64. kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til öldunga kirkjunnar í Kirtland, Ohio, 11. september 1831 (History of the Church, 1:211–214). Spámaðurinn bjó sig undir að flytja til Hiram, Ohio, til að hefja á ný þýðingu sína á Biblíunni, sem legið hafði niðri, meðan hann var í Missouri. Hópur bræðra, sem fengið höfðu boð um að fara til Síonar (Missouri) bjó sig af alvöru undir ferðina, sem verða átti í október. Opinberunin var meðtekin á þessum annatíma.

1–11, Hinum heilögu er boðið að fyrirgefa hver öðrum, svo að ekki búi í þeim hin stærri synd; 12–22, Þeir sem ekki iðrast skulu leiddir fyrir kirkjuna; 23–25, Sá sem greiðir tíund mun ekki brenna við komu Drottins; 26–32, Hinir heilögu varaðir við skuldum; 33–36, Hinir uppreisnargjörnu munu útilokaðir frá Síon; 37–40, Kirkjan mun dæma þjóðirnar; 41–43, Síon mun blómstra.

  SJÁ, svo talar Drottinn Guð yðar til yðar, ó, þér öldungar kirkju minnar. Hlýðið á og heyrið og takið á móti vilja mínum varðandi yður.

  Því að sannlega segi ég yður: Ég vil að þér sigrist á heiminum. Fyrir því mun ég hafa samúð með yður.

  Á meðal yðar eru þeir sem syndgað hafa, en sannlega segi ég í þetta eina sinn, mér sjálfum til dýrðar og sálum til hjálpræðis: Ég hef fyrirgefið yður syndir yðar.

  Ég mun vera yður miskunnsamur, því að ég hef gefið yður ríkið.

  Og meðan þjónn minn Joseph Smith yngri lifir, munu lyklarnir að leyndardómum ríkisins, eins og ég hef útnefnt þá, ekki frá honum teknir, svo sem hann fylgir helgiathöfnum mínum.

  Til eru þeir sem leitað hafa sakar gegn honum án tilefnis—

  Engu að síður hefur hann syndgað. En sannlega segi ég yður: Ég, Drottinn, fyrirgef syndir þeim, sem játa þær fyrir mér og biðjast fyrirgefningar, þeim sem ekki hafa syndgað til dauða.

  Lærisveinar mínir til forna leituðu saka hver gegn öðrum og fyrirgáfu ekki hver öðrum í hjörtum sínum, og vegna þeirrar illsku var að þeim þrengt og þeir sárlega agaðir.

  Fyrir því segi ég yður, að þér eigið að fyrirgefa hver öðrum, því að sá, sem ekki fyrirgefur bróður sínum misgjörðir hans, stendur dæmdur frammi fyrir Drottni, því að í honum býr hin stærri synd.

  10 Ég, Drottinn, mun fyrirgefa þeim, sem ég vil fyrirgefa, en af yður er krafist, að þér fyrirgefið öllum mönnum.

  11 Og þér ættuð að segja í hjörtum yðar—lát Guð dæma milli mín og þín og launa þér í samræmi við gjörðir þínar.

  12 Og þann, sem ekki iðrast synda sinna og játar þær ekki, skuluð þér leiða fyrir kirkjuna og breyta við hann eins og ritningarnar segja yður, annaðhvort eftir fyrirmælum eða eftir opinberun.

  13 Og þetta skuluð þér gjöra Guði til dýrðar—ekki vegna þess að þér fyrirgefið ekki eða hafið enga samúð, heldur svo að þér séuð réttlættir í augum lögmálsins, að þér styggið ekki hann, sem er löggjafi yðar—

  14 Sannlega segi ég, af þessum sökum skuluð þér gjöra þetta.

  15 Sjá, ég, Drottinn, var reiður Ezra Booth, sem var þjónn minn, og einnig þjóni mínum Isaac Morley, því að þeir héldu hvorki lögmálið né boðorðin—

  16 Þeir leituðu hins illa í hjörtum sínum og ég, Drottinn, dró anda minn í hlé. Þeir dæmdu það illt, sem ekki var illt. Engu að síður hef ég fyrirgefið þjóni mínum Isaac Morley.

  17 Og einnig þjóni mínum Edward Partridge. Sjá, hann hefur syndgað og Satan leitast við að tortíma sál hans. En þegar þeim verður þetta ljóst og þeir iðrast hins illa, skal þeim fyrirgefið.

  18 Og sannlega segi ég nú, að mér er nauðsyn, að þjónn minn Sidney Gilbert snúi aftur eftir nokkrar vikur til viðskipta sinna og erindisreksturs í landi Síonar—

  19 Og það, sem hann hefur séð og heyrt, verði kunngjört lærisveinum mínum, svo að þeir farist ekki. Og vegna þessa hef ég mælt þetta.

  20 Og enn segi ég yður, að þjónn minn Isaac Morley má ekki freistast um megn fram og gefa ráðleggingar yður til skaða. Ég gaf fyrirmæli um að bújörð hans skyldi seld.

  21 Ég vil ekki, að þjónn minn Frederick G. Williams selji bújörð sína, því að ég, Drottinn, vil hafa styrka fótfestu í landi Kirtlands um fimm ára skeið, og á þeim tíma mun ég ekki yfirbuga hina ranglátu, svo að ég geti þannig frelsað nokkra.

  22 Og eftir það mun ég, Drottinn, ekki halda neinn sekan, sem með einlægu hjarta fer upp til Síonarlands, því að ég, Drottinn, krefst hjartna mannanna barna.

  23 Sjá, fram að komu mannssonarins heitir í dag og sannlega er það fórnar- og tíundardagur fólks míns, því að sá, sem geldur tíund, mun ekki brenna við komu hans.

  24 Því að eftir þennan dag kemur brennan—talað að hætti Drottins—því að sannlega segi ég, á morgun munu allir hinir dramblátu og þeir, sem breyta ranglátlega, verða sem hálmleggir og ég mun brenna þá til agna, því að ég er Drottinn hersveitanna og ég hlífi engum, sem eftir verður í Babýlon.

  25 Ef þér þess vegna trúið mér, munuð þér vinna meðan enn heitir í dag.

  26 Og ekki er rétt að þjónar mínir Newel K. Whitney og Sidney Gilbert selji verslun sína og eigur sínar hér, því að það er ekki viturlegt fyrr en aðrir í kirkju minni, sem enn halda kyrru fyrir á þessum stað, fara upp til Síonarlands.

  27 Sjá, svo segir í lögum mínum, eða bannað er að komast í skuldir við óvini yðar—

  28 En sjá, aldrei nokkru sinni hefur verið sagt, að Drottinn skuli ekki taka, þegar honum hentar, og greiða eins og honum þóknast.

  29 Þar sem þér nú eruð erindrekar gangið þér erinda Drottins, og allt sem þér gjörið samkvæmt vilja Drottins er mál Drottins.

  30 Og hann hefur sett yður til að annast hina heilögu á þessum síðustu dögum, svo að þeir hljóti arf í Síonarlandi.

  31 Og sjá, ég, Drottinn, boða yður, að þeir munu hljóta hann, og orð mín eru örugg og bregðast ei.

  32 En allt verður að gerast á sínum tíma.

  33 Þreytist þess vegna ekki á að gjöra gott, því að þér eruð að leggja grunninn að miklu verki. Og af hinu smáa sprettur hið stóra.

  34 Sjá, Drottinn krefst hjartans og viljugs huga, og þeir viljugu og auðsveipu skulu neyta gæða Síonarlands á þessum síðustu dögum.

  35 En hinir uppreisnargjörnu munu útilokaðir úr landi Síonar og verða sendir á brott og munu ekki erfa landið.

  36 Því að sannlega segi ég, að hinir uppreisnargjörnu eru ekki af blóði Efraíms. Þess vegna munu þeir tíndir úr.

  37 Sjá, ég, Drottinn, hef gjört kirkju mína á þessum síðustu dögum líka dómara, er situr á hæð uppi eða á háum stað og dæmir þjóðirnar.

  38 Því að svo ber við, að íbúar Síonar skulu dæma í öllu því, sem tilheyrir Síon.

  39 Og þeir munu afhjúpa lygara og hræsnara, og þeir, sem ekki eru postular og spámenn, munu berir verða.

  40 Og jafnvel biskupinn, sem er dómari, og ráðgjafar hans, ef þeir eru ekki trúir í ráðsmennsku sinni, munu dæmdir og aðrir settir í þeirra stað.

  41 Því að sjá, ég segi yður, að Síon mun blómstra og dýrð Drottins skal hvíla á henni—

  42 Og hún mun verða merki fyrir fólkið, og til hennar mun það koma frá hverri þjóð undir himninum.

  43 Og sá dagur kemur, að þjóðir jarðar munu skjálfa vegna hennar og skelfast vegna hennar ógurlegu. Drottinn hefur talað það. Amen.