14. kapítuli

Engill segir Nefí frá blessunum og bölvun sem komi yfir Þjóðirnar—Til eru aðeins tvær kirkjur: Kirkja Guðslambsins og kirkja djöfulsins—Hinir heilögu Guðs með öllum þjóðum eru ofsóttir af hinni miklu og viðurstyggilegu kirkju—Jóhannes postuli mun skrifa um endalok veraldar. Um 600–592 f.Kr.

  Og svo ber við, að hlýði Þjóðirnar Guðslambinu á þeim degi, þá mun hann opinbera sig fyrir þeim, í orði og einnig í veldi, já, í sannleika, til að fjarlægja ásteytingarsteina þeirra–-

  Og herði þær ekki hjörtu sín gegn Guðslambinu, munu þær taldar til niðja föður þíns. Já, þær munu taldar til Ísraelsættar. Og þær munu blessaðar verða í fyrirheitna landinu að eilífu. Aldrei framar munu þær hnepptar í ánauð, og aldrei framar mun Ísraelsætt smánuð.

  Og þetta mikla hyldýpi, sem hin mikla og viðurstyggilega kirkja, er djöfullinn og börn hans grundvölluðu til að leiða sálir manna af réttri braut og til heljar, hefur grafið þeim, já, hið mikla hyldýpi, sem grafið hefur verið til tortímingar mönnum, mun fyllast af þeim, sem grófu það, þeim sjálfum til algjörrar tortímingar, segir Guðslambið. Sál manna mun þó ekki tortímast, nema henni verði varpað niður í hið óendanlega víti.

  Og sjá. Þetta er í samræmi við ánauð djöfulsins og einnig í samræmi við réttvísi Guðs gagnvart þeim, sem iðka vilja ranglæti og viðurstyggð frammi fyrir honum.

  Og svo bar við, að engillinn talaði til mín, Nefís, og sagði: Þú hefur séð, að ef Þjóðirnar iðrast, mun þeim vegna vel. Og þú veist líka um sáttmálana, sem Drottinn gjörði við Ísraelsætt. Og þú hefur einnig heyrt, að hver sá, sem iðrast ekki, hlýtur að farast.

  Vei sé því Þjóðunum, ef þær herða hjörtu sín gegn Guðslambinu.

  Því að sá tími kemur, segir Guðslambið, að ég mun vinna mikið og undursamlegt verk meðal mannanna barna–-verk, sem verða mun ævarandi og skipar þeim annaðhvort til annarrar handar eða hinnar–-Menn munu annaðhvort sannfærast um frið og eilíft líf eða gefast á vald hörkunni í eigin hjarta og blindunni í eigin huga, svo að þeir verði leiddir í ánauð og verði einnig tortímingu að bráð, jafnt stundlega sem andlega, í samræmi við ánauð djöfulsins, sem ég hef talað um.

  Og svo bar við, að þegar engillinn hafði mælt þessi orð, sagði hann við mig: Minnist þú sáttmála föðurins, er hann gjörði við Ísraelsætt? Ég svaraði honum játandi.

  Og svo bar við, að hann sagði við mig: Sjá hina miklu og viðurstyggilegu kirkju, sem er móðir viðurstyggðarinnar. Djöfullinn lagði grundvöll hennar.

  10 Og hann sagði við mig: Sjá, kirkjurnar eru í raun og sannleika aðeins tvær. Önnur er kirkja Guðslambsins, en hin er kirkja djöfulsins. Þess vegna telst sá, sem ekki tilheyrir kirkju Guðslambsins, til hinnar miklu kirkju, sem er móðir viðurstyggðarinnar. Og hún er hórkona allrar jarðarinnar.

  11 Og svo bar við, að ég leit og sá þessa hórkonu allrar jarðarinnar, og hún sat á mörgum vötnum. Og hún drottnaði yfir allri jörðunni, meðal allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýða.

  12 Og svo bar við, að ég sá kirkju Guðslambsins, og meðlimir hennar voru fáir vegna ranglætis og viðurstyggðar hórkonunnar, sem á mörgu vötnunum sat. Engu að síður sá ég, að kirkja lambsins, sem var hinir heilögu Guðs, var einnig um allt yfirborð jarðar. En ítök hennar á jörðunni voru lítil vegna ranglætis skækjunnar miklu, sem ég sá.

  13 Og svo bar við, að ég sá hina miklu móður viðurstyggðarinnar safna saman í hópa á yfirborði allrar jarðarinnar mönnum frá öllum þjóðum Þjóðanna til að berjast gegn Guðslambinu.

  14 Og svo bar við, að ég, Nefí, sá vald Guðslambsins. Það féll yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins, sem dreifð var um allt yfirborð jarðar. Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.

  15 Og svo bar við, að ég sá heilaga reiði Guðs hellast yfir þessa miklu og viðurstyggilegu kirkju, þannig að hernaður og ófriðartíðindi hrjáðu allar þjóðir og kynkvíslir jarðar.

  16 Og þegar hernaður og ófriðartíðindi upphófst meðal allra þjóða, sem tilheyrðu móður viðurstyggðarinnar, talaði engillinn til mín og sagði: Sjá. Heilög reiði Guðs er yfir móður vændiskvennanna. Og sjá. Allt þetta sér þú—

  17 Og þegar sá dagur rennur upp, að heilög reiði Guðs hellist yfir móður vændiskvennanna, sem er hin mikla og viðurstyggilega kirkja allrar jarðarinnar, en djöfullinn lagði grundvöll hennar, á þeim degi skal verk föðurins hefjast, er greiðir veginn fyrir uppfyllingu sáttmálanna, sem hann hefur gjört við lýð sinn, sem er af ætt Ísraels.

  18 Og svo bar við, að engillinn ávarpaði mig og sagði: Sjá!

  19 Og ég leit upp og sá mann, sem klæddur var hvítum kyrtli.

  20 Og engillinn sagði við mig: Sjá. Þetta er einn hinna tólf postula lambsins.

  21 Sjá. Hann mun sjá og færa í letur það, sem enn á eftir að gjörast, já, og einnig margt, sem nú þegar hefur gjörst.

  22 Og hann mun einnig skrifa um endalok veraldar.

  23 Þess vegna er það, sem hann mun skrifa, satt og rétt; og sjá, það er letrað í bókina, sem þú sást koma af vörum Gyðings. Og þegar það barst af vörum Gyðings, eða bókin kom af vörum Gyðings, þá var það, sem letrað var, augljóst, hreint og afar dýrmætt og auðskilið öllum mönnum.

  24 Og sjá. Það, sem þessi postuli lambsins mun skrifa, er margt af því, sem þú hefur séð. Og sjá. Það, sem enn er eftir, munt þú sjá.

  25 En það, sem þú munt sjá héðan í frá, skalt þú ekki færa í letur, því að Drottinn Guð hefur vígt postula Guðslambsins til að hann skrái það.

  26 Og á sama hátt hefur hann sýnt öðrum, sem lifað hafa, allt í heild, og þeir hafa fært það í letur. Og þau rit eru innsigluð, en þeim ætlað að koma í ljós meðal Ísraelsættar í hreinleika sínum og samkvæmt sannleikanum, sem býr í lambinu, og á þeim tíma, sem Drottni þóknast.

  27 Og ég, Nefí, heyrði og ber því vitni, að samkvæmt orði engilsins var nafn postula lambsins Jóhannes.

  28 Og sjá, mér Nefí, er bannað að færa í letur það, sem enn er óskráð af því, sem ég sá og heyrði. Þess vegna nægir það mér, sem þegar er skráð. Og ég hef ekki fært í letur nema lítinn hluta þess, sem ég sá.

  29 En ég ber því vitni, að ég sá allt það, sem faðir minn sá, og það var engill Drottins, sem afhjúpaði það fyrir mér.

  30 Og nú lýk ég máli mínu varðandi það, sem ég sá, meðan ég var uppnuminn í andanum. Og þótt allt, sem ég sá, hafi ekki verið fært í letur, er það, sem ég hef skráð, sannleikur. Og þannig er það. Amen.