2013
Hvað er sannur vinur?
Apríl 2013


Til styrktar æskunni

Hvað er sannur vinur?

Ljósmynd
Elaine S. Dalton

Skilgreining vinar hefur tekið breytingum í hinum tæknilega samtengda heimi. Í dag gætum við álitið okkur eiga marga „vini.“ Það er satt: Við njótum þess að vera upplýst og vita hvað er að gerast í lífi margra kunningja okkar, sem og núverandi og fyrrverandi vina og jafnvel fólks sem við höfum ekki hitt persónulega, en köllum vini okkar.

Í samhengi félagsmiðla er hugtakið „vinur“ oft notað til að tákna tengiliði fremur en sambönd. Þið getið sent „vinum“ ykkar skilaboð, en það er ekki það sama og að eiga persónulegt samband við einstakling.

Stundum leggjum við mesta áherslu á að eignast vini. Kannski ættum við að leggja meiri áherslu á að vera vinur.

Margar skilgreiningar eru á merkingu þess að vera vinur. Ég gleymi aldrei orðum öldungs Robert D. Hales í Tólfpostulasveitinni, er hann ræddi um merkingu þess að vera vinur og hin sterku áhrif vina í lífi okkar. Skilgreining hans hefur haft varanleg áhrif á líf mitt. Hann sagði: „Vinir eru fólk sem auðveldar okkur að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists.“1 Að leita þess besta í fari annarra, er kjarni sannrar vináttu. Það er að hafa annan í fyrirrúmi. Það er að vera algjörlega heiðarlegur, tryggur og hreinlífur í allri hegðun. Hugsanlega er það hugtakið skuldbinding sem lýsir raunverulegri merkingu vináttu.

Þegar dóttir mín, Emi, var 15 ára, ákvað hún hvernig vinum hún vildi leita að. Morgunn einn tók ég eftir að Mormónsbókin hennar var opin í Alma 48. Hún hafði undirstrikað versin sem lýstu Moróni höfuðsmanni: „Moróní var sterkur maður og voldugur. Hann var maður með fullkominn skilning. … Já, og hann var maður, sem var staðfastur í trú sinni á Krist“ (vers 11, 13). Á spássíuna hafði hún ritað: „Ég ætla að fara á stefnumót með manni eins og Moróní og giftast honum.“ Þegar ég fylgdist með Emi og piltunum sem hún átti í sambandi við og átti síðar stefnumót við þegar hún varð 16 ára, fékk ég séð að hún tileinkaði sér sjálf þessa eiginleika og hjálpaði öðrum að lifa samkvæmt auðkenni sínu sem synir Guðs, prestdæmishafar og feður og leiðtogar síðar meir.

Sannir vinir hafa áhrif á þá sem þeir eiga í sambandi við til að „standa örlítið hærra og verða örlítið betri.“2 Þið gerið hjálpað hvert öðru, einkum piltunum, við að stefna að trúboði og þjóna af trúmennsku. Þið getið hjálpað hvert öðru að viðhalda siðferðislegum hreinleika. Réttlát áhrif ykkar og vinátta getur haft eilíft gildi, ekki aðeins á líf þeirra sem þið eigið samband við, heldur líka komandi kynslóðir.

Frelsarinn sagði lærisveina sína vera vini sína. Hann sagði:

„Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.

„Meiri elsku hefur enginn en þá, að hann leggur líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.

Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.

Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum“ (Jóh 15:12–15; skáletrað hér).

Þegar þið lifið eftir og miðlið fagnaðarerindi Jesú Krists, munið þið laða að ykkur fólk sem sækist eftir vinskap ykkar—ekki aðeins sem tengiliðir á vefsíðum félagsmiðlanna, heldur vinir líkt og frelsarinn lýsti með orðum og sýndi með fordæmi. Þegar þið reynið að vera öðrum vinir og látið ljós ykkar skína, munu áhrif ykkar blessa líf margra þeirra sem þið eigið samband við. Ég veit að þegar þið leggið ykkur fram við að vera öðrum vinir, í samræmi við skilgreiningu spámannanna og dæmin í ritningunum, verðið þið hamingjusöm og hafið góð áhrif á heiminn og munuð hljóta hið dýrðlega loforð í ritningunum um sanna vináttu: „Og að sama félagslyndi og ríkir meðal okkar hér mun ríkja meðal okkar þar, en þar við bætist eilíf dýrð“ (K&S 130:2).

Ljósmynd

Ljósmynduð teikning © iStockphoto.com/Fonikum og eftir Les Nilsson

Heimildir

  1. Robert D. Hales, „This Is the Way; and There Is None Other Way,“ í Brigham Young háskóla 1981–82 Speeches (1982), 67.

  2. Gordon B. Hinckley, „The Quest for Excellence,“ Líahóna, sept. 1999, 8.