2015
„Ver hjá mér hverja stund‘
Apríl 2015


„Ver hjá mér hverja stund“

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Þegar við vissum ekki hvað meira við gátum kennt, lagði félagi minn til að við myndum syngja þennan sálm.

Ljósmynd
drawing of family with missionaries

Á ánægjulegu sunnudagsíðdegi í trúboði mínu í Balsan, Kóreu, þegar ég og félagi minn kvöddum meðlimina eftir kirkju og vorum í þann mund að fara út til að boða trúna, kynnti trúboðsleiðtogi deildarinnar okkur fyrir 12 ára gömlum dreng að nafni Kong Sung-Gyun. Hann hafði komið í kirkju þann dag og vildi læra meira um fagnaðarerindið.

Við vorum auðvitað fullir tilhlökkunar yfir að kenna honum en ég var svolítið óöruggur að kenna svo ungum pilti. Við ákváðum að vera vissir um að hafa leyfi foreldra hans, svo ég hringdi heim til Kong Sung-Gyun og ræddi stuttlega við móður hans, Pak Mi-Jung. Það kom mér á óvart að hún sagðist gleðjast yfir að sonur hennar væri að hugsa um að sækja kirkju og að það væri henni ánægja að fá okkur í heimsókn til að kenna honum.

Óvæntir trúarnemar

Daginn eftir fórum við heim til piltsins, undir það búnir að kenna. Það kom okkur enn meir á óvart að komast að því að Pak Mi-Jung vildi að við kenndum líka dóttur hennar, Kong Su-Jin. Þar sem við vorum gestir á heimilinu, vildi Pak Mi-jung sitja hjá okkur meðan við kenndum. Við vorum auðvitað glaðir yfir að kenna öllum sem vildu hlýða á okkur.

Eftir að þau höfðu boðið upp á veitingar, settumst við niður og byrjuðum að ræða saman. Pak Mi-Jung vildi kynnast okkur aðeins betur, fremur en að að hefja kennsluna þegar í stað, og segja örlítið frá fjölskylduhögum þeirra. Hún sagði okkur frá nýlegum erfiðleikum þeirra og áþján, þar með talið nýafstaðinni baráttu sonar hennar við krabbamein. Hann hafði farið í gegnum geislameðferð með góðum árangri og krabbameinið var í rénun, en læknirinn sagði það geta blossað upp aftur hvenær sem væri. Þetta var fjölskyldunni afar þungbært. Þau voru verkamanna fjölskylda og faðirinn á heimilinu þurfti að vinna afar mikið, aðeins til að hafa þak yfir höfuðið og mat á borði.

Ég varð orðlaus og sorgmæddur yfir erfiðleikum þeirra. Lífið hafði ekki verið þeim auðvelt, en samheldnin í fjölskyldunni var mun meiri en ég hafði orðið vitni að í öðrum fjölskyldum sem ég hafði kynnst í Kóreu, sem segir heilmargt, þar sem Kórea er fjölskylduvænt samfélag. Við yfirgáfum heimili þeirra þetta kvöld, eftir að hafa kynnst þessari fjölskyldu betur og miðlað henni boðskap fagnaðarerindisins.

Ég og félagi minn fórum aftur nokkrum sinnum til að kenna þeim í þessari sömu viku og fundum sama hlýleikann og örlætið og í fyrstu heimsókninni. Þegar að því koma að rætt var um skírn, þá vildu bæði systkinin ólm ganga í kirkjuna. Móðir þeirra var þó ekki jafn áhugasöm. Þótt kenningar okkar höfðuðu til hennar og hún vonaði að þær væru sannar, fannst henni hún ekki geta gert og staðið við þær skuldbindingar sem aðild að kirkjunni krafðist. Henni fannst það líka ekki viðeigandi fyrir sig að láta skírast án eiginmanns síns, sem við höfðum enn ekki kynnst. Hún var þó afar fús til að halda áfram að hitta okkur og líka fara í kirkju með börnunum sínum.

Í lok annarrar viku, eftir að hafa kennt oft á heimili hennar, hittum við eiginmann hennar, Kong Kuk-Won – sem var auðmjúkur, vingjarnlegur og örlátur maður. Hann var með okkur í síðustu fáeinum lexíunum og fannst strax allt rétt sem við kenndum, líka þær kenningar sem sumum finnst oft erfitt að meðtaka, líkt og tíundin og Vísdómsorðið. Þótt þau væru blásnauð og fátæk, hófu þau að greiða tíund. Eina hindrun heimilisföðurins var sú að hann þurfti að vinna á sunnudögum. Hann starfaði á alþjóðaflugvellinum í Seoul alla sunnudaga og því var honum fyrirmunað að koma í kirkju með fjölskyldu sinni. Þrátt fyrir vinnutíma hans, ráðgerði hann og eiginkona hans að vera viðstödd skírn barna sinna á komandi sunnudegi.

Eftir skírn barnanna, komum við oft saman á heimili fjölskyldunnar. Við höfðum fjölskyldukvöld, lásum í ritningunum, sögðum uppbyggjandi reynslusögur og kynntum þau fyrir meðlimum deildarinnar. Foreldrarnir voru samt ekkert nær því að skírast, þótt þau lærðu áfram um fagnaðarerindið.

Á meðan á þessu stóð var félagi minn færður til og nýi félagi minn kom beint frá trúboðsskólanum. Hann var uppnuminn í trú, orkumikill og áhugasamur og í fullri einlægni þá átti ég erfitt með að fylgja honum eftir. Eftir að ég og félagi minn höfðum hitt Kong Kuk-Won og Pak Mi-Jung í fáein skipti, kom hann að máli við mig og spurði hvort ég og fyrri félagi minn höfðum fastað með þeim. Það höfðum við ekki gert. Sú hugsun hafði í raun ekki hvarflað að mér. Við hittum því fjölskylduna og lögðum til að við föstuðum saman. Það kom mér algjörlega á óvart að komast að því að þau hefðu fastað sjálf með reglubundnu millibili, bæði fyrir heilsu sonar þeirra og breyttum vinnutíma, svo Kong Kuk-Won gæti sótt kirkju. Eftir að ég og félagi minn sameinuðust þeim í föstu, vorum við bænheyrð og breyting varð á vinnutíma Kong Kuk-Won. Pak Mi-Jung var hins vegar ósveigjanleg að láta skírast.

Innblásin hugmynd

Félag minn kom þá fram með aðra snilldarhugmynd. Hann fór í vasann, dró upp vasasálmabók og spurði hvort við mættum syngja með þeim. Þótt við hefðu áður sungið saman, þá hafði ég aldrei heyrt Pak Mi-Jung taka undir og hélt því að hún nyti þess ekki að syngja eða finndist það óþægilegt, því sálmarnir væru henni ókunnugir. Félagi minn spurði hvort hún ætti sér einhvern eftirlætis sálm og mér til mikillar furðu, þá varð hún hrærð og svaraði að allt frá unga aldri, sem telpa, hefðu eftirlætissálmur hennar verið „Ver hjá mér hverja stund“ (Sálmar, nr. 31). Við hófum að syngja fjórraddað, faðirinn laglínuna, móðirin altrödd, félagi minn tenór og ég bassa.

Andinn var sterkur í herberginu. Þegar við sungum þriðja stefið, yfirbuguðu tilfinningarnar hana og hún hætti að syngja meðan við hin héldum áfram.

Ver hjá mér hverja stund,

í hjartans gleði og sorg,

því annars er mér líf,

sem auð og lokuð borg.

Ver hjá mér, ó, ver hjá mér,

ver hér hverja stund.

Ó, kærleiksríki Kristur,

ég kem á þinn fund.

Þegar við sungum fjórða og fimmta stefið, var hún snöktandi. Þegar eiginmaður hennar reyndi að hugga hana, náði hún loks stjórn á sjálfri sér. Hún horfði beint framan í mig og sagði: „Ég þarf að láta skírast.“

Ljósmynd
drawing of woman holding an Asian hymnbook

Skírnarathafnir Kong Kuk-Won og Pak Mi-Jung, á þessu sunnudagssíðdegi, voru þær andlegustu í trúboðinu mínu. Börnin þeirra tóku þátt í dagskránni og fjöldi meðlima á svæðinu var viðstaddur til að styðja þessa nýju fjölskyldu í deildinni. Ég og félagi minn fluttum sérstakt tónlistaratriði: „Ver hjá mér hverja stund.“

Svo kom að því að ég lauk trúboðinu og fór heim. Eftir eitt ár í framhaldsskóla, fór ég aftur til Kóreu til sumarstarfsnáms og hverja helgi einsetti ég mér að heimsækja hina mörgu kæru vini og fjölskyldur sem ég hafði kynnst í trúboðinu. Að nokkrum vikum liðnum fór ég aftur til Balsan og hitti aftur þessa kæru fjölskyldu. Þegar ég kom á heimilið þeirra, tók ég eftir að einn vantaði – sonur þeirra var þar ekki. Tárvot í augum, sagði Pak Mi-Jung mér þau sorgartíðindi að krabbamein sonar þeirra hefði aftur blossað upp þegar hann var 14 ára og að hann hefði látið í minni pokann í þeirri baráttu.

Þegar ég reyndi að tjá þeim samúð mína og jafnfram takast á við sorgina sem ég fann fyrir, fullvissaði Kong Kuk-Won mig um að allt færi vel. Þau elskuðu fagnaðarerindið, sóttu kirkju af trúmennsku og hlökkuðu til þess dags að geta innsiglast saman sem fjölskylda um eilífð í Seoul musterinu í Kóreu. Þrátt fyrir hina miklu sorg fjölskyldunnar, þá vissu þau að þau myndu aftur sjá Kong Sung-Gyun og verða sameinuð að nýju. Pak Mi-Jung sagði mér líka að daglegur sálmasöngur, hjálpaði henni að finna styrk og takast á við sorgina og finna þann frið sem andinn færir.

Þegar ég fór frá heimili þeirra um kvöldið, hugsaði ég aftur um texta eftirlætis sálms Pak Mi-Jung. Ég er þakklátur fyrir að himneskur faðir hafi blessað fjölskylduna með friði, eftir að Kong Sung Gyun féll frá, og einkum fyrir hlutverk andans í trúarumbreytingu Park Mi-Jung, sem gerði fjölskyldunni kleift að taka á móti eilífum blessunum musterisins.