17. kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til Olivers Cowdery, Davids Whitmer og Martins Harris, í Fayette, New York, í júní 1829, áður en þeir litu hinar áletruðu töflur, sem innihéldu heimildir Mormónsbókar (History of the Church, 1:52–57). Joseph og ritari hans, Oliver Cowdery, höfðu komist að því við þýðingu á töflum Mormónsbókar, að þrjú sérstök vitni yrðu tilnefnd (sjá Eter 5:2–4; 2 Nefí 11:3 og 27:12). Oliver Cowdery, David Whitmer og Martin Harris urðu gripnir innblásinni ósk um að verða þessi þrjú sérstöku vitni. Spámaðurinn spurði Drottin og þessi opinberun var gefin sem svar með Úrím og Túmmím.

1–4, Í trú munu vitnin þrjú sjá töflurnar og aðra helga muni; 5–9, Kristur ber vitni um guðdómleika Mormónsbókar.

  SJÁ, ég segi yður, að þér verðið að treysta á orð mitt, og ef þér gjörið það með einlægum ásetningi hjartans, skuluð þér fá að líta töflurnar og einnig brjóstplötuna, sverð Labans, Úrím og Túmmím, sem gefnir voru bróður Jareds á fjallinu, þegar hann ræddi við Drottin augliti til auglitis, og einnig hinn yfirnáttúrlega vegvísi, sem gefinn var Lehí í óbyggðunum, við strendur Rauðahafsins.

  Og það er fyrir trú yðar, að þér fáið að líta þetta, einmitt þá trú, sem hinir fornu spámenn áttu.

  Og eftir að þér hafið öðlast trú og séð þetta eigin augum, skuluð þér bera því vitni, með krafti Guðs—

  Og það skuluð þér gjöra, svo að þjóni mínum Joseph Smith yngri verði eigi tortímt, og ég megi ná fram réttlátum tilgangi mínum gagnvart mannanna börnum í þessu verki.

  Og þér skuluð bera því vitni, að þér hafið séð þetta, já, eins og þjónn minn Joseph Smith yngri hefur séð það, því að það er fyrir minn kraft að hann hefur séð það, og það vegna þess að hann átti trú.

  Og hann hefur þýtt bókina, já, þann hluta sem ég hef boðið honum. Og sem Drottinn Guð yðar lifir, er hún sönn.

  Þér hafið þess vegna öðlast sama kraft og sömu trú og sömu gjöf og hann—

  Og ef þér farið eftir þessum nýjustu fyrirmælum mínum, sem ég hef gefið yður, munu hlið heljar eigi á yður sigrast, því að náð mín nægir yður og yður mun verða lyft upp á efsta degi.

  Og ég, Jesús Kristur, Drottinn yðar og Guð yðar, hef talað þetta til yðar, svo að ég megi ná fram réttlátum tilgangi mínum gagnvart mannanna börnum. Amen.