2013
Knúin af trú
júlí 2013


Æskufólk

Knúin af trú

Höfundurinn býr í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.

Ég gleymi aldrei er ég gekk um grundir Vetrarstöðvanna í Nebraska, Bandaríkjunum, þar sem brautryðjendur höfðu dvalið árum áður. Jörðin þar virtist helg, næstum líkt og við værum í garði musteris.

Augu mín fylltust tárum sem vörnuðu mér sýn. Ég kom auga á höggmynd, en greindi ekki af hverju hún var. Þegar ég þerraði burtu tárin, sá ég að hún var af karlmanni og konu og andlit þeirra voru full sorgar. Þegar ég virti höggmyndina betur fyrir mér, sá ég hvítvoðung liggja í gröf við fætur þeirra.

Við þá sjón fylltist ég blendnum tilfinningum: Hryggð, reiði, þakklæti og gleði. Mig langaði að taka í burtu sársaukann sem þessir heilögu upplifðu, en um leið fann ég til þakklætis fyrir það sem þau höfðu fórnað í þágu fagnaðarerindisins.

Reynsla mín í Vetrarstöðvunum auðveldaði mér að skilja að himneskur faðir gefur börnum sínum fagnaðarerindið og sjálfræði til að fara með það að eigin vild. Foreldrar þessa barns hefðu getað valið að fara auðveldari leið. Þessir brautryðjendur urðu að halda áfram, ef þeir vildu fylgja spámanninum og lifa eftir fagnaðarerindinu, jafnvel þótt það þýddi að þau yrðu að grafa barnið sitt. En þau völdu að lifa eftir fagnaðarerindinu og takast á við áskoranir sínar. Mér lærðist að hollusta hinna heilögu við fagnaðarerindið og staðfesta þeirra til að sækja fram, væru knúin af trú og von—von um bjartari framtíð og trú á að Drottinn þekkti þau og megnaði að lina þjáningar þeirra.