24. kafli

Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith og Oliver Cowdery í Harmony, Pennsylvaníu, í júlí 1830 (History of the Church, 1:101–103). Þó að aðeins væru liðnir tæpir fjórir mánuðir frá því kirkjan var stofnuð, voru ofsóknirnar orðnar mjög harðar og leiðtogarnir urðu að leita öryggis í nokkurs konar einangrun. Þrjár eftirfarandi opinberanir voru gefnar á þessum tíma til að styrkja þá og hvetja og leiðbeina þeim.

1–9, Joseph Smith er kallaður til að þýða, prédika og skýra ritningarnar; 10–12, Oliver Cowdery er kallaður til að prédika fagnaðarerindið; 13–19, Lögmál er opinberað varðandi kraftaverk, bölvun, að hrista rykið af fótum sér og ferðast án pyngju og mals.

  SJÁ, þú varst kallaður og útvalinn til að rita Mormónsbók og til helgrar þjónustu minnar, og ég hef lyft þér upp úr þrengingum þínum og gefið þér ráðleggingar, svo að þú hefur komist undan öllum óvinum þínum og losnað undan valdi Satans og úr myrkrinu!

  Þrátt fyrir það hefur þú enga afsökun fyrir brotum þínum. Far samt leiðar þinnar og syndga eigi framar.

  Efldu embætti þitt, og eftir að þú hefur sáð í akra þína og tryggt þá, far þú í skyndi til kirkjunnar í Colesville, Fayette og Manchester, og þeir munu sjá þér farborða og ég mun blessa þá bæði andlega og stundlega—

  En veiti þeir þér ekki viðtöku, mun ég senda yfir þá bölvun í stað blessunar.

  Og þú skalt halda áfram að ákalla Guð í mínu nafni og skrifa það, sem huggarinn gefur þér, og útskýra allar ritningar fyrir kirkjunni.

  Og þér skal gefið á sömu stundu hvað segja skal og skrifa, og þeir skulu hlýða á, ella mun ég senda þeim bölvun í stað blessunar.

  Því að þú skalt helga Síon alla þjónustu þína, og við það skalt þú öðlast styrk.

  Ver þolinmóður í þeim mörgu þrengingum, sem þú munt þola, og umber þær, því að tak eftir, ég er með þér allt til æviloka þinna.

  En í stundlegu erfiði munt þú engan styrk hafa, því að það er ekki köllun þín. Sinn þú köllun þinni og þú skalt hafa það sem til þarf til að efla embætti þitt og útskýra allar ritningar og halda áfram að leggja hendur yfir söfnuðina og staðfesta þá.

  10 Og bróðir þinn, Oliver, skal halda áfram að bera heiminum og einnig kirkjunni nafn mitt. Og hann skal ekki álíta að hann fái sagt nóg fyrir málstað minn. Og tak eftir, ég er með honum allt til enda.

  11 Í mér skal hann finna dýrð, en ekki í sjálfum sér, hvort heldur er í veikleika eða styrk, í fjötrum eða frelsi—

  12 Og öllum stundum og á öllum stöðum skal hann ljúka upp munni sínum og boða fagnaðarerindi mitt, sem með lúðurhljómi, bæði dag og nótt. Og ég mun veita honum þvílíkan styrk, sem mennirnir hafa ekki áður kynnst.

  13 Biðjið ekki um kraftaverk, nema ég bjóði svo, utan þess að kasta út djöflum, lækna sjúka og gegn eitruðum nöðrum og gegn banvænu eitri—

  14 Og þetta skuluð þér ekki gjöra nema þeir, sem þrá það, beiðist þess, svo að ritningarnar megi uppfyllast. Því að þér skuluð fara eftir því, sem skrifað stendur.

  15 Og á hverjum þeim stað, sem þér komið á, og ekki er tekið á móti yður í mínu nafni, skuluð þér skilja eftir bölvun í stað blessunar með því að hrista duftið af fótum yðar sem vitnisburð gegn þeim og hreinsa fætur yðar á vegarbrúninni.

  16 Og beri svo við, að einhver leggi með ofbeldi hendur á yður, þá skuluð þér í mínu nafni bjóða að hann verði lostinn. Og sjá, ég mun ljósta hann samkvæmt orðum yðar, þegar mér þóknast.

  17 Og hver sem dregur yður fyrir lög skal dæmdur verða að lögum.

  18 Og þér skuluð hvorki taka pyngju né mal, hvorki staf né tvær yfirhafnir, því að kirkjan skal gefa yður fæði og klæði, skó, fé og mal, einmitt á þeirri stundu, sem þér þarfnist þess.

  19 Því að þér eruð kallaðir til að sniðla víngarð minn með máttugum sniðli, já, í síðasta sinn. Já, og einnig allir þeir, sem þér hafið vígt, og þeir skulu einmitt fylgja þessari aðferð. Amen.