56. kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, í júní 1831 (History of the Church, 1:186–188). Öldungur Ezra Thayre, sem falið hafði verið að ferðast til Missouri með öldungi Thomas B. Marsh (sjá kafla 52:22), gat ekki hafið ferð sína, þegar hinn síðarnefndi var tilbúinn. Öldungur Thayre var ekki reiðubúinn í ferð sína vegna vandamála sinna í Thompson, Ohio (sjá formála að 54. kafla). Drottinn svaraði fyrirspurn spámannsins um málið með þessari opinberun.

1–2, Hinir heilögu verða að taka upp kross sinn og fylgja Drottni til að öðlast sáluhjálp; 3–13, Drottinn býður og afturkallar, og hinum óhlýðnu er vísað burt; 14–17, Vei sé hinum ríku, sem ekki vilja hjálpa hinum fátæku, og vei sé hinum fátæku, sem ekki hafa sundurkramin hjörtu; 18–20, Blessaðir eru hinir fátæku, sem eru hreinir í hjarta, því að þeir munu jörðina erfa.

  HLÝÐIÐ á, þér sem játið nafn mitt, segir Drottinn Guð yðar, því að sjá, reiði mín er tendruð gegn hinum uppreisnargjörnu og þeir skulu kynnast armi mínum og réttlátri reiði minni, þegar dagur vitjunar og heilagrar reiði kemur yfir þjóðirnar.

  Og sá mun ekki frelsast, sem ekki vill taka upp kross sinn og fylgja mér og halda boðorð mín.

  Sjá, ég, Drottinn, gef boðin, og sá sem ekki vill hlýðnast, eftir að ég hef boðið, og brýtur þannig boð mín, mun útilokaður á mínum tíma.

  Ég, Drottinn, gef þess vegna boðin og afturkalla, eins og mér líkar, og hinir uppreisnargjörnu skulu svara fyrir allt þetta, segir Drottinn.

  Þess vegna afturkalla ég boðin, sem gefin voru þjónum mínum Thomas B. Marsh og Ezra Thayre, og gef þjóni mínum, Thomas, ný boð um að hefja ferð sína í skyndi til Missourilands, og þjónn minn Selah J. Griffin skal einnig fara með honum.

  Því að sjá, ég afturkalla boðin, sem voru gefin þjónum mínum Selah J. Griffin og Newel Knight, vegna þrjósku fólks míns í Thompson og uppreisnar þeirra.

  Lát þess vegna þjón minn Newel Knight halda kyrru fyrir hjá þeim, og allir þeir, sem vilja fara og eru sáriðrandi fyrir mér, mega fara, og skal hann leiða þá til þess lands, sem ég hef útnefnt.

  Og sannlega segi ég yður enn, að þjónn minn Ezra Thayre verður að iðrast drambs síns og eigingirni og hlýða fyrri fyrirmælum, sem ég hef gefið honum varðandi staðinn, er hann býr á.

  Og gjöri hann þetta, þar eð engin skipting skal verða á landinu, skal hann enn nefndur til að fara til Missourilands—

  10 Ella skal hann fá það fé, sem hann hefur greitt, og yfirgefa þennan stað, og skal útilokaður verða úr kirkju minni, segir Drottinn Guð hersveitanna—

  11 Og þó að himinn og jörð líði undir lok, skulu þessi orð ekki undir lok líða, heldur uppfyllast.

  12 Og verði þjónn minn Joseph Smith yngri að greiða féð, mun ég, Drottinn, greiða honum það aftur í Missourilandi, svo að þeir, sem hann fær féð hjá, fái enn laun í samræmi við gjörðir sínar—

  13 Því að í samræmi við verk sín skulu þeir meðtaka, jafnvel erfðaland.

  14 Sjá, svo segir Drottinn við fólk mitt: Margt þurfið þér að gjöra og margs að iðrast, því að sjá, syndir yðar hafa borist upp til mín og eru ekki fyrirgefnar, vegna þess að þér leitist við að fara að eigin ráðum.

  15 Og þér eruð ekki ánægðir í hjörtum yðar. Þér hlýðið ekki sannleikanum, heldur hafið ánægju af óréttlæti.

  16 Vei yður, ríku menn, sem ekki viljið gefa eigur yðar til fátækra, því að auðæfi yðar munu eta upp sál yðar, og þetta verður harmur yðar á degi vitjunarinnar og dómsins og hinnar réttlátu reiði: Uppskerutíminn er liðinn, sumarið er á enda og sál mín er ekki hólpin!

  17 Vei yður, fátæku menn, sem hvorki eruð með sundurkramin hjörtu né sáriðrandi anda, en með óseðjandi maga, og hendur, sem áfram leggja hald á annarra manna eigur, og augu full af græðgi, og sem eigi viljið erfiða með eigin höndum!

  18 En blessaðir eru hinir fátæku, sem eru hjartahreinir, með sundurkramin hjörtu og sáriðrandi anda, því að þeir munu sjá Guðsríki koma í veldi og mikilli dýrð sér til lausnar, því að gæði jarðar skulu verða þeirra.

  19 Því að sjá, Drottinn mun koma, og laun hans verða með honum og hann launar sérhverjum manni, og hinir fátæku munu fagna—

  20 Og þeirra ættliðir skulu jörðina erfa kynslóð eftir kynslóð, alltaf og að eilífu. Og nú lýk ég máli mínu til yðar. Já, vissulega. Amen.