4. kapítuli

Lehí gefur afkomendum sínum ráð og blessar þá—Hann deyr og er grafinn—Nefí vegsamar gæsku Guðs—Nefí setur traust sitt á Drottin að eilífu. Um 589–570 f.Kr.

  Og nú tala ég, Nefí, um spádómana, sem faðir minn ræddi um í sambandi við Jósef, sem fluttur var til Egyptalands.

  Því að sjá, hann spáði í raun og veru fyrir öllum niðjum sínum. Og ekki er marga stórkostlegri spádóma að finna en þá, sem hann færði í letur. Og hann spáði fyrir um okkur og komandi kynslóðir okkar. Þeir spádómar eru letraðir á látúnstöflurnar.

  Eftir að faðir minn hafði því lokið máli sínu varðandi spádóma Jósefs, kallaði hann til sín börn Lamans, syni hans og dætur, og sagði við þau: Sjá, synir mínir og dætur, sem eruð synir og dætur frumburðar míns. Ég óska þess, að þið hlýðið á orð mín.

  Því að Drottinn Guð hefur sagt: Sem þið haldið boðorð mín, svo mun ykkur vegna vel á þessari grund, en sem þið haldið ekki boðorð mín, munuð þið útilokast úr návist minni.

  En sjá, synir mínir og dætur. Ég get ekki horfið niður í gröf mína án þess að leggja blessun yfir ykkur, því að sjá. Ég veit, að hafið þið verið alin upp til að ganga þá leið, sem ganga skal, munuð þið ekki víkja af henni.

  En fari svo, að bölvun hvíli yfir ykkur, þá sjá. Megi blessun mín hvíla yfir ykkur, svo að bölvuninni megi létt af ykkur, en hún leggist þess í stað yfir höfuð foreldra ykkar.

  Vegna blessunar minnar mun Drottinn Guð því ekki leyfa, að þið farist. Þess vegna mun hann alla tíð miskunnsamur ykkur og niðjum ykkar.

  Og svo bar við, að þegar faðir minn hafði lokið máli sínu við syni og dætur Lamans, lét hann leiða syni og dætur Lemúels fyrir sig.

  Og hann talaði til þeirra og mælti: Sjá, synir mínir og dætur mínar, sem eruð synir og dætur næstelsta sonar míns. Sjá, ég skil sömu blessun eftir hjá ykkur og ég skildi eftir hjá sonum og dætrum Lamans. Þess vegna mun ykkur ekki með öllu tortímt, heldur munu niðjar ykkar blessaðir áður en yfir lýkur.

  10 Og svo bar við, að þegar faðir minn hafði lokið máli sínu til þeirra, sjá, þá beindi hann orðum sínum til sona Ísmaels, já, til alls heimilisfólks hans.

  11 Og þegar hann hafði lokið máli sínu til þeirra, beindi hann orðum sínum til Sams og sagði: Blessaður ert þú og niðjar þínir, því að þú munt erfa landið eins og bróðir þinn Nefí. Og niðjar þínir munu teljast með niðjum hans. Og þú munt verða eins og bróðir þinn og niðjar þínir eins og niðjar hans. Og þú munt blessaður alla þína daga.

  12 Og svo bar við, að þegar faðir minn, Lehí, hafði talað til alls heimilisfólks síns í samræmi við þær tilfinningar, sem í hjarta hans bærðust, og í samræmi við anda Drottins, sem í honum bjó, tók hann að eldast. Og svo bar við, að hann andaðist og var lagður til grafar.

  13 Og svo bar við, að nokkrum dögum eftir dauða hans reiddust Laman, Lemúel og synir Ísmaels mér vegna áminninga Drottins.

  14 Því að ég, Nefí, fann mig knúinn til að ávarpa þá í samræmi við orð hans. Ég ræddi við þá um margt eins og faðir minn hafði einnig gjört fyrir andlát sitt. Og margt af því er ritað á hinar töflurnar, því að það, sem lýtur meira að sagnfræði, er ritað á þær.

  15 En á þessar rita ég það, sem sálu minni tilheyrir, sem og margar af ritningargreinunum sem letraðar eru á látúnstöflurnar, því að sál mín hefur unun af ritningunum og hjarta mitt ígrundar þær og færir þær í letur, börnum mínum til uppfræðslu og gagns.

  16 Sjá, sál mín hefur unun af öllu, sem Drottin snertir. Og hjarta mitt ígrundar án afláts það, sem ég hef séð og heyrt.

  17 En þrátt fyrir hina miklu gæsku Drottins, er hann sýndi mér mikil og undursamleg verk sín, hrópar hjarta mitt. Ó, ég aumur maður! Já, hjarta mitt hryggist vegna holds míns, og sál mín harmar misgjörðir mínar.

  18 Freistingar og syndir umlykja mig og ná svo auðveldlega tökum á mér.

  19 Og þegar mig langar til að fagna, stynur hjarta mitt undan syndum mínum. Þó veit ég, á hvern ég hef sett traust mitt.

  20 Guð minn hefur verið stoð mín. Hann leiddi mig út úr þrengingum mínum í óbyggðunum, og hann hefur varðveitt mig á vötnum hins mikla dýpis.

  21 Hann hefur fyllt mig elsku sinni, jafnvel uns mér fannst sem hold mitt brynni.

  22 Og hann hefur sneypt svo óvini mína, að þeir hafa skolfið frammi fyrir mér.

  23 Sjá, á daginn hefur hann heyrt ákall mitt og á nóttunni miðlað mér þekkingu með sýnum.

  24 Og á daginn hef ég fyllst dirfsku í máttugri bæn til hans. Já rödd mín hefur hafist til upphæða, og englar stigu niður og þjónuðu mér.

  25 Og á vængjum anda hans hefur líkami minn borist upp á afar há fjöll. Og augu mín hafa séð mikilfenglega hluti, já, jafnvel of mikilfenglega mennskum manni. Þess vegna var ég beðinn um að færa það ekki í letur.

  26 Fyrst ég hef séð svo mikilfenglega hluti og Drottinn hefur í lítillæti sínu gagnvart mannanna börnum vitjað manna af svo mikilli miskunn, hví skyldi hjarta mitt þá gráta og sál mín dveljast í dal sorgarinnar, hví skyldi hold mitt tærast upp og styrkur minn minnka vegna þrenginga minna

  27 Og hví skyldi ég láta undan syndinni holds míns vegna? Já, hví skyldi ég gefa eftir fyrir freistingum, til þess eins að hinn illi komist í hjarta mitt, tortími friði mínum og nái að þrengja að sálu minni? Hví reiðist ég vegna óvinar míns

  28 Vakna, sál mín! Lát ei framar vanmegnast í synd. Fagna, ó hjarta mitt, og ljá ei framar óvini sálar minnar rúm.

  29 Reiðstu ekki aftur vegna óvina minna. Lát ei þrengingar mínar verða til þess að dragi úr styrk mínum.

  30 Fagna, ó hjarta mitt, ákalla Drottin og seg þú: Ó Drottinn, þig mun ég að eilífu lofa. Já, sál mín mun fyllast fögnuði í þér, þú Guð minn og bjarg sáluhjálpar minnar.

  31 Ó Drottinn, vilt þú endurleysa sál mína? Vilt þú bjarga mér úr höndum óvina minna? Vilt þú sjá um, að mig hrylli, þegar syndin birtist

  32 Megi hlið heljar verða mér stöðugt lokuð, því að hjarta mitt er sundurkramið og andi minn sáriðrandi! Ó Drottinn, hald dyrum réttlætis þíns opnum fyrir mér, til þess að mér megi takast að ganga veg auðmýktarinnar og halda mér fast við hina sléttu braut!

  33 Ó Drottinn, umvef mig möttli réttlætis þíns! Ó Drottinn, skapa mér undankomuleið frá óvinum mínum! Gjör braut mína beina! Legg eigi stein í götu mína, heldur ryð veginn, sem ég á ófarinn, og legg ei torfærur á minn veg heldur á vegi óvina minna.

  34 Ó Drottinn, ég hef treyst þér og mun að eilífu treysta þér. Ég mun ekki setja traust mitt á arm holdsins, því að ég veit, að bölvun hvílir yfir þeim, sem setur traust sitt á arm holdsins. Já, bölvun hvílir yfir þeim, sem setur traust sitt á manninn eða gjörir holdið að armi sínum.

  35 Já, ég veit, að Guð mun veita þeim örlátlega, sem biður. Já, Guð minn mun gefa mér, ef ég bið ekki ranglega. Þess vegna mun ég hefja rödd mína til þín. Já, ég mun hrópa til þín, Guð minn, bjarg réttlætis míns. Sjá, rödd mín mun að eilífu berast upp til þín, þú bjarg mitt, þú ævarandi Guð minn. Amen.