2013
Hið guðlega hlutverk Jesú Krists: Hinn eingetni sonur
desember 2013


Boðskapur heimsóknarkennara, desember 2013

Hið guðlega hlutverk Jesú Krists: Hinn eingetni sonur

Kynnið ykkur efnið sem hér er í bænaranda og leitið þess sem miðla á. Hvernig getur skilningur á lífi og starfi frelsarans aukið trú ykkar á hann og blessað þær sem þið vakið yfir með heimsóknarkennslu? Frekari upplýsingar eru á reliefsociety.lds.org.

Ljósmynd
Merki Líknarfélagsins

Trú, fjölskylda, líkn

Frelsari okkar, Jesús Kristur, er nefndur hinn eingetni sonur, því hann er sá eini á jörðu sem fæddur er af dauðlegri móður og ódauðlegum föður. Hann erfði guðlegan mátt frá Guði, föður sínum. Frá móður sinni, Maríu, erfði hann dauðleika og var því háður hungri, þorsta, þreytu, sársauka og dauða.1

Þar sem Jesús Kristur er hinn eingetni föðurins, hafði hann mátt til að gefa líf sitt og taka það aftur. Ritningarnar kenna að „fyrir friðþægingu Krists“ „[verði] upprisan [okkar]“ (Jakob 4:11). Þar lærum við líka að alla „mætti reisa … upp í ódauðleika til eilífs lífs,“ „sem trúa munu“ (K&S 29:43).

Þegar okkur fer að skiljast betur hvað í því felst fyrir Jesú að vera hinn eingetni sonur föðurins, mun trú okkar á Krist styrkjast. Öldungur D. Todd Christofferson í Tólfpostulasveitinni sagði: „Trú á Jesú Krist er sannfæring og fullvissa um (1) stöðu hans sem hins eingetna sonar Guðs, (2) hina óendanlegu friðþægingu hans og (3) bókstaflega upprisu hans.“2 Nútíma spámenn hafa vitnað um að: „[Jesús Kristur] var … hinn eingetni sonur í holdinu, frelsari heimsins.“3

Úr ritningunum

Jóh 3:16; K&S 20:21–24; HDP Móse 5:6–9

Úr sögu okkar

Í Nýja testamentinu lesum við um konur, nafngreindar og ónafngreindar, sem iðkuðu trú á Jesú Krist, lærðu kenningar hans og lifðu eftir þeim og báru vitni um þjónustu hans, kraftaverk og hátign. Þessar konur urðu fyrirmyndar lærisveinar og mikilvæg vitni í verki sáluhjálpar.

Marta gaf til að mynda öflugan vitnisburð um guðleika frelsarans með því að segja við hann: „Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn“ (Jóh 11:27).

Nokkur fyrstu vitnin um guðleika frelsarans voru móðir hans, María og frænka hennar, Elísabet. Nokkru eftir að engillinn Gabríel hafði vitjað Maríu, sótti hún Elísabetu heim. Um leið og Elísabet heyrði kveðju Maríu, „fylltist [hún] heilögum anda“ (Lúk 1:41) og bar vitni um að María yrði móðir sonar Guðs.

Heimildir

  1. Sjá Reglur fagnaðarerindisins (2009), 52–53.

  2. D. Todd Christofferson, „Building Faith in Christ,“ Líahóna, sept. 2012, 13.

  3. „Hinn lifandi Kristur: Vitnisburður postulanna tólf,“ Líahóna, apríl 2000, 2–3.

Hvað get ég gert?

  1. Hvers vegna er mér mikilvægt að skilja hlutverk Jesú Krists?

  2. Hvernig getur trú okkar aukist sem afleiðing af því að halda sáttmála okkar?