2013
Ábyrgð okkar að koma til bjargar
október 2013


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, október 2013

Ábyrgð okkar að koma til bjargar

Ljósmynd
Thomas S. Monson forseti

Sú ábyrgð Síðari daga heilagra að koma þeim bræðrum sínum og systrum til bjargar, sem af einni eða annarri ástæðu hafa villst af vegi kirkjuvirkni, hefur eilíft mikilvægi. Vitum við af einhverjum slíkum, sem eitt sinn lifðu eftir fagnaðarerindinu? Ef svo er, hver er þá ábyrgð okkar á að koma þeim til bjargar?

Hugið að hinum týndu meðal ekknanna, hinna öldruðu og sjúku. Of oft er slíka að finna eina og yfirgefna í óbyggðum einmanaleikans. Þegar æskan hverfur, þegar heilsunni hrakar, þegar þrekið er þrotið, þegar vonarljósið flöktir og dofnar, er hægt að koma slíkum til bjargar með styrkri hendi og samúðarfullu hjarta.

Auðvitað eru það fleiri sem þarf að bjarga. Syndin herjar á suma og ótti, deyfð og fávísi eru dragbítar annarra. Af einhverri ástæðu hafa slíkir dregið sig í hlé frá kirkjuvirkni. Það er næsta víst að þeir verði áfram týndir, nema í okkur—hinum virku meðlimum kirkjunnar—vakni þrá til að koma þeim til bjargar.

Einhver til að vísa veginn

Fyrir nokkru barst mér bréf, skrifað af manni sem hafði villst frá kirkjunni. Það er dæmigert um marga meðlimi okkar. Eftir að hafa lýst því hvernig hann varð óvirkur, skrifaði hann:

„Ég átti svo margt en nú svo lítið. Ég er óhamingjusamur og mér finnst ég hafa brugðist í öllu. Fagnaðarerindið hefur aldrei horfið úr hjarta mínu, jafnvel þótt það sé horfið úr lífi mínu. Ég bið um bænir ykkar.

Gleymið ekki þeim okkar sem eru þarna úti—hinum týndu Síðari daga heilögu. Ég veit hvar kirkjuna er að finna, en stundum finnst mér ég þurfa einhvern til að vísa mér veginn, hvetja mig áfram, efla mér kjark og vitna fyrir mér.“

Meðan ég las bréfið, varð mér hugsað til heimsóknar minnar í eitt glæsilegasta listasafn heimsins—í hið nafntogaða safn Victoria and Albert Museum í London, Englandi. Þar, fagurlega innrammað, er meistarastykki málað af Joseph Mallord William Turner árið 1831. Verkið sýnir mikla og dimma skyjabólstra og ógnþrungið hafið, sem fyrirboða um hættu og dauða. Í fjarlægð glittir í ljós frá strönduðu skipi. Í forgrunni er stór björgunarbátur, sem veltist og byltist í löðrandi briminu. Ræðararnir leggja alla krafta á árar, er björgunarbáturinn steypist í ofviðrinu. Á ströndinni standa eiginkona og tvö börn, gegndrepa af regni og barin af vindi. Þau rýna kvíðafull út á hafið. Í huga mínum stytti ég nafn málverksins. Fyrir mér varð nafnið: Til björgunar.1

Hættur leynast mitt í stormum lífsins. Karlar og konur, piltar og stúlkur, upplifa sig skipreka og standa frammi fyrir strandi og eyðileggingu. Hver er fús til að leggja hendur á árar, yfirgefa fjölskyldu og þægindi heimilis til að sigla til bjargar?

Áskorun okkar er ekki óviðráðanleg. Ef við erum í erindum Drottins, eigum við rétt á hjálp hans.

Í þjónustutíð sinni kallaði meistarinn á fiskimenn við Galilíuvatn og bauð þeim að yfirgefa net sín og fylgja sér: „Ég [mun] láta yður menn veiða.“2 Megum við ganga til liðs við fiskimenn, karla og konur, til að gera allt sem við megnum til að koma til hjálpar.

Ábyrgð okkar er að rétta fram hönd og hjálpa þeim sem hafa horfið frá öryggi kirkjuvirkni, svo leiða megi þá að borði Drottins til að nærast á orði hans, njóta samfélags anda hans, svo þeir verði „ekki framar gestir og útlendingar, heldur … samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.“3

Regla kærleikans

Ég hef komist að því að tvær megin ástæður liggja aðallega að baki því að fólk verði aftur virkt og breyti afstöðu sinni, venjum og breytni. Í fyrsta lagi kemur fólk aftur þegar einhver hefur sýnt því fram á eilífa möguleika þess og hjálpað því að ákveða að vinna að þeim. Hinn lítt virki fær ekki sætt sig við meðalmennskuna til lengdar, er hann hefur loks séð hið fullkomna innan sinnar seilingar.

Í öðru lagi kemur fólk aftur þegar ástvinir eða „samþegnar hinna heilögu“ hafa farið eftir áminningu frelsarans, hafa elskað náunga sinn eins og sjálfan sig,4 og hafa hjálpað öðrum að gera drauma sína og metnað að veruleika.

Hvatinn í slíku ferli er—og verður áfram—regla kærleikans.

Þeim sem skipreka eru á beljandi hafinu á málverki Turners og bíða björgunar þeirra sem í björgunarbátnum eru, má í raun líkja við marga okkar lítt virku meðlimi. Í hjarta sínu þrá þeir hjálpina. Mæður og feður biðja fyrir sonum sínum og dætrum. Eiginkonur biðja til himins um hjálp fyrir eiginmenn sína. Stundum biðja börnin fyrir foreldrum sínum.

Bæn mín er sú að við megum þrá að bjarga hinum lítt virku og leiða þá aftur í gleði fagnaðarerindis Jesú Krists, svo þeir megi njóta með okkur alls þess sem felst í fullri aðild.

Megum við rétta fram hönd til að bjarga hinum týndu meðal okkar: Hinum aldraða, ekkjunni, hinum sjúka, hinum vanmáttuga, hinum lítt virka og þeim sem ekki halda boðorðin. Megum við rétta þeim hjálparhönd og sýna þeim samúðarfullt hjarta. Með því munum við færa þeim gleði í hjarta og upplifa ríkulega þá fullnægju sem hlýst af því að hjálpa öðrum á veginum til eilífs lífs.

Heimildir

  1. Fullt nafn málverksins er Life-Boat and Manby Apparatus Going Off to a Stranded Vessel Making Signal (Blue Lights) of Distress.

  2. Matt 4:19.

  3. Ef 2:19.

  4. Sjá Matt 22:39.

Hvernig kenna á boðskapinn

Íhugið að spyrja fólkið sem þið heimsækið að því hvort það þekki einhvern sem hefur átt erfitt með að koma í kirkju. Þið gætuð valið einn einstakling og rætt hvernig sýna mætti elsku, til að mynda með því að bjóða honum eða henni á fjölskyldukvöld eða í mat.