60. kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Jacksonsýslu, Missouri, 8. ágúst 1831 (History of the Church, 1:201–202). Í þessu tilviki þráðu öldungar, sem snúa skyldu aftur í austurátt, að vita hvernig þeir ættu að bera sig að og hvernig og hvaða leið þeir skyldu fara.

1–9, Öldungarnir skulu boða fagnaðarerindið í söfnuðum hinna ranglátu; 10–14, Þeir skulu hvorki eyða tíma sínum til einskis né grafa hæfileika sína í jörðu; 15–17, Þeir mega þvo fætur sína sem vitnisburð gegn þeim, sem hafna fagnaðarerindinu.

  SJÁ, svo segir Drottinn við öldunga kirkju sinnar, sem í skyndi skulu snúa aftur til þess lands, er þeir komu frá: Sjá, það gleður mig að þér hafið komið hingað—

  En með suma er ég ekki vel ánægður, því að þeir vilja ekki ljúka upp munni sínum, heldur dylja þann hæfileika, sem ég hef gefið þeim, af ótta við mennina. Vei sé slíkum, því að reiði mín er tendruð gegn þeim.

  Og svo ber við, að ef þeir reynast mér ekki trúrri, verður frá þeim tekið það, sem þeir hafa.

  Því að ég, Drottinn, ríki á himnum uppi og meðal hersveita jarðar, og þann dag, sem ég safna saman gimsteinum mínum, skulu allir menn vita í hverju kraftur Guðs er fólginn.

  En sannlega mun ég tala við yður um ferð yðar til þess lands, sem þér komuð frá. Kaupið eða gjörið yður farartæki, eins og yður hentar, það skiptir mig engu, og hefjið ferð yðar í skyndi til þess staðar, sem nefndur er St. Louis.

  Og þaðan skulu þjónar mínir Sidney Rigdon, Joseph Smith yngri og Oliver Cowdery ferðast til Cincinnati—

  Og á þeim stað skulu þeir hefja upp rödd sína og boða orð mitt háum rómi, án reiði eða efa, og lyfta heilögum höndum yfir þá. Því að ég get gjört yður heilaga, og syndir yðar eru yður fyrirgefnar.

  Og hinir skulu tveir og tveir hefja ferð sína frá St. Louis, og prédika orðið flausturslaust á meðal safnaða hinna ranglátu, þar til þeir snúa aftur til þeirra safnaða, er þeir komu frá.

  Og allt er þetta söfnuðunum til góðs, því að í þeim tilgangi hef ég sent þá.

  10 Og lát þjón minn Edward Partridge gefa þeim öldungum mínum, sem boðið er að snúa aftur, hluta af því fé, sem ég hef gefið honum—

  11 Þeir, sem það geta, skulu endurgreiða erindrekanum það, en þess er ekki krafist af þeim, sem geta það ekki.

  12 Og nú tala ég um aðra þá, sem koma munu til þessa lands.

  13 Sjá, þeir hafa verið sendir til að prédika fagnaðarerindi mitt í söfnuðum hinna ranglátu. Þess vegna gef ég þeim svofelld boð: Þér skuluð hvorki sóa tíma yðar til einskis né heldur grafa hæfileika yðar í jörðu, svo að þeir þekkist ekki.

  14 Og eftir að þér hafið komið til lands Síonar og kunngjört orð mitt, skuluð þér snúa aftur í skyndi og boða orð mitt í söfnuðum hinna ranglátu, flausturslaust og án reiði eða þrætu.

  15 Og hristið duftið af fótum yðar gegn þeim, sem ekki veita yður viðtöku, ekki í návist þeirra, svo að það reiti þá ekki til reiði, heldur á laun, og laugið fætur yðar sem vitnisburð gegn þeim á degi dómsins.

  16 Sjá, þetta nægir yður og er vilji þess, sem hefur sent yður.

  17 Og fyrir munn þjóns míns Josephs Smith yngri skal hann kunngjörður varðandi Sidney Rigdon og Oliver Cowdery. Meira kemur síðar. Já, vissulega. Amen.