STJÓRN HANS OG HELG ÞJÓNUSTA
Frásögn um Lehí, eiginkonu hans Saríu og fjóra syni hans, sem hétu (byrjað á þeim elsta) Laman, Lemúel, Sam og Nefí. Drottinn aðvarar Lehí og ræður honum að hverfa frá landi Jerúsalem, þar eð íbúarnir sækist eftir lífi hans fyrir spádóma hans, er snerta misgjörðir þeirra. Hann ferðast þrjár dagleiðir út í óbyggðirnar með fjölskyldu sinni. Nefí hverfur aftur til lands Jerúsalem ásamt bræðrum sínum til að sækja heimildaskrár Gyðinga. Frásögnin af þjáningum þeirra. Þeir kvænast dætrum Ísmaels. Þeir leggja af stað með fjölskyldur sínar út í óbyggðirnar. Sagt er frá þjáningum þeirra og þrengingum í óbyggðunum og leið þeirra rakin. Þeir koma að vötnunum miklu. Bræður Nefís rísa gegn honum. Hann ávítar þá og smíðar skip. Þeir nefna staðinn Nægtarbrunn. Þeir fara yfir vötnin miklu til fyrirheitna landsins og áfram. Þetta er samkvæmt frásögn Nefís, eða með öðrum orðum, ég, Nefí, færði þessa skrá í letur.

1. kapítuli

Nefí byrjar að skrá heimildir þjóðar sinnar—Lehí sér eldstólpa í sýn og les úr spádómsbók—Hann lofar Guð, segir fyrir um komu Messíasar og spáir tortímingu Jerúsalem—Gyðingar ofsækja hann. Um 600 f.Kr.

  ÉG, Nefí, er af góðum foreldrum kominn og hlaut þess vegna nokkra tilsögn í öllum fræðum föður míns. Enda þótt ég hafi mátt þola miklar þrengingar á lífsleið minni, hef ég engu að síður orðið mikillar náðar Drottins aðnjótandi alla mína ævi. Og vegna þess að mikil þekking á gæsku og leyndardómum Guðs hefur fallið mér í skaut, færi ég í letur það sem á daga mína hefur drifið.

  Já, ég skrái þessa frásögn á tungu föður míns, sem felur í sér lærdóm Gyðinga og tungu Egypta.

  Og ég veit, að frásögnin, sem ég færi í letur, er sönn. Og ég skrái hana með eigin hendi og samkvæmt minni bestu vitund.

  Því að svo bar við í upphafi fyrsta valdaárs Sedekía, konungs í Júda, (en faðir minn, Lehí, hafði dvalið alla ævi sína í Jerúsalem), að margir spámenn komu á því sama ári og spáðu því, að tortíma yrði hinni miklu Jerúsalemborg, ef íbúarnir iðruðust ekki.

  Þá bar svo við, að faðir minn, Lehí, hóf að biðja til Guðs fyrir þjóð sinni, já, af einlægu hjarta.

  Og svo bar við meðan hann bað til Drottins, að eldstólpi birtist á kletti fyrir framan hann, og margt bar fyrir augu hans og eyru. Og vegna þess, sem hann sá og heyrði, nötraði hann og skalf ákaflega.

  Og svo bar við, að hann hvarf aftur til heimilis síns í Jerúsalem, fleygði sér upp í rúm, altekinn af andanum og því, sem borið hafði fyrir augu hans.

  Og þannig altekinn af andanum varð hann hrifinn burt í sýn, svo að hann sá jafnvel himnana opnast, og honum þótti sem hann sæi Guð sitja í hásæti sínu, umkringdan óteljandi skörum engla, sem sungu Guði sínum lof.

  Og svo bar við, að hann sá Einn stíga niður af miðjum himni, og að það geislaði af honum bjartar en sólu um hádegisbil.

  10 Og hann sá jafnframt tólf aðra, sem fylgdu honum, og birta þeirra var skærari en stjarnanna á himinhvolfinu.

  11 Og þeir komu niður til jarðar og héldu áfram eftir yfirborði hennar, og hinn fyrsti staðnæmdist frammi fyrir föður mínum, fékk honum bók og bauð honum að lesa hana.

  12 Og svo bar við, að hann fylltist anda Drottins, á meðan hann las.

  13 Hann las og mælti: Vei þér, vei þér Jerúsalem, því að ég hef séð viðurstyggð þína! Já, og margt las faðir minn varðandi Jerúsalem–-að henni yrði tortímt, ásamt íbúum hennar. Margir mundu falla fyrir sverði og margir færðir í ánauð til Babýloníu.

  14 Og svo bar við, að loknum lestrinum, eftir að faðir minn hafði séð margt, bæði mikið og undursamlegt, lofaði hann Drottin á ýmsan hátt og sagði: Mikil eru verk þín og undursamleg, ó Drottinn, Guð almáttugur! Hásæti þitt er á himnum hátt og vald þitt, gæska þín og miskunn ríkir yfir öllum jarðarbúum. Og vegna miskunnsemi þinnar munt þú ekki leyfa að þeir farist, sem til þín koma!

  15 Og þannig fórust föður mínum orð Guði sínum til lofs. Því að sál hans fylltist fögnuði og hjarta hans varð gagntekið af því, sem hann hafði séð, já, því, sem Drottinn hafði sýnt honum.

  16 Ég, Nefí, gjöri ekki full skil á því sem faðir minn hefur ritað, þar eð hann hefur skráð margt, sem birtist honum í sýnum og draumum. Auk þess hefur hann skráð margt, sem hann spáði fyrir um og sagði börnum sínum frá, en því mun ég ekki gjöra full skil.

  17 En ég mun gjöra grein fyrir því, sem fyrir mig hefur borið um dagana. Sjá. Ég mun draga saman heimildir föður míns í stutt mál og skrá þær á töflur, sem ég hef búið til með mínum eigin höndum. Og þegar ég hef lokið við að stytta heimildir föður míns, mun ég greina frá minni eigin ævi.

  18 Ég vil því, að þér vitið, að eftir að Drottinn hafði sýnt föður mínum, Lehí, svo margt undursamlegt, já, varðandi tortímingu Jerúsalem, sjá, þá fór hann út á meðal fólksins og tók að spá og segja frá því, sem hann hafði bæði séð og heyrt.

  19 Og svo bar við, að Gyðingar hæddu hann vegna þess vitnisburðar, sem hann gaf um þá. Því hann bar ranglæti þeirra og viðurstyggð svo sannarlega vitni. Og hann bar því einnig vitni, að það sem hann hafði séð og heyrt, sem og það, er hann hafði lesið í bókinni, sýndi greinilega fram á komu Messíasar og einnig endurlausn heimsins.

  20 Þegar Gyðingar heyrðu þetta, reiddust þeir honum, já, rétt eins og þeir reiddust spámönnunum til forna, sem þeir vísuðu burt, grýttu og deyddu. Þeir sátu einnig um líf hans og reyndu að svipta hann því. En sjá. Ég, Nefí, mun sýna yður fram á, að hin milda miskunn Drottins vakir yfir öllum þeim, sem hann hefur útvalið, trúar þeirra vegna, til að gjöra þá máttuga, jafnvel með krafti til frelsunar.