2018
Biðja um hjálp til að hjálpa öðrum
Október 2018


Ljósmynd
ministering

Reglur hirðisþjónustu, október 2018

Biðja um hjálp til að hjálpa öðrum

Hvernig fáum við aðra til þátttöku þegar við þurfum hjálp í þjónustu okkar? Með því að taka þátt í þjónustuviðtölum og samráðsfundum fyrsta sunnudags.

Þegar mænusigg varð til þess að binda Kathy við hjólastól, varð henni ljóst að hún þyrfti aðstoð á hverju kvöldi við að fara úr stólnum í rúmið. Viðfangsefnið var of umfangsmikið fyrir einungis einn meðlim. Öldungasveitin ræddi því saman um aðstæður hennar og ákvað að gera verkáætlun henni til hjálpar á hverju kvöldi.1

Þegar við tökum að þekkja þarfir og styrkleika þeirra sem við þjónum, gæti okkur orðið ljóst að við þyrftum hjálp við að uppfylla þarfir þeirra. Þjónustuviðtöl og samráðsfundur fyrsta sunnudags eru vettvangur til að ræða hvernig rétt er að fá aðra til aðkomu.

Þjónustuviðtöl

Þessi ársfjórðungslegu viðtöl á milli þjónandi systra og forsætisráðs Líknarfélagsins eða þjónandi bræðra og forsætisráðs öldungasveitar eru eina formlega greinargerðin varðandi þá sem við þjónum. Þjónustuviðtal er haft hið minnsta ársfjórðungslega og er til að (1) ákveða styrkleika, þarfir og áskoranir úthlutaðra fjölskyldna og einstaklinga, (2) ákveða hvaða þarfir sveitir, Líknarfélag eða deildarráð geta aðstoðað við og (3) til að læra af leiðtogum og hljóta hvatningu í þjónustustarfinu.

Öldungasveitarforseti og Líknarfélagsforseti greina biskupi beint frá mikilvægum þörfum og hljóta leiðsögn og handleiðslu frá honum.

Finna má frekari upplýsingar um þjónustuviðtöl á ministering.lds.org.

Gera þjónustuviðtöl innihaldsrík

Öldungur Gary E. Stevenson, í Tólfpostulasveitinni, undirstrikaði orð Russells M. Nelson forseta um að hirðisþjónustan yrði þungamiðja stefnu kirkjunnar, með því að segja: „Framkvæmd þessarar hugsjónar … gæti verið háð vel grundvallaðri kennslu og þátttöku þjónandi bræðra og systra í þjónustuviðtölum.“2

Fimm ábendingar fyrir bræður og systur í hirðisþjónustu:

  • Farið í viðtalið til að leita leiðsagnar. Verið fús til að læra.

  • Verið undir það búin að ræða þarfir sem þið gætuð hjálpað til við að uppfylla.

  • Einblínið á styrkleika og hæfileika einstaklings, ekki aðeins þarfir hans.

  • Eigið samráð um þá niðurstöðu sem myndi sýna að þjónusta ykkar hefur borið árangur.

  • Hafið samband við forsætisráðið á milli ársfjórðungslegra viðtala eftir þörfum til að ráðgast saman.

Fimm ábendingar fyrir leiðtoga:

  • Viðtölin þurfa ekki að vera löng, en gefið ykkur nægan tíma til að koma saman á stað þar sem mögulegt er að hafa innihaldsríkar samræður.

  • Grípið tækifærið til að þjóna bræðrum og systrum sem eru hirðisþjónar.

  • Spyrjið ekki spurninga sem gefa í skyn að þið séuð einungis að fiska eftir fjölda heimsókna eða hespa af viðtalinu („Laukstu við þjónustuna?“). Spyrjið spurninga sem stuðla að æskilegri breytni („Hvaða innblástur hefur þú hlotið þegar þú biður fyrir fjölskyldunni? Hvað gerðist þegar þú fylgdir þeim innblæstri?“).

  • Hlustið einlæglega og skrifið hjá ykkur athugasemdir.

  • Ræðið saman. Þjónustufélagar eiga rétt á opinberun í þágu þeirra sem þeim er falið að þjóna.

Spurningar og svör um þjónustuviðtöl

Hvað er þjónustuviðtal?

Það eru samræður á milli þjónandi bræðra og meðlims forsætisráðs öldungasveitar eða á milli þjónandi systra og meðlims forsætisráðs Líknarfélagsins í umgjörð sem gerir þeim kleift að sækjast eftir innblæstri frá heilögum anda. Af því leiðir að þjónandi bræður og systur geta verið innblásin við að vaka yfir, elska, kenna og hugga að hætti frelsarans.

Þurfa þessi ársfjórðungslegu viðtöl að fara fram í eigin persónu?

Að öllu jöfnu eiga þau að fara fram í eigin persónu, en þó er heimilt að hafa þau í gegnum síma eða á netinu, ef óhagkvæmt er að hittast í eigin persónu. Yfirleitt taka báðir félagar þátt í viðtalinu, þegar það er viðeigandi.

Hver er tilgangur þjónustuviðtala?

Þjónustuviðtöl gefa þjónandi bræðrum og systrum kost á að endurskoða núverandi aðstæður, gera framtíðaráætlanir og verða sér úti um nauðsynlega hjálp í þágu þeirra einstaklinga eða fjölskyldna sem þau þjóna. Þau eru vettvangur til að ræða saman um alla þá hjálp sem sveit og Líknarfélag geta veitt.

Hvernig skal fara með trúnaðarmál eða viðkvæm málefni?

Þjónandi bræður og systur miðla einungis forsetum öldungasveitar og Líknarfélags trúnaðarupplýsingum – eða ræða beint við biskup. Ekki ætti að miðla viðkvæmum upplýsingum á samráðsfundi fyrsta sunnudags.

Samráðsfundur fyrsta sunnudags

Auk þjónustuviðtala, er samráðsfundur fyrsta sunnudags annar vettvangur til að fá aðra til þátttöku í þjónustunni. Á fundum Líknarfélags og öldungssveitar geta þátttakendur hlotið innblástur beint frá andanum og öðrum þátttakendum.

Tilgangur samráðsfundar er að:

  • „Ræða saman um ábyrgð á svæði ykkar, tækifæri og áskoranir,

  • læra af skilningi og reynslu hver annars og

  • ráðgera hvernig bregðast skuli við innblæstri frá andanum.“3

Samráðsfundir eru meira en einungis umræður. Á þeim fundum látum við leiðast af innblæstri andans sem einstaklingar og hópur. Þessir fundir geta vakið þrá hjá meðlimum til að vinna verk Drottins.

Boð um að bregðast við

Öldungur Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Við biðjum þess í dag, að sérhver karl og kona – og eldri piltar og stúlkur – einsetji [sér] að veita hvert öðru kærleiksríka umhyggju, sem einungis á rætur í hinni hreinu ást Krists“4

Heimildir

  • Sjá myndbandið Mormon Messages “Lift,” lds.org/media-library.

  • Gary E. Stevenson, í “Ministering Interviews” (myndband), ministering,lds.org.

  • Come, Follow Me – For Melchizedek Priesthood and Relief Society, í Ensign eða Liahona, nóv. 2017, 140; einnig á comefollowme.lds.org.

  • Jeffrey R. Holland, “Be With and Strengthen Them,” Ensign eða Liahona, maí 2018, 103.