135. kafli

Fórnardauði spámannsins Josephs Smith og bróður hans, Hyrums Smith, patríarka, í Carthage, Illinois, 27. júní 1844 (History of the Church, 6:629–631). Þetta skjal ritaði öldungur John Taylor úr Tólfmannaráðinu, en hann var vitni að atburðunum.

1–2, Joseph og Hyrum eru myrtir í Carthage-fangelsinu; 3, Joseph hylltur vegna yfirburðastöðu sinnar; 4–7, Saklaust blóð þeirra ber sannleikanum og guðdómleika verksins vitni.

  TIL innsiglunar á vitnisburði þessarar bókar og Mormónsbókar, tilkynnum við fórnardauða spámannsins Josephs Smith og patríarkans Hyrums Smith. Þeir voru skotnir í Carthage fangelsinu, 27. júní 1844, um kl. fimm e. h., af vopnuðum múg—svartmáluðum—um 150 til 200 manns. Hyrum varð fyrst fyrir skoti og hné rólega niður, um leið og hann sagði: Ég dey! Joseph stökk út um gluggann og var skotinn til bana við þá tilraun, um leið og hann hrópaði: Ó, Drottinn Guð minn! Á þá báða var grimmilega skotið, eftir að þeir voru dánir, og hlutu báðir fjögur skotsár.

  John Taylor og Willard Richards, tveir hinna tólf, voru þeir einu sem voru í herberginu á þeim tíma. Hinn fyrrnefndi var særður á villimannlegan hátt með fjórum skotum, en hefur nú náð sér. Hinn síðarnefndi komst undan með Guðs hjálp, án þess að skotin snertu svo mikið sem klæði hans.

  Joseph Smith, spámaður og sjáandi Drottins, hefur, að Jesú einum undanskildum, gjört meira manninum til sáluhjálpar í þessum heimi en nokkur annar, sem lifað hefur í honum. Á aðeins tuttugu ára tímabili hefur hann leitt fram Mormónsbók, sem hann þýddi með gjöf og krafti Guðs, og hefur staðið að útgáfu hennar í tveimur heimsálfum. Hann hefur sent fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis, sem hún geymir, til allra hinna fjögurra heimshluta og hefur leitt fram opinberanir og boð, sem mynda þessa bók, Kenningu og sáttmála, og mörg önnur lærdómsrík skjöl og leiðbeiningar, mannanna börnum til heilla. Hann hefur safnað saman mörgum þúsundum Síðari daga heilagra, grundvallað mikla borg og skilið eftir sig frægð og nafn, sem ekki verður þurrkað út. Hann var mikill í lífinu og mikill í dauðanum í augum Guðs og fólks hans, og líkt og flestir hinna Drottins smurðu til forna, hefur hann innsiglað ætlunarverk sitt og starf með blóði sínu, og svo hefur einnig bróðir hans Hyrum gjört. Í lífinu voru þeir ekki aðskildir, og í dauðanum urðu þeir ekki skildir að!

  Þegar Joseph fór til Carthage til að gefa sig fram vegna meintrar kröfu laganna, tveimur eða þremur dögum áður en hann var myrtur, sagði hann: „Ég fer líkt og lamb til slátrunar, en ég er hægur sem sumarmorgunn. Samviska mín er hrein gagnvart Guði og gagnvart öllum mönnum. Ég mun deyja saklaus, og um mig verður sagt—hann var myrtur með köldu blóði.” —Sama morgun, eftir að Hyrum hafði gjört allt til reiðu til fararinnar—ætti að segja til slátrunarinnar? Já, því að svo var það—las hann eftirfarandi málsgrein við lok tólfta kapítula Eters í Mormónsbók og braut þar blaðið:

  Og svo bar við, að ég bað Drottin um að gefa Þjóðunum náð, svo að þær fengju öðlast kærleika. Og svo bar bar við, að Drottinn mælti við mig: Skorti þær kærleik, skiptir það þig engu, þú hefur verið trúr; þess vegna verða klæði þín hreinsuð. Og vegna þess að þú hefur komið auga á veikleika þinn, skalt þú styrkur gjörður, já, til að setjast niður á þeim stað, sem ég hef fyrirbúið í híbýlum föður míns. En ég, ... kveð nú Þjóðirnar, já, og einnig bræður mína, sem ég elska, þar til við munum hittast fyrir dómstóli Krists, þar sem allir menn skulu vita, að klæði mín eru óflekkuð af blóði yðar. Arfleiðendurnir eru nú dánir, og erfðaskrá þeirra er í gildi.

  Hyrum Smith varð fjörutíu og fjögurra ára í febrúar 1844 og Joseph Smith varð þrjátíu og átta ára í desember 1843, og héðan í frá munu nöfn þeirra talin með píslarvottum trúarinnar, og lesendur meðal allra þjóða munu minntir á, að það kostaði besta blóð nítjándu aldarinnar að leiða fram Mormónsbók og þessa bók, Kenningu og sáttmála kirkjunnar, til sáluhjálpar rotinni veröld. Og ef eldurinn fær skaðað hið græna tré Guði til dýrðar, hversu auðveldlega mun hann þá ekki brenna upp hin þurru tré til að hreinsa víngarðinn af spillingu. Þeir lifðu fyrir dýrðina og þeir dóu fyrir dýrðina, og dýrð verður eilíf laun þeirra. Mann fram af manni munu nöfn þeirra lifa meðal komandi kynslóða, sem gimsteinar hinum helguðu.

  Þeir voru sýknir allra saka, eins og oft hafði áður sannast, og voru aðeins hnepptir í varðhald vegna samsæris svikara og ranglátra manna. Og saklaust blóð þeirra á gólfi Carthage fangelsisins er greinilegt innsigli á „Mormónisma,” sem enginn dómstóll á jörðu fær hafnað, og saklaust blóð þeirra á skjaldarmerki Illinoisfylki vegna svika fylkisins á því loforði, sem fylkisstjórinn gaf, er vitni um sannleika hins ævarandi fagnaðarerindis, sem allur heimurinn fær ekki hrakið. Og saklaust blóð þeirra á frelsisfánanum og á magna charta Bandaríkjanna, talar sínu máli um trúna á Jesú Krist, og mun snerta hjörtu heiðvirðra manna meðal allra þjóða. Og saklaust blóð þeirra, ásamt saklausu blóði allra píslarvotta, sem Jóhannes sá undir altarinu, mun hrópa til Drottins hersveitanna, þar til hann nær rétti þessa blóðs á jörðunni. Amen.