127. kafli

Bréf frá spámanninum Joseph Smith til síðari daga heilagra í Nauvoo, Illinois, sem inniheldur leiðbeiningar um skírn fyrir dána, dagsett í Nauvoo 1. september 1842 (History of the Church, 5:142–144).

1–4, Joseph Smith finnur fögnuð í ofsóknum og mótlæti; 5–12, Halda verður skýrslur um skírn fyrir dána.

  ÞAR sem Drottinn hefur opinberað mér, að óvinir mínir, bæði í Missouri og í þessu fylki, ásækja mig enn, og þar sem þeir ásækja mig að ástæðulausu og án minnsta réttar eða vottar af réttvísi í ofsóknum sínum gegn mér, og þar eð allar ásakanir þeirra byggjast á lygum af verstu tegund, hef ég talið æskilegt og skynsamlegt af mér að yfirgefa staðinn um hríð, vegna eigin öryggis og öryggis þessa fólks. Ég vil segja öllum þeim, sem ég á samskipti við, að mál mín eru í höndum erindreka og ritara, sem munu reka öll mín mál á skjótan og réttan hátt og munu sjá um að allar skuldir mínar greiðist á réttum tíma með því að selja eignir eða á annan hátt, eftir því sem málum háttar eða aðstæður leyfa. Þegar ég fregna, að storminn hafi að fullu lægt, mun ég snúa aftur til yðar.

  Og þær hættur, sem ég er kallaður til að ganga gegnum, virðast mér smávægilegar, þar sem ég hef alla ævi mína mátt þola öfund og reiði manna. Hvers vegna væri mér ráðgáta, ef ég hefði ekki verið vígður áður en grundvöllur heimsins var lagður í einhverjum góðum, eða slæmum, tilgangi, allt eftir því sem þér óskið að nefna það. Dæmið sjálf. Guð þekkir þetta allt, hvort heldur það er gott eða illt. Engu að síður er ég vanur að synda í djúpu vatni. Það er orðið mér eðlislægt og mér fer, líkt og Páli, að ég finn fögnuð í andstreymi, því að fram á þennan dag hefur Guð feðra minna bjargað mér úr því öllu og mun bjarga mér héðan í frá. Því að sjá og tak eftir, ég mun fagna sigri yfir öllum óvinum mínum, því að Drottinn Guð hefur sagt það.

  Allir hinir heilögu skulu því fagna og gleðjast ríkulega, því að Ísraels Guð er þeirra Guð, og hann mun gjalda kúgurum þeirra réttmæt laun.

  Og enn, sannlega svo segir Drottinn: Halda skal linnulaust áfram vinnu við musteri mitt og öll önnur verkefni, sem ég hef falið yður, og margfaldið kostgæfni yðar, þrautseigju, þolinmæði og afköst, og þér munuð í engu glata launum yðar, segir Drottinn hersveitanna. Og ofsæki þeir yður, þá ofsóttu þeir spámennina og réttláta menn á undan yður. Fyrir allt þetta veitast laun á himni.

  Og enn, orð gef ég yður varðandi skírn fyrir yðar dánu.

  Sannlega, svo segir Drottinn við yður varðandi yðar dánu: Þegar einhver yðar lætur skírast fyrir yðar dánu, skal ritari vera viðstaddur og hann skal vera sjónarvottur að skírnum yðar. Hann skal heyra með eyrum sínum, svo að hann megi bera sannleikanum vitni, segir Drottinn—

  Svo að allar skýrslur yðar verði skráðar á himni. Og hvað sem þér bindið á jörðu verði bundið á himni. Hvað sem þér leysið á jörðu verði leyst á himni—

  Því að ég er á leið með að endurreisa margt á jörðu, sem tilheyrir prestdæminu, segir Drottinn hersveitanna.

  Og enn, regla skal höfð á öllum skýrslum, svo að geyma megi þær í skjalasafni heilags musteris míns, og þær í minnum hafðar kynslóð fram af kynslóð, segir Drottinn hersveitanna.

  10 Ég vil segja öllum hinum heilögu, að það var brennandi þrá mín að tala til þeirra frá ræðustólnum næsta hvíldardag um efnið: Skírn fyrir dána. En þar eð það er ekki í mínu valdi að gjöra svo, mun ég skrifa orð Drottins um þetta efni öðru hverju og senda yður í pósti, ásamt mörgu öðru.

  11 Ég lýk nú bréfi mínu í bili vegna tímaskorts. Því að óvinurinn er á verði, og eins og frelsarinn sagði, höfðingi þessa heims kemur, en í mér á hann ekkert.

  12 Sjá, bæn mín til Guðs er sú, að öll megið þér frelsast. Og ég skrifa mig þjón yðar í Drottni, spámann og sjáanda Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

 

Joseph Smith