5. kapítuli

Þrjú vitni og verkið sjálft munu standa sem vitnisburður um sannleiksgildi Mormónsbókar.

  En nú hef ég, Moróní, ritað þau orð eftir minni, sem mér var boðið að rita. Og ég hef greint þér frá því, sem ég hef innsiglað. Snertu það þess vegna ekki til að þýða það, því að það er þér bannað, nema þegar viska Guðs leyfir það.

  Og sjá. Þú munt njóta þeirra forréttinda að fá að sýna töflurnar þeim, sem aðstoða þig við þetta verk—

  En þremur skulu þær sýndar fyrir kraft Guðs, og þess vegna munu þeir vita með vissu, að þetta er sannleikur.

  Og af munni þriggja vitna munu orð mín staðfest. Og vitnisburður þriggja og þetta verk, sem sýna mun kraft Guðs, og einnig orða hans, sem faðirinn og sonurinn og hinn heilagi andi bera vitni um—allt þetta skal standa sem vitni gegn heiminum á efsta degi.

  Og fari svo, að þeir iðrist og komi til föðurins í nafni Jesú, skal við þeim tekið inn í Guðsríki.

  Og hafi ég ekkert vald til þessa, skuluð þér dæma. Því að þér skuluð vita, að ég hef vald, þegar þér sjáið mig, og vér munum standa frammi fyrir Guði á efsta degi. Amen.