gefist kostur á að endurgjalda þá elsku með því að þjóna öldruðum foreldrum sínum.

Helgiathafnir

Annar þáttur fyrirmyndar frelsarans var áhersla hans á helgiathafnir. Í jarðneskri þjónustu sinni sýndi hann mikilvægi helgiathafna hjálpræðis. Hann var skírður af Jóhannesi í ánni Jórdan. Jafnvel Jóhannes spurði: „Hvers vegna?“

Jesús útskýrði: „Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti“ (Matt 3:15; skáletrað hér). Helgiathöfnin var ekki aðeins nauðsynleg, heldur var fordæmið sem Jesús og Jóhannes settu líka nauðsynlegt.

Síðar innleiddi Drottinn helgiathöfn sakramentis. Hann útskýrði tákn sakramentisins og veitti lærisveinum sínum hin helgu tákn (sjá Matt 26:26–28; Mark 14:22–24; Lúk 24:30).

Faðir okkar á himnum veitti líka leiðsögn varðandi helgiathafnir. Hann sagði: „Þér [verðið] að endurfæðast inn í himnaríki af vatni og af anda og verða hreinsaðir með blóði, já, blóði míns eingetna, svo að þér megið helgast af allri synd og njóta orða eilífs lífs í þessum heimi og eilífs lífs í komanda heimi, já, ódauðlegrar dýrðar“ (HDP Móse 6:59).

Í þjónustu frelsarans eftir jarðneska þjónustu hans voru æðri helgiathafnir upphafningar opinberaðar (K&S 124:40–42). Hann hefur gert þessar helgiathafnir mögulegar í sínum helgu musterum. Á okkar tíma geta þeir sem eru undir það búnir, meðtekið laugun, smurningu og musterisgjöf (sjá K&S 105:12, 18, 33; 110:9; 124:39). Í musterinu getur einstaklingur innsiglast eiginmanni og eiginkonu, og áum sínum og afkomendum (sjá K&S 132:19). Meistari okkar er Guð lögmála og reglu (sjá K&S 132:18). Áhersla hans á helgiathafnir er áhrifamikill þáttur í fordæmi hans fyrir okkur.

Bæn

Þriðji þátturinn sem tengist fyrirmynd Drottins er bænin. Jesús bað til föður síns á himnum og kenndi okkur líka að biðja. Okkur ber að biðja til Guðs, eilífs föður, í nafni sonar hans, Jesú Krists, fyrir kraft heilags anda (sjá Matt 6:9–13; 3 Ne 13:9–13; Þýðing Josephs Smith, Matt 6:9–15). Ég ann hinni dásamlegu fyrirbæn sem Drottinn flutti og skráð er í 17. kapítula Jóhannesar. Í henni ræðir sonurinn að vild við föður sinn í þágu lærisveina sinna, sem hann elskar. Hún er fyrirmynd að áhrifaríkri og samúðarfullri bæn.

Þekking

Fjórði þátturinn sem tengist fyrirmynd Drottins er hvernig hann notaði guðlega þekkingu sína. Líkt og áður var getið um, þá viðurkenna margir sem ekki eru kristnir að Jesús hafi verið stórkostlegur kennari. Það var hann vissulega. En hvað gerði kennslu hans sannlega einstæða? Var hann hæfileikaríkur fræðimaður í verkfræði, stærðfræði eða vísindum? Sem skapari þessa heims og annarra (sjá HDP Móse 1:33), hefði hann vissulega getað verið það. Hann hefði líka sem höfundur ritninganna getað kennt bókmenntir afbragðs vel.

Það sem einkenndi kennslu hans umfram alla aðra kennara, var að hann kenndi mikilvægan eilífan sannleika. Aðeins hann hefði getað opinberað tilgang okkar með lífinu. Aðeins fyrir hans tilstilli gátum við lært um fortilveru okkar og mögulega tilveru eftir þetta líf.

Eitt sinn kenndi hinn mikli kennari, sínum efablöndnu hlustendum að þrennt væri til vitnis um hann:

  • Jóhannes skírari.

  • Verkin sem Jesús hafði unnið.

  • Orð Guðs, hins eilífa föður (sjá Jóh 5:33–37).

Hann benti síðan á fjórða vitnið: „Rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. og það eru þær, sem vitna um mig“ (Jóh 5:39).

Orðið hyggist í þessu orðtaki virðist ekki eiga hér við. En það er nauðsynlegt í þeirri merkingu sem Jesús reyndi að koma til skila. Honum var ljóst að margir hlustenda hans hyggðust finna eilíft líf í ritningunum. En þeir höfðu rangt fyrir sér. Ritningarnar einar og sér megna ekki að veita eilíft líf. Auðvitað býr áhrifamáttur í ritningunum, en sá áhrifamáttur kemur frá Jesú sjálfum. Hann er orðið: Hin guðlega viska. Máttur eilífs lífs býr í honum, sem „í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð“ (Jóh 1:1; sjá einnig 2 Ne 31:20; 32:3). Síðan hirti Jesús sína efablöndnu, sökum þrjósku þeirra. „En þér viljið ekki koma til mín og öðlast [eilíft líf]“ (Jóh 5:40).

Meistarinn gæti kaffært okkur með undursamlegri þekkingu sinni, en það gerir hann ekki. Hann heiðrar sjálfræði okkar. Hann gerir okkur kleift að njóta þeirrar gleði að uppgötva. Hann hvetur okkur til að iðrast af eigin mistökum. Hann leyfir okkur að upplifa frelsið sem felst í því að hlýða fúslega hans guðlega lögmáli. Já, það er okkur undursamlegt fordæmi hvernig hann notar þekkingu sína.

Þrautseigja

Fimmti þátturinn sem tengist þjónustu Drottins er þrautseigja hans til að standast allt til enda. Aldrei dró hann sig í hlé frá verkefni sínu. Hann lagði aldrei niður laupana, þótt hann hefði upplifað þjáningar utan okkar skilnings. Hann lauk verki sínu af þrautseigju, þrátt fyrir miklar og stöðugar raunir: að friðþægja fyrir syndir alls mannkyns. Lokaorð hans, þar sem hann hékk á krossinum, voru: „Það er fullkomnað“ (Jóh 19:30).

Hagnýting í lífi okkar

Þessa fimm þætti, sem tengjast þjónustu hans, getum við hagnýtt í lífi okkar. Vissulega er besta staðfestingin á því að við tilbiðjum Jesú að við tökum hann okkur til fyrirmyndar.

Þegar okkur verður ljóst hver Jesús er og hvað hann hefur gert fyrir okkur, fáum við að einhverju leyti skilið það sem felst í fyrsta og æðsta boðorðinu: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum“ (Mark 12:30). Með öðrum orðum, allt sem við gerum og segjum ætti að grundvallast á elsku okkar til hans og föður hans.

Spyrjum okkur sjálf: „Elska ég einhvern meira en Drottin?“ Berið síðan svar ykkar saman við þessa staðla sem Drottinn setti:

  • „Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður.“

  • „Sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður“ (Matt 10:37).

Kærleikur til fjölskyldu og vina, hversu ríkulegur sem hann er, verður mun innilegri þegar hann er grundvallaður á kærleika til Jesú Krists. Sökum hans verðu kærleikur foreldra til barna þýðingarmeiri nú og eftir þetta líf. Öll kærleikssambönd verða háleitari í honum. Kærleikur föður okkar á himnum og Jesú Krists glæðir ljós, veitir innblástur og ástæðu til að elska aðra á háleitari hátt.

Helgiathafnir veita einbeitni til þjónustu af eilífu gildi. Foreldrar ættu að íhuga hvaða helgiathöfn hvert barn þeirra hefur þörf á næst. Heimiliskennarar ættu að íhuga hvaða viðeigandi helgiathöfn væri þörf á næst í hverri fjölskyldu sem þeir þjóna.

Fordæmi frelsarans hvað varðar bænina minnir okkur á að einkabænir, fjölskyldubænir og bænþrungið verkefnaferli í kirkju, ættu að vera hluti af lífi okkar. Að þekkja og gera vilja föðurins, veitir mikinn andlegan styrk og tiltrú (sjá K&S 121:45). Við viljum halda okkur Drottins megin.

Þekking „[á hlutum] eins og þeir í raun eru og eins og þeir í raun munu verða“ (Jakob 4:13) gerir okkur kleift að breyta að sönnum reglum og kenningum. Slík þekking mun breyta hegðun okkar til batnaðar. Breytni sem væri knúin af löngunum og tilfinningum, mun breytast og grundvallast á dyggðum byggðum á skynsemi og því sem rétt er.

Þrautseigja allt til enda merkir að við munum ekki biðja um aflausn frá köllun til þjónustu. Hún merkir að við munum þrauka í viðleitni okkar að verðugu markmiði. Hún merkir að við munum aldrei gefast upp á ástvini sem villst hefur frá. Og hún merkir að við munum ávallt varðveita okkar eilífu fjölskyldusambönd, jafnvel í gegnum erfiðan tíma sjúkdóma, fötlunar eða dauða.

Af öllu hjarta bið ég þess að umbreytandi áhrif Drottins megi gera mikinn gæfumun í ykkar lífi. Hlutverk hans og þjónusta megna að blessa sérhvert okkar nú og ævarandi.

Heimildir

  1. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 49.

Jesús fer til Betaníu að kvöldi til, eftir James Tissot

Kona, þar er sonur þinn (Stabat Mater), eftir James Tissot © Brooklyn Museum, Brooklyn, New York; innfelld: Hluti af Í Getsemanegarðinum, eftir Carl Heinrich Bloch.

Fjallræðan, eftir James Tissot; innfelld: Hluti af Kristur og ungi auðugi höfðinginn, eftir Heinrich Hofmann, birt með leyfi C. Harrison Conroy Co.

Öll borgin var saman komin, eftir James Tissot