Ritningar
Eter 7


7. Kapítuli

Óría ríkir í réttlæti — Mitt í valdaráni og sundurlyndi eru andstæð konungdæmi Súle og Kóhors sett á fót — Spámenn fordæma ranglæti og skurðgoðadýrkun fólksins og það iðrast.

1 Og svo bar við, að Óría dæmdi í landinu réttlátlega alla sína daga, og dagar hans urðu mjög margir.

2 Og hann gat syni og dætur. Já, hann gat þrjátíu og eitt barn, og þar á meðal tuttugu og þrjá syni.

3 Og svo bar við, að hann gat einnig Kíb á gamalsaldri. Og svo fór, að Kíb ríkti í hans stað, en Kíb gat Kóríhor.

4 Og þegar Kóríhor var þrjátíu og tveggja ára, reis hann upp gegn föður sínum, fór yfir til Nehorslands og dvaldist þar, og hann gat syni og dætur, og þau urðu ákaflega fríð sýnum. Þess vegna dró Kóríhor marga aðra með sér.

5 Og þegar hann hafði dregið saman her, fór hann til Morónslands, þar sem konungurinn bjó, og tók hann höndum. Og þannig rættist það, sem bróðir Jareds asagði, að þau yrðu leidd í ánauð.

6 En Morónsland, þar sem konungurinn bjó, var nærri því landi, sem Nefítar nefna Auðnina.

7 Og svo bar við, að Kíb og fólk hans lifði í ánauð undir Kóríhor, syni hans, þar til Kíb varð háaldraður. Engu að síður gat Kíb Súle á gamalsaldri, meðan hann var enn í ánauð.

8 Og svo bar við, að Súle var reiður bróður sínum, en Súle varð sterkur og kröftugur, miðað við mannlegan styrk. Og hann var einnig mjög réttlátur maður.

9 Þess vegna fór hann til Efraímshæðar og bræddi úr hæðinni og gjörði sverð úr stáli fyrir þá, sem farið höfðu með honum. Og er hann hafði vopnað þá sverðum, sneri hann aftur til Nehorsborgar og háði orrustu við bróður sinn, Kóríhor, og náði þannig að koma föður sínum, Kíb, aftur til valda.

10 Og vegna þess, sem Súle hafði gjört, afhenti faðir hans honum ríkið. Þess vegna ríkti hann í stað föður síns.

11 Og svo bar við, að hann dæmdi í réttlæti, og ríki hans breiddist um landið, því að fólkinu hafði fjölgað mjög.

12 Og svo bar við, að Súle gat marga syni og dætur.

13 En Kóríhor iðraðist hinna mörgu illverka sinna, og þess vegna veitti Súle honum vald í ríki sínu.

14 Og svo bar við, að Kóríhor átti marga syni og dætur, og meðal sona Kóríhors var einn, sem Nóa hét.

15 Og svo bar við, að Nóa reis gegn konunginum Súle og einnig föður sínum Kóríhor og dró með sér Kóhor bróður sinn og einnig alla bræður sína og marga fleiri.

16 Og hann barðist við Súle konung og náði þannig fyrsta erfðalandi þeirra, og hann varð konungur yfir þeim hluta landsins.

17 Og svo bar við, að enn gekk hann til orrustu gegn Súle konungi. Og hann tók Súle konung og flutti hann fjötraðan til Moróns.

18 Og svo bar við, að rétt áður en hann skyldi drepinn, læddust synir Súle að nóttu til inn í hús Nóa og drápu hann og brutu niður dyr fangelsisins og leiddu föður sinn út og til hásætis síns í sínu eigin ríki.

19 En sonur Nóa tók því við ríki hans í hans stað, en þeir náðu ekki framar valdi yfir Súle konungi, og þeim, sem voru undir stjórn Súle konungs, vegnaði mjög vel, og þeir urðu að mikilli þjóð.

20 En landið skiptist í tvö ríki, ríki Súle og ríki Kóhors, sonar Nóa.

21 Og Kóhor, sonur Nóa, leiddi fólk sitt til orrustu við Súle, en Súle sigraði og drap Kóhor.

22 Og Kóhor átti son, er Nimrod hét og Nimrod afhenti Súle ríki Kóhors, og hann fann náð fyrir augum Súle, sem varð honum vinveittur, og hann gjörði það, sem hann vildi í ríki Súle.

23 Og á valdatíma Súle komu einnig fram spámenn meðal fólksins, sem Drottinn sendi, og þeir sögðu, að ranglæti og afalsguðadýrkun fólksins leiddi bölvun yfir landið og því yrði tortímt, ef það iðraðist ekki.

24 En svo bar við, að fólkið smánaði þá og hæddi. En Súle konungur felldi dóm yfir öllum þeim, sem smánuðu spámennina.

25 Og hann setti lög um allt landið, sem veittu spámönnunum rétt til að fara hvert sem þeir vildu, og á þann hátt var þjóðin leidd til iðrunar.

26 Og vegna þess að þjóðin iðraðist misgjörða sinna og hjáguðadýrkunar, hlífði Drottinn henni, og henni fór enn á ný að vegna vel í landinu. Og svo bar við, að Súle gat syni og dætur á gamalsaldri.

27 Fleiri styrjaldir urðu ekki á dögum Súle, en hann var minnugur þeirra miklu hluta, sem Drottinn hafði gjört fyrir feður hans, er hann leiddi þá ayfir djúpið mikla til fyrirheitna landsins. Þess vegna dæmdi hann í réttlæti alla sína daga.