2018
Hafa hann ávallt í huga
February 2018


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, febrúar 2018

Hafa hann ávallt í huga

Getið þið séð fyrir ykkur með mér spámanninn Moróní áletra lokaorð Mormónsbókar á gulltöflurnar? Hann var einn. Hann hafði orðið vitni að falli þjóðar sinnar og fjölskyldu. Stríð hafði verið „um allt landið“ (Morm 8:8). Hann hafði þó von, því hann hafði séð okkar tíma! Af öllu því sem hann hefði getað letrað, þá bauð hann okkur að hafa hugfast (sjá Moró 10:3).

Spencer W. Kimball forseti (1895–1985) var hugleikið að kenna að mikilvægasta hugtak orðabókarinnar gæti verið að hafa hugfast. Af því að við höfum gert sáttmála við Guð, sagði hann, þá „er okkur mikilvægast af öllu að hafa þá hugfasta.“1

Þið getið fundið orðtakið að hafa hugfast víða í ritningunum. Þegar Nefí áminnti bræður sína, þá bauð hann þeim oft að hafa orð Drottins hugfast og minnast þess hvernig Guð frelsaði forfeður þeirra (sjá 1 Ne 15:11, 25; 17:40).

Í hinni miklu kveðjuræðu sinni, þá notaði Benjamín konungur orðin að hafa hugfast sjö sinnum. Hann vonaði að fólkið hans myndi ætíð hafa í huga „mikilleik Guðs … [og] gæsku hans og langlundargeð“ í þess garð (Mósía 4:11; sjá einnig 2:41; 4:28, 30; 5:11–12).

Þegar frelsarinn innleiddi sakramentið, bauð hann lærisveinum sínum að meðtaka tákn þess í „minningu“ fórnar hans (Lúk 22:19). Í hverri sakramentisbæn sem við hlýðum á heyrum við orðið ávallt í tengslum við orðin hafa í huga (sjá K&S 20:77, 79).

Boðskapur minn er beiðni, jafnvel bæn, um að hafa hugfast. Hér eru þrjár ábendingar um hvað þið getið hugsað um í hverri viku meðan þið veitið viðtöku hinum helgu táknum sakramentisins. Ég vona að þær verði ykkur jafn gagnlegar og þær hafa verið mér.

Hafa Jesú Krist í huga

Í fyrsta lagi að hafa frelsarann í huga. Minnist þess hvert hlutverk hans var þegar hann var á jörðu, hvernig hann talaði til fólks og sýndi vinsemd með gjörðum sínum. Munið með hverjum hann varði tíma sínum og hvað hann kenndi. Frelsarinn „gekk um [og] gjörði gott“ (Post 10:38). Hann vitjaði sjúkra. Hann var staðráðinn í því að fara að vilja föður síns.

Það sem mikilvægast er, við getum haft hið mikla gjald sem hann galt í huga, sökum elsku sinnar til okkar, til að afmá syndir okkar. Þegar við minnumst hans, þá mun þrá okkar til að fylgja honum vaxa. Við munum vilja vera örlítið vinsamlegri, fúsari til að fyrirgefa og leita og gera vilja Guðs.

Hugsið um hvernig þið þurfið að bæta ykkur

Það er erfitt að hugsa um frelsarann – hreinleika hans og fullkomnun – án þess að hugsa líka um hve breisk og ófullkomin við sjálf erum í samanburði. Við höfum gert sáttmála um að hlýða boðorðum hans, en samt bregst okkur svo oft bogalistin gagnvart þessum háleita staðli. Frelsarinn vissi hins vegar að það myndi gerast og sá okkur því fyrir helgiathöfn sakramentis.

Sakramentið á upphaf í fórnarathöfnum Gamla testamentisins, sem líka fólu í sér syndajátningu (sjá 3 Mós 5:5). Við iðkum ekki lengur dýrafórnir, en við getum samt látið af syndum okkar. Í ritningunum er sú fórn nefnd „sundurkramið hjarta og sáriðrandi andi“ (3 Ne 9:20). Komið iðrandi í hjarta að sakramentinu (sjá K&S 59:12; Moró 6:2). Þegar þið gerið það, þá munið þið hljóta fyrirgefningu synda ykkar og ekki villast af veginum sem leiðir ykkur aftur til Guðs.

Hafið í huga ykkar persónulegu framfarir

Þegar þið leggið mat á eigið líf í helgiathöfn sakramentis, þá vona ég að hugsanir ykkar snúist ekki aðeins um hið ranga sem þið hafið gert, heldur líka um hið góða sem þið hafið gert – stundir þar sem ykkur fannst himneskur faðir og frelsarinn vera ánægðir með ykkur. Þið getið jafnvel gefið ykkur tíma meðan á sakramentinu stendur til að biðja Guð um að hjálpa ykkur að koma auga á það. Ef þið gerið þetta, þá lofa ég ykkur að þið munið skynja eitthvað. Þið munið finna von.

Þegar ég hef gert þetta, þá hefur andinn fullvissað mig um að ég er betri í dag en í gær, þótt ég sé langt frá því að vera fullkominn. Það fyllir mig sjálfstrausti yfir að geta gert enn betur á morgun, sökum frelsara míns.

Ávallt er langur tími og krefst mikillar einbeitingar og áreynslu. Við vitum af eigin raun hversu erfitt það getur verið að reyna að hugsa stöðugt um eitthvað eitt. Hann mun þó ávallt hafa ykkur í huga, hversu vel sem ykkur gengur að hafa hann ávallt í huga.

Frelsarinn þekkir áskoranir ykkar. Hann veit hvernig það er þegar lífsins áhyggjur hvíla þungt á ykkur. Hann veit hversu brýnt er að þið hljótið þær blessanir sem koma af því að hafa hann ávallt í huga og hlýða honum – „að andi hans [verði] ætíð með [ykkur]“ (K&S 20:77; skáletrað hér).

Hann býður ykkur velkomin að borði sakramentisins í hverri viku og hvetur ykkur enn að nýju til að vitna fyrir honum að þið munið ávallt hafa hann í huga.

Heimildir

  1. Spencer W. Kimball, „Circles of Exaltation“ (ræða flutt fyrir trúarkennara Fræðsludeildar kirkjunnar, 28. júní 1968), 5.