2015
Máttur trúar
Apríl 2015


Vér tölum um Krist

Máttur trúar

Höfundur býr í Oregon, Bandaríkjunum.

Ef himneskur faðir tæki áskoranir okkar í burtu, bara af því að við bæðum hann um það, myndi hann neita okkur um þá reynslu sem nauðsynleg er sáluhjálp okkar.

Ljósmynd
A mother ssitting with her small daughter as the girl colors in a coloring book.

Þegar ég var eitt sinn við próftöku í háskóla, fann ég fyrir sársauka í hnakkanum. Sársaukinn hvarf ekki eftir prófstreituna. Ég fór til læknis og meðferðarsérfræðings en sársaukinn var viðvarandi. Næsta árið reyndi ég að þrauka með sársaukann og átti líka í baráttu við að styrkja trú mína. Ég baðst mikið fyrir, lærði ritningarnar og bað um prestdæmisblessanir. Mér fannst ég gæti læknast, ef ég aðeins hefði næga trú.

Jesús Kristur læknaði sjúka, blinda, lamaða og holdsveika – í samræmi við trú þeirra (sjá Matt 9:29). Ég vissi að hann hefði mátt til að lækna mig, líkt og svo marga í sinni jarðnesku þjónustu. Ég ályktaði því svo að einungis vantrú mín kæmi í veg fyrir lækningu og lagði því enn meira á mig. Á sama tíma og ég hélt áfram í sjúkraþjálfuninni, baðst ég fyrir, fastaði, lærði og sýndi trú. Sársaukinn hvarf samt ekki.

Ritningarnar kenna að við getum unnið kraftaverk fyrir trú (sjá Matt 17:20) en samt var mér um megn að losa mig við þessa smávægilegu þjáningu. Hafði ég ekki nægan trúarmátt? Ég sætti mig loks við aðstæður mínar, fann leiðir til að takast á við sársaukann og óþægindin og sló því á frest til síðari tíma að hljóta frekari skilning á trú og lækningu.

Nokkrum árum síðar ræddi ég við eina vinkonu mína, Erin, sem hafði glímt við hræðilegan flökurleika á meðgöngutíma fyrsta barns síns, sem varð til þess að hún þurfti að fara oftar en einu sinni á sjúkrahús. Erin þráði að eignast annað barn en óttaðist að þurfa að þola sömu óþægindi og á meðgöngu fyrsta barnsins. Hún sagðist hafa fastað og beðist fyrir og trúað því einlæglega að himneskur faðir óskaði ekki að hún upplifði þetta í annað sinn.

Þegar við ræddum saman, kom þessi ritning upp í huga minn: „Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð“ (Sálm 46:10). Mér varð hugsað um það hvernig mér hafði lærst að vera kyrr í þjáningum mínum og ég hvatti Erin til að sýna trú, en setja trú sinni ekki þær skorður að einblína aðeins á að þurfa ekki að upplifa flökurleika á næstu meðgöngu.

Þegar ég hélt áfram að læra um reglur trúar, kom ég að kennslu Alma um trú, þar sem sagt er: „Ef þið þess vegna eigið trú, þá hafið þið von um það, sem eigi er auðið að sjá, en er sannleikur“ (Alma 32:21).

Þegar ég ígrundaði þessa ritningu, skildi ég að trú var annað en ég taldi. Alma kenndi að trú væri von á sannar reglur. Trú er ekki sannfæring um að himneskur faðir muni ávallt verða við bón okkar þegar við biðjum hann einhvers. Að trúa að Kristur læknaði hálsverkinn eða sæi til þess að meðganga Erin yrði án flökurleika, fellur ekki að sönnum trúarreglum. Við getum samt trúað að Kristur hafi mátt til að lækna, að hann sé okkur minnugur, að hann styrki okkur og að hann gefi okkur eilíft líf og ef við stöndumst vel gætum við orðið hæf fyrir eilíft líf.

Drottinn lofaði: „Hvað sem þú biður um í trú og trúir, að þú hljótir, í nafni Jesú Krists, það munt þú hljóta“ (Enos 1:15). Ég trúi að loforð þetta sér bundið orðunum „í nafni Jesú Krists.“ Í Leiðarvísi að ritningunum er útskýrt: „Við getum í sannleika beðið í nafni Krists, þegar óskir okkar eru samhljóða óskum Krists (Jóh 15:7). Við biðjum þá um það sem Guði er mögulegt að veita. Sumum bænum er ekki svarað því þær eru í engu samræmi við óskir Krists en stafa þvert á móti af sjálfselsku manna.“

Þegar við biðjum um eitthvað sem er í samræmi við vilja Guðs, mun hann veita okkur í samræmi við þrár okkar. Himneskur faðir þekkir og elskar okkur og þráir að sjá okkur fyrir öllu nauðsynlegu, svo við getum snúið til hans aftur. Stundum felur það í sér erfiðleika, raunir og áskoranir (sjá 1 Pét 1:7). Ef himneskur faðir tæki áskoranir okkar í burtu, bara af því að við bæðum hann um það, myndi hann neita okkur um þá reynslu sem nauðsynleg er sáluhjálp okkar. Við verðum að læra að reiða okkur á Guð og beygja okkur undir vilja hans. Þegar við samstillum þrár okkar hans þrám og viðurkennum að við séum algjörlega háð honum, getum við farið að „ná takmarki trúar [okkar], frelsun sálna [okkar]“ (1 Pét 1:9).