2015
Hann er upprisinn
Apríl 2015


Sígildar trúarsögur

Hann er upprisinn

David O. McKay fæddist 8. september 1873. Hann var vígður postuli 9. apríl 1906, 32 ára gamall, og 9. apríl 1951 var hann studdur sem níundi forseti kirkjunnar. Hér á eftir er útdráttur úr ræðu sem hann hélt á aðalráðstefnu í apríl 1966. Alla ræðuna má lesa í Conference Report, apríl 1966, 55–59.

Það sem heimurinn hefur nú mesta þörf fyrir er óhagganleg trú á Krist.

Ef kraftaverk er yfirnáttúrlegur atburður, sem maðurinn fær ekki skilið vegna síns takmarkaða skilnings, þá er upprisa Jesú Krists undursamlegasta kraftaverk allra tíma. Í henni felst almætti Guðs og ódauðleiki mannsins.

Upprisan er kraftaverk, en þó aðeins vegna þess að hún er ofvaxin skilningi mannsins. Hún er þó þeim sem samþykkja hana sem staðreynd, aðeins staðfesting á samfelldu lögmáli lífsins. …

Ef þið meðtakið þá staðreynd að Kristur reis upp í líkamanum og birtist sem dýrðleg upprisin vera, þá hafið þið fundið svarið við spurningu allra tíma: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ (Job 14:14).

Vitni upprisunnar

Ljósmynd
Two Apostles looking at the wounds in Jesus' hand and wrist.

Öruggt er að bókstafleg upprisa Krists frá dauðum var raunveruleg þeim lærisveinum sem þekktu hann. Í þeirra huga var alls enginn vafi. Þeir voru vitni að þessari staðreynd; þeir vissu því þeir sáu, því eyru þeirra heyrðu, hendur þeirra þreifuðu á og þeir fundu fyrir líkamlegri nærveru hins upprisna frelsara.

Þegar hinir ellefu komu saman til að velja þann sem taka átti sæti Júdasar Ískaríot, sagði Pétur, sem var yfirpostuli: „Einhver þeirra manna, … verður nú að gjörast vottur upprisu hans ásamt oss“ (Post 1:21–22). …

Af öðru tilefni lýsti Pétur yfir frammi fyrir óvinum þeirra, já, þeim sem höfðu deytt Jesú á krossinum: „Ísraelsmenn, heyrið þessi orð: … „Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess“ (Post 2:22, 32). …

Fleiri vitni

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu ber sama vitni og Pétur, Páll, Jóhannes og allir hinir fornu postular, sem vissu að upprisan var ekki aðeins bókstaflega sönn, heldur líka staðfesting á guðlegu hlutverki Krists á jörðu.

Átján hundruð árum eftir að Jesús dó á krossinum, lýsti spámaðurinn Joseph Smith því yfir að hinn upprisni Drottinn hefði birtst honum og sagði: „Ég [sá] tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina: Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“ (Joseph Smith—Saga 1:17). …

Ef vitnisburður Josephs Smith stæði einn og óstuddur, væri hann af litlu gildi, líkt og Kristur sagði um sinn eigin vitnisburð, er hann vísaði til sjálfs sín, en Jesús hafði vitnisburð Guðs og postulanna. Joseph Smith hafði önnur vitni, sem staðfestu vitnisburð hans, sannleikann sem hafði verið kunngjörður þeim með vitjun engilsins Morónís. …

… Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu staðfestir líka hina dýrðlegu sýn spámannsins Josephs Smith:

„Og nú, eftir þá mörgu vitnisburði, sem gefnir hafa verið um hann, er þetta vitnisburðurinn síðastur allra, sem við gefum um hann: Að hann lifir!“ (K&S 76:22). …

Í ljósi þessara traustu vitnisburða, sem hinir fornu postular hafa gefið – vitnisburða, sem gefnir voru nokkrum árum eftir að atburðurinn sjálfur átti sér stað – í ljósi þessarar dásamlegustu opinberunar, á tíma hins lifandi Krists, er vissulega erfitt að skilja hvernig menn geta samt hafnað Kristi og efast um ódauðleika mannsins.

Það sem við höfum nú mesta þörf fyrir

Það sem heimurinn hefur nú mesta þörf fyrir er óhagganleg trú á Krist. Það er meira en aðeins tilfinning. Það er kraftur sem leiðir til athafna, og hann ætti að vera sá mikilvægasti sem maðurinn lætur stjórnast af. …

Ef menn aðeins „gerðu vilja hans,“ í stað þess að mæna vonlausir á dimma og drungalega gröfina, myndu þeir líta til himins og vita að Kristur er risinn! …

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu lýsir yfir til alls heimsins að Jesús Kristur er sonur Guðs og lausnari heimsins! Enginn sannur fylgjandi lætur sér nægja að viðurkenna hann einungis sem mikinn umbótasinna, fyrirmyndar kennara eða jafnvel sem hin eina fullkomna mann. Maðurinn frá Galelíu er – ekki í óeiginlegri merkingu, heldur í eiginlegri merkingu – sonur hins lifanda Guðs. …

Sannlega endurfæddur

Enginn getur einlæglega lifað daglega eftir kenningum Jesú frá Nasaret án þess að upplifa breytingu á sjálfum sér. Orðið „endurfæddur“ hefur dýpri merkingu en margir gera sér grein fyrir. … Sá er hamingjusamur sem sannlega hefur upplifað þann lífgandi og umbreytandi kraft sem af nærveru frelsarans stafar, að tengjast hinum lifandi Kristi. Ég er þakklátur fyrir að vita að Kristur er lausnari minn. …

Boðskapur upprisunnar … er mesta hughreysting mannsins og dýrðlegasti boðskapur allra, því þegar ástvinir okkar deyja sefast sorg hjartans í von og guðlegri fullvissu orðanna: „Hann er ekki hér. Hann er upp risinn!“ [sjá Matt 28:6; Mark 16:6].

Af allri sálu veit ég að Jesús Kristur hefur sigrað dauðann og af því að lausnari okkar lifir, munum við lifa.