122. kafli

Orð Drottins til spámannsins Josephs Smith, meðan hann var í haldi í fangelsinu í Liberty, Missouri, í mars 1839 (History of the Church, 3:300–301).

1–4, Endimörk jarðar munu spyrjast fyrir um nafn Josephs Smith; 5–7, Allar hættur og erfiðleikar, sem á vegi hans verða, munu veita honum reynslu og verða honum til góðs; 8–9, Mannssonurinn hefur beygt sig undir það allt.

  ENDIMÖRK jarðar munu spyrjast fyrir um nafn þitt, heimskingjar munu hæða þig og hel fara hamförum gegn þér—

  En hinir hjartahreinu og hyggnu, göfugu og dyggðugu munu stöðugt leita ráða, valds og blessana af hendi þér.

  Og fólk þitt mun aldrei snúast gegn þér fyrir vitnisburð svikara.

  Og þó að þú lendir í erfiðleikum og undir lás og slá vegna áhrifa þeirra, skalt þú í heiðri hafður. Og vegna réttlætis þíns mun raust þín innan skamms verða ógurlegri meðal óvina þinna en öskur hins óða ljóns. Og Guð þinn mun standa með þér alltaf og að eilífu.

  Verðir þú kallaður til að þola andstreymi, verðir þú í hættu meðal falskra bræðra, verðir þú í hættu meðal ræningja, verðir þú í hættu á láði eða legi—

  Verðir þú ákærður með alls kyns fölskum ásökunum, ráðist óvinir þínir á þig, rífi þeir þig frá samfélagi föður þíns og móður, bræðra þinna og systra, og slíti óvinir þínir þig úr faðmi eiginkonu þinnar og barna með brugðnu sverði, og eldri sonur þinn, aðeins sex ára gamall, ríghaldi í þig og hrópi: Faðir minn, faðir minn, hvers vegna getur þú ekki verið hjá okkur? Ó, faðir minn, hvað ætla mennirnir að gera þér? Og verði honum þá með sverði ýtt burt frá þér og þú dreginn í fangelsi og óvinir þínir setjist að þér líkt og blóðþyrstir úlfar að lambi—

  Og verði þér varpað í gryfju eða í hendur morðingja og dauðadómur felldur yfir þér, verði þér kastað í djúpið, gjöri beljandi öldurnar samsæri gegn þér, verði ólmandi stormar óvinir þínir, myrkvist himnarnir og sameinist allar höfuðskepnurnar um að loka leiðinni, og umfram allt, opni skoltar heljar gin sitt upp á gátt fyrir þér, vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs.

  Mannssonurinn hefur beygt sig undir allt þetta. Ert þú meiri en hann

  Hald þess vegna stefnu þinni, og prestdæmið mun vera með þér, því að takmörk þeirra eru sett, þeir komast ei lengra. Dagar þínir eru ákveðnir og ár þín skulu ekki verða færri. Óttast þess vegna ekki hvað maðurinn kann að gjöra, því að Guð verður með þér alltaf og að eilífu.