Síðara bréf Mormóns til sonar síns, Morónís.
Nær yfir 9. kapítula.

9. kapítuli

Bæði Nefítar og Lamanítar eru gjörspilltir og úrkynjaðir—Þeir kvelja og myrða hver annan—Mormón biður um að náð og gæska föðurins megi vera með Moróní að eilífu. Um 401–21 e.Kr.

  Ástkær sonur minn. Ég skrifa þér aftur, svo að þú megir vita, að ég er enn á lífi, en ég hef nokkuð sorglegt að segja.

  Því að sjá. Ég hef átt í hörðum bardaga við Lamaníta, sem lauk með ósigri okkar. Og Arkeantus féll fyrir sverði og einnig Lúram og Emron. Já, við höfum misst fjölda úrvalsmanna okkar.

  Og sjá nú, sonur minn. Ég óttast, að Lamanítum takist að tortíma þessari þjóð, því að hún iðrast ekki, og Satan egnir þá stöðugt til reiði hvern gegn öðrum.

  Sjá, ég starfa stöðugt með þeim. Og þegar ég tala orð Guðs með festu, nötra þeir og reiðast mér, en þegar ég beiti engri festu, herða þeir hjörtu sín gegn því. Þess vegna óttast ég, að andi Drottins sé hættur að takast á við þá.

  Því að svo mikil er reiði þeirra, að mér virðist sem þeir óttist ekki dauðann. Og þeir hafa glatað elsku sinni hver til annars, og þá þyrstir í sífellu í blóð og hefnd.

  Og nú, ástkær sonur minn, skulum við erfiða af kostgæfni þrátt fyrir hörku þeirra. Því að ef við hættum starfi okkar, verðum við fordæmdir. Því að við höfum verk að vinna, meðan við dveljum í þessu leirmusteri, svo að við fáum sigrað óvin alls réttlætis og hvílt sálir okkar í Guðs ríki.

  Og nú skrifa ég nokkuð um þjáningar þessa fólks. Því samkvæmt þeirri vitneskju, sem ég hef fengið hjá Amoron, þá hafa Lamanítar marga fanga, sem þeir tóku úr turni Serrisa, en það voru karlar, konur og börn.

  Og eiginmenn og feður þessara kvenna og barna hafa þeir drepið, og þeir næra konurnar á holdi eiginmanna sinna og börnin á holdi feðra sinna, og aðeins örlítið vatn gefa þeir þeim.

  Og þrátt fyrir þessa miklu viðurstyggð Lamaníta tekur hún ekki fram viðurstyggð fólks okkar í Moríantum. Því að sjá. Margar dætur Lamaníta hafa þeir tekið til fanga. Og eftir að hafa rænt þær því, sem þeim er kærast og dýrmætast alls, hreinleika þeirra og dyggð—

  10 Og eftir að hafa gjört það, myrtu þeir þær á grimmilegasta hátt, píndu þær til dauða. Og eftir að hafa gjört það, rifu þeir í sig hold þeirra eins og villidýr, vegna hjartahörku sinnar. En með þessu þykjast þeir sýna hreysti sína.

  11 Og ástkær sonur minn. Hvernig getur fólk eins og þetta, sem er án siðmenningar—

  12 (Og aðeins fá ár eru liðin, síðan þetta var siðmenntað og viðfelldið fólk.)

  13 En ó, sonur minn. Hvernig getur fólk eins og þetta, sem finnur gleði í slíkri viðurstyggð—

  14 Hvernig getum við búist við, að Guð haldi refsihendi sinni frá okkur

  15 Sjá, hjarta mitt hrópar: Vei sé þessum lýð. Lát dóm þinn falla, ó Guð, og hyl syndir þeirra, ranglæti og viðurstyggð fyrir augliti þínu!

  16 Og enn fremur, sonur minn. Margar ekkjur og dætur þeirra eru enn í Serrisa. Og sjá. Þann hluta vistanna, sem Lamanítar tóku ekki burtu, hefur herlið Senefís tekið burt og látið þeim eftir að reika um allt í leit að fæði, en margar gamlar konur líða út af á leið sinni og deyja.

  17 En sá her, sem með mér er, er veikur. Og herir Lamaníta eru á milli Serrisa og mín. Og allir þeir, sem flúið hafa yfir til herliðs Arons, hafa orðið fórnarlömb hræðilegrar grimmdar þeirra.

  18 Ó, þessi siðspilling þjóðar minnar. Hún er taumlaus og miskunnarlaus. Sjá, ég er aðeins maður og hef aðeins mannlegan styrk, og ég fæ ekki lengur skipunum mínum framgengt.

  19 Og þeir eru orðnir forhertir í spillingu sinni. Og allir eru jafn ómannúðlegir, hlífa engum, hvorki öldnum né ungum. Og þeir hafa unun af öllu öðru en því, sem gott er. Og þjáningar kvenna okkar og barna um allt landið yfirganga allt. Já, tungan má ei mæla, né heldur er unnt að færa það í letur.

  20 Og nú, sonur minn, dvel ég ei lengur við þetta hræðilega ástand. Sjá, þú þekkir ranglæti þessa lýðs. Þú veist, að þeir eru án siðaboða og samkenndar, og ranglæti þeirra yfirgengur ranglæti Lamaníta.

  21 Sjá, sonur minn. Ég get ekki mælt með þeim við Guð, svo að hann ljósti mig ekki.

  22 En sjá, sonur minn. Ég mæli með þér við Guð, og ég set traust mitt á Krist, að þú megir frelsast. Og ég bið til Guðs, að hann hlífi lífi þínu, svo að þú megir annaðhvort verða vitni að því, að þjóð þín snúi aftur til hans, eða að algjörri tortímingu hennar, því að ég veit, að hún hlýtur að farast, ef hún iðrast ekki og snýr aftur til hans.

  23 Og farist hún, verður það eins og með Jaredíta, vegna þrjósku sinnar, blóðþorsta og hefnigirni.

  24 Og farist hún, vitum við, að margir bræðra okkar hafa horfið yfir til Lamaníta og að margir fleiri munu hverfa yfir til þeirra. Því bið ég þig að skrifa eitthvað, verði þér hlíft, en ég farist án þess að hitta þig. En ég treysti því, að ég hitti þig brátt, því að ég hef helgar heimildir, sem ég vil afhenda þér.

  25 Sonur minn, vertu trúr í Kristi. Og megi það, sem ég hef ritað, ekki verða til að hryggja þig eða þrúga þig til dauða, heldur megi Kristur lyfta þér upp, og megi þjáningar hans og dauði og það, að hann sýndi sig feðrum okkar í líkamanum, og miskunn hans og langlyndi og vonin um dýrð hans og eilíft líf hvíla í huga þínum að eilífu.

  26 Og megi náð Guðs föðurins, sem ríkir hátt á himnum uppi, og Drottinn vor Jesús Kristur, sem situr við hægri hönd veldis hans, þar til allt verður honum undirgefið, vera og haldast með þér að eilífu. Amen.